Tag Archives: Ítalía

Giambattista Vico – Heimspeki forsjónarinnar

 

1.     Inngangur

Herra Giambattista Vico fæddist í Napolí árið 1670, af heiðvirðu fólki kominn er gat sér allgóðs orðs á lífsleiðinni. Faðir hans var glaðlyndur að eðlisfari en móðir hans nokkuð þung í lund; bæði áttu þau eftir að móta skapgerð þessa sonar þeirra. Hann var ærslafullur drengur og tápmikill; en á áttunda aldursári féll hann fram fyrir sig af efsta stigaþrepi niður á gólf þar sem hann lá hreyfingar- og meðvitundarlaus í meira en fimm klukkustundir. Höfuðkúpan hafði brotnað á hægri hliðinni án þess að húðin rifnaði. Af brotinu myndaðist stórt kýli og missti barnið mikið blóð. Svo mikið, að eftir að hafa skoðað brotið og tekið tillit til þess hversu lengi [drengurinn] hafði legið meðvitundarlaus, spáði læknirinn fyrir um að hann myndi annað hvort látast af sárum sínum eða verða að fávita. Fyrir guðs náð rættist hvorug spásögn hans. En eftir að hafa náð bata varð hann hins vegar þunglyndur og önugur í skapi, svo sem títt er um andríka og djúphygla menn sem eru leiftursnöggir í hugsun og gefa lítið fyrir orðsnilld eða fals.[1]

 

Á þessum orðum hefst sjálfsævisaga Vicos en það rit veitir okkur dýrmæta innsýn í annars lítt þekkta ævi þessa sérstæða hugsuðar. Lengi vel höfðu fáir ástæðu til þess að halda helstu æviatriðum hans til haga, enda var það ekki fyrr en um öld eftir andlát Vicos sem frægðarsól hans tók að rísa. Eins og lesa má bregður þessi heimild einnig ljósi á sjálfsmynd eða persónuleika höfundarins sem, af orðunum að dæma, var nokkuð meðvitaður um eigin verðleika. En þessi bernskuminning og lexían sem höfundur dregur af henni er áhugaverð fyrir annarra hluta sakir því hún er lýsandi fyrir aðra atburði í lífi hans.

Ef reyna ætti að endursegja ævi Vicos í knöppu máli mætti t.d. strax vekja á því athygli að hann var alla sína tíð umkringdur bókum: Faðir hans starfaði sem bóksali og ungur gerðist Vico einkakennari á heimili aðalsættarinnar af Rocca, þar sem hann gat sökkt sér í sögu- og bókmenntarit fornaldar, réttarsögu, guðfræði o.fl. og öðlast þannig góða yfirsýn á ólíkar fræðigreinar. Slíkt sjálfsnám varð, að sumra dómi, til þess að hann mótaði með sér nokkuð sérviskulegar skoðanir, sem getur þó bæði verið kostur og galli í fræðimennsku. Vitsmunaleg einangrun Vicos var þó ekki meiri en svo að hann umgekkst helstu menntamannakreðsur Napolíborgar, þar sem ferskir vindar nýaldarheimspeki blésu einna mest á öllum Ítalíuskaga en að vísu þurftu fulltrúar þar ávallt að gæta sín á vökulu auga rannsóknarréttar páfa.[2]

Líf Vicos var að öðru leyti þó nokkur barningur: Laun hans sem háskólakennara í mælskulist, sem var nokkurs konar undirbúningsgrein fyrir laganám, hrukku skammt til þess að halda uppi fjölmennu og krefjandi heimili. Því varð hann einnig að vinna fyrir sér með einkakennslu og ýmiss konar verkefnum í lausamennsku. Helsta von Vicos um að hljóta meiri upphefð og bæta hag sinn taldi hann vera að öðlast prófessorsstöðu í lögfræði við háskólann. Staða sú var laus til umsóknar 1723, þegar hann hafði kennt mælskulist í tæpan aldarfjórðung, en í stað Vicos var glaumgosi nokkur ráðinn sem reyndist starfinu engan veginn vaxinn. Þótt þessi atburður muni hafa valdið Vico sárum vonbrigðum er það í kjölfar hans sem hann tekur að leggja drög að því sem átti eftir að verða höfuðrit hans, Hin nýju vísindi. Enn fremur losnar þá um ákveðnar hömlur í efnisvali og efnistökum sem einkennt höfðu fyrri rit hans. Því er það að fyrst þegar hann gat hætt að vænta nokkurrar frekari upphefðar í háskólasamfélaginu sem Vico öðlaðist það frelsi sem þurfti til þess að geta samið algjört tímamótaverk innan heimspekinnar.

Raunar er ritunarsaga Hinna nýju vísinda annað dæmi um lán í óláni, vegna þess að Vico þóttu viðbrögðin við fyrstu útgáfu verksins (1725) svo lítil og dræm að hann umritaði það í tvígang (1730 og 1744, á dánarári sínu) og bætti við fjölda dæma úr þeim margs konar fróðleik sem hann hafði aflað sér. Hvort allar þær viðbætur hafi orðið til þess að bera hróður verksins eins víða og tilefni var til er nokkuð sem ýmsir hafa þó leyft sér að draga í efa.

Lán í óláni – þannig mætti því lýsa æviferli Vicos. En einnig má halda því fram að þessi saga af slysinu sem sögumaður varð fyrir sem barn geymi kjarnann í heimspeki hans þar eð inntakinu í Hinum nýju vísindum má lýsa sem nokkuð svipuðu: Í gegnum söguna og öll þau skakkaföll sem hún þekkir er að verki guðleg forsjón sem ljær henni merkingu og – a.m.k. tímabundinn – tilgang. Heimspeki Vicos mætti því lýsa sem heimspeki forsjónarinnar.

 

2.     Rit fram að Hinum nýju vísindum

 

Vico mun hafi látið svo um mælt, að sér nægði ef Hin nýju vísindi yrðu eina ritið sem varðveittist eftir hann. Önnur verk hans eru mun minna þekkt, enda nær undantekningalaust um tækifærisskrif að ræða: fyrirlestrar, ritgerðir, lofkvæði, líkræður, grafskriftir o.s.frv. Engu að síður þarf að gefa þeim nokkurn gaum til þess að átta sig betur á inntaki Hinna nýju vísinda. Rétt er að nefna nokkur stef sem í þeim er að finna.

Hugleiðingar um þróun siðmenningar skjóta upp kollinum í t.d. skrifum um réttarfarsþróun, þ.e. að framförum á einu sviði mannlífsins fylgi jafnan afturför á öðrum. Þannig fylgir því, þegar lagalegur réttur verður almennari á keisaratíma Rómar en hann hafði verið á lýðveldistímanum, að lögfræðingar fást í raun aðeins við einkarétt. Sprenging verður í fjölda lagagreina og þær snúast um æ fáfengilegri hluti. Hvort tveggja verður til þess að erfitt reynist að fara eftir lögum og þau snúast æ minna um að gæta almannahags. Til þess að friðþægja þegnum veldisins urðu lögin auk þess mildari með tímanum sem hafði það í för með sér að þeir töldu þau einungis varða þeirra einkahagi en ekki almannahag. Af þeim sökum liðaðist Rómaveldi í sundur uns það féll fyrir innrásum nágrannaþjóða.

