All posts by Helga Gudmundsdóttir, Jónína Einarsdóttir & Geir Gunnlaugsson

About Helga Gudmundsdóttir, Jónína Einarsdóttir & Geir Gunnlaugsson

Helga Gudmundsdóttir completed BS in nursing in 2009, and MA in Development Studies 2016 from the University of Iceland. She has extensive experience of work with children and youth in many fields of work, for example as a nurse for several years in the Children´s Hospital and Rjóðrið, a nursing home for chronically ill and disabled children. In 2016-2017, she took part in a working group for the International Society for Social Pediatrics and Child Health (ISSOP) on children on the move. Since 2016, project manager with asylum-seekers for the Icelandic Red Cross. Jónína Einarsdóttir is a professor of anthropology at the Faculty of Sociology, Anthropology and Ethnology, University of Iceland, and has a Ph.D. in anthropology from Stockholm University. Main fields of research include anthropology of children, medical anthropology and development studies. She has, for example, studied responses to child death and child trafficking in Guinea-Bissau, and in Iceland premature birth, child abuse and the Icelandic custom of sending urban children to stay on farms during the summer. Geir Gunnlaugsson is a paediatrician and professor of global health at the Faculty of Sociology, Anthropology and Ethnology, University of Iceland. He has a Ph.D. in paediatrics and a Master of Science degree in public health from the Karolinska Institute in Stockholm. He was the Director of the Centre for Preventive Child Health Services 2000-2009, and Chief Medical Officer/Surgeon General for Iceland 2010-2014. Main fields of research include breastfeeding, child abuse, health and wellbeing of adolescents, infectious diseases and health systems with focus on primary healthcare and preventive work in Iceland, Guinea-Bissau, and elsewhere in sub-Saharan Africa.

Ósýnileiki barna sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi í fylgd foreldra

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) áætlar að á árinu 2017 hafi um 68,5 milljónir einstaklinga verið á flótta, þar af sé rúmlega helmingur börn (UNHCR, 2018). Umsækjandi um alþjóðlega vernd er hver sá sem hefur flúið heimaríki sitt og sótt um að fá viðurkennda stöðu flóttamanns og dvalarleyfi hjá stjórnvöldum annars ríkis (Rauði krossinn, e.d.). Mikil aukning hefur orðið á slíkum umsóknum á Íslandi undanfarið og er nokkur fjöldi barnafjölskyldna þar á meðal. Árið 2015 voru 79 börn á meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd, 249 börn ári seinna (Útlendingastofnun, 2017) og 156 börn árið 2017 (Útlendingastofnun, 2018). Árið 2018 voru 166 börn meðal umsækjenda (Útlendingastofnun, 2019) en þessar tölur eiga við um börn sem leitað hafa alþjóðlegrar verndar í fylgd með foreldrum sínum eða forráðamönnum.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög á Íslandi um útlendinga, nr. 80/2016, þar sem lögð er aukin áhersla á sjálfstæð réttindi barna miðað við fyrri lög um útlendinga nr. 96/2002. Helsta réttarfarsbótin er í 25. grein laganna en þar kemur fram að „barni sem getur myndað eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska“ (Lög um útlendinga nr. 80/2016). Að auki er réttarstaða fylgdarlausra barna skýrð og komið er á rétti til fjölskyldusameiningar fyrir fylgdarlaus börn sem hafa fengið vernd. Tekið er fram að bestu hagsmunir barnsins skulu alltaf hafðir að leiðarljósi en ekki hafa verið sett upp viðmið um hvernig meta skuli hagsmuni barna.

Mikilvægt er að huga að réttindum barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi í fylgd foreldra og að rödd þeirra heyrist og að á þau sé hlustað. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa og greina hvernig börn og foreldrar upplifa umsóknarferlið um alþjóðlega vernd hér á landi og áhrif þessarar reynslu á sálfélagslega vellíðan þeirra. Uppfyllir umsóknarferlið ákvæði um réttindi barna í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna? Ef ekki, að hvaða leyti er Barnasáttmálinn ekki uppfylltur? Fyrst er gerð grein fyrir stöðu barnafræða (e. childhood studies) og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með sérstöku tilliti til stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd. Þá er aðferðafræðin kynnt og gerð grein fyrir niðurstöðum. Loks er staða barnanna skoðuð í alþjóðlegu samhengi og niðurstöður dregnar saman í lokaorðum.

