Tag Archives: crime

Réttur til réttargæslumanns. Þjóna skilyrðin vilja löggjafans?

Réttindi brotaþola hafa verið mikið í umræðunni og þá einkum hvernig unnt er að bæta stöðu og réttindi þeirra. Miklar umbætur hafa átt sér stað í þágu brotaþola og vega þar þungt ákvæði laga nr. 61/2022 um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Með lögunum var réttarstaða brotaþola bætt til muna en skilyrðin fyrir því að brotaþoli fái tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann sér til aðstoðar eru óbreytt þrátt fyrir aukið vægi réttar­gæslu­manna. Lögin setja því áfram sömu skilyrði fyrir skipun réttargæslumanna. Þörf er á að endurskoða þessi skilyrði og þá einkum hvað varðar þolendur ofbeldis í nánum samböndum.

Fjallað verður um hverjir falla undir hugtakið brotaþoli og stöðu og hlutverk réttar­gæslu­­manns. Ekki verður farið sérstaklega yfir réttindi brotaþola að öðru leyti en hvað varðar rétt þeirra til réttargæslumanns. Jafnframt verður aðeins fjallað um hlutverk réttargæslu­manns að því leyti sem nauðsynlegt er til að varpa ljósi á mikilvægi réttar brotaþola til þess að njóta liðsinnis réttargæslumanns. Ekki er því um tæmandi talningu að ræða á réttindum brotaþola eða hlutverki og réttindum réttargæslumanns þar sem það er efni í aðra og umfangsmeiri grein. Áherslan er því lögð á að svara því hvaða skilyrði brotaþolar þurfa að uppfylla til að eiga rétt á liðsinni réttargæslumanns.

Varpað verður ljósi á það hverjir geta fengið tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann því að ekki eiga allir brotaþolar möguleika eða rétt á að fá réttargæslumann til að gæta hagsmuna sinna. Farið verður yfir þau skilyrði sem brotaþolar þurfa að uppfylla til að fá réttargæslumann, en skilyrðin eru mismunandi eftir því hvers eðlis brot er og geta einnig verið mismunandi eftir aldri brotaþola. Fjallað verður um þau skilyrði sem sett eru í lögum varðandi tilnefningu og skipun réttargæslumanns og svo dómaframkvæmd hvað þetta varðar til að varpa ljósi á það hvernig dómstólar hafa túlkað skilyrði laganna fyrir þessum réttindum brotaþola. Niðurstöður verða því næst dregnar saman og lagðar fram tillögur að úrbótum í þágu brotaþola og þá einkum þolenda ofbeldis í nánum samböndum.

 

  1. Brotaþoli

Brotaþoli er sá aðili sem afbrot beinlínis bitnar á eða misgert er við.[1] Aðrir verða ekki taldir brotaþolar í skilningi laga en þeir sem afbrot hefur beinlínis beinst að. Brotaþoli vísar til þess að viðkomandi aðili sé þolandi brots sem þykir ekki alls kostar heppilegt því að ekki er alltaf staðfest að viðkomandi hafi orðið fyrir misgerð af völdum brots.[2] Í raun er hugtakið notað í víðtækri merkingu í lögum þar sem það nær ekki aðeins til þeirra sem sannað þykir að hafi orðið fyrir broti heldur einnig til þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir broti eða eru af öðrum taldir hafa orðið fyrir broti, án þess að sönnur hafi verið færðar á það fyrir dómi.[3] Brotaþoli er því notað jöfnum höndum yfir þá sem ljóst er að hafi orðið fyrir broti og þá sem taldir eru hafa orðið fyrir broti eða kveðjast hafa orðið fyrir broti og því ekki rétt að tala um meintan brotaþola þar sem skilgreining hugtaksins nær bæði yfir staðfest og óstaðfest brot.

Hugtakið brotaþoli var fyrst tekið upp í þágildandi lögum um meðferð opinberra mála nr. 91/1991.[4] Hugtakið var þá aðeins notað á einum stað í lögunum en ekki skilgreint sérstak­lega. Með lögum nr. 36/1999 um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 frá 26. mars 1991, með síðari breytingum, var réttarstaða brotaþola styrkt þegar kafla um brotaþola og réttargæslumann var bætt við lögin, en hugtakið brotaþoli var þó ekki skýrt eða skilgreint sérstaklega. Hæstiréttur lagði það til grundvallar að brotaþoli skv. lögum nr. 91/1991 væri sá sem nyti refsiverndar samkvæmt lögum.[5] Skilgrein­ing hugtaks­ins kom ekki fram í lögum fyrr en við gildistöku laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 (sml.). Þar sem rík réttaráhrif tengjast hugtakinu brotaþoli þótti rétt að skilgreina hugtakið í lögun­um[6] og er það gert í 1. mgr. 39. gr. laganna:

Brotaþoli er sá maður sem kveðst hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots. Enn fremur sá maður sem telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af refsiverðri háttsemi, enda hafi hún beinst að honum sjálfum, eða lögaðili sem sagður er hafa beðið slíkt tjón.

 

  1. Réttargæslumenn og hlutverk þeirra

Réttargæslumaður er málsvari brotaþola í sakamáli.[7] Heimild til tilnefningar og skipunar réttargæslumanns var fyrst lögfest hér á landi með lögum nr. 36/1999, en brotaþolar í hinum norðurlöndunum nutu þegar þessara réttinda og var Ísland því síðast norðurlandanna til að lögfesta þennan rétt brotaþola til aðstoðar lögmanns á ábyrgð ríkisins.[8]

Réttargæslumaður skal tilnefndur eða skipaður úr hópi lögmanna skv. 44. gr. sml., sbr. 33. gr. sömu laga. Hlutverk réttar­gæslu­­manns er skv. 1. mgr. 45. gr. sml. að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur fyrir hans hönd. Frekar er ekki fjallað um hlutverk réttargæslumanna í lögunum, enda þótt hlutverk og réttindi réttargæslumanna væru aukin með lögum nr. 61/2022, um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda).[9]

Fyrir gildistöku laga nr. 61/2022 hafði réttargæslumaður fyrst og fremst það hlutverk á rannsóknarstigi að vera tengiliður brotaþola við lögreglu og liðsinna honum við skýrslu­töku og í samskiptum við lögreglu vegna rannsóknar málsins. Þá var réttargæslu­mað­ur jafnframt málsvari brotaþola við rannsókn máls og sá, eins og áður hefur verið nefnt, um framsetningu einkaréttarkrafna fyrir hönd brotaþola. Þá veitti réttar­gæslumaður brotaþola liðsinni við að kæra ákvarðanir lögreglu eða ákæruvalds, s.s. um að hætta rannsókn máls eða niðurfellingu máls að öðru leyti, sbr. 6. mgr. 52. gr. sml. Fyrir dómi var hlutverk réttar­gæslu­manns fyrst og fremst að fylgja eftir bótakröfu brota­þola, ef slík krafa lá fyrir í málinu, og gæta hagsmuna hans, t.d. varðandi kröfu um að ákærði viki á meðan brotaþoli gæfi skýrslu fyrir dómi eða kröfu um að þinghöld væru lokuð og gæta þá hagsmuna brotaþola því að í þeim tilfellum hafði brotaþoli ekki rétt á að vera viðstaddur þinghöld þar sem hann er ekki aðili máls. Réttindi réttargæslumanns voru bundin því að vera viðstaddur öll þing­höld í málinu og tjá sig um einkaréttarkröfu brotaþola, en ekki beina spurningum til þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi, þ.e. annarra en þess brotaþola er hann var skipaður fyrir. Réttargæslumaður gat þó beint því til fulltrúa ákæruvalds að beina spurningum til ákærða eða vitna. Réttargæslumaður gegndi því eins konar aukahlutverki í málinu í samanburði við fulltrúa ákæruvalds og verjanda.[10]

Eftir gildistöku laga nr. 61/2022 var brotaþolum veitt aukin aðkoma að málum. Þeir  hafa enn stöðu vitnis og eru ekki aðilar máls en hafa á hinn bóginn sterkari stöðu en önnur vitni. Brotaþolum er nú heimilt að vera viðstaddir lokuð þinghöld eftir að þeir hafa gefið skýrslu fyrir dómi, skv. 3. mgr. 10. gr. sml., nema dómari telji sérstakar ástæður mæla gegn því. Hluti af sterkari stöðu brotaþola og aukinni aðkomu felst í auknu hlutverki og heimildum réttargæslu­manna. Þannig eiga réttargæslumenn nú sama rétt til afhend­ing­ar gagna og verjendur, nema sérstakar aðstæður mæli gegn því, en brotaþolar njóta sama réttar til aðgangs að gögnum ef þeir njóta ekki aðstoðar réttargæslumanns, sbr. 47. gr. sml. Þá getur réttar­gæslu­maður beint því til lögreglu að brotaþoli, sakborningur eða vitni séu spurð um tiltekin atriði á rannsóknarstigi. Fyrir dómi getur réttargæslumaður lagt fyrir spurningar í tengslum við einkaréttarkröfur og jafnframt stuttar og gagnorðar spurn­ingar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi um atriði sem varða annað en einkaréttarkröfur, sbr. 46. gr. sml. Þessi réttur er bundinn við réttargæslumann eða lögmann brotaþola og hefur brotaþoli sjálfur því ekki þennan rétt.[11] Með sterkari stöðu og réttindum brotaþola til aðkomu að máli vegna brota gegn þeim má ætla að brotaþolar hafi jafnframt ríkari þörf fyrir löglærðan málsvara til að liðsinna þeim við rekstur málsins, en skilyrðum fyrir tilnefningu eða skipun réttargæslu­manns var ekki breytt, nema aðeins hvað varðar rétt til þess að fá skipaðan réttar­gæslu­mann fyrir æðri dómi, sbr. 2. og 3. mgr. 42. gr. sml.

Brotaþoli geti þó ráðið á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna og hefur sá lögmaður sömu réttindi og skyldur og réttargæslumaður eftir því sem við á, sbr. 43. gr. sml. Kostnaður vegna vinnu réttargæslumanns fellur undir sakarkostnað og munar það því miklu fyrir fjárhagslega áhættu brotaþola hvort hann fær tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann eða hvort hann þarf að ráða lögmann á eigin kostnað en ljóst er að ekki hafa allir brotaþolar efni á að ráða sér lögmann á eigin kostnað.

  

  1. Skilyrði fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns

Brotaþolar geta átt rétt á að fá réttargæslumann sér til aðstoðar. Það eiga þó ekki allir brotaþolar rétt á að njóta liðsinnis réttargæslumanns því að ákveðin skilyrði eru fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns, sbr. 41. og 42. gr. sml.