Sambærilega þróun álítur Vico eiga sér stað með vaxandi sérhæfingu innan akademíunnar, bæði á fornöld og í samtímanum: Fræðilega heildarsýn skorti þegar iðkun vísinda og fræða mótast af sundurleitri hjörð mismunandi skóla og stefna. Helst telur hann kennslufag sitt, mælskulistina – sem „viskuna er tali á skreyttan og ríkulegan hátt í samræmi við heilbrigða skynsemi mannkyns“ – geta náð að sameina ólík fræðasvið.[3] Nám í henni sé í samræmi við uppeldisþroska barna, þ.e. hún leggi rækt við minnið og ímyndunaraflið á meðan dómgreindin sé fremur einkenni öldunga. Einstrengingslegar reglur um hvers konar þekking teljist vísindaleg og því þess virði að afla sér og hvað megi afgreiða sem óþarfa komist skiljanlega í tísku, enda létta þær námsmönnum lærdóminn. Hins vegar stangast þær á við þá heilbrigðu skynsemi sem Vico telur að mælskulistin leggi rækt við og sem gerir hana að jafn siðbætandi viðfangsefni og iðkun vísinda og dygðugs lífs.

Af þessum sökum virtist Vico nálgun mælskulistarinnar vera í algjöru ósamræmi við nýjustu tískustefnu innan ítalskra háskóla um 1700, kartesismann, þ.e.a.s. þá aðferðafræði sem kennd er við franska heimspekinginn René Descartes (1596-1650). Um tíma aðhylltist Vico sjálfur þá stefnu en tók síðan að beina spjótum sínum að henni fyrir að boða aðeins eina ákveðna aðferð við að leita hins sanna með því að gera eðlisfræðina að stofni allra vísinda vegna þess að hún væri álitin öruggari vísindi en önnur. Telur Vico augljóst að í mörgum fræðigreinum sé alls ekki unnið eftir kvarðanum „satt/ósatt“, heldur „sennilegt/ósennilegt“ og að þess vegna eigi ekki við að beita einni aðferð í þeim öllum. Það hljóti m.ö.o. að fara eftir viðfangsefni fræðigreinanna sjálfra hvaða aðferðafræði henti innan þeirra. Raunvísindin komist að niðurstöðum út frá því sem er teljanlegt og mælanlegt en grein eins og heimspeki, sem, að dómi Vicos, hafi það að markmiði að bæta manninn, verði að láta sér nægja að geta sér til um að eitt sé aðeins sennilegra en annað. Þannig megi vænta þess að komast nær hinu sanna en hinu ósanna en ekkert getur þó verið öruggt í þeim efnum. Heimspekinni gagnist lítið að rembast við að beita „ströngum sönnunum“ og raunar skaði það hana aðeins því þegar hún gerir sér grein fyrir því að slíkt sé henni um megn leiðist hún út í efahyggju, „þann skóla sem gerir samfélaginu minnst gagn“. Descartes hafi með róttækum efa sínum vissulega leyst vísindin undan klafa kreddutrúar í vísindum og með einfaldri aðferðafræði sinni tekið til í heimi vísinda eftir þá óreiðu sem skólaspekin skildi eftir sig. En hvort tveggja sé of sterkt og skaðlegt meðal við göllum fortíðarinnar og því fremur þörf á að feta ákveðinn milliveg milli gagnrýni og hefðar.[4]

Í því sem má kalla næstfrægasta rit Vicos, Um visku Ítala til forna (1710), vinnur hann áfram með þessi stef sem og önnur, t.a.m. þá tilgátu sína að vilji menn leita öruggrar þekkingar geti þeir einungis aflað hennar á sviði rúmfræðinnar. Byggir það á þeirri kenningu Vicos að til þess að komast að hinu sanna um eitthvað þurfi maður að hafa búið það til sjálfur, þ.e. þekkja allar orsakir þess. Guð er einmitt alvitur vegna þess að hann hefur skapað heiminn en maðurinn getur aðeins spunnið sjálfur stærð- og rúmfræðileg hugsmíðar og dregið öruggar ályktanir af þeim einum. Þess vegna getur eðlisfræðin ekki verið eins örugg fræðigrein og fylgismenn Descartes vilja vera láta, þar eð hún byggir á hlutbundnum veruleika sem stendur utan mannsins og á tilraunum sem gerðar eru á þessum veruleika til þess að afla þekkingar á honum. Því meira sem fræðigrein byggir á óþekkjanlegum orsökum, þeim mun minna getum við komist að hinu sanna innan hennar: aflfræðin er því óöruggari en rúmfræðin, eðlisfræðin enn ótraustari, en siðfræðin er þeim mun ótraustari fræðigrein, því jafnvel um eigin vitundarfyrirbæri getum við ekki þóst búa yfir mælikvarða hins sanna og ósanna, enda þekkjum við ekki raunverulegar orsakir eigin hugsunar.[5]

Með þessari þekkingarfræðikenningu leitaðist Vico við að hrekja tilraun Descartes til þess að beita róttækum efa sem aðferð til þess að afla áreiðanlegrar þekkingar. Sá sem efast er aðeins meðvitaður um hugsun sína en þekkir ekki orsakir hennar. Því getur hann ekki komist að mælikvarða hins sanna og ósanna með þeim hætti.[6] Ljóst má þó vera að Vico hafi ekki hugnast sú afleiðing þessarar kenningar að hvaðeina það sem tengist verkum manna (og nefnist „siðfræði“ hér að ofan en við getum kallað „mannvísindi“) sé illþekkjanlegra en staðreyndir raunvísinda.[7] Þegar stórvirki Vicos, Grunnreglur nýrra vísinda er varða eðli þjóðanna, þar sem finna má grunnreglur annars kerfis um náttúrulög þjóðanna[8] (hér eftir sem fyrr nefnt Hin nýju vísindi), kemur út 1725, hefur höfundur snúið sínu kvæði í kross í þessum efnum. Þekkingarfræðin er óbreytt en ályktunin um þekkingarfræðilega stöðu mannvísinda allt önnur:

 

[…] ekki er með nokkru móti hægt að efast um að það voru mennirnir sem sannarlega byggðu þennan samfélagslega (ít. civile) heim og að því sé og verði undirstöðu hans að leita í breytilegum myndum okkar mannssálar. Hver sá sem veltir þessu fyrir sér hlýtur að furða sig á því að heimspekingar skuli allir hafa af alvöru reynt að leggja sig eftir þekkingunni á þessum heimi náttúrunnar en þar eð Guð skapaði hann, getur hann einn þekkt hann; um leið hirtu þeir ekki um að velta fyrir sér þessum heimi þjóðanna eða samfélagsheimi en þar eð mennirnir einir bjuggu hann til gátu þeir einir gert sér vonir um að þekkja hann. (331)[9]

3.     Hin nýju vísindi

 

Hvert er markmið þessarar vísindagreinar sem Vico telur vera nýja? Á einum stað í ritinu bendir Vico á að til séu vissir málshættir eða orðtök sem finna megi í einni eða annarri útgáfu á hverri einustu þjóðtungu. Það sem hann vilji reyna að leiða í ljós og setja skipulega fram eru sambærileg undirliggjandi lögmál sem eru að verki í sögulegri þróun hverrar einustu þjóðar (161). Hugleiðingar Vicos um áhrif réttarþróunar í Rómaveldi hér að ofan eru vísir að slíkri rannsókn. Það er erfitt að átta sig á því hversu afgerandi Vico hafi hugsað sér að þau lögmál væru því þau virðast í senn vera ósveigjanleg um leið og þeim er ætlað að virða frjálsan vilja mannsins til ákvarðana og þær afleiðingar sem þær hafa. Þar sem um algild vísindalögmál fyrir allar þjóðir er að ræða kemur ekki til greina að hver þjóð lúti einhverjum eigin lögmálum; hins vegar fylgir hver þeirra þessum almennu lögmálum með sínum hætti. Eins á siðmenningin ekki uppruna sinn að rekja til einnar tiltekinnar þjóðar, þaðan sem hún barst til annarra, heldur ganga allar þjóðir í gegnum sama siðmenningarferlið.

