Fyrirlestur um bókina Hávamál. La voce di Odino.

Norrænar og suðrænar þjóðir tengdust með ýmsu móti um leið að germanskar þjóðir komu til sögunnar.

Á tímum þjóðflutninga herjuðu margar germanskar þjóðir um rómverska heimsveldið. Nokkur rómversk-germönsk ríki risu innan rómverska heimsveldisins. Austurgotar og Langbarðar settust að á Ítalíu auk annarra þjóða, en uppruna þeirra má rekja til norrænna landa. Þessi fólksstraumur og hugmyndaflæði úr norðri hélt áfram á komandi öldum, og nokkrum öldum síðar herjuðu Norðmenn á hérað eitt á Norður Frakklandi og settust síðan að þar sem nú heitir Normandie. Á elleftu öld fóru Norðmenn frá Normandie og skiptust í tvo flokka. Öðrum flokkinum stýrði Vilhjálmur annar og hertók sá Bretland þar sem Vilhjálmur gerðist konungur. Hinn flokkurinn hélt á suðrænar slóðir og stofnaði Ducato di Aversa, nokkrum kílómetrum fyrir norðan Napólí, til að verja Napolí fyrir Langbörðum. Höfuðstöðvar Norðmanna voru í Aversa. Smám saman unnu þeir öll lönd á Suður-Ítalíu og þeir luku við landvinninga sína hunðrað árum síðar, það er að segja árið 1140 þegar þeir hernumu borgina Napólí og Ruggero il Normanno, Hróðgeir hinn norski, varð konungur borgarinnar. Sagan endar ekki hér.

Í þjóðskrá frá elleftu öld í Amalfi fundu fræðimenn nafnið Ionaccharusar, sem er latnesk mynd nafnsins Jónakur, nafn sem hægt er að finna í Eddukvæðum og þetta nafn fannst hvergi annars staðar sem persónunafn. Þessi fólksstraumur og hugmyndaflæði sem hér er greint frá streymdi úr norðri í átt til suðrænna landa, sjaldnar frá suðri til norðurs, en þetta hefur breyst í dag.

Það er vaxandi áhugi meðal Ítala, og þá sérstaklega suðrænna Ítala, á fornnorrænum siðum og bókmenntum. Ástæðuna fyrir því er áreiðanlega að finna í hjörtum nokkurra manna sem voru nokkurn veginn norrænir að uppruna.

Til hvers að þýða Hávamál yfir á ítölsku? Hávamál eru eitt fárra rita þar sem unnt er að kynna sér heimspeki norrænna þjóða til forna. Hugrekki og hreysti víkinga var vel þekkt víðast hvar í Norðurálfu. Hvað hugsuðu þeir þegar þeir sigldu í leit að nýjum löndum og ævintýrum? Hvað skynjuðu þeir? Svarið við þessum spurningum tel ég að finna megi í Hávamálum.

Þar er líka hægt að finna tilfinningar sem maður getur enn skynjað með því að ferðast um norræn lönd. Til dæmis rakst ég á dagbækur ferðamanna sem ferðuðust um Norðurlöndin. Ég las þar um ýmsa furðulega viðburði manna sem fóru á vit ævintýra, oft á puttanum. Einn þessarra puttalanga hitti á ferðum sínum mann sem strax við fyrstu kynni bauð honum ekki einugis bílfar heldur einnig gistingu. Þetta var eins og að lesa XLVII. erindi Hávamála: Ungr var ek forðom, fór ek einn saman. Þá var ek villr vega. Auðigr þóttumz er ek annan fann: maðr er mannz gaman.

Við þennan lestur vaknaði hjá mér löngun til að vita meira um Hávamál og kanna hvort þar væri að finna heildstætt hugtakakerfi. Þetta varð til þess að ég þýddi þau og byrjaði að rannsaka. Með þessu móti uppgötvaði ég nákvæmt heimspekikerfi, og við hugleiðingu á efni ritsins fann ég margar hliðstæður við heimspeki og trúarbrögð annarra þjóða. Þessi samanburður hjálpaði mér að skilja nánar ýmis hugtök Hávamála.