3.1. Þróun skilyrða fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns

Með áðurnefndum lögum nr. 36/1999, var lögfestur réttur brotaþola til þess að fá tilnefnd­an eða skipaðan réttargæslumann til að aðstoða brotaþola og gæta hagsmuna hans í máli vegna brots eða brota gagnvart honum, að ákveðnum skilyrðum uppfyllt­um.[12]

Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 36/1999 var upphaflega mælt fyrir um skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef rannsókn máls beindist að broti gegn XXII. kafla almennra hegningar­laga og brotaþoli hefði ekki náð 18 ára aldri við upphaf rann­sókn­ar. Þá var jafnframt mælt fyrir um skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslu­mann ef rannsókn beindist að broti á XXII., XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.-253. gr. laganna og brotaþoli eða lögráðamaður hans óskaði þess og ef ætla mætti að brotaþoli hefði orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og hefði að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Þá var lögreglu jafnframt heimilað að tilnefna brotaþola réttargæslumann án beiðnar brotaþola eða lögráðamanns ef skilyrði voru fyrir tilnefningu og brotaþoli væri sérstaklega sljór eða skilningslítill. Þá var jafnframt mælt fyrir um að ef lögregla léti hjá líða að tilnefna brotaþola réttargæslumann gæti hann eða lögráða­maður hans leitað atbeina dómara og óskað skipunar réttargæslu­manns. Þegar skilyrði væru til þess að tilnefna réttar­gæslu­mann skyldi dómari skipa brotaþola réttar­gæslu­mann þegar mál hefur verið höfðað.[13]

Þegar frumvarpið var lagt fram hafði Neyðarmóttaka vegna nauðgunar veitt þolendum sem þangað leituðu kost á aðstoð lögmanns án endur­gjalds.[14] Slík þjónusta hafði þá verið í boði í fimm ár og töldu lögmenn sem þar störfuðu við hagsmunagæslu fyrir þolend­ur nauðsyn­legt að tryggja öllum þolendum kynferðisbrota, annarra en blygð­unar­semisbrota, skýlausan rétt til aðstoðar réttargæslu­manns. Lögmennirnir bentu á það í umsögn sinni um frumvarpið að erfitt væri að koma auga á þau tilvik sem ekki uppfylltu skilyrði um að brotaþoli hefði orðið fyrir verulega tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði og þyrfti sérstaka aðstoð réttargæslumanns þegar um væri að ræða brot á 194.-199. gr. almennra hegning­ar­laga og lögðu því fram tillögu að breytingu á ákvæði frumvarpsins, sem veitti þolendum þeirra brota skýlausan rétt til réttargæslu­manns ef þolandi óskaði þess.[15] Þá velti Barna­verndarstofa því upp hvort ekki væri rétt að skyldan til skipunar réttargæslumanns fyrir þolendur næði til allra barna sem væru þolendur ofbeldisbrota, en ekki aðeins þolenda kynferðisbrota.[16]

Við meðferð frumvarpsins í þinginu lagði allsherjarnefnd til í nefndaráliti sínu að tekin yrðu af öll tvímæli um að lögreglu væri ávallt skylt að tilnefna brotaþola réttargæslu­mann ef brotaþoli óskaði þess og rannsókn beindist að kynferðisbroti.[17] Nefndin lagði því fram tillögu að breytingu á ákvæði frum­varps­­ins hvað þetta varðar.[18] Sú breyting var tekin upp í frumvarpið eftir aðra umræðu í þinginu[19] og var það samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.[20]

Skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns voru óbreytt fram að gildistöku laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sem tóku við af lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í upphaflegu frumvarpi að lögum nr. 88/2008 var ekki gert ráð fyrir breytingum á skilyrðum fyrir tilnefningu eða skipun réttargæslumanns.[21] Gerðar voru athugasemdir við þetta í umsögn­um um frumvarpið og benti Barnaverndarstofa á að æskilegt væri að öll börn sem væru þolendur ofbeldisbrota ættu að eiga rétt til aðstoðar réttargæslu­manns.[22] Ekki var litið til þessarar athugasemdar, en allsherjarnefnd lagði til að skilyrðum fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns yrði breytt til að styrkja enn frekar réttarstöðu þolenda heimilis­ofbeldis, en skilyrðið um að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu var þó jafnframt áréttað í nefndaráliti með breytingar­tillögunni. Nefndin lagði til að bætt yrði við tilvikum þar sem brot er framið af aðila sem er nákominn brotaþola við upptalningu á þeim tilfellum sem skylt væri að tilnefna brotaþola réttargæslumann.[23] Nefndin lagði til eftirfarandi breytingu á 2. mgr. 41. gr. frumvarpsins:

Skylt er lögreglu endranær eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttar­gæslu­­mann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningar­laga eða 251.-253. gr. laganna og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverj­um sem er honum nákominn. Það er skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslu­manns samkvæmt þessari málsgrein að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.[24]

Breytingartillagan var tekin upp í frumvarpið eftir 2. umræðu,[25] og var það samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.[26] Skilyrðin hafa verið óbreytt frá þeim tíma, að því undan­skildu að með lögum nr. 61/2022 bættist við heimild til að tilnefna fyrirsvarsmanni látins einstaklings réttargæslumann.[27] Þá var réttur brota­þola til skipunar réttargæslumanns við málsmeðferð fyrir æðri dómi styrkt með því að auka við heimildir til skipunar réttar­gæslu­manns óháð því hvort dómur hefði verið lagður á einkaréttarkröfu brotaþola[28] og er það vel, en skilyrðum fyrir tilnefningu eða skipun var ekki breytt að öðru leyti.

Enginn umsagnaraðila málsins benti á mikilvægi þess að breyta grunnskilyrðum fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns. Ástæða þess gæti verið sú að grunninn að lögum nr. 61/2022 má rekja annars vegar til greinargerðar Hildar Fjólu Antons­dóttur, Réttlát máls­með­­ferð með tilliti til þolenda kynferðisbrota, og hins vegar til Skýrslu starfshóps um með­ferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða.[29] Báðar þessar skýrslur fjalla um þolendur kynferðis­brota, en réttur þeirra til réttar­gæslu­manns er vel tryggður í lögum. Það er staða þolenda ofbeldis í nánum samböndum hins vegar ekki. Þrátt fyrir að við setningu laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 hafi skilyrðunum verið breytt til að styrkja stöðu þessara brotaþola.

3.2. Túlkun dómstóla á skilyrðum fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns

Réttur þolenda kynferðisbrota til réttargæslumanns er skýr skv. 1. mgr. 41. sml. hvort sem um er að ræða fullorðna eða börn og hefur því ekki leikið vafi á um rétt til tilnefningar eða skipunar réttargæslu­manns í þeim tilfellum. Það virðist hins vegar nokkuð matskennt hvernig dómstólar meta skilyrði fyrir skipun réttar­gæslu­manns skv. 2. mgr. 41. gr. sml.

Skilyrðið um að um sé að ræða brot á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.–253. gr. laganna er skýrt. Engu að síður sést í dómaframkvæmd að dómstólar hafa í einhverjum tilfellum skipað réttargæslumenn þó að skilyrðið sé ekki uppfyllt.[30] Skilyrðið er ekki matskennt og þykir því ekki ástæða til að fjalla um það sérstaklega. Hin tvö skilyrðin, þ.e. að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn og að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu, eru þó matskennd og hefur helst reynt á þau í dómaframkvæmd.[31]

Alla jafna eru gerðar ríkar kröfur til þess að tjón á líkamlegu eða andlegu heilbrigði sé sannað og er algengt að skipun réttargæslumanns sé hafnað þar sem þetta skilyrði þykir ekki uppfyllt. Við mat á því hvort skilyrðið teljist uppfyllt er eðlilegt að líta til þess hvort áverkar séu meiri háttar. Þannig að ef um líkamsárás er að ræða má ætla að árásin þurfi að minnsta kosti að falla undir 218. gr. almennra hegningarlaga. Erfiðara er þó að leggja mat á alvarleika tjóns á andlegu heilbrigði en það dugir að um annað hvort sé að ræða, þ.e. verulegt tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði.[32] Það sést vel á þeim úrskurðum sem eru aðgengilegir í dómasafni hversu strangar kröfur eru gerðar hvað þetta varðar.

Í L 22. mars 2019 (205/2019) var ekki fallist á skipun réttargæslu­manns. Um var að ræða meiri háttar líkamsárás og byggði brotaþoli kröfu sína um skipun réttargæslu­manns á því að hann hefði orðið fyrir alvarlegum áverkum og bæri auk þess andleg mein eftir árásina og hefði verið metinn 10% öryrki. Þá væri hann jafnframt í viðkvæmri stöðu. Héraðsdómur kvað þó í úrskurði sínum að samkvæmt gögn­um málsins væri ljóst að brotaþoli hefði ekki orðið fyrir verulegu tjóni á lík­ama eða andlegu heilbrigði; það þyrfti að skýra þröngt og brotaþoli yrði að hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Héraðsdómari taldi hvorugt skilyrðið uppfyllt og hafnaði kröfu um skipun réttargæslumanns. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með vísan til þess að fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn bæru ekki með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skilyrði væru fyrir skipun réttargæslu­manns.

Sambærileg niðurstaða var í L 11. apríl 2018 (337/2018) þar sem Landsréttur hafnaði kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns á þeim grundvelli að læknisfræðileg gögn bæru ekki með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skylt væri að tilnefna viðkomandi réttargæslumann. Í málinu lágu þó fyrir tvö lækn­is­vottorð, annað frá slysa- og bráðadeild þar sem fram kom að brotaþoli hefði við árásina m.a. fengið heilamar á yfirborði vinstra heilahvels og hitt frá lækni þar sem farið var yfir fylgikvilla árásarinnar sem fólust í andlegri vanlíðan, vanda með skammtímaminni, verkjum, skertu langtímaminni o.fl. Brotið var heimfært undir 2. mgr. 218. gr. hgl. [33], þ.e. meiri­ hátt­ar líkamsárás. Þrátt fyrir þetta töldu dómarar, bæði í héraði og Landsrétti, að ekki lægju fyrir gögn sem bæru með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skilyrði væru fyrir skipun réttargæslumanns.[34]

Ljóst er samkvæmt áðurgreindum dómum að verulega strangar kröfur eru gerðar. Dæmi eru þó um annað. Í H 10. febrúar 2014 (74/2014) lagði Hæstiréttur það fyrir héraðsdómara að skipa brotaþola réttargæslumann þar sem sú háttsemi ákærða að ráðast með ofbeldi að brotaþola með því að taka um höfuð hans, maka og troða saur í andlit hans og munn og því næst slá hann tvisvar til þrisvar í höfuð og líkama þótti til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu heilbrigði brotaþola. Í málinu lágu fyrir tvö læknisvottorð þar sem fram kom að brotaþoli hefði eftir lýst atvik verið með áverka á efri vör sem hafði verið bólgin, verki í brjóstkassa og tognun í hægri öxl, en engin gögn lágu fyrir um að brotaþoli hefði orðið fyrir andlegu tjóni af völdum þeirrar háttsemi sem ákærða var gefin að sök. Hæstiréttur mat það þó svo að brotin væru til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu heilbrigði brotaþola og skilyrði væru því til þess að skipa brotaþola réttargæslumann.

Það er ljóst að dómstólar meta skilyrðin með misjöfnum hætti þar sem heilaskaði og minnis­truflanir í kjölfar meiri háttar líkamsárásar, sem hvort tveggja er staðfest með vott­orð­­um tveggja lækna, þótti ekki uppfylla skilyrði um verulegt tjón á líkama eða andlegu heilbrigði. Á hinn bóginn þótti minni háttar árás uppfylla skilyrðið þar sem Hæstiréttur mat það svo að árásin væri til þess fallin að valda tjóni á andlegu heilbrigði, þó engin læknisfræðileg gögn lægju til grundvallar um andlega heilsu brota­þola í kjölfar árásarinnar.