Ítrekað klifar Vico á því að kenning hans forðist öfgar tveggja heimspekiskóla fornaldar og fylgismanna þeirra í samtímanum og steyti hún því hvorki á skeri stóuspeki, þ.e. hugmyndarinnar um að algild lögmál stjórni veruleikanum og útiloki þar með allt frelsi, né Epíkurisma, sem hafni hvers kyns lögmálum og undirselji allt tilviljunarkenndum árekstrum atóma. Meðalhófið sem tryggi greiða siglingu milli þessara skera sé sú hugmynd að guðleg forsjón bjargi mannkyninu frá því að tortíma sjálfu sér og tryggi viðgang þess og þróun. (Um það er fjallað meira IV. kafla.)

Eins og vænta má hafnar Vico aðferðafræðilegri einstefnu og segist munu sameina nálgun heimspekinnar, sem leitar eilífra og óbreytanlegra sanninda með skynsemina að vopni, og „fílológíunnar“, er skapar vitund um mismunandi og tilfallandi staðreyndir sem eiga upptök sín í athöfnum manna. „Fílológía“ er hér notað í breiðari merkingu en „textafræði“, þar eð hún fæst ekki aðeins við hvers kyns textaheimildir (goðsagnir, hetjusögur, orðsifjar) heldur einnig það sem nefnist í dag efnismenning (leifar af styttum, áhöldum o.fl.). „Á meðal fílológa ber að telja alla málfræðinga, sagnfræðinga, gagnrýnendur (ít. critici) sem afla vitneskju um tungumál og gjörðir þjóðanna, bæði heima fyrir, s.s. í siðum og lögum þeirra, sem og að heiman, þ.e. í stríðum þeirra, friðarsamningum, bandalögum, ferðum og viðskiptum.“ (139) Hugsanlega á hér best við að tala einfaldlega um sagnfræðilega aðferð og verður það gert hér eftir.

Rétt eins og Vico undrast að heimspekingar skuli svo lengi hafa leitað sannleikans í heimi náttúrunnar, þar sem hann var ekki að finna, telur hann heimspeki og sagnfræði fyrir löngu hafa getað orðið samfélaginu að meira gagni hefðu þær greinar tekið meira mið hvor af annarri, þ.e.a.s. heimspekin leitað hins sanna á grunni víðtækrar vitneskju og sagnfræðin dregið víðfeðmari ályktanir af athugunum sínum. Þar sem þeim sé hér nú beitt í sameiningu til þess að skilja framvindu sögunnar er um nýja vísindagrein að ræða. En þessi blandaða aðferð sem Vico beitir samviskusamlega í riti sínu á líkast til mestan þátt í því hversu þungt og erfitt aflestrar það er: Til þess að rökstyðja heimspekilega staðhæfingu er oftar en ekki haldið í langa ferð um latneskar orðsifjar eða forn-grískar goðsagnir og stundum lítt traustvekjandi ályktanir dregnar af þeim. Í heild sinni er um heillandi rit að ræða og oft áhugaverðar pælingar þar að finna en … það er auðvelt að drukkna í smáatriðunum. Vandinn við þessa framsetningu er nefnilega einna helst sá að þegar hugurinn festist lítt við langdregna eða tæknilega útskýringuna blasir skyndilega við óvænt niðurstaða hennar sem kann að vera mikilvæg fyrir heildarskilning verksins. Nú má vera að þessi huglæga lýsing eigi ekki við alla lesendur en látum hér fylgja með lítið dæmi um þessa aðferð:

 

Og Apolló er guðinn sem stofnaði mannkynið og listir þess, sem við sögðum rétt í þessu að væru listagyðjurnar (ít. muse), sömu listir og Latverjar kölluðu „liberales“ í skilningnum „tignar“ en ein þeirra er reiðlistin: þess vegna flýgur Pegasus yfir Parnassos-fjall vopnaður vængjum sökum tignar sinnar; og þegar barbaraöldin gekk aftur í garð kölluðust spænskir aðalsmenn „cavalieri“ vegna þess að þeir einir máttu bera vopn á hestbaki. Þetta mannkyn (ít. umanità) mun eiga rót sína að rekja til „humare“, þ.e. „að jarðsetja“ (þetta er ástæðan fyrir því að greftrunin er valin sem þriðja undirstaðan í Vísindum þessum); og vegna þessa voru Aþenubúar, sem voru skv. Cicero mannúðlegastir allra þjóða, fyrstir til að grafa hina látnu. (537)[10]

 

Viðleitni Vicos á stöðum sem þessum er sú að fanga upphaflega merkingu hugtaka, m.ö.o. að skilja þau á upphaflegum forsendum þeirra. Þetta eru fyrstu tvær reglurnar í fyrsta hluta Hinna nýju vísinda, er mætti þýða sem Setning grunnreglnanna, en þær kveða á um að ekki skuli meta það sem maður ekki þekkir eða er manni fjarlægt eftir nútímalegum eða nærtækustu forsendunum sem í boði eru. Heimspekingar gerist t.d. sekir um slíkt þegar þeir eigni mönnum á öllum tímum sömu vitundina um náttúrurétt allra manna (en allar kenningar um samfélagssáttmála hvíla á henni); betri „fílológísk“ vitneskja hefði getað forðað þeim frá slíkri söguskekkju. Hins vegar eru ákveðnir þættir sameiginlegir mönnum á öllum tímum, s.s. frjáls vilji þeirra. Einnig má þar nefna sameiginlegan skilning, sem „er óyfirvegaður dómur er heil stétt, lýður, þjóð eða mannkyn allt er sammála um“ (142). Hann er miðillinn fyrir breytingar á hugarfari manna og í kjölfarið á þjóðfélagsstofnunum, m.ö.o. það sem greinir eitt sögutímabil frá öðru. Í tilvitnuninni hér að ofan segir að greftrun látinna sé „þriðja undirstaðan“ í þessum vísindum. Um er að ræða eitt þeirra þriggja lögmála sem sjá má að gildi hjá öllum þjóðum á öllum tímum. Hin lögmálin tvö eru að hjá hverri þjóð þekkist trú á æðri máttarvöld í einhverjum skilningi og formleg hjónavígsla. Með því að byggja á þessum óyggjandi undirstöðum má smíða kenningu um ákveðið sögulegt ferli sem sé sameiginlegt með öllum þjóðum.