Fræðilegur rammi

Þegar líða tók á síðustu öld urðu barnafræðin að sérstöku fræðasviði sem einkennist af þverfaglegum rannsóknum þar sem börn tjá sig um eigið líf og málefni sem þau varða og að sjónarmið þeirra séu tekin alvarlega (James and Prout, 1990; Punch 2016). Í stað fyrri rannsókna á börnum, sem fjölluðu gjarnan um börn sem verðandi fullorðna fyrir tilstilli félagsmótunar, lögðu fræðimenn í auknum mæli áherslu á rannsóknir með börnum þar sem atbeini (e. agency) og reynsla þeirra á líðandi stundu væri í forgrunni. Með tímanum hafa átt sér stað áherslubreytingar innan barnafræðanna. Aðstæðum barna innan fjölskyldurnnar, samskiptum kynslóða og félagslegri stöðu er þannig veitt aukin athygli, en í viðleitni til að draga fram atbeini barna einblíndu stundum barnafræðin einhliða á börn án þess að taka tillit til stöðu þeirra (Punch, 2016). Bent er á að inntak hugtaksins atbeini geti verið óljóst, enda búi meirihluti barna heimsbyggðarinnar (e. majority world) við erfiðar efnahags- og félagslegar aðstæður og mörg þeirra við sárafátækt, erfiðisvinnu, stríðsástand og hungursneyð (Bordonaro and Payne 2012). Rannsóknir bæði á og með börnum einblína þó oftast á annað hvort minnihluta barna heimsbyggðarinnar (e. minority world) eða meirihlutann. Punch (2016) bendir á að vegna fólksflutninga, til dæmis vegna neyðarástands vegna hlýnunar jarðar og stríðsátaka, skarist vegir barna heimsbyggðarinnar í auknum mæli. Það sé því tímabært að samþætta rannsóknir á börnum, óháð aðstæðum þeirra og hvaðan þau koma. Eins leggur Punch til að kenningar og hugtök barnafræðanna verði betur nýtt til að stefnumótunar og aðgerða í þágu allra barna.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna (e.d.) á rætur í sömu hugmyndafræði og barnafræðin og hefur hann verið samþykktur af öllum löndum heims að Bandaríkjunum undanskildum (CRC Poilicy Center, e.d.). Í anda barnafræðanna nær Barnasáttmálinn til allra barna sem staðsett eru í aðildarríkjum hans, veitir þeim víðtæka vernd og viðurkennir atbeini þeirra og sjálfstæð réttindi óháð réttindum fullorðinna (Smyth, 2014; Tisdall og Punch, 2012). Í Barnasáttmálnum eru 54 efnisgreinar, þar af 41 grein sem snýr að réttindum barna en 13 efnisgreinar kunngera hvernig sáttmálanum skuli framfylgt (Umboðsmaður barna, e.d.). Barnasáttmálinn hefur fjögur grundvallarákvæði en þau fjalla um jafnræði og bann við mismunun (2. gr.), bestu hagsmuni barna (3. gr.), rétt barna til þess að lifa og þroskast (6. gr.) og rétt barna til að tjá sig um málefni er þau varða (12. gr.) (Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, e.d.; UNHCR, 2008). Í Barnasáttmálanum er fjallað sérstaklega um rétt barna sem eru á flótta, en í 22. efnisgrein segir:

Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.

Þrátt fyrir víðtæka sátt um Barnasáttmálann eru börn og ungmenni oft ósýnileg og þau eru ekki spurð um málefni sem þau varða. Þetta á sérstaklega við um börn sem eru í viðkvæmri stöðu, til dæmis börn sem eru beitt ofbeldi, börn án skilríkja og fylgdarlaus börn (Ferguson, 2017; Meloni, Rousseau, Ricard-Guay og Hanley, 2017). Samkvæmt European Network of Ombudspersons for Children (ENOC), sem er tengslanet umboðsmanna barna í Evrópu, fá börn sem leita alþjóðlegrar verndar í Evrópu ásamt foreldrum eða öðrum forráðamönnum oft minni athygli en fylgdarlaus börn við gerð verklagsreglna fyrir umsóknarferlið og minni þjónustu (ENOC, 2013). Þau fá heldur ekki þá aðstoð, vernd, athygli eða þjónustu sem þau eiga rétt á (Fagerholm og Verheul, 2016). Þeim ástæðum sem geta valdið því að réttindum þessara barna og þörfum þeirra sé ekki mætt er ekki nægilegur gaumur gefinn, þar á meðal að foreldrar þeirra geti átt erfitt með að sinna foreldrahlutverki sínu á fullnægjandi hátt vegna áfalla og streitu (Björnberg, 2013; Eastmond og Cederborg, 2016; Fagerholm og Verheul, 2016; Ottoson, Newbigging og Thomas, 2011). Börn sem leita alþjóðlegrar verndar með foreldrum eða forráðamönnum verða því að einhverju leyti ósýnileg í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd (Fagerholm og Verheaul, 2016). Orðræða í umsóknarríkinu getur einnig haft áhrif á stöðu slíkra barna; í Noregi hefur hún til dæmis einkennst af áherslu á varnarleysi barnanna og mikilvægi þess að þau fái vernd en í Danmörku er staða þeirra gerð tortryggileg (Vitus og Lidén, 2010).

Aðferðafræði

Niðurstöðurnar sem hér eru kynntar eru hluti niðurstaðna stærri rannsóknar, en gagna var aflað seinni hluta árs 2015 (Helga Guðmundsdóttir, 2016). Gagnaöflun byggði á hálfstýrðum samtölum við 12 börn og 10 foreldra sem höfðu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Börnin voru 2–17 ára og foreldrarnir 25–60 ára þegar þau komu til landsins. Fjölskyldurnar komu frá mismunandi löndum og voru ástæður umsóknar breytilegar hvað varðar reynslu af stríði, ofbeldi, pólitískum ofsóknum eða harðræði. Tíu börn voru á grunnskólaaldri og tvö á menntaskólaaldri þegar viðtal var tekið, en þrjú börn á skólaaldri voru ekki byrjuð í skóla þegar viðtölin fóru fram.

Markvisst úrtak var notað til þess að velja þátttakaendur í rannsóknina, en þær fjölskyldur sem tóku þátt voru ýmist komnar með stöðu flóttamanns hér á landi, höfðu dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða biðu eftir svari frá yfirvöldum. Í fyrstu höfðu milliliðir með lögmætan aðgang að upplýsingum um fjölskyldur og börn í þessum aðstæðum samband við fjölskyldurnar til þess að kynna rannsóknina fyrir þeim eða fengu leyfi frá þeim fyrir því að túlkur hefði samband til þess að kynna hana nánar. Kynningarfundur var síðan haldinn fyrir þær fjölskyldur, hverja fyrir sig, sem sýndu rannsókninni áhuga þar sem farið var ítarlega yfir hana og tilgangur hennar og framkvæmd útskýrð og rædd. Í flestum tilfellum fór kynningin fram með aðstoð túlks auk þess sem upplýsingablöð á viðeigandi tungumálum voru afhent fjölskyldumeðlimum. Börnin gáfu munnlegt samþykki fyrir þátttöku og foreldrar veittu skriflegt samþykki fyrir sig og börn sín, og ákveðið hvenær og hvar samtölin myndu eiga sér stað. Í flestum tilfellum áttu þau sér stað á heimilum viðmælenda. Fyrsti höfundur hitti hverja fjölskyldu 2–3 sinnum og stóðu samtölin að jafnaði 1–3 klukkustundir í hvert sinn og samtals var rannsakandi 3–6 klukkustundir með hverri fjölskyldu. Faglegur túlkur var viðstaddur í nær öllum tilfellum. Foreldrar og börn höfðu aðgang að sálfræðingi, sér að kostnaðarlausu, ef þau töldu sig þurfa á slíkri aðstoð að halda vegna þátttöku í rannsókninni. Enginn þeirra nýtti sér það úrræði en rannsakandi hefur til margra ára unnið með börnum og fjölskyldum í viðkvæmri stöðu.