Eftir gildistöku sml. þarf ekki að uppfylla skilyrðið um verulegt tjón á andlegu eða líkamlegu heilbrigði ef brot er framið af einhverjum sem er nákominn brotaþola. Það þýðir að ef gerandi er nákominn brotaþola þá þarf brotaþoli ekki að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði til að uppfylla skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns. Þessari breytingu var, eins og áður hefur verið nefnt, ætlað að styrkja stöðu þolenda ofbeldis í nánum samböndum. Nokkur dæmi eru um að brotaþola sé neitað um skipun réttargæslumanns þegar um er að ræða brot í nánu sambandi á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði. Sá möguleiki er þó fyrir hendi að dómstólar vísi til þess að ekki liggi fyrir að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði til að rökstyðja að brotaþoli hafi ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns, en það kemur þó ekki skýrt fram.

Í H 8. júlí 2014 (468/2014) var kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns hafnað. Í forsendum var vísað til þess að ekki lægju fyrir læknisfræði­leg gögn er sýndu fram á að brotaþoli hefði orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, sambúð aðila hefði verið lokið þegar meint brot átti sér stað og bótakrafa lægi fyrir í málinu og brotaþoli nyti liðsinnis lögmanns við að fylgja þeirri kröfu eftir og því hefði hann ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Ljóst er þó að ef aðilar eru nákomnir er ekki þörf á að sýna fram á að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði. Þó svo að sambúð aðila hafi verið lokið áður en meint brot átti sér stað verður að telja aðila nákomna, en ætla má að nákominn skv. 2. mgr. 41. gr. sml. nái þar yfir sömu aðila og eru taldir upp í 218. gr. b hgl., en það ákvæði tekur til núverandi sem og fyrrverandi maka eða sambúðar­aðila.[35] Því ætti að vera ljóst að ekki reynir á skilyrðið um að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði, en eftir stendur að brotaþoli þótti ekki hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns.

Í L 24. janúar 2019 (49/2019) hafnaði héraðsdómur kröfu brotaþola um skipun réttar­gæslumanns þrátt fyrir að ljóst væri að brotaþoli og ákærði væru nákomin, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns og brotaþoli nyti þegar liðsinnis lögmanns við að halda uppi bótakröfu sinni. Landsréttur hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að læknisfræðileg gögn er lægju fyrir í málinu bæru ekki með sér að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum meints brots að skylt væri að tilnefna brotaþola réttar­gæslu­mann og með vísan til þess og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar var kröfunni hafnað. Þessi viðbótar­rökstuðningur Landsréttar vekur upp spurningar um það hvort Landsréttur taldi aðila ekki nákomna eða hvort Landsréttur liti svo á að þrátt fyrir að aðilar væru nákomnir þá þyrfti skilyrðið um verulegt tjón á líkama eða andlegu heilbrigði jafnframt að vera uppfyllt.

Í dómasafni er aðeins að finna þrjá dóma þar sem fallist er á skipun réttargæslumanns fyrir þolanda ofbeldis í nánu sambandi, þar af féll einn þeirra fyrir gildistöku sml. en það er H 2005:1795 (287/2005). Í því máli hafði lögregla neitað að tilnefna brotaþola réttar­gæslu­­mann og leitaði brotaþoli þá atbeina dómstóla og óskaði eftir því að sér yrði skip­aður réttargæslumaður. Héraðsdómur hafnaði kröfu brotaþola um skipun réttargæslu­manns á þeim grundvelli að þrátt fyrir að málsatvik bentu til þess að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns við rannsókn málsins þá yrði ekki séð að brotaþoli hefði orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og því væru ekki skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns þar sem uppfylla þyrfti bæði skilyrðin. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu og taldi að síendurtekið ofbeldi í nánu sambandi væri til þess fallið að valda þeim sem fyrir því yrði verulegu tjóni á andlegu heilbrigði og taldi þar með bæði skilyrðin uppfyllt og lagði fyrir héraðsdómara að skipa brotaþola réttargæslumann.

Í L 10. júní 2021 (377/2021) hafði héraðsdómur hafnað kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns. Læknisfræðileg gögn málsins báru með sér að brota­þoli hefði orðið fyrir verulegu heilsutjóni. Þá lá jafnframt fyrir að ein hinna ákærðu í málinu var barnsmóðir brotaþola. Héraðsdómur taldi þó ekki að sýnt væri fram á að brotaþoli hefði sérstaka þörf fyrir aðstoð réttargæslumanns þar sem ekki höfðu verið lögð fram gögn eða vottorð um ástand brotaþola, sem sýndi fram á að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttar­gæslu­manns. Auk þess nyti brotaþoli þegar liðsinnis lögmanns við að halda uppi bóta­kröfu sinni og þar af leiðandi væru skilyrði ekki uppfyllt. Landsréttur taldi brotaþola hins vegar hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns með vísan til vottorðs geðlæknis brotaþola.

Í L 29. mars. 2022 (165/2022) var ákært fyrir brot í nánu sambandi. Ákærða var gefið að sök að hafa ruðst inn á heimili barnsmóður sinnar og ráðist að henni þar sem hún hélt á tæplega mánaðargömlu barni þeirra, og kýlt hana ítrekað í andlitið uns hún datt fram fyrir sig með barnið í fanginu og sleppti þá tökum á barninu og ýtti því til á gólfinu undan árás ákærða sem hélt áfram að kýla og sparka í hana. Háttsemin var heimfærð undir 218. gr. b hgl. Krafist var skipunar réttar­gæslumann fyrir báða brotaþola, þ.e. móður og barn. Fallist var á skipun réttar­gæslu­manns fyrir barnið en héraðsdómur taldi ekki skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns fyrir móðurina þar sem ekkert lægi fyrir í málinu um að hún hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns og ekki yrði hjá því litið að hún nyti þegar aðstoðar lögmanns við að halda uppi bótakröfu sinni í málinu. Sú niður­staða var borin undir Landsrétt sem lagði fyrir héraðsdóm að skipa brotaþola réttargæslu­mann þar sem Landsréttur taldi brotaþola hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns í ljósi þess að meint brot væri alvarlegt og beindist að brotaþola þegar sem hún hélt á barnungri dóttur sinni. Þá væri ákvæði 218. gr. b sérstaklega ætlað að stuðla að aukinni vernd fyrir þá sem væru í veikri stöðu gagnvart þeim sem ofbeldinu beitti vegna náinna tengsla og hefðu þar af leiðandi þörf fyrir sérstaka aðstoð.[36] Í þessum úrskurði er veik staða þolenda ofbeldis í nánum samböndum viðurkennd og þar með þörf þeirra fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns.

Það dregur þó úr vægi þessa úrskurðar sem fordæmis að einn dómari af þremur skilaði sératkvæði þar sem hann taldi ekki forsendur til þess að skipa brotaþola réttargæslumann þar sem hvorki lægju fyrir gögn sem vísuðu til þess að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttar­gæslu­­manns né gögn um að brotaþoli hefði orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði að skylt væri að tilnefna brotaþola réttar­gæslumann og vísaði þar til niðurstöðu Hæstaréttar 15. maí 2017 (292/2017) og Lands­réttar 24. janúar 2019 (49/2019) og benti jafnframt á að brotaþoli nyti þegar aðstoðar lög­manns við að fylgja bótakröfu sinni eftir.

Í þeim úrskurðum og dómum sem aðgengilegir eru í dómasafni er ekki að finna niðurstöðu þar sem fallist er á skipun réttargæslumanns með tilvísun til áðurgreinds úrskurðar Landsréttar frá 29. mars 2022. Höfundur hefur vísað til áðurgreinds fordæmis til rökstuðnings kröfu um skipun sem réttargæslumaður þolanda ofbeldis í nánu sambandi og tvívegis hefur verið fallist á skipun höfundar sem réttargæslumanns þolanda ofbeldis í nánu sambandi með vísan til áðurgreindrar niðurstöðu Landsréttar til stuðnings þeirrar ákvörðunar.[37] Kröfum höfundar fyrir hönd brotaþola um skipan réttargæslumanns hefur einnig verið hafnað með vísan til dómaframkvæmdar og þá verið litið framhjá niðurstöðu LRD165/2022 þrátt fyrir að um sé að ræða brot í nánu sambandi.[38] Þessir úrskurðir eru þó ekki aðgengilegir í dómasafni og því erfitt að meta hvert gildi áðurgreinds úrskurðar Landsréttar er í raun, þar sem svo fáir úrskurðir varðandi skipun réttargæslu­manns eru birtir.

Kröfum brotaþola um skipun réttargæslumanns er oft hafnað á grundvelli þess að ekki sé sýnt að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns til að gæta hags­muna sinna. Ekki kemur fram í lögum hvað þarf til að þetta skilyrði sé uppfyllt, en í lögskýringargögnum er þó að finna vísbendingu um það. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 36/1999 segir um skilyrðið að ef önnur skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns séu uppfyllt verði að telja líklegt að brotaþoli þurfi á sérstakri aðstoð réttargæslumanns að halda, nema í undantekningartilvikum, s.s. ef óvíst er hver framdi brotið sem er til rannsóknar og þar af leiðandi ekki unnt að setja fram einkaréttarkröfu eða ef málsatvik eru tiltölulega einföld og brotaþoli er fær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur, nema staða hans sé bág, t.d. vegna ungs aldurs eða bágrar félagslegrar stöðu, eða hann sérstaklega sljór eða skilningslítill.[39]

Af dómaframkvæmd má ráða að ef aðilar eru ekki nákomnir er algengast að kröfum um skipun réttargæslumann sé hafnað á þeim grundvelli að skilyrðið um verulegt tjón á líkamlegu eða andlegu heilbrigði sé ekki uppfyllt.[40] Ef aðilar eru nákomnir er hins vegar algengast að kröfu um skipun réttargæslumanns sé hafnað á þeim grundvelli að brotaþoli hafi ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns,[41] sem er í raun í andstöðu við afstöðu löggjafans sem taldi að ef önnur skilyrði væru uppfyllt hefði brotaþoli alla jafna þörf fyrir sérstaka aðstoða réttargæslumanns. Þó má benda á að þessi afstaða löggjafans kemur fram í frumvarpi sem varð að lögum nr. 36/1999, þ.e. áður en skilyrðið um verulegt tjón á andlegu eða líkamlegu heilbrigði var undanþegið ef aðilar væru nákomn­ir. Það ætti þó ekki að hafa áhrif þar sem brot í nánu sambandi eru almennt til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði þess sem fyrir verður, eins og var niðurstaða Hæstaréttar í H 2005:1795 (287/2005).

Eins og hefur komið fram er þröskuldurinn varðandi verulegt tjón á andlegu og líkam­legu heilbrigði mjög hár að undanskildu mati Hæstaréttar í H 10. febrúar 2014 (74/2014). Þá er ekki litið til aukins hlutverks réttargæslumanns í kjölfar gildistöku laga nr. 61/2022 eða þeirra réttinda brotaþola sem fara forgörðum ef brotaþoli nýtur ekki liðsinnis réttargæslu­manns eða lögmanns í málinu þegar metið er hvort brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Því þó svo að réttindi brotaþola hafi verið aukin með lögum nr. 61/2022 var skilyrðum fyrir skipun réttargæslumanns við meðferð máls í héraði ekki breytt.