Viðfagnsefni Hávamála eru margvísleg. Það er erfitt að finna neitt sérstakt meginviðfangsefni. Það sem einkum skiptir máli í þessu samhengi er hvaða aðferð er valin til að nálgast viðfangsefnið. Þau eiga sér margar hliðar og við hvern lestur skilur maður eitthvað nýtt.

Að svo mæltu ætla ég að lýsa minni túlkun fyrir ykkur. Fræðimenn hafa skipt Hávamálum í marga þætti eftir umræðuefni og það er umdeilt hvort hver þáttur fyrir sig hafi upprunalega verið sjálfstæður þáttur eða ekki. Þó held ég að það sé hægt að finna sameiginlegan þráð: leit að andlegri þekkingu.

Hávamál byrja á Gestaþætti og þar er þekkingarleit lýst með myndlíkingu. Hugtakið „ferð“ skiptir miklu máli í Gestaþætti. Til þess að fræðast um lífið, þarf maður að ferðast.

Þetta á sér að minnsta kosti tvær hliðar. Annars vegar, til þess að maður geti náð sér í visku, verður hann að ferðast í burtu frá „sál“ sinni, vegna þess að það er ómögulegt að læra eitthvað nýtt ef hann fer ekki út fyrir hólm sinn. Hins vegar táknar ferðin hlutbundnara hugtak, það er að segja að maður sem kannar nýjar slóðir, heyrir atriði sem hann hefur aldrei fyrr heyrt, og sér form, liti, og myndir sem hann hefur aldrei séð. Hvað þá?

Maður verður því að víkka viðhorf sitt, augun verða að venjast einhverju sem þau hafa aldrei séð, eyrun einhverju sem þau hafa aldrei heyrt áður, og sama á við um önnur skynfæri, þannig að skynsemi og hugur styrkjist. Að sjálfssögðu er maður varaður við því að gæta sín þegar hann kemur „heimisgarða til“ og að verða ekki „at augabragði.“ Annars vegar verður maður að yfirgefa hús sitt til þess að forðast að verða „heimskur“, sem leiðir af orðinu „heim“. Í fimmta erindi er sagt:  Vitz er þörf,  þeim er víða ratar, dælt er heima hvat. At augabragði verðr sá er ekki kann ok með snotrom sitr.

En híns vegar er ekki hægt að leggja af stað án þess að vera sálrænt og andlega undirbúinn, þannig að minna Hávamál okkur á að leitin að þekkingunni er oft hættuleg hvort sem þessi þekking sé andleg eða ekki, þar af leiðandi í CXII. erindi er sagt: nótt þú rísat, nema á njósn sér, eða þú leitir þér innan út staðar. Þetta þýðir í fljótu bragði að maður verður ekki að fara út á nóttunni nema að hann sé að njósna eða þarf að gera þarfir sínar. Inntak þessa erindis virðist vera grín, en þvert á móti er það mjög alvarlegt. Þekkingarleit á sér stað í „nótt“ og þar búa fornir draugar sem hræða menn, allt sem vekur manni ógn og hann verður fyrst að öðlast sálarró áður en hann leggur af stað, með öðrum orðum verður hann að undirbúa sig.

Mjög fallegur hlutur sem tengist þessu er gestrisni. Annars vegar er brýnt fyrir mönnum sem inni sitja að fagna vel gesti og ganganda, af því það er ekki hægt að dæma mann áður en maður kynnist honum. Hins vegar er að segja að sá sem yfirgaf lífsþægindi sín til að ferðast, á skilið mikla virðingu vegna þess að hann veit að bylgjur gætu étið hann eða fjall svelgt hann fyrir fullt og allt.

Þó verður hann að forðast að treysta of á að aðrir sýni honum þessa virðingu, vegna þess að heimurinn er grimmur, þess vegna minna Hávamál hann á í fyrsta erindi: Gáttir allar, áðr gangi fram, um skoðaz skyli, um skyggnaz skyli, þvíat óvisst er at vita, hvar óvinir sitja á fleti fyrir.

Annað fagurt atriði sem er hægt að rekast á í þessu heimspekikerfi er vináttan.