Langsamlega lengsti hluti Hinna nýju vísinda er annar hlutinn, Skáldleg viska. Þar er útlistuð sú uppgötvun sem Vico segist hafa verið heil 20 ár að þróa og undirbyggja með erfiðismunum en hana mætti hér kalla „heimspeki-sagnfræðilega uppgötvun frummannsins“. Rökin fyrir henni eru af ýmsum toga en gjarnan teflir Vico fram þeirri samlíkingu að rétt eins og manneskja gengur í gegnum sitt bernskuskeið hlýtur mannkynið einnig að hafa átt sína bernsku, þar sem ímyndunaraflið var virkari þáttur í hugarstarfseminni en skynsemin.

Líkan af þróun siðmenningar telst vart frambærilegt nema ljóst sé hver tilurð þess ferlis hefur verið. Með því að skoða hugmyndir sagnfræðinga og heimspekinga fornaldar og í samtímanum um eðli hinna fyrstu manna greinir Vico þá sem afkomendur sona Nóa, þeirra Sems, Kams og Jafets (1. Mósebók 10:1) er hafi dreift sér um jörðina eftir syndaflóðið. Nær ógjörningur sé að setja sig inn í hugsunarhátt þessara villtu og tröllvöxnu manndýra en í ljósi þess, sem fyrr segir, að öll samfélög þekki átrúnað á æðri máttarvöld megi álykta að slíkur átrúnaður hafi verið fyrsta þroskamerki þeirra sem samfélagsvera. Söguþráðurinn sem hefst á þessum upphafsreit og Vico leitast við að endursmíða með heimildarýni sinni hefur Ingi Sigurðsson sagnfræðiprófessor tekið saman á svo prýðilegu máli að ekki þykir hér ástæða til þess að reyna að bæta um betur:

Í upphafi, eftir syndaflóðið, reikuðu menn um jörðina, dýrum líkastir. Þrumuveður skefldu þá, og óttinn, blandinn kynferðislegri sektarkennd varð kveikja trúarbragða og leiddi til þess að fjölskyldur og föst búseta komu til sögunnar. Allt vald var í höndum fjölskylduföðurins. Allar þjóðir áttu sér trúarbrögð, og hjónabönd og greftrun dauðra tíðkuðust hvarvetna. Þetta er goðaöldin.

Ekki féllu samt allir inn í fjölskyldumynstrið á þessu skeiði; enn fyrirfundust reikunarmenn, sem voru á því stigi, sem fjölskyldan hafði sprottið upp úr, og um margháttað misrétti var að ræða, sem leiddi til ófriðar. Við þær kringumstæður leituðu þeir, sem minna máttu sín, verndar hjá þeim, sem voldugir voru. Þannig varð til ákveðnari stéttaskipting en áður, og mynduðu fjölskyldufeðurnir hagsmunabandalög. Kom nú fram lénsaðall í svokölluðum hetjuríkjum og einkennir hann hetjuöld, það er að segja annað skeiðið á hringferlinum.

Á þessu skeiði kom til átaka milli hinna tveggja meginstétta – í Rómarsögu eru það patrisíar og plebeiar, sem um er að ræða. Óhjákvæmilegt var, að þjóðfélagsstaða og réttarstaða alþýðu manna batnaði smám saman og yfirstéttin hlyti að missa forréttindi sín. Lýðveldi tóku nú við af hetjuríkjunum svokölluðu, og þar með hófst mannöld, þriðja þrepið á þróunarbrautinni.

Nú var skynsemi orðin ríkjandi þáttur í eðli manna og hafði það mikil áhrif á ástand mála í þjóðfélaginu. Ýmis upplausnareinkenni birtust. Slakað var á öllum hömlum og lausungar gætti í hvívetna. Heimspeki tók sæti trúarbragða. Þegar allur landslýður hafði fengið stjórnmálalegt vald, kom að því, að atkvæði gengju kaupum og sölum.[11]

 

Það er athyglisvert að Vico gerir hér ekki ráð fyrir neinni gullöld til forna. Þvert á móti einkennist sagan lengi vel hjá honum af töluverðri „villimennsku“. Fyrsta tímabilið er sagt „skáldlegt“ eða „skapandi“ (ít. poetico, dregið af poieisis í heimspeki Aristótelesar) í þeim skilningi að þá hafi ímyndunaraflið fengið að leika mun lausari hala en síðar í sögunni. Öll hugsun mannsins var þá hlutbundin (þ.e. ekki óhlutbundin eða afstrakt) og oftar en ekki yfirfærði hann þá mannlega eiginleika á heiminn, t.d. með því að skýra virkni seguls sem samúð hans. Híeróglýfur forn-Egypta eru dæmi um tjáningaraðferð þessa tíma og því afgreiðir Vico getgátur um að djúp heimspeki búi þeim að baki sem hreina óra.[12]

Í þriðja hlutanum, Um uppgötvun hins sanna Hómers, leitast Vico við að beita aðferð sinni til þess að kveða upp úr með hvort ákveðið skáld, Hómer að nafni, hafi verið höfundur Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu, eða hvort ekkert slíkt skáld hafi verið uppi. Í ljósi þess m.a. hversu ólík verk er um að ræða þótti seinni möguleikinn líklegri þegar á tímum Vicos. Hins vegar segist hann geta fallist á að „Hómer“ hafi verið höfundur kviðanna ef heitið er skilið sem hugtak yfir söngvaskáld Grikklands hins forna. Illíonskviða er afurð hins unga, ímyndunarríka en einnig grimma og óheflaða Grikklands sem dáist að „ofbeldishetjunni“ Akkilesi. Mörgum öldum síðar, þegar gríska þjóðin hefur þroskast og róast, taka söngvaskáld hennar að kveða um „viskuhetjuna“ Ódysseif. (879) Með því að rýna í fornar bókmenntir sem þessar má þannig skyggnast inn fyrir þjóðarsálina eins og hún var á ritunartíma þeirra.

Í fjórða hluta Hinna nýju vísinda, Um ferlið sem þjóðir fylgja, tekur Vico sér fyrir hendur að lýsa því hvernig tímabilaskiptingin sem hann þiggur frá Forn-Egyptum er að verki í lífi þjóða. Enn fremur byggir hann þessa skiptingu á ýmsum grunnreglum sem hann setur fram og rökstyður í fyrsta hluta ritsins en það eru reglur sem tilheyra svokölluðu „eilífu sögumódeli (ít. storia ideal eterna) sem sérhver þjóð fylgir með tímanum frá því hún birtist, þroskast og fullmótast uns henni hnignar og hún hverfur af sjónarsviðinu.“ (245). Í raun reynist ekki mikið nýjabrum vera af reglum þessa „eilífa sögumódels“ því þær geyma aðallega hina klassísku hugmynd um hvernig samfélög rísa og falla líkt og lífverur, einkum í gegnum breytilega siðferðiskennd þeirra. Ein helsta regla þessa módels er eftirfarandi: „Fyrst finna menn fyrir þörf, kanna síðan gagnsemi, huga því næst að þægindum, gefa sig enn seinna að því sem ánægjulegt er, en af munaðinum verða þeir gjálífir, ærast loks og sólunda auði sínum.“ (241) Í samræmi við hana ályktar Vico í næstu kennisetningu: „Eðli þjóða er að vera í fyrstu óþroskaðar, síðar strangar, því næst mildar, svo fágaðar en á endanum siðlausar.“ (242) Fyrir hvert þessara stiga í huga manna og þjóða má enn fremur finna fulltrúa í sögu heiðinna þjóða í fornöld en oftar en ekki lætur Vico þó nægja að vísa í sögu forn-Grikkja og Rómaveldis máli sínu til stuðnings:

  1. Kýklópar eru fulltrúar þess tíma þegar mannkynið samanstóð af risavöxnum kynjaverum er lutu í mesta lagi valdi einhvers fjölskylduföður;
  2. Akkilles fyrir tíma aðalsvelda í borgríkjum er uxu upp úr fjölskyldu-samfélögunum;
  3. Aristides og Scipio Africanus „ryðja brautina fyrir lýðstjórn“ (243);
  4. Alexander mikli og Júlíus Sesar, menn bæði mikilli dygða og lasta, koma í krafti lýðhylli sinnar á einveldum[13];
  5. síðar verða íhugulli menn á borð við Tíberíus að táknmynd þess þegar slík ríki festa sig í sessi;
  6. en loks eru það „blygðunarlausir brjálæðingar“ á borð við Kalígúla, Neró og Dómitíanus sem stuðla að hruni þeirra.