Í niðurstöðum dómstóla varðandi synjun um skipun réttargæslumanns er algengt að einnig sé vísað til þess að brotaþoli njóti þegar liðsinnis lögmanns við að fylgja eftir bótakröfu sinni í málinu.[42] Þessi rökstuðningur hefur ekki verið notaður einn og sér til þess að hafna kröfu brotaþola um skipun réttargæslumanns en honum hefur verið beitt samhliða öðrum rökum og þá einkum þeim að skilyrði um að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns sé ekki uppfyllt. Af því má draga þá ályktun að það dragi úr þörf brotaþola fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns ef brotaþoli nýtur þegar liðsinnis lög­manns. Ef það er raunin þá skítur það skökku við þar sem sá lögmaður sem vísað er til að liðsinni brotaþola við að fylgja eftir bótakröfu er alla jafna lögmaðurinn sem var tilnefndur sem réttargæslu­maður fyrir brotaþola á rannsóknar­stigi og aðstoðaði við framsetningu bótakröfu. Störf réttargæslu­manns á rannsóknar­stigi felast aðeins í að setja fram bótakröfu fyrir hönd brotaþola, en ekki fylgja henni eftir fyrir dómi. Þannig að ef brotaþola er synjað um skipun réttargæslumanns fyrir dómstólum þá verður brotaþoli að ráða lögmann á eigin kostnað hvort sem það er sami lögmaður og sinnti réttargæslu fyrir brotaþola á rannsóknarstigi eða annar, nema brotaþoli treysti sér til þess að halda sjálfur uppi bótakröfu sinni fyrir dómi.

Það er ekki sjálfgefið að þó svo að einkaréttarkrafa liggi fyrir í málinu að brotaþoli njóti liðsinnis lögmanns við að halda uppi kröfu enda eru á þessu stigi máls aðstæður aðrar en í upphafi ef skipun réttargæslumanns er ekki samþykkt því að þá ber brotaþoli sjálfur ábyrgð á kostnaði við að halda uppi bótakröfunni fyrir dómi. Ef ákærði er sakfelldur og brotaþola dæmdar bætur er ákærði alla jafna dæmdur til þess að greiða kostnað við að halda kröfunni uppi fyrir dómi. Ef ákærði er hins vegar sýknaður eða brotaþola ekki dæmdar bætur þá ber brotaþoli sjálfur ábyrgðina á kostnaði við að halda kröfunni uppi fyrir dómi. Það er áhætta sem ekki allir brotaþolar eru tilbúnir til að taka, en staða brotaþola er oft bág og þeir hafa ekki allir efni á að taka slíka áhættu eða treysta sér til að halda kröfunni til streitu án aðstoðar lögmanns.

 

Samantekt og niðurstöður

 Aðstoð réttargæslumanns er mikilvæg réttarbót fyrir brotaþola. Það er áríðandi að þolend­um alvar­legra brota, eins og kynferðisbrota og brota í nánum samböndum, standi til boða aðstoð sérfræðings til að gæta hagsmuna þeirra vegna meðferðar máls er varðar brot gagnvart þeim, án þess að þolendur þurfi að bera af því kostnað. Það er mikilvægt réttlætismál í velferðarríki að þolendur fái þá aðstoð er þeir þurfa án endur­gjalds, enda ekki réttlætanlegt að þolendur alvarlegra brota beri kostnað af því að gæta hagsmuna sinna vegna brota gagnvart þeim.

Þessi aðstoð er í boði fyrir alla þolendur kynferðisbrota án beiðni ef þolandi er undir 18 ára aldri þegar rannsókn hefst og fyrir þolendur eldri en 18 ára ef þeir óska þess eða ef lögregla eða dómstólar telja brotaþola ekki hæfan til að gæta hagsmuna sinna sem skyldi. Rekja má þennan skýlausa rétt þolenda kynferðisbrota til aðstoðar réttargæslumanns til umsagnar lögmanna á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar þar sem bent var á að erfitt væri að koma auga á þau tilvik þar sem þolandi kynferðisbrots skv. 194.-199. gr. hgl. hefði ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði og þyrfti þar af leiðandi sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Það sama má segja um þolendur ofbeldis í nánum sam­bönd­­um, þ.e. erfitt er að koma auga á þau tilvik þar sem þolandi endurtekins eða alvarlegs ofbeldis í nánu sambandi hefur ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heil­brigði og þarf af þeim sökum aðstoð réttargæslumanns. Staða þolenda endur­tekins eða alvar­legs ofbeldis í nánu sambandi er oftar en ekki mjög slæm. Þolandinn hefur í mörgum tilvikum búið við kerfis­bundið niðurbrot og er með brotna sjálfsmynd. Gerandi hefur jafnvel einangrað þolandann félagslega og fleira til að gera honum erfiðara um vik að standa á eigin fótum.

Þegar þolendur ofbeldis í nánum samböndum stíga fram og tilkynna að brotið hafi verið á þeim eru þeir oft ekki aðeins að tilkynna brotið heldur er gerandinn nákominn þeim og þeir eru jafnvel samhliða að slíta sambandi við gerandann. Þetta getur þýtt að þoland­inn eigi ekki í nein hús að venda þar sem hann getur ekki farið aftur heim til gerandans. Þolandinn þarf því mögulega að koma undir sig fótunum samhliða því að ganga í gegnum málsmeðferð í réttarvörslukerfinu sem eitt og sér getur verið mjög erfitt. Þá getur þolandi jafnframt þurft að þola áreiti, hótanir eða þrýsting frá geranda um að draga kæru til baka. Það er því mikið álag á þolendum. Þolendur ofbeldis í nánum samböndum eru í mjög veikri stöðu og hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns eins og Hæstiréttur komst að niðurstöðu um í H 2005:1795 (287/2005) og Landsréttur gerði í L 29. mars. 2022 (165/2022) en klofnaði að vísu í afstöðu sinni.

Höfundur telur þó meiri hluta Landsréttar hafa komist að réttri niðurstöðu sem er í samræmi við það markmið að styrkja stöðu þolenda ofbeldis í nánum sambönd­um. Þá ber að athuga að í sératkvæðinu er vísað til þess að ekki liggi fyrir að brotaþoli hafi „orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum ætlaðs brots að skylt sé að tilnefna henni réttargæslumann“. Eins og farið hefur verið yfir þarf ekki að sýna fram á verulegt tjón á líkama eða andlegu heilbrigði ef um er að ræða brot í nánu sambandi. Þá er rétt að árétta að réttargæslu­maður er skipaður fyrir dómi en tilnefndur af hálfu lögreglu og því reyndi ekki á tilnefningu heldur skipun réttargæslu­manns. Höfundur telur jafnframt að tilvísun til niðurstöðu Hæstaréttar 15. maí 2017 (292/2017) eigi ekki við þar sem skipun réttargæslumanns var hafnað í því máli þar sem ekki var sýnt fram á verulegt tjón á líkamlegu eða andlegu heilbrigði og aðilar virtust ekki í nánu sambandi og sú niðurstaða er því ekki fordæmisgefandi í máli Landsréttar. Það er því ekki rétt að synja þolanda ofbeldis í nánu sambandi um skipun réttargæslumanns á þessum grundvelli. Erfiðara er að hrekja rök dómarans um synjun um skipun réttar­gæslu­manns á grundvelli þess að ekki væri sýnt að brotaþoli hefði þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns og tilvísun dómarans til niðurstöðu Landsréttar 24. janúar 2019 (49/2019) þar sem stuðst er við dómafram­kvæmd. Höfundur telur dómstóla túlka of þröngt hvenær brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslu­manns.

Að óbreyttu telur höfundur litlar líkur á að þolendur ofbeldis í nánum sambönd­um fái skipaðan réttargæslumann í ljósi þessi að dómstólar hafa ítrekað hafnað beiðni þess efnis. Ætlun löggjafans um að bæta stöðu þolenda ofbeldis í nánum samböndum hefur því ekki náð fram að ganga nema að verulega takmörkuðu leyti. Dómstólar hafna að vísu ekki lengur kröfu um réttargæslumann vegna þess að brotaþoli hafi ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði heldur vegna þess að brotaþoli hafi ekki þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns. Því til stuðnings er algengt að vísað sé til þess að brotaþoli njóti þegar aðstoðar lögmanns við að halda uppi bótakröfu fyrir dómi. Með þessum rökum væri unnt að synja öllum um skipun réttargæslumanns þar sem allir ættu að geta fundið lögmann sér til aðstoðar.

Tímabært er að löggjafinn taki í taumana og tryggi réttindi umræddra þolenda til að njóta aðstoðar réttargæslumanns, ef þeir óska þess, líkt og gert var gagnvart þolend­um kyn­ferðis­brota með lögum nr. 36/1999. Það er brýnt að endurskoða þau skilyrði sem sett eru fyrir tilnefningu og skipun réttargæslumanns fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og tryggja þeim rétt til samræmis við rétt þolenda kynferðisbrota. Mikilvægt er að þessi viðkvæmi hópur fái nauðsynlega aðstoð við að gæta hagsmuna sinna, enda ótækt að ætla þeim að ráða lögmann á eigin kostnað í slíkum málum.

Hafa verður í huga að hlutverk réttargæslumanns er annað og meira en aðeins að setja fram einkaréttarkröfur, en með lögum nr. 61/2022 var staða þolenda bætt til muna, en hluti þeirra réttinda sem fengust með löggjöfinni eru háð því að brotaþoli hafi réttar­gæslu­mann eða lögmann sér til aðstoðar.

Þá er örðugt fyrir brotaþola að krefjast þess upp á eigin spýtur að þinghald sé lokað og að ákærði víki úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu. Auk þess vita brotaþolar alla jafna ekki af þessum möguleika nema þeir njóti aðstoðar sérfræðings sem leiðbeinir þeim og upplýsir þá um réttindi sín. Enn fremur hafa brotaþolar ekki rétt á að hlýða á vitnisburð ákærða og gæti þótt ákveðið öryggi í því að vita að þeirra fulltrúi sé þá viðstaddur þá skýrslugjöf og gæti að hagsmunum þeirra.

Einnig er tilefni til þess að skerpa á lagaákvæðum varðandi skipun réttargæslu­manns fyrir börn undir 18 ára aldri, sem eru þolendur ofbeldis og þá einkum heimilis­ofbeldis, vegna veikrar stöðu þeirra. Barnaverndarstofa benti á þetta í umsögn sinni um frumvarp sem varð að lögum nr. 36/1999 og aftur í umsögn um frumvarp sem varð að lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 og lagði í báðum tilvikum til að skyldan til að tilnefna börnum réttargæslumann næði til allra ofbeldisbrota. Þessar tillögur Barna­verndar­stofu náðu ekki fram að ganga. Það er þó reynsla höfundar að þröskuldurinn fyrir skipun réttargæslumanns sé lægri þegar kemur að börnum en fullorðnum, sem má að nokkru leyti sjá í úrskurði héraðs­dóms í L 29. mars 2022 (165/2022) þar sem fallist var á skipun réttargæslumanns fyrir hönd barnsins en ekki móðurinnar þó svo að ofbeldið hefði aðallega beinst að móður­inni.

Höfundur telur nauðsynlegt að taka skilyrði fyrir tilnefningu og skipun réttargæslu­manns til gagngerrar endurskoðunar, einkum hvað varðar börn og þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Þar sem réttindi þessara brotaþola til að fá réttar­gæslu­mann sér til aðstoðar eru ekki nægilega tryggð í lögum þrátt fyrir vilja löggjafans. Bregðast verður við því með því að skerpa á skilyrðunum í lögum og tryggja að þolendur ofbeldis í nánum sambönd­um fái þá aðstoð sem þeim er nauðsynleg og þeim var ætluð af löggjafanum.