Í rannsókninni var stuðst við tvo viðtalsramma, annars vegar fyrir samræður við börnin og hins vegar við foreldrana. Markmið samtalanna við foreldrana var að gefa þeim tækifæri til þess að tjá sig um reynslu sína af foreldrahlutverkinu í umsóknarferlinu og hvernig þeir upplifðu líðan og líf barna sinna eftir komuna til Íslands. Í samtölunum við börnin var markmiðið að gefa þeim tækifæri á að lýsa upplifun sinni og líðan eftir komuna til Íslands og hvað skipti þau máli í lífinu. Til þess að hefja samtalið við börnin var stuðst við gamlar og nýjar ljósmyndir, en sum börnin tóku ljósmyndir með síma eða myndavélum sem þau fengu hjá rannsakanda. Eins voru teikningar barnanna notaðar til að auðvelda samræður við þau (sjá Fargas-Malet, McSherry, Larkin og Robinson, 2010). Þegar rannsakandi hitti fjölskyldurnar átti sér oftast fyrst stað samtal við foreldra og börnin saman á kynningarfundinum, síðan við foreldrana (börnin voru ýmist heima eða að heiman þegar viðtal við foreldrana átti sér stað) og loks eingöngu við börnin. Systkini voru þó stundum saman í samtali þegar þegar um var að ræða yngri börn og samræður áttu sér stað samhliða leik. Misjafnt var hvort báðir foreldrar eða annað tækju þátt í rannsókninni en að minnsta kosti annað foreldranna var heima þegar samtal átti sér stað við börnin en þá var viðkomandi oftast í öðru herbergi, til dæmis eldhúsinu. Það var undir börnum og foreldrum komið hvað þeim fannst viðeigandi. Nærvera foreldris þegar rætt var við börnin leiddi til þess að ekki var leitað svara við ákveðnum spurningum, til dæmis um andlega líðan foreldris. Börnin ræddu þó gjarnan viðkvæma stöðu foreldra sinna, jafnvel í þeirra návist. Samræðurnar voru oft tilfinningaþrungnar.

Gögnin voru greind og þemaflokkuð með aðlagaðri grundaðri kenningu að hætti Crang og Cook (2007, bls. 134-146) en í henni felst að tilgátur og kenningar eru myndaðar í yfirferð og greiningu rannsóknargagna en eru ekki fyrirfram mótaðar þegar rannsóknin hefst. Í rannsókninni var ekki þróuð grunduð kenning í eiginlegri mynd heldur niðurstöðurnar settar fram með þematengdum og lýsandi hætti. Unnið var út frá því sjónarhorni að börnin séu best til þess fallin að útskýra reynslu sína, sálfélagslega vellíðan og aðstæður og þau skuli virt sem gerendur í eigin lífi án þess þó að horfa fram hjá erfiðri stöðu þeirra (Jóhanna Einarsdóttir, 2007; Tisdall og Punch, 2012). Þótt ekki sé til nein ein skilgreining á hugtakinu vellíðan (Dodge, Daly, Huyton og Sanders, 2012) er ljóst að sálfélagslegir þættir geta haft neikvæð áhrif á heilsu barna og fullorðinna (CSDH, 2008). Í þessari grein er leitast við að lýsa huglægri upplifun þátttakenda rannsóknarinnar af líðan sinni og aðstæðum. Tekið var mið af vinnu Inter-Agency Network for Education in Emergencies (INEE) sem skilgreinir hugtakið sálfélagsleg vellíðan sem færni þeirra sem lent hafa í erfiðum aðstæðum til að eiga í nýjum félagslegum samskiptum, hvernig þeir ráði við breyttar aðstæður (þar á meðal menningu, gildi og almenn viðmið) og sjálfsmats (Inter-Agency Network for Education in Emergencies, 2016).

Siðferðileg álitamál eru mörg við rannsókn sem þessa, enda eru börnin og foreldrarnir í viðkvæmri stöðu vegna aðstæðna og börnin vegna aldurs (Vísindasiðanefnd Háskóla Íslands, 2014). Rannsakandi útskýrði tilgang og framkvæmd rannsóknar eins vel og unnt var svo viðmælendur gætu tekið upplýsta ákvörðun um þátttöku, í flestum tilfellum með aðstoð túlks og upplýsingablaði sem þýdd voru á viðeigandi tungumál. Til að standa vörð um persónuvernd barna og foreldra sem tóku þátt í rannsókninni er ekki greint frá kyni barna né foreldra, aldri þeirra eða þjóðerni. Rannsóknin fékk jákvæða umfjöllun hjá Vísindasiðanefnd Háskóla Íslands og var skráð hjá Persónuvernd.

Niðurstöður

Þrjú þemu mörkuðu líf barnanna og foreldra þeirra á meðan þau biðu úrlausnar yfirvalda á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í fyrsta lagi er það biðin eftir svari við umsókn um alþjóðlega vernd, en helstu undirþemu eru óvissa, aðgerðaleysi, framtíðin og hugarangur. Í öðru lagi eru samskipti við ýmsar stofnanir fjölskyldumeðlimum ofarlega í huga, og helstu undirþemu eru ósýnileiki, ótti, áfall, velvild og afskiptaleysi. Í þriðja lagi er fjölskyldulífið mikilvægt og undirþemu sem koma upp í þeirri umræðu eru ábyrgð, þakklæti, að vera öðrum háður, vanlíðan, jákvæðni og bráður þroski.