 

Ástæða er til þess að gefa þessum sex liðum gaum því ef við hugum að því þrískipta skema sem Vico dregur upp af þróun þjóða virðist sem fyrsti liðurinn (a) gildi aðallega um goðveldisöld, annar liðurinn (b) um hetjuöld, en risið og hnigið (c)-(f) gerist allt á mannöld. Hér er efni fjórða hluta bókarinnar tekið saman með stikkorðakenndum hætti:

 

Birtingarmynd

 

Goðveldisöld

 

Hetjuöld

 

Mannöld

 

1) Lund

 

Skáldkennd og skapandi – ótti og grimmd

 

Hetjulund – göfuglyndi

 

Greind, hógvær, velviljuð, skynsöm

 

2) Siðir

 

Tengdir trú og guðhræðslu

 

Tengdir skapbræði og formfestu

 

Tengdir almennum borgaralegum skyldum

 

3) Náttúrulög

 

Frá guðum komin

 

Vald skilyrt af trú

 

Skynsamlegar mannasetningar

 

4) Stjórnarhættir

 

Klerkaveldi

 

Stjórn hefðarstétta sem einar njóta réttinda

 

Lög gilda jafnt fyrir alla, lýðsstjórn eða einveldi

 

5) Tungumál

 

Andlegt mál þögulla helgiathafna

 

Skjaldarmerki

 

Málhljóð

 

6) Tákn

 

Híeróglýfur

 

Söguhetjur sem tákn fyrir hugtök, t.d. Ódysseifur fyrir kænsku

 

Bókstafir og þjóðtungur

 

7) Réttarfar

 

Guðlegir spádómar og túlkun þeirra

 

Formfesta í réttarreglum umfram allt annað

 

Hins sanna leitað og jafnræðis gætt

 

8) (Áhrifa)vald

 

Í höndum þeirra er þiggja vald sitt frá guðunum

 

Hjá þingmönnum af hefðarstétt

 

Lýðveldi eða einveldi, þar sem einstaklingar eða þing gegna ráðgefandi hlutverki

 

9) Skynsemi

 

Rödd Guðs, m.a. í spádómum

 

Ströng lagahyggja, fáir útvaldir gæta hagsmuna ríkisins

 

Dreifð ábyrgð á hagsmunum ríkisins undir lýðveldi; miðlæg stjórn undir einveldi sem tryggir jafnræði milli þegnanna, er huga umfram allt að einkahagsmunum sínum

 

10) Dómar

 

Fyrri hringur[14]: Guðir ákallaðir í sakamálum, réttur guðlegs eðlis

 

Síðari hringur: hólmgöngur

 

Farið algjörlega eftir lagabókstafnum

 

Lögin tæki til þess að komast að hinu sanna í dómsmálum, tillit tekið til ásetnings geranda

 

11) Tímabil

 

Tímabil trúarlegra stjórna

 

Fyrri hringur: Tímabil formfestu

 

Síðari hringur: Tímabil hólmgangna

 

Tímabil náttúruréttar allra manna

 

Margt í þessari knöppu samantekt hlýtur reynast torskilið eða vekja furðu, þó ekki væri nema fyrir augljósar tímaskekkjur. Vissulega mun Vico hafa haldið því fram að skemað sem hann setti fram gilti um allar sjálfstæðar þjóðir í þeim skilningi að þær sem ekki fylgdu því hlytu að glata sjálfstæði sínu fyrir öðrum þjóum. Hins vegar fylgir hver þjóð þessu módeli á sínum hraða og með sínum hætti, t.d. með einhverri skörun milli tímabila, og því eru einstakar birtingarmyndir þessa módels, eins og gefur að skilja, frábrugðnar þeim sem við þekkjum úr menningu Grikkja og Rómverja.

Sú sögusýn sem hér birtist verður þó að teljast nokkuð svartsýnisleg, því af henni má álykta að með aukinni siðfágun og almennari menntun fari siðspilling vaxandi, líkt og þessir þættir fylgist alltaf að. Í fimmta hluta Hinna nýju vísinda greinir Vico nánar frá því hvað taki við að heilum „hring“ goðaveldis-, hetju- og mannaldar loknum, þegar þjóð er komin á leiðarenda í því ferli og siðferðislegt hrun hennar blasir við. Sá hluti ber titilinn: Hringrás mannlegra stofnana sem þjóðir ferðast eftir þegar þær rísa upp á nýtt.

Hin almenna kenning Vicos er sú að megni þjóð ekki lengur að stjórna sér sjálfri sakir siðferðislegrar hnignunar sjái forsjónin til þess að önnur og hæfari þjóð drottni yfir henni. En lánist siðlausri þjóð ekki að frelsast á þann hátt undan sjálfri sér magnast sérgæska borgaranna og sundurþykkjan innan hennar svo mjög að borgarastyrjöld brýst út, siðmenningin hrynur og borgir verða aftur að skógum. Við tekur á vissan hátt ný öld sambærileg frummannsskeiðinu, nema hvað að vegna illgirninnar, sem hefur þróast með þeim, eru íbúar á tímum siðferðishrunsins verri að eðlisfari en þeir skepnum líku menn sem fyrri hringurinn hófst á. Aðeins þegar allfáir hjartahreinir einstaklingar hafa lifað þennan hildarleik af getur ný goðveldisöld hafist. (1105-6)

Endalok Rómaríkis eru ögn frábrugðin þessari framvindu því þar opinberaði Guð sannleika kristinnar trúar í dygð píslarvottanna, speki kirkjufeðranna og kraftaverkum en um leið siðspillingu heiðinna Rómverja. En þegar ofsóknir gegn kristnum mögnuðust „leyfði hann nýju skipulagi mannkynsins að fæðast á meðal þjóðanna í þeim tilgangi að koma fastri skipan á [kristnina] í samræmi við náttúrulegt ferli mannlegra stofnana.“ (1047) Til þess þurfti hann hins vegar að fylgja „eilífu sögumódeli“ og koma á nýrri goðveldisöld og því einnig nýrri „barbaraöld“: veraldlegar höfðingjastöður runnu saman við geistlegar, stríðsátök urðu aftur trúarleg, ritmál lagðist nánast af sem bendir til þess að menn hafi aftur tekið að tjá sig á þöglu máli helgiathafna(!). Erfitt er að svara því hvort mannkynið (eða Evrópubúar) hafi tekið einhverjum framförum við að feta sig eftir þessum nýja hring því Vico segist þurfa að styðjast við heimildir um fyrri „barbaraöldina“, þ.e. hetjuöld fornaldar, til þess að skýra ýmsar stofnanir hins síðara, þ.e. miðalda. (1074)