 

Heimildaskrá

Eiríkur Tómasson. „Réttargæslumaður brotaþola“ í Guðrúnarbók, afmælisriti til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur, (Hið íslenska bókmenntafélag 2006), bls. 179-200.

Kolbrún Sævarsdóttir. “Réttarstaða brotaþola” í Bifröst, rit Lagadeildar Háskólans á Bifröst, (Háskólinn á Bifröst 2006), bls. 329-363.

Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum. (Bókaútgáfan CODEX – Lagastofnun Háskóla Íslands 2008).

 

Lög og þingskjöl

Alþingistíðindi 1998-1999, 123. löggjafarþing. A.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þingskjal 482.

Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 2. mars 1999, þingskjal 969.

Breytingartillaga, þingskjal 970.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þingskjal 1026.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þingskjal 1145.

Alþingistíðindi 2007-2008, 135. löggjafarþing. A.

Frumvarp til laga um meðferð sakamála, þingskjal 252.

Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 26. maí 2008, þingskjal 1153.

Breytingartillaga, þingskjal 1154.

Frumvarp til laga um meðferð sakamála, þingskjal 1287.

Alþingistíðindi, vefútgáfa.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þingskjal 741 á 152. löggjafarþingi 2021-2022. Vefútgáfa Alþingis­tíðinda, Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/152/s/0741.html

Lög nr. 91/1991um meðferð opinberra mála. (brottfallin)

Lög nr. 36/1999 um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála nr. 91/1991. (brottfallin)

Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Lög nr. 61/2022 um breytingar á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga.

Umsögn lögmanna er starfa á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. (1999) Mál nr. 354 á 123. löggjafarþingi 1998-1999, dags. 16. febrúar 1999, dagbókarnúmer 1031. Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1031.pdf.

Umsögn Barnaverndarstofu. (1999) Mál nr. 354 á 123. löggjafarþingi 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dagbókarnúmer 1033. Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1033.pdf

Umsögn Sifjar Konráðsdóttur hdl. (1999) Mál nr. 354 á 123. löggjafarþingi 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dagbókarnúmer 1034. Sótt 27.5.2023 af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1034.pdf

Umsögn Barnaverndarstofu. (2008) Mál nr. 233 á 135. löggjafarþingi 2007-2008, dags. 22. janúar 2008, dagbókarnúmer 1241. Sótt 28.5.2023 af  https://www.althingi.is/altext/erindi/135/135-1241.pdf

 

Dómar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 287/2005, H 2005:1795.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 411/2010, sem kveðinn var upp 28. júní 2010.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 74/2014, sem kveðinn var upp 10. febrúar 2014.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 468/2014, sem kveðinn var upp 8. júlí 2014.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 68/2017, sem kveðinn var upp 7. febrúar 2017.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 227/2017, sem kveðinn var upp 10. apríl 2017.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 292/2017, sem kveðinn var upp 15. maí 2017.

Dómur Landsréttar í máli nr. 337/2018, sem kveðinn var upp 11. apríl 2018.

Dómur Landsréttar í máli nr. 49/2019, sem kveðinn var upp 24. janúar 2019.

Dómur Landsréttar í máli nr. 205/2019, sem kveðinn var upp 22. mars. 2019.

Dómur Landsréttar í máli nr. 377/2021, sem kveðinn var upp 10. júní 2021.

Dómur Landsréttar í máli nr. 165/2022, sem kveðinn var upp 29. mars 2022.

Dómur Landsréttar í máli nr. 792/2022, sem kveðinn var upp 16. desember 2022.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-38/2022, sem kveðinn var upp 4. maí 2022.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-65/2023, sem kveðinn var upp 15. apríl 2023.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-1240/2023, sem kveðinn var upp þann 29. September 2023.

 

Aftanmálsgreinar

[1] Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 66.

[2] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 252. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 1423-1424.

[3] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“ bls. 180.

[4] Lögin voru felld úr gildi með lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 233. gr. laganna

[5] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 179 og 181.

[6] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 252. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 1398.

[7] Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 344.

[8] Kolbrún Sævarsdóttir: „Réttarstaða brotaþola“ bls. 340

[9] Hér eftir aðeins vísað til laga nr. 61/2022.

[10] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 192-195.

[11] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þskj. 741 á 152. lögþ. 2021-2022.

[12] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 179.

[13] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 482. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 2309.

[14] Umsögn Sifjar Konráðsdóttur hdl. (1999) Mál nr. 354 á 123. lögþ. 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dbnr. 1034. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1034.pdf.

[15] Umsögn Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. (1999) Mál nr. 354 á 123. lögþ. 1998-1999, dags. 16. febrúar 1999, dbnr. 1031. Sótt af https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1031.pdf.

[16] Umsögn Barnaverndarstofu. (1999) Mál nr. 354 á 123. lögþ. 1998-1999, dags. 19. febrúar 1999, dbnr. 1033. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/123/123-1033.pdf.

[17] Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 2. mars 1999, þskj. 969. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: bls. 3905.

[18] Breytingartillaga, þingskjal 970. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 3906.

[19] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 1026. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 4064.

[20] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 1145. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 4443.

[21] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 252. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 1424.

[22] Umsögn Barnaverndarstofu. (2008) Mál nr. 233 á 135. lögþ. 2007-2008, dags. 22. janúar 2008, dbnr. 41. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/135/135-1241.pdf.

[23] Nefndarálit allsherjarnefndar, dags. 26. maí 2008, þskj. 1153. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6020.

[24] Breytingartillaga, þskj. 1154. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6026.

[25] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 1287. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6418.

[26] Frv. til laga um meðferð sakamála, þskj. 1287. Alþtíð. 2007-2008, 135. lögþ. A: 6509.

[27] 4. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

[28] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þskj. 741 á 152. lögþ. 2021-2022.

[29] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), 518. mál, þskj. 741 á 152. lögþ. 2021-2022.

[30] Sbr. t.d. H 9. desember 2004 (326/2004) og H 13. maí 2020 (11/2020).

[31] Með dómaframkvæmd er annars vegar átt við þá úrskurði sem gengið hafa um skipun réttargæslumanns og eru greinar­höfundi aðgengilegir í dómasafni og hins vegar úrskurði sem eru greinarhöfundi aðgengilegir vegna lögmannsstarfa höfundar. Það er þó staðreynd að ekki er alltaf úrskurðað sérstaklega um skipun og jafnvel þó svo að úrskurðað sé um skipun þá er aðeins brot af úrskurðunum birt í dómasafni. Þeir úrskurðir sem birtir eru teljast endurspegla ríkjandi dómaframkvæmd.

[32] Eiríkur Tómasson: „Réttargæslumaður brotaþola“, bls. 187.

[33] Almenn hegningarlög nr. 19/1940.

[34] Landsréttur vísaði jafnframt til H 15. maí 2017 (292/2017) til stuðnings niðurstöðu sinni, en þar hafði Hæsti­réttur staðfest úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu brotaþola um skipun réttargæslu­manns þar sem hvorki áverkar né staða brotaþola gæfi til kynna að brotaþoli hefði sérstaka þörf fyrir aðstoð réttargæslu­manns þrátt fyrir að líkams­árásin hefði verið alvarleg.

[35] Ákvæði 218. gr. b hafði ekki verið lögfest á þessum tíma, en í 3. mgr. 70. gr. hgl. er einnig vísað til nákominna, en það ákvæði tók gildi 2006 og vísar það skv. lögskýringargögnum til bæði núverandi og fyrrverandi maka.

[36] L 165/2022, 6. mgr.

[37] Í úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-38/2022, sem kveðinn var upp þann 4. maí 2022 og í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-1240/2023, sem kveðinn var upp þann 29. september 2023, var fallist á skipun réttargæslumanns þolanda ofbeldis í nánu sambandi og vísað til Lrd. 165/2022 til stuðnings þeirri niðurstöðu.

[38] Í L 16. desember 2022 (792/2022) og í máli nr. S-65/2022, var skipun hafnað, en í báðum tilvikum voru brotaþolar nákomnir ákærða.

[39] Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum, þskj. 482. Alþtíð. 1998-1999, 123. lögþ. A: 2309.

[40] Sbr. H 28. júní 2010 (411/2010), H 7. febrúar 2017 (68/2017), H 10. apríl 2017 (227/2017), H 15. maí 2017 (292/2017), L 11. apríl 2018 (337/2018) og L 22. mars. 2019 (205/2019).

[41] Sbr. H 8. júlí 2014 (468/2014), L 24. janúar 2019 (49/2019) og L 16. desember 2022 (792/2022).

[42] Sbr. H 8. júlí 2014 (468/2014), H 7. febrúar 2017 (68/2017), H 15. maí 2017 (292/2017), L 11. apríl 2018 (337/2018), L 24. janúar 2019 (49/2019), L22. mars. 2019 (205/2019) og L 16. desember 2022 (792/2022).

Us vs. Them: Ideology and Discourse

No one said the “East” or the “Reds” or the “Soviets” or the “Russians” any more. That  would have been too confusing, since some of Them weren’t of the East, weren’t Reds, Soviets and especially not Russians. It was much simpler to say We and They, and much more precise. Travelers had frequently reported that They did the same in reverse. Over there They were “We” (in the appropriate language) and We were “They”

(I. Asimov, Let’s get together, «Infinity Science Fiction», 2, 1957: 66-7).

 

The question I ask myself about the Us vs. Them polarisation is apparently simple. The phrase is certainly a divisive and adversial but: can it only mean a desire to overcome and subjugate, or is it possible to remark on differences between groups of people without necessarily assume conflict and abuse? In the quoted short story, Asimov wrote:

At the beginning, it had been called a Cold War. Now it was only a game, almost a good-natured game, with unspoken rules and a kind of decency about it (Ibidem: 67).

In sports and in playgrounds, the meaning of “Us vs. Them” is straightforward: teams competing to win a game. Sometimes the competition is fierce, but it is always regulated by precise rules, and characterized by mutual respect. Teams can be assembled, disassembled, and reassembled without any negative consequences on the single members of either team: it is matter of agonism, not antagonism. Except for The Paul Street boys – but that was a war game. And in wars competition is violent and the opponent is an enemy to be killed, as well as defeated.

We do not need to quote Machiavelli or Lionardo in the Libri della famiglia (The Family in Renaissance Florence) by Leon Battista Alberti, to note that some traditional games for boys have been interpreted as a preliminary exercise to prepare for war.

My question is, therefore: can a group of people feel different from another group of people without necessarily feel superior? Or is any difference implicitly – if not openly – discriminatory? When does equality in difference become inequality, and how? Is this inevitable?

Social psychology studies about diversity and prejudice offer no univocal answer. Many theories analyse stereotyping processes according to the cognitive-motivational approach. Some focus on the contrast between a deeper prejudice (someone could describe it as innate, but I prefer implicit) and controlled beliefs. Patricia Devine pointed out the phenomenon of ambivalence (see Devine 2012). Acknowledging the existence of implicit prejudice even in those individuals who deliberately refuse prejudice – be it racial, sexist or homophobic – is a necessary step to develop containment and control strategies. Devine and Cox, who prefer to define the implicit bias as unintentional bias, try to demonstrate «that unintentional bias is like a habit that can be broken with sufficient motivation, awareness, and effort». Moreover «the habit-breaking intervention produces enduring changes in peoples’ knowledge of and beliefs about race-related issues». And about bias reduction strategies they write: «We believe … that the prejudice habit-breaking intervention causes its recipients to recognize bias and its consequences for minorities, then address it in the world around them» (Forscher, Mitamura, Dix, Cox, Devine 2017). If biases are as manageable as habits, they can be overcome just like bad habits.