Biðtíminn eftir niðurstöðu í umsóknarferlinu hafði mikil áhrif á sálfélagslega velferð fjölskyldumeðlima sem höfðu verið mislengi hér á landi, sumir í nokkrar vikur eða mánuði, aðrir meira en ár og jafnvel lengur. Foreldrar og börn lýstu álaginu við það að horfast í augu við óvissuna, tilbreytingarsnauðan hversdagsleikann og áhyggjur af framtíðinni. Eitt foreldranna lagði áherslu á að biðin skapaði álag fyrir alla fjölskylduna: „Þetta er eins og sjúkdómur. Börnin hafa áhyggjur og það er ekki gott að hugsa mikið um það hvað við eigum að gera ef við verðum send til baka. Það er ekki gott fyrir börnin, að hugsa alltaf um það.“ Foreldranir reyndu því meðvitað að vernda börnin, og sérstaklega þau yngstu, frá áhyggjum með því að segja þeim ekki allan sannleikann um aðstæður fjölskyldunnar.

Börn allt frá 12 ára aldri töluðu um áhrif biðtímans og þau voru mörg hver meðvituð um hvað væri í húfi. Til að mynda sagði eitt barnið: „Þetta hefur gríðarlega áhrif á okkar líf, því okkar líf veltur á einu svari. Framtíðin hræðir mig svolítið auðvitað. Það fer allt eftir því hvað þeir segja.“ Foreldri lýsti því hvernig barn þess sá fyrir sér að „lífið gæti bara endað“ ef svarið yrði neikvætt. Eitt barnið sagðist vera „hrætt við framtíðina … hræðsla við hvað verður um okkur.“ Sum reyndu engu að síður að halda í vonina og líta fram á við með jákvæðni í huga þrátt fyrir allt. Eitt barnanna lýsti líðan sinni gagnvart framtíðinni með eftirfarandi orðum:

Ég get verið jákvæð(ur) út í framtíðina, stundum verð ég neikvæð(ur) … en ég er hrædd(ur) að sjálfsögðu því við höfum okkar vandamál og þetta er löng bið og við vitum ekki hvað mun gerast … en núna er ég jákvæð(ur).

Áhyggjur af stöðu fjölskyldunnar og mögulegri synjun á umsókn fjölskyldunnar um alþjóðlega vernd hafði áhrif á svefn fjölskyldumeðlima. Börnin áttu sum hver erfitt með svefn en meginástæða þess voru martraðir og áhyggjur sem ollu þeim hugarangri. Slíkt mátti greina á svörum barnanna á borð við: „Ég á mjög erfitt með að sofa, fæ martraðir,“ og „stundum á ég erfitt með svefn … ég verð leið(ur), velti fyrir mér hvort ég fái að vera hér áfram og hugsa neikvætt … vil ekki fara til baka.“ Barn sem var búið að bíða í marga mánuði eftir svari frá yfirvöldum sagðist til að mynda eiga erfitt með svefn „því ég er að hugsa um eitthvað neikvætt … neikvætt í sambandi við óþolandi bið … að vita ekki hvað verður.“

Aðgerðaleysi svo dögum, vikum eða mánuðum skipti og tilheyrandi tilbreytingarsnauður hversdagsleiki hafði mikil áhrif á líf fjölskyldnanna. Börnin voru þó flest komin í skóla en þau sögðu að aðgerðaleysið á meðan þau biðu eftir að komast inn í skólakerfið hefði reynst þeim erfitt því að það var ekkert fyrir þau að gera. Hins vegar leið þeim betur eftir að þau byrjuðu í skólanum og með því að hafa eitthvað fyrir stafni varð biðin ekki eins þungbær. Það létti einnig undir með foreldrunum að börnin fóru í skólann en þar hittu þau önnur börn og fengu útrás fyrir eigin orku. Tvö börn nefndu að þau legðu sig sérstaklega fram við að læra og aðlagast hratt og vel því þau töldu að góður árangur þeirra gæti mögulega aukið líkur fjölskyldunnar á dvalarleyfi hér á landi. Hins vegar gat langur tími í óvissu haft letjandi áhrif á börnin til þess að standa sig í náminu, eða eins og eitt barnanna orðaði það: „Ef ég fengi að vita að ég mætti vera áfram á Íslandi þá myndi ég gera meira í skólanum, læra tungumálið betur og læra meira í skólanum.“

Foreldrarnir höfðu oft lítið fyrir stafni á daginn og aðgerðaleysið lagðist þungt á þá enda höfðu þeir ótakmarkaðan tíma til þess að hugsa um stöðu sína, erfiða lífsreynslu og óljósa framtíð. Sögðu þau frá vanlíðan og vonleysi sem hafði svo aftur áhrif á getu þeirra til þess að sinna foreldrahlutverki sínu og hafði þannig áhrif á börnin.

Ósýnileg börn

Þegar sótt er um alþjóðlega vernd þurfa umsækjendur að fara í viðtöl og veita upplýsingar, til dæmis hjá lögreglunni og Útlendingastofnun auk samskipta við Rauða krossinn, félagsþjónustu, heilbrigðiskerfið og fleiri þjónustuaðila. Í samtölunum við börnin og foreldrana kom skýrt fram að ekki var leitað eftir upplýsingum frá börnunum eða talað við þau í umsóknarferlinu heldur var nánast eingöngu rætt við foreldrana. Einnig kom fram að þau hefðu ekki fengið neinar upplýsingar um við hverju þau mættu búast í umsóknarferlinu eða hvaða réttindi þau hefðu hér á landi. Sumum fannst fyrirkomulagið í lagi en aðrir voru þeirrar skoðunar að ræða ætti við börnin og gefa þeim tækifæri á að tjá sig, sérstaklega í samskiptum við félagsþjónustuna. Ræða mætti við þau um sálræna líðan þeirra og hvernig þeim gengi að fóta sig í nýjum aðstæðum. Barn sagði: „Það hefur enginn spurt mig um það hvernig mér líði,“ og önnur börn höfðu svipaða sögu að segja. Það var þó ekki þannig að börnin væru algjörlega afskipt. Starfsmenn ávörpuðu börnin og þau fundu fyrir almennri velvild þeirra en það var hins vegar ekki um innihaldsrík samskipti að ræða.