Að eiga vini hjálpar manni að losna við eigingirni sína og þetta er mikilvægt, og brýn nauðsyn þeim sem leggja af stað.Vináttunni er lýst með hugtakinu „gjöf“, bæði efnislega og andlega séð. Mér finnst mikilvægt að dvelja aðeins við efnislega hlið þessarar gjafar. Fyrsta skilyrði sem maður verður að fylla til þess að sigra sjálfan sig er að losa sig við ástríðu á jarðbundnum hlutum. Hann þarf að skilja að þeir eru hverfulir, það er að segja, að þeir eru ekki til. Manni gagnast ekki að búa yfir gervi-gleði sem myndast af gervi-eigum, hlutum sem eru í raun fjargengilegir, og mörg falleg erindi Hávamála fjalla einmitt um þetta og LXXVIII. varar sérstaklega við þessu á þessa lund: Fullar grindr sá ek fyr Fitjungs sonom: nú bera þeir vánarvöl. Svá er auðr, sem augabragð: hann er valtastr vina. Til þess að undirstrika þetta hugtak á hátíðlegan hátt, minnir Óðinn okkur á að allir hljóta að deyja: Deyr fé, deyja frændr, deyr sjálfr it sama: enn orðztðtirr deyr aldregi hveim er sér góðan getr. Þetta allfræga og sólfagra erindi túlka ég á þessa leið. Á meðan maður lifir, þá framkvæmir hann athafnir sínar. Þótt hann deyji, þá skilur hann eftir sig gjörðir sínar og verk, og tekur með sér út fyrir gröf og dauða, og ef einhver kjarni mannsins heldur áfram að ganga meðfram straumi tímans, þá ber hann alla þekkingu og niðurstöður rannsókna sinna í nýjar „endurfæðingar“.

Eftir Gestaþáttinn, birtast í Hávamálum tveir áhugaverðir þættir sem fjalla á yfirborðinu um ást. Fyrri er kallaður Billungs mær. Þessi þáttur er gríðarlega dularfullur og fræðimenn hafa brotið heilann til þess að reyna að útskýra hann. Áhugaverðasta umfjöllun sem ég hef rekist á um þetta efni er að öllum líkindum grein Sigurðar Nordals. Konan sem rætt er um, í þessum þætti, reynir að fæla Óðinn frá sér með öllum ráðum, en að lokum þegar Óðinn er orðinn þess fullviss að hann fái hana, finnur hann einungis hundstík í rúminu hennar. Samkvæmt grein Sigurðar Nordals, gæti hér verið um að ræða, að þau álög sem Óðinn ætlaði að leggja á konuna til að vinna hylli hennar, hafi færst yfir á tíkina.

Áhugaverðari og að miklu leyti skiljanlegari er komandi Gunnlaðarþáttur. Í þessum þætti sigrar Óðinn ást Gunnlaðar og fær skáldamjöðinn. Umfjöllun Hávamála um þessa sögu er sundurlaus og það er ekki víst að þessi þáttur endurspegli algjörlega umræðuefnið sem Snorri sagði frá í sinni Eddu. Það eru samt ofsalega áhugaverð tákn sem birtast í gegnum huluna. Mjöðurinn er dulinn ofan í fjalli og Gunnlöð er að gæta hans. Viðburðurinn á sér stað síðla hausts. Samkvæmt Snorra, fór Óðinn í gegnum fjallgöng sem hann gerði sjálfur til Gunnlaðar og svaf hjá henni þrjár nætur. Í Hávamálum virðist þetta vera staðfest. Snorri bætir við að Óðinn fékk að lokum allan mjöð og dulbúinn sem örn fer hann með mjöðinn til Valhallar. Í Hávamálum er áreiðanlega að finna nokkurs konar löggilt brúðkaup Óðins og Gunnlaðar.