Social Dominance Orientation theorists seem less optimistic: according to them, in hierarchical societies, such as modern industrial and post-industrial societies, individual minds are permeated with prejudice (Sidanius-Pratto 1999). The Social Dominance Theory, developed in the ’90s, recently experienced a revival in relation to the migration phenomenon. The SD theory maintains that in groups – and between groups – there is a kind of predisposition to inequality, confirmed by the wish to maintain hegemony by those higher up in the hierarchy. The SDO seems to be pervasive in contemporary society, albeit in different degrees depending on gender and personality. It is strictly connected with conservative policies and social attitudes, with racism and sexism – «ideologies that promote or maintain group inequality are the tools that legitimize discrimination» (Pratto-Sidanius 1994: 741).

Susan Fiske states that cultural biases and sterotypes are the base for the Us vs. Them polarization and the resulting discrimination, where the other group – “Them” – is dehumanized. Fiske hopes for the scholars’ focus to move from discrimination to a search for balance in diversity (Fiske 2000). This is what she said in a public debate:

It’s only human to be comfortable with people who you think are like you; there’s nothing wrong with that. In fact, it gets us through a lot of stress – to be attached to our in-groups is our backup system. But the downside is that you’re then excluding people who are not in the in-group (Smith 2013).

The trouble is: if in feeling part of the “US” we find warmth, trustworthiness, and friendliness, what happens when we feel “THEM”? What are the individual and social consequences of these processes?

It seems useful to approach the problem from another point of view: e.g. from a sociolinguistic perspective. The purpose is to find a method to analyse interpersonal and public communication in order to identify the traps of essentialist differentialism – gender, culture, people, nation – and its heavy social repercussions.

The research carried out by Teun van Dijk about ideological discourse structures could prove particularly useful at this time in the history of European societies – our history – when national  revanchism seems dominant.

 

Ideology

The topic is complex. It refers to the long history and different meanings of the concept of ideology, starting from the lucky lexical invention by Destutt de Tracy in Élémens d’Ideologie (1825-27). We have been experiencing a “crisis of ideologies”, involving views of the world on which political establishments are founded. However, this does not imply the end of ideology as a system  of thought and behaviour.

Ideologies can be expressed through all forms of communication – verbal, gestural, visual. We shall focus on verbal communication, limiting our field of research to discourse, both as written text and oral expression.

Van Dijk started studying verbal communication of racist ideology in the ’80s, identifying in the opposition us/them one of its typical discursive structures. It must be noted that Van Dijk describes ideology as a cognitive and social structure. Thanks to this definition of ideology, Van Dijk can carry out his investigation at a macro level – groups and societies – as well as at a micro level –  individual interactions (Van Dijk 1998).

«Ideologies, then, are the overall, abstract mental systems that organize such socially shared attitudes», he wrote in his Discourse Analysis as ideology analysis (Van Dijk 1995: 18). In other words, ideologies are a group’s defining characteristics. Ideologies affect the cognitive construction of mental models organizing experiences and actions of both individuals and groups.

For those who wish to study the matter more in depth, Van Dijk developed a complex multilevel system for the analysis of the relationship between ideology and discourse – social, cognitive, and communicative. His intuition is apparently elementary: ideologies control social interactions, text and talk. The opposite is also true, however: social interactions convey social notions – i. e. ideologies.

Discourse Analysis can thus be described as ideology analysis, with well known applicative results in the social and ethic fields (see also Van Dijk 1985).  This is nothing new, if we think about the way news are offered in newspaper headlines.

 

Scientific Ideology

Considering Discourse Analysis as a tool for ideology analysis – actually the tool for those who deal with communication – I think that to analyse at a macro level the way the US/THEM, inclusion/exclusion issues are expressed, the premises to the work by epistemologist Georges Canguilhem on the definition of scientific ideology could still prove very useful.

The ideological use of science – or, rather, the supposed scientificity of ideology – plays an important role. Canguilhem wrote:

Is the notion of scientific ideology relevant? Is the term a suitable one to designate and properly delimit the whole range of discursive structures claiming to be theories, the whole  variety of more or less  consistent representations of interphenomenal relations, and the whole spectrum of more or less permanent structures in terms of which men have interpreted their everyday experience? In short, is it  a useful way of denoting those pseudosciences whose falsity is revealed solely by the fact that a genuine science has been established to refuse their claims (Canguilhem 1977: 35)?

Discursive structures claiming to be theories:  what closer connection between ideology and discourse?

As far as discrimination is concerned – in particular, racial or ethnic discrimination (see Amselle-Bokolo 1985) – we can say that science no longer supports discriminatory ideology. But it remain in public opinion.

 

Aliens

To better explain the above considerations on methodology, I would like to illustrate a case study about the US/THEM issue – and, ultimately, racism – in the past and nowadays, from scientific discourse to media debate.

Recently Italian media and social networks have been arguing about “Italians were migrants, too!”. From L’Orda. Quando gli Albanesi eravamo noi, by journalist Gian Antonio Stella (2002)  to anthropologist Marco Aime’s lectures, the “We were migrants, too. We were illegal, too” argument has proved rather controversial (for the debate in USA see Stapinski 2017). In 2018 migration stopped being a crucial issue for both media and politicians, but racial ideology, attitudes, and expressions, as van Dijk would say, remain widespread.

The following passage was broadcast by Italian Rai News24 between 2009 and 2011, and circulates on the Web, widely commented by fact-checking professionals and amateurs:

They are usually short and dark-skinned. They don’t like water. Many of them smell because they keep the same clothes for weeks. They build huts for themselves out of wood and aluminium in the outskirts of cities and towns, very close to each other. Whenever they move towards the city centre, they rent out dilapidated flats at high prices. They come in pairs, usually, and look for a room and a kitchen. After a few days, there are four of them, six, ten.

They speak unintelligible languages, probably ancient dialects.

Many children are sent out begging, while in front of the churches women in dark clothes and old men ask for pity in whimpering and irritating tones.

They have many children, whom they struggle to support, and are very close-knit. They are said to be prone to thieving and, if confronted, violent. Our women ignore them not only because they are wild and unattractive, but also because they are said to attack women who walk home from work along empty streets and rape them.

Our authorities have opened the borders to too many people, without checking whether they were coming to our country to work or to live by expedients or even illegally.

I suggest preference is given to those who come from Veneto and Lombardy, as they are more willing to work, although slow of understanding and uneducated. As long as their families can be together, they are willing to live in houses where Americans would refuse to stay, and do not negotiate for higher salaries. The rest of them – on whom this first report largely focus, come from the South of Italy.

You are requested to check where they come from and to send back as many of them as you can. Our security must be our first concern.

This is proposed as a passage from a Report by the US Congress Inspectorate for Immigration into the United States dated October 1912. Actually, it is a popularisation of some pages of the Reports of Immigration Commission – the famous Dillingham Commission, named after its chairman, Republican Senator William P. Dillingham – which from 1907 to 1910 studied immigration to the United States, collecting data and developing recommendations.

The Reports consist of 41 volumes, now available on-line: the summary on Italian immigrants quoted above is quite reductive. Reading the original documents is very interesting for those who study migrations, but also for statisticians and sociologists. The Reports are indeed a thought-provoking example of scientific ideology and political discourse, with more or less obvious social repercussions. We cannot analyse the issue in depth, here, but I would like to point out a few points in the Reports which show the ambiguity in passing from scientific ideology to public discourse and, therefore, to social bias.

I recommend reading a few pages of Volume 5, Dictionary of races or peoples, Volume 36, Immigration and crime, and Volume 38, Changes in bodily form of descendants of immigrants, published by the Government Printing Office, Washington, in 1911. The Abstracts of Reports and Recommendations in Volume 1 and 2 will help us draw a few general conclusions.

 

Dictionary of races or peoples

This Dictionary of races or peoples (by anthropologist Daniel Folkmar, “assisted” by Elnora Cuddeback Folkmar) originated from a need for study and classification explained in the Introductory. Following the new ethnical factors resulting from immigration to the US from Eastern Europe, it was felt that the true racial status of most immigrants was unknown. It was not clear what race those new aliens were. Before 1899, immigrants were recorded only according to their countries of birth, with no indication of  race or people. Under the Bureau of Immigration, there were 45 races or peoples, 36 of which were European. Under the Dictionary, there are more than 600 subjects!

The Commission’s survey was not for ethnologists, but rather for those who studied migrations, and its purpose was to collect sources and data and to promote «a better understanding of the many different racial elements that are being added to the population of the US through  immigration» (Dictionary: 2).

Given the «present imperfect state of science» and having decided to classify by race – there being 3 races according to some scholars, 15, 29 or even 63 races according to others –  the authors adopted Johann Friedrich Blumenbach’s classification of human races. The father of physical anthropology had identified 5 groups: “Caucasian, Ethiopian, Mongolian, Malay and American,  or, AS FAMILIARLY CALLED  [my capitals] white, black, yellow, brown an red races”.

The Report compilers were clearly aware that the various possible classifications were not objective, and chose the one that was best known in the US. It was a communication decision, a political, rather than scientific effort. The fact that the new “races” introduced in addition to the original five were based on linguistic differences – cultural parameters – further proves the scientific inadequacy of these divisions claimed by physical anthropology.

Let’s stop here. However, one cannot help but wonder: what was the ratio behind this racial (racist?) classification of immigrants, if the authors themselves specified that it had little practical use, since inspectors in the Immigration Office  had no time to classify each new entry as dolichocephalic o brachycephalic (Dictionary: 4)? As we’ll see later, an answer can be found in the recommendations on “ethnically” restricted migration policies – dangerously close to eugenics and “biopolitics”.

As far as it concerns US closely, wrote the author. Well, as far as it concerns us, here, we’ll deal with the Italians (Dictionary: 82 ff.). The Bureau of Immigration divided them into two main groups: Northern Italians and Southern Italians, different in looks, language, temperament and geographical distribution. The former lived in the river Po basin, the latter in the rest of the peninsula and the islands. Even the Genoese were considered Southern Italians.

It is the same distinction drawn by the famous Italian anthropologist Giuseppe Sergi, who “invented” the Mediterranean race. According to Sergi, the Mediterranean race originated from the Kamits who lived in the highlands of Ethiopia, who were not «true Africans», notwithstanding «some traces of infusion of African blood in certain communities of Sicily and Sardinia» (Dictionary: 82). While according to Sergi the Mediterranean race was mainly an alternative to the Arian explanation of the origins of European peoples, in a crudely simplified version it could be used to confirm that Northern Italians were not only different from, but also superior to, Southern Italians.

If complemented by the results of another Italian anthropologist, Alfredo Niceforo, such physical and psychic distinction between the two ethnic groups would show the “decay” and “degeneration” of Latin peoples, especially from the South of Italy. Finally, statistical data indicated that Italy had the highest crime rate as regards offences against the person, in the South more than in the North (Bosco 1891). In the Report, Italy was described as «one the most illiterate countries in Europe», with 48.5 % of its population who could not read or write –  78.7 % in Calabria, as we can read.