Í heilbrigðiskerfinu átti það sama við. Oftast spurðu starfsmenn, til dæmis í fyrstu skoðun og við heimsóknir á heilsugæslustöð, lítið eða ekkert út í andlega líðan barnanna að fyrra bragði. Það var einnig misjafnt hvort aðrir þjónustuaðilar spyrðu út í slíka hluti. Fram kom í samtali við börnin að það var ekki spurt um andlega líðan í sóttvarnarskoðuninni sem öll börnin fóru í eftir komuna til Íslands. Þar var eingöngu um líkamlega skoðun að ræða. Lýsingar voru yfirleitt á þann veg að barnið hefði verið skoðað vandlega líkamlega en ekki hefði verið spurt út í annað: „Þau töluðu við mig, voru að spyrja mig hvernig heilsan væri … hvernig mér leið í kroppnum … en ekki andlega.“

Í umsóknarferlinu var almennt ekki leitað upplýsinga frá börnunum um aðstæður þeirra hér á Íslandi. „Mér finnst nauðsynlegt að það sé líka talað við mig, þó ég sé barn, því börn geta líka verið í áfalli, það má ekki gleyma því,“ sagði eitt barnanna. Annað barn sagði: „Mér finnst það að tjá sig og tala vera mjög góð leið til þess að gera ástandið auðveldara fyrir okkur.“ Tvö af eldri börnunum bentu líka á að eftirfylgni með börnum í kerfinu mætti vera meiri og sýnilegri, til dæmis hvernig þeim gengi að fóta sig í samfélaginu og eignast vini og kunningja. Eitt þeirra sagði:

Mér finnst mikilvægt að börn sem hafa komið hingað og hafa orðið fyrir áfalli hafi einhvern með sér, leiðbeinanda eða ráðgjafa … til að fylgja málunum eftir. Hann myndi kannski hitta þau 2–3 sinnum í viku til að spjalla og sjá hvernig gangi … að aðlagast … það gæti verið einhver … sem veit hvernig það er að vera að ganga í gegnum þetta … annað hvort einhver sem hefur verið í sömu sporum eða einhver sem er með mjög víðan sjóndeildarhring og gæti skilið mann. Hvort sem hann er ungur eða ekki.

Aðstaða fyrir börn var takmörkuð hjá mörgum af þeim þjónustuaðilum sem fjölskyldurnar þurftu að eiga í samskiptum við vegna umsóknarferlisins. Sumstaðar voru kubbar eða bækur fyrir yngri börnin en á öðrum stöðum var ekkert slíkt til staðar. Foreldrar sem áttu lítil börn sögðu mikilvægt að koma upp aðstöðu fyrir börn því að það hafi verið truflandi að ræða erfið mál tengd umsókninni og að sinna börnunum samtímis, til dæmis með því að hossa þeim og syngja fyrir þau. Sumir foreldranna tóku fram að starfsmennirnir hefðu reynt að hafa ofan af fyrir börnunum og dreifa athygli þeirra með því að rétta þeim blöð og penna. Foreldrar reyndu líka að sýna börnunum myndefni í símanum, en það voru þó ekki allir svo vel búnir að hafa síma. Sum börnin bentu á að betri aðstaða fyrir börn myndi draga úr streitu og hjálpa þeim að hugsa um eitthvað annað en erfiða stöðu fjölskyldunnar. Eitt barnanna sagði: „Það var gangur og svo viðtalsherbergi fyrir lögreglumennina og foreldra mína. Ég beið á ganginum þar til þau kláruðu. Þetta tók svolítið langan tíma og það var mjög niðurdrepandi að sitja með áhyggjur og gera ekkert í langan tíma.“ Annað barn tók fram að „þó það væri sérherbergi fyrir börn, myndi ég samt vera hrædd(ur).“

Takmörkuð aðstaða og afþreying fyrir börn hjá þjónustuaðilum jók álagið á foreldrana enn frekar og varð til þess að þeir sumir þeirra áttu erfitt með að einbeita sér. Foreldri sem á ung börn sagði:

Það er svolítið erfitt að vera með börn hjá lögreglunni og öðrum slíkum stöðum, mikið ónæði. En lögreglan var góð, gaf mér séns, sögðu mér að slaka á og ekki stressa mig. Mín skoðun er sú og ég bið um að það sé sérherbergi eða barnahorn hjá lögreglunni og Útlendingastofnun og einhver sem getur tekið á móti börnunum og leikið við þau, sérstaklega ef þau eru ung. Það er líka erfitt fyrir svona ung börn að hlusta á þetta.

Sumum börnum, og þá sérstaklega þeim eldri, fannst erfitt að hafa ekki kennitölu og sögðu það aðgreina þau frá öðrum börnum og koma í veg fyrir fulla þátttöku, til dæmis í keppnisíþróttum og sumarvinnu, og þar með færu þau á mis við tækifæri til þess að verja tíma með skólafélögum og taka þátt í samfélaginu. Eldri börnin lýstu því meðal annars á þann veg að: „Maður getur ekki gert neitt nema hafa kennitölu … ég finn, það vantar eitthvað í mig, eitthvað sem aðrir hafa en ég hef ekki“ og „Það hefur mikil áhrif að hafa ekki kennitölu. Það skiptir svo miklu máli, þú ert ekki hluti af þjóðinni og tilheyrir engu og engum hóp ef þú ert ekki með kennitölu … þú ert ekki neitt í samfélaginu.“ Ein fjölskyldan lagði þó áherslu á að sveitarfélagið þar sem fólkið bjó í reyndi eftir fremsta megni að stuðla að því að börn þeirra gætu tekið þátt í viðeigandi starfsemi.