Vico virðist þó líta svo á að hann hafi sjálfur verið uppi á upplýstari tímum: Besta stjórnarfyrirkomulag sem völ er á, þ.e. einveldi með ráðgefandi stofnunum, hafi þá verið að finna í flestum Evrópuríkjum; aðeins í Póllandi og Englandi fari aðalsmenn enn með raunveruleg völd og hirði þ.a.l. síður um hag almennra þegna. (1083) Háskólum fari einnig fjölgandi og þ.m. verði æ víðar lögð rækt við lögfræði sem skili sér í jafnari rétti þegna af misháum þjóðfélagsstigum. (1086) Þessi þróun aukins jafnréttis innan upplýstra einvelda sé í sjálfu sér óafturkallanleg: aðeins tilfallandi aðstæður geti hægt á henni eða hindrað hana, ekki innri rökvísi sögunnar. Það sæist best á því að yrði reynt að hverfa aftur til aðalsveldis hlyti það að leiða til byltingar. Svo óhjákvæmileg er þróunin eftir hinu „eilífa sögumódeli“, segir Vico, að „handan hafsins, myndu amerískir [indiánar] í hinum nýja heimi nú fylgja þessu ferli mannlegra stofnana, hefðu Evrópumenn ekki uppgötvað þá“ (1095) og gert í kjölfarið að ósjálfstæðum þjóðum.[15]

Nú má vitaskuld leika sér með framhaldið og velta því fyrir sér hvort ýmis menningarleg fyrirbæri síðastliðinna áratuga – jákvæð afstaða til græðgi og eigingirni, sífelld útvíkkun mannréttindahugtaksins eða „endurkoma trúarlífsins“ í stjórnmálum víða um heim – gefi ekki tilefni til nokkurrar svartsýni ef mark er takandi á söguheimspeki Vicos.[16] Hér verður lesendum látið eftir að hugleiða þau efni en hugað að grundvallarspurningu varðandi þetta heimspekikerfi: Hvaða afl eða rökvísi er það sem leiðir söguna eftir þessari braut?

 

4.     Forsjónin

Vissulega hafa mennirnir sjálfir búið til þennan heim þjóðanna […]; en vafalaust spratt þessi heimur úr huga sem hafði oft mismunandi og stundum andstæðar ætlanir en þær voru ávallt æðri því sem mennirnir höfðu sjálfir ætlað sér að gera; takmörkuð markmið hinna síðastnefndu, sem urðu að meðölum til þess að ná stærri markmiðum, hefur hugur sá alltaf beitt til þess að varðveita mannkynið á þessari jörð; mennirnir vilja njóta dýrslegrar girndar sinnar og losa sig við afkvæmi sín en kalla þannig fram hreinlífi hjónabandsins, hvaðan fjölskyldurnar eru sprottnar; feðurnir vilja beita hjú þeirra föðurvaldi úr hófi fram en beygja þau með því undir borgaralegt vald, hvaðan borgir eru sprottnar; yfirráðastétt aðalsmanna vill misbeita fyrirmannlegu valdi gegn lýðnum en neyðist til þess að gegna þeim lögum sem einkenna lýðveldi; frjálsar þjóðir vilja losna undan hömlum laga þeirra en ganga þar með einvöldum á vald; einvaldar vilja veikja eigin þegna með öllum löstum siðspillingarinnar en koma því þar með til leiðar að þeir verða að þrælum sterkari þjóða; þjóðirnar vilja leysa sig upp en eftirlifendur þeirra flýja í skjól óbyggðanna, hvaðan þeir spretta fram að nýju líkt og Fönix. Það sem kom öllu þessu til leiðar var hugur, þar eð mennirnir beittu viti sínu til þess; en ekki örlögin, því þeir ákváðu það; og ekki tilviljunin vegna þess að ávallt hlýst það sama af því sem eins er gert. (1108)[17]

 

Þennan sígilda texta úr niðurlagskafla Hinna nýju vísinda má taka saman með eftirfarandi hætti: Þrátt fyrir að vera takmarkaðar og syndugar verur taka menn frjálsar ákvarðanir til þess að uppfylla þarfir sínar og þjóna því sem þeir telja vera beina hagsmuni sína. En athafnir þeirra reynast með tíð og tíma hafa aðrar og umfangsmeiri afleiðingar í för með sér en þeir hugðu eða þeim kannski hugnaðist. Að baki þeirri óvæntu þróun býr það sem Vico nefnir forsjónina. Forsjónin vinnur hvorki kraftaverk með því að grípa inn í gang náttúrunnar né sveigja vilja manna, heldur beinir hún þeirri síðarnefndu, eins og góð lagasetning býr til gagnlegar þjóðfélagsstofnanir úr löstum mannanna.[18]

Í sjálfsævisögu sinni lýsir Vico sjálfum sér sem trúum þjóni réttrar trúar á tímum þegar óguðrækin heimspeki hafi fangað huga margra samtímanna hans. Þá túlkun á hugsun Vicos að hann hafi fyrst og fremst verið kaþólskur hugsuður hefur mátt finna allt fram á 20. öld. En strax á 18. öld drógu ýmsir, s.s. dómínikaninn G.F. Finetti, þá skoðun í efa og bentu á að kenningar Vicos um að mannkynið hafi í árdaga verið dýrum líkast og trú þess á æðri máttarvöld átt sér náttúrulegar orsakir geti ekki talist í samræmi við kristna trú. Að sama skapi vaknaði sú spurning hvort út frá Hinum nýju vísindum mætti ekki „leysa upp“ fleiri forna höfunda en Hómer, s.s. Móses, í tiltekna rithefð á afmörkuðu svæði og tímabili og hvaða afleiðingar slíkt hefði í för með sér fyrir trúna.[19] Í ljósi þess að forsjónin leiddi mannkynið áfram til aukinna lýðréttinda hlýtur sú spurning einnig að vakna hvort hún hljóti skv. þessu heimspekikerfi ekki einnig að hafa verið að verki þegar mannkynið steyptist inn í nýja goðaöld, þ.e. hinar myrku miðaldir. En ef þau skakkaföll urðu til þess, sem fyrr segir, að mannkynið kynntist hinni sönnu kristnu trú, þarf ekkert guðlast að felast í þeirri kenningu.