For the compilers of the Dictionary, the number of Italian immigrants in itself showed that Italians, especially from the South, were a problem – 2,284,601 from 1899 to 1910, 1,911,933 of whom from Southern Italy. Just in 1907, out of 297,000 immigrants to the US, 240,000 were from Southern Italy – definitely the most numerous race. It was a significant data, compared to the overall number of Italians who emigrated that year: 415,000. Most of them were from Sicily and Calabria, the least productive and most poorly developed regions. The quoted number of immigrants from Liguria, South Italian in race, is higher than the number of immigrants from the whole North of Italy – it is a figure we find difficult to believe.

Italian immigration was a problem as it continued, because of its high birth rate, even when people from other countries stopped emigrating to the US (Dictionary: 84). Southern Italians were the most numerous race in absolute terms, followed by Jews, Polish, German and Scandinavian people. The problem, therefore, was their demographic weight in the whole immigrant population.

 

Immigration and crime

Notwithstanding the migratory waves from Southern and Eastern Europe (the language is not that different from that used today) the author of the Report on Immigration and crime is determined to disprove the preconceived notion that there is a causal link between immigration and crime. In the Introduction, Leslie Hayford maintains there is no evidence of the fact «that immigration has resulted in an increase in crime disproportionate to the increase in adult population. Such comparable statistics of crime and population… indicate that immigrants are less prone to commit crime than are native Americans» (Immigration and crime: 1).

The uneven distribution of immigrants, however, who lived mainly in cities and towns in the North-East, caused the author to wonder: «is the volume of crime in the United States augmented by the presence among us of the immigrant and his offsprings?» And «If immigration increases crime, what races are responsible for such increase» (ibidem)? These questions assume there is a link between immigration and crime, even though no evidence is provided to support it. It is obvious that immigration affected crime, increasing the number of offences against the person, public policy and chastity, even though more crimes were committed by Americans than by immigrants.

It is clear that the purpose of the survey, albeit patchy and incomplete was to emphasize «the change of character of crime in US which had resulted from immigration and the crimes peculiar to various races and nationalities»  (Immigration and crime: 9). Italians ranked high in in blackmail, extortion, kidnapping, kidnapping of minors, homicide and offences against public policy, at least in the 5 districts of New York (Immigration and crime: 17-18).

The only data from the Bureau of Census that could be used to draw such conclusions refer to alien prisoners and juvenile criminals. Two graphs show that in 1904 the largest percentage of aliens under sentence for murder and attempted murder were Italian (Immigration and crime: 26), while in 1908 Southern Italians were at the top of the list (over 2000), followed by the Irish, Polish, German, and Northern Italians (less than 500, see Immigration and crime: 180).

Notwithstanding Hayford’s determination, the above connections between specific crimes and races could not but have a political and social impact.

 

Recommendations

The first repercussions concern the Recommendations set forth by the Commission. Immigration laws in force and recommendations resulting from the research concerned mainly the physically and morally unfit, but it is stated that future laws would have to be based primarily on economic or business considerations touching the prosperity and economic wellbeing of «our people» (Abstracts: 45). A slower industrialization would have been preferable to the rapid process implemented through high numbers of workers imported from abroad, who lowered the American standard of wages and conditions of employment  (ibidem).

American society should first of all be protected against unfits: any immigrants convicted of serious crimes within five years after they arrived just like those who became a public charge within three years should be deported. Aliens trying to persuade immigrants not to become American citizens were also subject to deportation.  Aliens having no intention to become American citizens and unskilled single labourers should be excluded, as well those who were considered undesirable because of their personal qualities and habits (Abstracts: 47). Exclusion could also depend on race: the authors suggested that the Chinese continue to be barred, as they had been since 1882.

Considering that the recent massive immigration, mainly from Southern Europe, had caused worse working conditions  for natives and older immigrants (Abstracts: 500ff), decreasing the number of aliens in those areas would be beneficial. Some aliens used forms of economic and social control often leading to exploitation and abuse: the “padrone system” was widespread among Italians and Greeks (Abstracts: 29).

The best – and most feasible – way to reduce undesirable immigration, according to the majority of the members of the Commission, was to introduce of a reading and writing test (Abstracts: 48). As many Southern Italians were illiterate, such test was deemed a good method to reduce their number.

 

Assimilation

The stated purpose of the Dillingham Commission was to promote the assimilation and naturalization of immigrants, and their possible settlement in farming states.

In a context where physical anthropology was so important, assimilation implied physical changes in immigrants’ offspring:  «even the racial physical characteristics do not survive under the new social and climatic environment of America». Changes in bodily form of descendants of immigrants by Franz Boas, an anthropologist whose theories were never based on the concept of race, contains a number of tables illustrating the changes occurring in American born descendants of Bohemian, Jew, Sicilian and Neapolitan immigrants – weight, stature, but also headforms (Changes: 500-509). The American environment apparently made some a little less brachycephalic and others a little less dolichocephalic. Such observations, adequately documented, would undermine racial fixity.

Assimilation, however, could be achieved only in certain conditions: immigrants must be healthy, literate, skilled labourers, with a family and a spotless record. Those who did not fit these criteria should be sent back. In particular, surveys and data collected showed the rather problematic situation of immigration from Southern Italy (and from Liguria).

 

Migration policy, scientific ideology and prejudice

What were the consequences of such a description of hundreds of thousands of Southern Italian on migration policies? What was the impact on the public opinion of “natives” (that is American-borns) and “older” immigrants?

The Emergency Immigration Act of 1921 and the Immigration Act of 1924 introduced quotas in a free immigration system – a restriction policy.

However, our concern here is: to what extent did this «statistically obtained situation» contribute to the “Us vs. Them” polarization, to racial stereotyping and prejudice? Could the ambiguous absence of judgement in a survey whose scientific grounds were doubted by the same authors, the scientific ideology of racial classification, have turned into social ideology?

Those who collected data and wrote the Reports were not a homogeneous group. A cultural anthropologist like Boas must have introduced elements of historical and environmental analysis into the general race perspective: significantly, Boas specified in his Report he had chosen the word type but the Commission changed it into race. This, however, does not alter the perspective. If the new immigrants from Eastern Europe (Hebrews were the “problem”) e from Southern Europe (here the “problem” were Southern Italians) were incapable of proper assimilation and could not become US (American and “us”) they had to be barred. If not, they would continue to be “them”, a threat to the living conditions of the “natives” (i.e. the descendants of 17th – 18th century settlers, not “native Americans”). The only alternative was to adopt inclusive and support policies as suggested by Leslie Hayford, the author of the Report on Immigration and crime, who, as secretary of the North American League for Immigrants in Boston, promoted public schools for immigrants’ children to encourage assimilation.

Despite these oscillations, the contrast “Us vs. them” in the Reports generally means that certain races have traits which the writers deemed incompatible with the American way of living to the extent of compromising proper assimilation. So it can justify discriminatory policies, not only, but increase a discriminatory ideology, racist in Van Dijk’s sense, what we can find in the Dillingham Commission and in the contemporary public debates.

A similar approach, albeit without any scientific pretence, can still be found in day-to-day discourse, as well as in the political discourse of those who believe in the superiority, identity and non-equality of US.

How can we react positively? How can we deconstruct the divisive polarization and discrimination?  Is it enough to use positive metaphors in order to find  the “warmth” Susan Fiske hoped for?

May be something else is required –  non-discriminatory ideologies, i.e. systems of  thoughts and social practices. Perhaps we should not remove differences, but stop classifying them as values or axiologies. As Baroncelli said in his Il razzismo è una gaffe (Racism is a blunder).

 

References

Alberti, L.B. (2004 [1434-40]), The family in Renaissance Florence, Waveland Press.

Baroncelli, F. (1996), Il razzismo è una gaffe, Roma, Donzelli.

Amselle J.L. -’Bokolo E.M, edd.,  (1985), Au coeur de l’ethnie, La Découverte, Paris.

Benton-Cohen (2018), Inventing the Immigration Problem: the Dillingham Commission and its Legacy, Harvard UP.

Boas, F. (1912), Changes of bodily form of descendants of immigrants,  American Anthropologist, n.s. 14: 530-562.

Bosco, A. (1891), La studio della delinquenza, Bulletin de l’lnstitut international de Statistique, vi: 167-214.

Canguilhem, G.  (1977), Qu’est-ce qu’une idéologie scientifique? [1969], in Ideologie et rationalité dans l’histoire des sciences de la vie, Librairie J. Vrin, Paris.

Devine, P. et al. (2012), Long-term reduction in implicit race bias: A prejudice habit-breaking intervention, Journal of  Experimental and Social Psychology, 48: 1267-78.

Duckitt J. – Sibley Ch.G. (2007), Right Wing Authoritarianism, Social Dominance Orientation and The Dimensions of Generalized Prejudice, European Journal of Personality, 21: 113-130.

Fiske, S.T. (2000), Stereotyping, Prejudice and Discrimination at the seam between the centuries: evolution, culture, mind, and brain, European Journal of Social Psychology, 30: 299-322.

Forscher P.S., Mitamura C., Dix E.L., Cox W.T.L. and  Devine P.G. (2017), Breaking the prejudice habit: Mechanisms, timecourse, and longevity, Journal of Experimental and Social Psychology, 72. Available from:            https://www.researchgate.net/publication/316874118_Breaking_the_prejudice_habit_Mechanisms_timecourse_and_longevity.

Pratto F., Sidanius J., Stallworth L.M., Malle, B.F. (1994), Social dominance orientation: A personality variable predicting social and political attitudes, Journal of Personality and Social Psychology, 67.

Reports of the Immigration Commission (1911), Government Printing Office, Washington:

vol. 1: Abstracts of Reports of The Immigration Commission, with Conclusions and Recommendations:

 https://archive.org/details/reportsofimmigra01unitrich/page/n5

vol.  5:  Dictionary of races or peoples:

 https://archive.org/details/reportsimmigrat02croxgoog/page/n6

vol. 36:  Immigration and crime:

 https://archive.org/details/reportsimmigrat08dillgoog/page/n6

vol. 38: Changes in bodily form of descendants of immigrants:

 https://archive.org/details/reportsofimmigra38unit/page/n5

Sergi, G. (1901), The Mediterranean race: A study of the origin of European Peoples, London.

Sidanius, J. – Pratto, F. (1999), Social Dominance: An intergroup theory of social hierarchy and oppression, Cambridge UP,  Cambridge.

Smith, J.A. (2013), What does prejudice reveal about what it means to be human?, Greater Good Magazine, october 21:

https://greatergood.berkeley.edu/article/item/what_does_prejudice_reveal_about_what_it_means_to_be_human.

Stapinski, H. (2017), When America barred Italians, The New York Times, 2017/06/02.

Van Dijk, T. (1985), The Role of Discourse Analysis in Society, in Handbook of Discourse Analysis, Academic Press, London, 4: 1-8.

Van Dijk, T. (1995), Discourse Analysis as ideology analysis, in C. Schäffer-A.Wenden (eds), Language and Peace,  Routledge, Aldershot.

Van Dijk, T. (1998), Ideology: A Multidisciplinary Approach, SAGE Publications, London.

Zeidel, R. (2004), Immigrants, Progressives and Exclusion Politics, Northern Illinois UP.

Speech of Dr. Luigi Patronaggio, Chief Prosecutor of Agrigento

I wish to express my gratitude to the organizers of this meeting, all belonging to a remarkable psychological field and I apologize to them in advance for the diversity of my language and for the incursion in “other knowledges”, hoping that this diversity could represent a source of mutual enrichment.