Auðséð var, þar sem viðtölin fóru nánast öll fram á dvalarstað barnanna, að búsetuskilyrði og aðstaða barnanna var mjög misjöfn. Sum barnanna bjuggu á stöðum þar sem í raun er ekki gert ráð fyrir börnum, til dæmis hvað varðar útivistarsvæði, rými til leiks eða að dót sé fyrir hendi. Barn sem bjó við slíkar aðstæður sagði: „Við reynum að leika við hvort annað frammi á gangi, en það er ekki mikið sem við getum gert.“ Önnur börn bjuggu í vel búnum og rúmgóðum íbúðum í íbúðahverfum með skipulögð leiksvæði fyrir börn.

Fjölskyldan

Foreldrum fannst erfitt að vita af stöðu barna sinna og upplifðu að þau sem ábyrgir foreldrar hefðu misst stjórnina á aðstæðum fjölskyldunnar. Þeim fannst erfitt að vera öðrum háðir og upplifðu sig oft sem uppáþrengjandi þegar þeir þurftu að biðja um aðstoð eða leita upplýsinga hjá þjónustuaðilum. Stundum veigruðu foreldrar sér við að leita aðstoðar en það gat orðið til þess að fjölskyldan fór á mis við aðstoð, eins og til dæmis að börnin fengju hlý föt, viðeigandi sértæka þjónustu og fleira. Foreldri lýsti aðstæðum sínum þannig: „Ég er mjög þakklát(ur) fyrir þá aðstoð sem við höfum fengið … en ég er treg(ur) til að biðja um aðstoð … finnst eins og við séum að ónáða skilurðu, það er erfitt.“ Foreldrum fannst að þeir gætu ekki veitt börnum sínum það sem þau vildu, hvort sem það tengdist skólagöngu eða veraldlegum hlutum, fannst erfitt að vera upp á aðra komnir og í raun undir stjórn annarra. Þá var erfitt að skilja ekki tungumálið né hvernig stjórnsýslan og önnur þjónusta virkaði: „Ég geri það besta sem ég get en margt hamlar því að maður hafi stjórn á eigin lífi og fjölskyldunnar … ég reyni að fara út með barninu, sérstaklega um helgar.” Foreldrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að hafa aðgengi að útisvæðum, sérstaklega áður en börnin væru byrjuð í skóla og hefðu af þeim sökum lítið fyrir stafni.

Margt breytist þegar fjölskylda flýr heimaland sitt og sækir um alþjóðlega vernd í öðru landi, meðal annars geta átt sér stað hlutverkaskipti innan fjölskyldunnar. Til að mynda voru margir foreldranna vanir að vinna mikið í heimalandinu en eftir að til Íslands var komið höfðu foreldrarnir lítið að gera svo dögum, vikum, eða mánuðum skipti enda flókið að fá atvinnuleyfi á meðan á umsóknarferlinu stendur. Ljóst er að bæði fyrri reynsla, óvissan og aðstæður fjölskyldanna hér á landi höfðu mikil áhrif á viðmælendur og streitueinkenni og sálræn vanlíðan kom fram meðal barna og foreldra. Lýsingar á borð við „manni leiðist og verður dapur,“ „að vera alltaf heima verður til þess að manni leiðist og líður illa” og „ég græt mjög mikið, alla daga“ komu fram hjá frá börnunum.

Áhyggjurnar sem börnin höfðu lituðu líf þeirra og sneru þær meðal annars að nánum fjölskyldumeðlimum sem þau gátu ekki verið með, eigin framtíð og fjölskyldunnar og líðan foreldranna. Flest börnin ræddu líðan sína að einhverju leyti við foreldrana en önnur tjáðu sig lítið um eigin líðan og héldu henni út af fyrir sig. Vanlíðan einstakra fjölskyldumeðlima hafði áhrif á alla fjölskylduna, á velferð hennar og virkni. Foreldrar höfðu áhyggjur af líðan barna sinna og börnin höfðu áhyggjur af líðan foreldra sinna. Foreldri lýsti ástandinu á þennan hátt:

Álagið á okkur hefur áhrif á börnin. Þetta er ekki gott fyrir þau. Ég reyni að segja við þau að það verði allt í lagi … en það er erfitt að gera það. Maður segir að þetta sé í lagi en þau skilja að það er eitthvað sem er ekki eins og það á það vera.

Vanlíðan foreldra getur haft mikil áhrif á fjölskyldulífið, uppeldið og á börnin. Börnin reyndu að bæta líðan foreldra sinna með því að vera til staðar, sýna stuðning og hvatningu. Eitt foreldri sagði: „Á hverjum degi talar barnið við okkur … og hjálpar okkur með allt … og er mun jákvæðara en við … kannski getur það hjálpað.“ Annað foreldri lýsti viðbrögðum barns síns á eftirfarandi hátt: „Ég er þunglynd(ur) og græt mikið … barnið mitt sér það og reynir að hughreysta mig.“ Barn sem hafði sagt frá eigin vanlíðan og grátköstum vegna stöðu fjölskyldunnar sagði stuttu síðar: „Mitt hlutverk er að vera hress. Ég reyni að gleðja fjölskylduna mína, láta hana hlæja.“ Foreldri sem hafði þurft að bíða lengi eftir svari frá yfirvöldum, var mjög þreytt á ástandinu og sagði streituna stundum koma fram í pirringi og ergelsi sem bitnaði á börnunum sem svo jók enn frekar á streitu og vanlíðan.