Þetta er hægt að útskýra á margan hátt án þess að lenda í mótsögnum. Túlkanir lýsa oft hvor annarri. Óðinn gæti táknað það sem í gullgerðarlist er konungur, Sól og Gunnlöð þá drottningu, Mána. Frá töfrakynmökum þeirra birtist þá Mikla Verkið, sem er framköllun andlegrar þekkingar sem mjöðurinn táknar. Það undirstrikar háska þessarar aðferðar. Ég ætla að vekja eftirtekt á annarri hlið táknafræði þessar frásagnar. Óðinn skríður ofan í fjallið sem ormur og birtist aftur sem örn. Þetta táknar andstæða póla í manninum. Ofan í honum dyljast bæði ormurinn og örninn (sjá myndina hér að neðan). Andleg æfing setur orku manns í hreyfingu og breytir ormi í örn ef hann æfir sig vel. Það sakar ekki að muna að örninn er á tindi Yggdrasils og ormurinn í rótunum. Yggdrasill er alheimurinn og maðurinn er spegilmynd hans. Macrocosmo og microcosmo.

Þrír þættir loka Hávamálum: Loddfáfnismál, Rúnatal og Ljóðatal. Í Loddfáfnismálum eru Loddfáfni gefin nokkur heilræði, sem eru í raun undirbúningskennsla viðhafnarvígslu.

Henni er lýst í Rúnatali sem sjálfsfórn Óðins. Hann hékk á Yggdrasli níu nætur til þess að öðlast nokkurs konar ínnvígslu þekkingu eins og í CXXXVIII. erindi er sagt: Veit ek, at ek hekk vindgameiði á, nætr allar nío, geiri undaðr ok gefinn Óðni, sjálfr sjálfom mér, á þeim meiþi, er mangi veit, hvers hann af rótom renn. Það sakar ekki að muna að Yggdrasill samsvarar hinu latneska Axis Mundi og alheimstré heimsmyndar nokkura þjóða í Norður-Rússlandi (heimsmynd shamanisma). Í þessari heimsmynd eru þrír heimar. Í hverjum heimi er Pólstjarna, þannig að þessi ás sem fer yfir þrjá heimana er fastur við Pólstjörnur. Staður þar sem er alheimstré eða ás er griðarlega heilagur. Í norrænni heimsmynd eru þrír (samkvæmt nokkrum heimildum níu) heimar: Valhöll, Miðgarður og Hel. Ásinn eða Axis Mundi eða Yggdrasill táknar einingu alheimsins. Óðinn, innvígður maður, ferðast meðfram upp og niður Yggdrasil. Um leið og vígslan sem innifelur sjálfsfórn er búin, tekur Óðinn upp rúnir, það er að segja innvígslu hefur verið lokið og hann hefur öðlast þá þekkingu sem hún fól í sér. CXXXIX.: Við hleifi mic seldo,  né við hornigi, nýsta ec niðr; nam ek upp rúnar, œpandi nam, fell ek aptr þaðan.

Ég ætla að undirstrika tvö merkileg tákn: óp og blómstrun. Óðinn tók upp rúnir æpandi. Óp táknar vakningu, þegar þekkingaraugað lýkst upp. Þegar Buddha uppgötvar frumorsök tilverunnar, heyrir hann öskur ljóns. Ávinnungur þekkingarinnar er eins og ný fæðing og í Hávamálum er þessu lýst sem blómstrun í CXLI. erindi: Þá nam ek frœvaz ok fróðr vera ok vaxa ok vel hafaz; orð mér af orði orðz leitaði, verk mér af verki verks leitaði.

Óðinn finnur þekkinguna í nóttinni, í dauðanum, enda fór hann yfir níu heimana á meðan líkami hans hékk fjörlaus á tréinu. Endurfæðing hins nýja Óðins er eins og fæðing nýrrar Sólar, nýs árs við Vetrarsólstöður, sem í rómverskum siðum var undir merkjum Angeronu, Gyðju sem var sýnd með fingur á munni í þann mund að fyrirskipa innvígsluþögn, þögnina á undan vakningunni, á undan „ópinu“.

Í síðasta þætti, Ljóðatali, lýsir Óðinn hvað hann sé fær um að framkvæma með þeirri þekkingu sem hann hefur öðlast: sæfa sjó, endurvekja dauða, lækna sjúka menn, meðal annars. Í raun og veru er þessi lýsing að mestu leyti táknræn. Hann gat ekki sagt beint út í hverju viska hans fælist vegna þess að hún er þekking sem fæst með innvígslu og hún er of vaxin mannlegum skilningi.