Part 1 – From retributive justice to restorative justice.

In more than thirty years long of professional experience, I have often bumped into the shadows of evil: how much vile darkness there is in a raped child, in a colleague magistrate or in some friends, policemen blown up by mafia-related criminals. Orin those innocent victims blown up while they are going to the beach, to a concert or to watch a football match at the stadium, or even in the bodies of young women, children and men floating in the same sea where new slave traders, unscrupulous merchants, have dragged them with the promise of a better life.

After a pistol shot, a burst, after the cries of the shipwrecked victims on a sinking boat … after all … it remains only darkness and quiet. Where there previously was life and joy, now there is silence. Darkness replaced the light.

To continue the metaphor, dear to people who are familiar with symbols, the legal order of a democratic State is a rational construction, and generally an ideal, geometric and illuminated city. Any time this order is violated the geometric shape is compromised and the lights turn off or dim according to the entity of the crime that has violated the law.

Rationality gives way to emotionality.

From the earliest times the violated law, or better the violated order, is restored through the punishment and the expulsion from the civil cohabitation of the criminal.

Since the earliest times,men have always responded to evil with evil: this happened with the vengeful God of the Jews (… it will take centuries until he becomes the Merciful God of the Christians). It happened with the Romans up to the Islamic world. If you do evil you will receive evil.

But be careful: it is a good thing that the order has laid down certain rules to overcome the rupture and go ahead, otherwise, we would still be stuck to the ordeal.

The Western juridical civilization has provided rules with universal validity:  “Nullumcrimennullapena sine lege”, stated the Latins, the creators of the principle of the strict legality in the criminal law. This principle is still a pillar of the Western civilization. Likewise, the principle of non-retroactivity of the criminal law and the one corollary to the right to a fair trial,are fixed points in our civilization, codified in the European Convention on Human Rights.

And nonetheless, our human and legal sensibility has been more and more refined to get to understand that the violated order doesn’t always recreate through the punishment and the expulsion from the civil cohabitation.

This is not the place where to reaffirm (something too obvious) the necessary re-educative function of the punishment or the rejection of the death penalty. Or even, the tendential unconstitutionality of thelife sentence with the “never ending serve the term of imprisonment”.

What we want to highlight here, is that there are moments and contexts where it is necessary to go beyond the concept of retributive justice and enter the restorative or reconstructive justice: the so called “Restorative Justice” in the Anglo-Saxon world.

A justice that allows the executioner and the victim to communicate and together overcome evil. Only then, the violated order can be recreatedthrough the germination of healthy cells instead of being mutilated of its sick parts through surgical operations.

There are now many examples of this “other” justice, and all are renowned. The best-known of all is perhaps the one of the Truth and Reconciliation Commission of South Africa.

Where the apartheid was brought to an end not through the victory of a faction against another and with the imposition of the criminal law from the winner, but through a process of voluntary participation where was given voice to the victims;where the executioners recognized their own faults and promptly act to fix them; where everybody made every effort to create a new state and where the prosecution intended as a punishmentremained in the background of this process until it disappeared.

Other examples of restorative justice are found in the juvenile criminal law, in the criminal mediation and now, at a European level and in the international legislation, the principle of a “different” justice is also appealed in official documents (see the Council of Europe Recommendation of 1999 on the criminal mediation).

There are also olderexamples, such as the extended amnesty issued by the Italian Minister of Justice Togliatti that, by the pay off of crimes, committed both by the winners and the losers, allowed the Italians to resume apeaceful and democratic dialogue with each other after the civil war following the 8th September 1943.

For instance, the latest laws on the matter of stalking, highlight the need to take actionnot only on the victim but also on the stalker in order to understand its push toward violence and to educate him tothe respect for women and more generally for vulnerable people.

Furthermore, family mediation tries to make a couple, facing an hard communicative time, in a dialogue situation in order to help them solve together their troubles, in the main interest of their children, leaving as a last resort, the authoritarian decision of the judge.

Thus, rebuilding starting from the victims, giving them voice and helping them to dialogue with the responsible for the crimes committed against them.

Then, restoring the order not through the isolation or the state violence, but through the restorative reconstruction where the voice of the victim, in a central position, is able to generate a process of reviewing of the evil by the criminal, with the aid of a third impartial mediator.

Certainly, this is an easy-to-apply paradigm in case of less serious crimes, i.e. a paradigm to apply in case of global and complex situations where the basis for the dialogue still exist.

But, is it possible to apply this paradigm against the international terrorism that threats us inside our houses, or against the humanity and war crimes? The most obvious reply is negative: the answer to the most serious crimes can be only a punitive reply, although with the most evolved forms of the international criminal law with which we have hardly endowed ourselves, since the Nuremberg trial of the Nazi war criminals.

Anyway, the choice of a proper international criminal law appeal doesn’t exempt us from the duty to understand and to face the shadow… to keep satisfying the symbolic language, well appreciated in this forum.

This is not the right place where to discuss the matter of the international criminal law, its entitlement as a non-codified right applicable to any person recognized as a guilty of crimes against humanity, regardless of where the crimes have been committed, or to reject the accusation put forward to that punitive claim as the criminal law of the enemy, as the winner’s right.

It must be stressed that, with the creation of the International Criminal Court (The Hague – July 2002), the western society, once again, has tried to overcome the de-structuring of the civil cohabitation through the rational means of the written law, the certainty of the rules and the punishments, by codifying fair and guaranteed procedures, overcoming a principle that had established after the tragedy of the Second World War, according to which “ in delictisatrocissimispotestjudexjuratransgrendi”, i.e. “in delictisatrocissimisjuratransgrendi licet”.

Principles that unfortunately came again to the surface after the 11th September in USA with the use of legalized torture and the opening of special detention centers, such as Guantanamo.

Moreover, not all States took part to the Rome Convention, and as a matter of fact only 124 States approved the Rome Statute, and 32 signed but not approved the same agreements, such as USA, Russia, China and Israel.

“To Understand” is now then the new imperative to overcome, restart and restore.

Essential condition to face any attack to the civil cohabitation is to nevergive way to irrational and authoritarian temptations. It is also necessary a big effort of all social sciences and the combinationofall methods for the development of a social heuristics.

Who’s then this terrorist that threat us right inside our home, that prevent us from going to a concert, enjoying an exhibition or enjoying the right to democratic participation?

Part 2 – The identity of the terrorist.

Speaking of Mafia, as I already marked before, I defined the mafia-related criminal as an individual without identity who finds it inside the mafia organizationby moving the ideals of this selected group which is in contrast to the others, and whose language is only violence and prevarication. A cooperating witness used to say that before becoming part of “CosaNostra”, he was “nudduimmiscatucùnenti” (Italian translation in the text: I was anyone mixed up with anything).

Likewise, I would like to define the denominational terrorist (and I deliberately adopt this definition, not only to be politically correct) as a weak individual in search of a strong identity.

On the basis of our experience in investigation, we know that the terrorist organizations recruit young people in the occupied territories by the illusion of a status and the flattery of belonging to a selected elite, that the systematic recourse to acts of violence is justified in the name of a higher project; that all those people who don’t belong to the group are considered inferior because they are traitors, unfaithful and corrupted.

They usually wear black uniforms and have a long beard to underline the difference between them and the others. We all know the images of the ISIS troupes on the Internet, with a black background and waving black flags. It’s no coincidence that they choose this color: black is the denial of all colors, as the Nazi aesthetics had already stated about 100 years ago.

Certainly their weak, or better, wounded identity, is the result of centuries of a western ethnocentrism that turns a deaf ear to the claims of the third world countries.

It is no coincidence that terrorism develops in the occupied territories where people live in marginal conditions, but also in the suburbs of the European cities where the cultural integration process hasn’t occurred.

And I want to dispel here a cliché that identifies terrorism with immigration.

And I will dispel it with my long professional experience and the strength of the actual numbers issued by the Italian Ministry of the Interior: the terrorists don’tarrive here with the immigrants on the boats in the Sicilian Canal. Andeven if a terrorist that is running away from the war in Libya, reaches our shores, he doesn’t travel on unsteady boats, but only on comfortable motorboats for deep-sea fishing. It means only under safe conditions.

The terrorists are in our houses, in the suburbs of our cities, in our prisonswhere they often  radicalize themselves. Descendants of past immigration,result of the post-Colonialism period, never integrated into the cultures of the host countries, they are often unemployed andexpress their hate towards the West culture through terrorism.A culture thatthey envy for its level of well-being and quality of life; hatedand denied at the same timebecause unreachable.

The terrorist is often formed on the Internet that deliberately provides him theimage of a fake and virtual world, just and ordered, opposite to the real world, represented as corrupted, that for the aspiring terrorist is a source of desire and frustration at the same time. And even the “holy war” is represented on the Internet as a triumphal advance full of violence and cruelty that the Foreign Fighters will experience and that probably theywill never be able to leave.

I would like to make it clear that terrorism has nothing to do with immigration.

The terrorist is in search of a strong identity, the immigrant instead, has a clear and rooted identity and he is only in search of a country where he can express its identity, denied in his own country because of wars, famine and persecutions.

 

The terrorist exports blind and angry violence. The migrant instead, only uses violence against himselfby putting at risk his own lifeand the one of his family,undertaking journeys under unsafe conditions,during which they are often physically and sexually abused.

We shouldn’t be scared; we shouldn’t fear the immigrant; we shouldn’t fear the cultural influence because it is only a source of enrichment; we should feed from the culture of acceptance; we should have the ability to distinguish between hate and fear, to recognize other people’s roots, to listen to the other: the victims of this epic phenomenon.

I would like to conclude my speech by going back to the need to listen to the others, the victims, and inviting you to listen to these people coming from the other part of the Sicilian Canal and to pay attention to their stories.

Stories full of pain and violence. They travelled thousands of miles through the desert, in the hands of unscrupulous human traders that drive poor people on overloaded old off-road vehicles letting them to die of thirst in the desert.

Stories of human traders that sell these poor people to the best bidder; migrants that are sold to different military factions, raped, divested of their belonging and harassed; traffickers that extort considerable amounts of money from their victims by blackmailing them with their abandonment; traffickers that cram the immigrants inside sheds located along the coasts of Lybia, under the burning sun and in slavery conditions.Stories of migrant women that quietly accept to be constantly raped by their captors, trying only to avoid unwanted pregnancies. The government forces are absent, legality is absent, there are only armed and violent factions and tribes that live by trading human beings.

These are the voices we must listen to, voices that make us act and qualify what happens on the Libyan coasts and in the Sahara desert as crimes against humanity. Those voices must lead us to  strongly claim the opening of an humanitarian corridor from Libya, under the ONU signatures, to accommodate and redistribute migrants in Europe.

There is a right that must be affirmed as “Human Right”, and as such protected, and that is the right to migration, the right to escape from wars and deportations, to famines and epidemics. It is mandatory to stop military operations, and its political strategies and reversals between the various European nations committed to governing the Canal of Sicily. Stop with political disputes made of ephemeral and uncertain boundaries to be protected.

Pope Francis said: “it is necessary to become builders of bridges not of walls”.

Let’s just look inside, we should not be afraid, but believe in our Western, lay, tolerant, relativistic culture, produced after the dark years of the two World Wars. A cultural model open to multiracial and multi-confessional society. A cultural model we must insist on building a Europe of Nations, of people, not a Europe of banks and markets.