Börnin tóku einnig að sér hlutverk, eins og að vera foreldrum sínum sálrænn stuðningur og að túlka fyrir þá þegar svo bar undir. Eitt barnið lýsti þessu sjálft þannig: „Ég held að við höfum þurft að þroskast hraðar og gera hlutina öðruvísi.“ Foreldrunum fannst einnig að börn þeirra hefðu þurft að þroskast hraðar en ella vegna þeirra atburða og aðstæðna sem þau voru að takast á við.

Umræður

Hér hefur aðstæðum og líðan barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd í fylgd foreldra á Íslandi verið lýst og þeim gefin rödd um stöðu sína, í anda barnafræða og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Líf fjölskyldnanna einkennist öðru fremur af þrennu. Í fyrsta lagi er biðin eftir svari erfið og einkennist af óvissu, aðgerðarleysi og áhyggjum. Í öðru lagi eiga foreldrarnir í samskiptum við ýmiss konar stofnanir, en þar eru börnin að ákveðnu leyti ósýnileg og eru til dæmis ekki spurð álits eða þau upplýst um mál sem þau varðar. Í þriðja lagi litast fjölskyldulífið af því að fjölskyldan verður háð aðstoð utanaðkomandi aðila, foreldrar missa stjórn á aðstæðum og upplifa oft valdleysi, en samtímis reyna bæði foreldrar og börn að dylja vanlíðan sína og gera sér jafnvel upp meðvitaða jákvæðni. Niðurstöðurnar gefa til kynna að margvíslegir þættir í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd þarfnist endurskoðunar við til samræmis við Barnasáttmálann sem Ísland hefur lögfest ný lög og reglugerðir sem gilda um málaflokkinn.

Langur málsmeðferðartími, óvissan sem honum fylgir og skortur á virkniúrræðum hafði neikvæð áhrif á sálfélagslega vellíðan barna og foreldra sem tóku þátt í rannsókninni. Sambærilegar niðurstöður má sjá í erlendum rannsóknum (Björnberg, 2013; Ottoson, Eastmond og Cederborg, 2017; Vitus, 2010). Eftir því sem tíminn líður aðlagast börnin að leikskóla, grunnskóla og nærsamfélaginu og því verður missirinn meiri og sárari ef fjölskyldan fær synjun við umsókn sinni. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að veita börnum og barnafjölskyldum forgang í umsóknarferlinu til þess að takmarka neikvæð áhrif biðtímans á börnin (CRC, 2013; Tonheim o.fl., 2015).

Umsóknarferlið um alþjóðlega vernd á Íslandi er fullorðinsmiðað, þar sem börn í fylgd foreldra eru lítt sýnileg. Svipaðar niðurstöður má sjá í erlendum rannsóknum (Lundberg og Lind, 2017; Ottoson o.fl., 2017; Tonheim o.fl., 2015). Barnvæn aðstaða var ekki fyrir hendi hjá öllum þeim þjónustuaðilum og stofnunum sem komu að þjónustu við foreldra og börn sem leituðu alþjóðlegrar verndar. Þó svo starfsmenn hafi komið kurteislega fram og verið vinalegir við börnin þá var sjaldan leitað álits þeirra á málefnum sem snertu þau og þau fengu sjaldan áheyrn fullorðinna. Þetta verklag er í andstöðu við 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (e.d.) þar sem fram kemur að „börn eiga rétt á því að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er þau varða og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska,“ þar með talið í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd (CRC, 2013; CRC, 2009).

Margvíslegar ástæður geta valdið því að börn í viðkvæmri stöðu verði ósýnileg í samskiptum við stjórnvöld. Ferguson (2017) vekur athygli á að í erfiðum málum, eins og ofbeldi gegn börnum, geti börn orðið ósýnileg vegna innra skipulags stofnana og þess tilfinningalega álags sem meðferð barnanna hefur í för með sér fyrir starfsmenn. Meloni o.fl. (2017) skoða ósýnileika barna án skilríkja í skólum í Montreal í Kanada og vekja athygli á að skólaganga þeirra væri háð viðhorfum kennara og skólastjórnenda, aðgerðum félagssamtaka í nærsamfélagi barnanna og ótta barnanna og fjölskyldna þeirra sem velji gjarnan að láta lítið á sér bera. Höfundar skilgreina stofnanalegan ósýnileika (e. institutional invisibility) sem „viðtekin viðhorf og framkvæmd sem oft eru óskráð og óljós sem leiða til þess að hópar einstaklinga hverfi í félagslegum skilningi, bæði lagalegum og stjónmálalegum“ (15). Ósýnileiki barna í umsóknarferli foreldra um alþjóðlega vernd á Íslandi gæti átt rætur í hliðstæðum aðstæðum. Það getur verið siðferðilega vandasamt að meta hver eigi rétt á og verðskuldi alþjóðlega vernd. Ef börnin væru sýnileg í umsóknarferlinu kallar það á sérstaka úrvinnslu í málum þeirra enda hafa þau sjálfstæðan rétt samkvæmt Barnasáttmálanum. Fjölmiðlaumræða um einstök mál hér á landi með börn í forgrunni er ein birtingarmynd um mikilvægi þess að þau fái andlit og að raddir þeirra heyrist. Dæmi eru um að ákvörðun stjórnvalda um stöðu foreldra og barna í leit að alþjóðlegri vernd hafi verið endurskoðuð í kjölfar slíkrar fjölmiðlaumræðu (Björg Guðlaugsdóttir 2018; Gyða Lóa Ólafsdóttir 2015). Fréttir af aðskilnaði barna frá fjölskyldum sínum við suðurlandamæri Bandaríkjanna sýnir mikilvægi þess að börn fjölskyldna á flótta verði sýnileg (Domonske og Gonzales, 2018; Wood, 2018).