Þessi tilhneiging forsjónarinnar til þess að leiða menn að allt annarri niðurstöðu en þeir stefndu upphaflega að minnir töluvert á hlutverk andans í sínum ólíku birtingarmyndum í heimspeki G.W.F. Hegels (1770-1831) og það sem hann nefndi „lævísi skynseminnar“ sem er að verki í sögunni. Vitað er að Hegel þekkti nokkuð til Hinna nýju vísinda Vicos og hafa ýmsir orðið til þess að sjá í heimspeki þess síðarnefnda fyrirrennara söguspeki Hegels, ekki síst sveitungi Vicos, heimspekingurinn Benedetto Croce (1866-1952). Eins hefur kenning Auguste Comte (1798-1857) um þrískipta sögu mannkyns og vísinda í guðfræðilega, frumspekilega og loks pósitíva öld þótt svipa til tímabilaskiptingarinnar í Hinum nýju vísindum. Aftur á móti gera hvorki Hegel né Comte ráð fyrir einhvers konar hruni til frumstigsins eða spíralhreyfingum samfélaga í gegnum ný en fastmótuð söguferli, heldur þvert á móti fyrir einhverju lokastigi sögulegrar þróunar. Enn fremur þykjast menn sjá þar annað hreyfiafl þessarar þróunar að verki en hjá Vico: Andinn keyrir þannig söguna áfram hjá Hegel og gengur alfarið fyrir sjálfum sér, ef svo má að orði komast. Að dómi Vicos er slík kenning hins vegar ótæk þar eð hún er til marks um örlagahyggju í anda stóuspeki, þar sem eitthvert allsherjarafl ræður för án þess að frjáls vilji mannsins skipti neinu verulegu máli. Vandinn sem felst í hugtaki Vicos um guðlega forsjón er hins vegar sá að ef sagan þróast algjörlega eftir fyrirætlun Guðs almáttugs er ekki síður um örlagahyggju að ræða en í stóuspeki. Því verður að teljast hæpið að sú hafi verið raunveruleg afstaða Vicos. En þá er ljóst að skýra verður stöðu og hlutverk forsjónarinnar með einhverjum öðrum hætti en að líkja henni við andann í heimspeki Hegels eða inngrip Guðs í frjálsar ákvarðanir mannsins.[20]

Ein leið til þess er sú að halda því fram að sjá þurfi í gegnum hástemmdar trúarjátningar Vicos og líta á vond og mótsagnakennd rök í máli hans sem dulin skilaboð til lesenda um að taka ekki sérlega hátíðlega þá afstöðu sem þeim er ætlað að styðja. Þannig heldur Frederick Vaughan því fram að óþarft sé að gera ráð fyrir guðlegri forsjón í heimspekikerfi Vicos; hún tolli í raun illa við þá siðferðilegu afstæðishyggju Vicos að náttúruréttarkenningin hafi fyrst komið fram á sjónarsviðið (og þar með skipt máli) þegar þjóðir með ólíka og jafnvel andstæða siði tóku að eiga með sér vaxandi samskipti. Yfirlýsingar sem bendi til annars beri þ.a.l. aðeins að túlka sem tilraun höfundar til þess að koma eldfimri kenningu sinni í gegnum nálaraugu ritskoðunar rannsóknarréttarins, sem menn fundu vissulega enn fyrir á tíma Vicos.[21]

Með svipuðum hætti hefur hugmyndasagnfræðingurinn Jonathan Israel fært rök fyrir því að Vico geri hvergi heiðarlega tilraun til þess að skýra hvað sé guðlegt við forsjónina. Annars vegar megi í Hinum nýju vísindum finna ýmsar hugmyndir sem eigi mest sammerkt með heimspeki Spinoza, Bayle og öðrum „natúralistum“ (þ.e. efnishyggjusinnum) 17. aldar, s.s. um að samfélagsstofnanir manna eigi sér aðeins rót í þörfum þeirra og kröfu um öryggi. Þegar kannað er með hvaða hætti forsjónin er að verki í sögunni sé ekkert sem bendi til þess að hún sé af yfirnáttúrulegum eða yfirskilvitlegum toga eða að hún birtist í kraftaverkum. Þvert á móti séu birtingarmyndir hennar (samfélagsstofnanirnar sem menn komi á fót) aðeins skynsamleg skipan mála í samspili manna (væntinga þeirra, ótta og siðvenja) og náttúru; andstaðan við stóu og Epíkúr sé aðferðafræðilegs eðlis, þ.e. tilraun til þess að lýsa þessu samspili án vélrænnar nauðhyggju (stóuspeki) eða þeirrar trúar að allt sé tilviljunum undirorpið (Epíkurismi). Þessu hafi andstæðingar upplýsingarinnar á 18. öld á borð við Finetti áttað sig á og því aldrei gert þá skissu að telja Vico til vopnabræðra sinna.[22]

Þótt þessi túlkun á Vico sé vel rökstudd verður hún þó að teljast nokkuð afdráttarlaus, enda krefst hún þess að lesandinn hugsi gegn því sem höfundur segir á fjölmörgum stöðum, þannig að nánast verði um „geðklofa“ lestur að ræða. Leon Pompa reynir að forðast að ganga jafn langt í túlkun sinni en viðurkennir að ef öll ummæli Vicos um forsjónina eru tekin saman séu þau það misvísandi að þau geti ekki myndað samstæða heild. Því leggur hann til að forsjónarhugtakinu sé skipt í tvennt, þ.e. í „íverandi“ (e. immanent) og „yfirskilvitlega“ (e. transcendent) forsjón. Sú fyrrnefnda er að verki í sögunni og er af þeim „natúralíska“ toga sem Vaughan og Israel telja að Vico aðhyllist einvörðungu. Sú forsjón sé ekki fyrirfram gefin heldur komi í ljós eftir á, þegar eftir því er gaumur gefinn hversu „náttúrulega“ samfélagsstofnanir manna mótast, þ.e. án tilverknaðar yfirskilvitlegs guðs. Á hinn bóginn sé oft að finna staði í Hinum nýju vísindum, eins og í tilvitnuninni hér að ofan, þar sem forsjóninni er lýst sem „huga“ er vinni eftir langtímamarkmiði, s.s. því að viðhalda mannlífi á jörðu; henni megi því lýsa sem yfirskilvitlegri þar eð hún getur ekki verið hluti af þessum heimi. Spurningin er sú, segir Pompa, hvort Vico hafi ruglað þessum tvenns konar skilningi saman til þess að sigla undir fölsku flaggi rétttrúnaðar, eins og Vaughan og Israel halda fram, eða hvort hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu „natúralísk“ heimspeki hans væri. Um það getum við aldrei komist að endanlegri niðurstöðu, ályktar hann, enda ekki um neina úrslitaspurningu að ræða hversu meðvitaður Vico hafi verið um þetta ósamræmi til þess að skilja megi heimspeki hans.[23]

Sjálfsagt má einnig spyrja hvaða þýðingu það hafi að velta því fyrir sér, á tímum rústabjörgunar og aðkallandi þjóðfélagsvandamála, hvort forsjónarhugtak Vicos sé veraldlegs eða guðlegs eðlis. En hin eilífa spurning um tilgang og gagnsemi heimspekilegra vangaveltna sem þessara þarf í þessu tilviki ekki að vera svo hvimleið sem oft ella. Því hvað er lífsmottó heillar þjóðar um að „þetta reddast“ eða „þetta hefst á endanum“ annað en einlæg og djúp trúarjátning sömu þjóðar á að forsjónin sé að verki í sögulegum veruleika hennar? Það hlýtur þá einnig að skipta einhverju máli hvort sú forsjón teljist vera veitt að ofan (með þeirri nauðhyggju sem af því getur stafað) eða að hún sé einfaldlega skynsamleg skipan samspilsins milli manns og náttúru sem komist á þegar náttúrulegar aðstæður leyfa. Spurningin sem eftir situr er hvort við séum einhverju nær um það hvers vegna „þetta reddast“ (eða eigi að reddast) við það að hugleiða forsjónarhugtak Vicos.

 


[1] Giovanbattista Vico: Vita di Giovanbattista Vico scritta da se medesimo. Sjá: http://www.intratext.com/IXT/ITA1788/_P1.HTM; The Autobiography of Giambattista Vico, (þýð. Max Harold Fisch og Thomas Goddard Bergin), Cornell University Press: Ithaca og London 1944, s. 111.

 

[2] Max Harold Fisch: „Introduction“, The Autobiography of Giambattista Vico, s. 31-36.

 

[3] G. Vico: “II. De nostri tempore studionis Ratione”, Œuvres choisies de Vico contenants sés Mémoires écrits par lui-même, La science nouvelle, Les opuscules. Lettres etc. précédées d‘une introduction sur sa vie et ses ouvrages, (ritstj. J. Michelet), Ernest Flammarion: Paris [1835?], s. 145-162, hér s. 162. Sjá: http://www.archive.org/stream/oeuvreschoisiesd00vicouoft#page/n3/mode/2up

 

[4] Giambattista Vico: “IV. Réponse à un article d’un journal d’Italie …”, Sama rit, s. 164-169.

 

[5] Giambattista Vico: “De l’antique sagesse de l’Italie, retrouvée dans les origines de la langue latine”, Sama rit, s. 211-280, hér s. 222-223. 

 

[6] Sama rit, s. 225-227.

 

[7] Sjá hugleiðingar Leon Pompa um hvaða þættir það eru í heimspeki Vicos sem geri honum kleift að komast að þessari gjörbreyttu niðurstöðu í: Leon Pompa: Vico. A study of the ‘New Science’, (2. útg.), Cambridge University Press: Cambridge o.fl. 1990, s. 75-86.

 

[8] Sjá hugleiðingar þýðenda ensku útgáfunnar um allar mögulegar leiðir til þess að skilja þennan titil í: “Introduction”, The New Science of Giambattista Vico. Revised Translation of the Third Edition (1744), (þýð. Thomas Goddard Bergin og Max Harold Fisch), Cornell University Press: Ithaca og London 1968, s. xix-xlv. Þess má geta að önnur og þriðja útgáfa ritsins bar talsvert styttri titil: Grunnreglur nýrra vísinda um sameiginlegt eðli þjóða.

 

[9] Giambattista Vico: Princìpi di scienza nuova, Arnoldo Mondadori Editore: Milano, Napoli 1992, s. 121. Tölur innan sviga vísa númer efnisgreinar í Hinum nýju vísindum.

 

[10] Sama rit, s. 237.

 

[11] Ingi Sigurðsson: “Um söguspeki Vicos (Erindi flutt á fundi í Félagi áhugamanna um heimspeki 6. maí 1979)”. (fjölrit), s. 17-18.

 

[12] Thomas Whittaker: Reason. A Philosophical Essay with Historical Illustrations (Comte and Mill, Schopenhauer, Vico, Spinoza), Greenwood Press: Westport, Conn. 1977, s. 141-143.

 

[13] Monarchia er hér þýtt orðrétt sem einveldi, enda notar Vico það sem víðara hugtak en stjórn konunga, auk þess sem Sesar gerðist ekki formlega konungur í Róm.

 

[14] Með hring er átt við heilt ferli sjálfstæðrar þjóðar í gegnum goðveldis-, hetju- og mannöld. Að því ferli loknu tekur nýr hringur við. Í fjórða hluta Hinna nýju vísinda birtist þó ákveðin mótsögn í þessu sambandi: Í seinni hringnum tilheyra hólmgöngur goðveldisöld hvað (10) dóma varðar en þær tilheyra einnig (11) tímabili hetjualdar; með síðarnefnda tímabilinu mun Vico einkum hafa haft miðaldir í Evrópu í huga.

 

[15] Þessi afstaða er í samræmi við eftirfarandi yfirlýsingu í lok fyrsta hluta verksins: „[Þ]ar eð guðleg forsjón hefur komið þeim þannig fyrir urðu stofnanir þjóðanna, verða þær og munu þróast eins og rökstutt er í þessum Vísindum, jafnvel þótt óendanlegir heimar spryttu upp í eilífðinni, nokkuð sem er örugglega ekki tilfellið.“ (348)

 

[16] Leon Pompa telur þessa svartsýni Vicos stafa af því að hann álíti ímyndunaraflið og skynsemina ekki rúmast á sama tíma hjá einni og sömu þjóðinni. Sú grunnregla stangist þó á við greiningu hans sjálfs á ýmsum söguskeiðum: Á t.d. goðveldisöld, þegar ímyndunaraflið á að vera ráðandi í hugum fólks, beita lægri stéttir engu að síður skynsemi sinni til þess að hafna guðlegu tilkalli ráðandi stétta til valda. Ef þessir tveir ólíku þættir hugarstarfseminnar útiloka ekki hvor annan þarf Vico því ekki að óttast að öll samfélagstengsl rofni á mannöld, þegar skynsemin ræður för. Ég er þó ekki viss um að þetta dæmi eitt og sér dugi til þess að rökstyðja mál Pompa. Sjá: Leon Pompa: „Vico, Giambattista“, Routledge Encyclopedia of Philosophy. v. 9. Sociology of knowledge to Zoroastrianism, Routledge: London og New York 1998, s. 599-606. 

 

[17] Giambattista Vico: Princìpi di scienza nuova, s. 510.

 

[18] „Löggjöfin metur manninn eins og hann er til þess að nýta hann í góða þágu í mannlegu samfélagi: úr grimmd, ágirnd og metnaði, þeim þremur löstum sem eru ávallt til staðar hjá mannkyninu, býr hún þannig til hermennsku, verslun og stjórnmál og þar með styrk, auð og visku ríkisins; og úr þessum þremur höfuðlöstum, sem gætu hæglega eytt mannkyninu á jörðu, kemur hún á samfélagslegri hamingju. Þessi regla sannar að guðleg forsjón sé til staðar og að hún sé guðlegur löggefandi hugur sem hafi gert úr ástríðum mannanna, sem leita allir eigin hags og myndu ella lifa sem villidýr í óbyggðum, þjóðfélagslegar stofnanir er tryggja að þeir lifi í mannlegu samfélagi.“ (132-133) Sama rit, s. 79-80.

 

[19] Max Harold Fisch: „Introduction“, The Autobiography of Giambattista Vico, s. 63.

 

[20] Leon Pompa: Vico. A study of the ‘New Science’, s. 51-56. Heimspeki Vicos er að því leyti kaþólsk að hún viðurkennir frelsi mannsins. Vandinn er hins vegar sá hvernig gera megi grein fyrir því að guðleg forsjón sé að verki í sögunni án þess að hún skerði þetta frelsi.

 

[21] Frederick Vaughan: The Political Philosophy of Giambattista Vico. An Introduction to La Scienza Nuova, Martinus Nijhoff: Haag 1972, s. 19-27. Dæmi um þessa lymsku sér Vaughan einnig í því að Vico geri enga heiðarlega tilraun til þess að rökstyðja af hverju þróunin sem allar þjóðir fylgi eigi ekki að gilda um hina útvöldu þjóð gyðinga. Vico geri þessa undantekingu bersýnilega til þess eins að verða ekki sakaður um guðlast. (Sama rit, s. 27-33.)

 

[22] Jonathan I. Israel: Enlightenment Contested. Philosophy, Modernity, and the Emancipation of Man 1670-1752, Oxford University Press: Oxford, New York 2006, s. 528-537.

 

[23] Leon Pompa: Vico. A study of the ‘New Science’, s. 56-61.