Rauði krossinn á Íslandi, Unicef, Barnaheill og Umboðsmaður barna hafa birt yfirlýsingar um mikilvægi þess að stjórnvöld virði réttindi barna, þar á meðal rétt þeirra til að tjá sig (Rauði krossinn, 2016; Unicef, e.d.b.). Það er því mikilvægt í umsóknarferli um alþjóðlega vernd að skapa rými sem er barnvænt og öruggt en samtímis má ekki líta á börnin sem einhliða varnarlaus fórnarlömb heldur ber að virða atbeina þeirra og sjónarhorn í anda barnafræðanna (Crawly, 2009; James and Prout, 1990; Punch 2016; Smyth, 2014; Vitus og Lidén, 2010). Starfsmenn sem vinna með börnum í umsóknarferlinu þurfa þjálfun í samskiptum við þau, fræðslu, stuðning og handleiðslu (Cosgrave og Thornton, 2015; Lundberg, 2011; Lundberg og Lind, 2017). Í nýjum lögum um útlendinga kemur fram að sá sem tekur viðtal við börn þurfi að hafa sérþekkingu á málefnum barna (Lög um útlendinga nr. 80/2016). Á meðan verið er að byggja upp sérfræðiþekkingu innan viðkomandi stofnana er mikilvægt að fá fagaðila með viðeigandi þekkingu og reynslu til að starfa með börnum til þess að vera starfsfólki til aðstoðar. Í raun má segja að vandamálið við þátttöku og áheyrn barna sé ekki barnið sjálft, heldur hið fullorðinsmiðaða eðli umsóknarferlisins um alþjóðlega vernd sem útilokar barnið (Eastmond og Ascher, 2011; Smyth, 2014;), eins og í tilviki þeirra barna sem tóku þátt í rannsókninni.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðannna telur mikilvægt að setja ekki aldursviðmið á 12. grein sáttmálans því þroski og reynsla hefur áhrif, ekki eingöngu líffræðilegur aldur (CRC, 2009). Enn fremur ættu ríki að ganga út frá því að börn geti tjáð sig þar til annað kemur í ljós. ENOC undirstrikar mikilvægi þess að börnum, sem eru á faraldsfæti, sé skapaður vettvangur til þess að tjá skoðanir sínar með eigin orðum og að á þau sé hlustað (ENOC, 2013; Fagerholm og Verheul, 2016). Það er síðan ákvörðun barnanna hvort, og þá hvernig, þau vilja nýta sér rétt sinn til að tjá sig, óháð því hvort foreldrarnir tjá sig eða ekki (CRC, 2009; Smyth, 2014). Mikilvægt er að árétta að ekki sé verið að takmarka rétt foreldra til þess að tjá sig um málefni er snerta börn þeirra, en ítreka þess í stað rétt barna til að tjá sig, óháð því hvort foreldrarnir tjái sig eða ekki (Unicef, e.d.a). Því er það skref í rétta átt að á undanförnum mánuðum hefur Útlendingastofnun í samráði við foreldra boðið börnum sem talin eru hafa aldur og þroska til að koma í viðtal hjá stofnuninni í tengslum við málsmeðferð fjölskyldunnar. Viðtölin fara að jafnaði fram í húsnæði stofnunarinnar en lögfræðingar hennar sem fengið hafa viðeigandi fræðslu og þjálfun, taka viðtölin. Börn sem eru 15 ára og eldri fara að jafnaði í hefðbundin viðtöl líkt og fullorðnir einstaklingar.

Að mati ENOC og Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna eiga börn að hafa aðgengi að upplýsingum á tungumáli, sem þau skilja um réttindi sín sem umsækjendur um alþjóðlega vernd, hvað umsóknarferlið feli í sér og hvers þau geti vænst. Það er sérstaklega mikilvægt þar sem börn umsækjenda um alþjóðlega vernd reyna oft að verja foreldra sína og draga úr streitu þeirra, til dæmis með því að forðast erfiðar spurningar um umsóknarferlið (Eastmond, 2010; Ottoson o.fl., 2017). Í dag eru ekki til staðar aðgengilegar upplýsingar fyrir börn sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi og þarf að ráða bót á því. Samkvæmt 24. gr. í nýjum lögum um útlendinga skal fylgdarlausum börnum, sem koma hingað til lands, veittar upplýsingar í samræmi við aldur og þroska (Lög um útlendinga nr. 80/2016). Velta má fyrir sér hvort slík upplýsingagjöf eigi eingöngu að einskorðast við fylgdarlaus börn.

Ófullnægjandi búsetuúrræði, þar sem ekki er tekið tillit til þarfa barna, getur haft neikvæð áhrif á velferð þeirra (Fagerholm og Verheul, 2016; Fazel og Stein, 2002). ENOC hefur áréttað mikilvægi þess að búsetuúrræði og móttökuskilyrði barna, sem leita alþjóðlegrar verndar, eigi að vera viðeigandi og barnamiðuð (ENOC, 2013; Fagerholm og Verheul, 2016). Mikilvægt er að huga að rými til leiks og lærdóms og auðveldu aðgengi að útileiksvæðum (Martin, Horgan, O’Riordan og Christie, 2016; McMillan, Ohan, Cherian og Mutch, 2015; Tonheim o.fl., 2015). Bent hefur verið á að búsetuúrræði, sem eru nýtt fyrir fjölskyldur sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi, sé ekki alltaf viðeigandi fyrir börn og fjölskyldur (Kristín Sigurðardóttir, 2016; Unicef, e.d.b.). Búsetuúrræði þátttakenda rannsóknarinnar voru allt frá því að vera mjög barnvæn til þess að vera ófullnægjandi. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess fyrir fjölskyldur að búa í almennum íbúðahverfum og gjarnan nálægt ættingjum eða vinum séu slík tengsl til staðar (Smith og Lockwood, 2015; Spicer, 2008; Tonheim o.fl., 2015). Þá skiptir miklu að tekið sé vel á móti þeim af nágrönnum og að ekki sé alið á fordómum og útskúfun (Spicer, 2008). Tíðir búferlaflutningar hafa einnig slæm áhrif á velferð barna, sem leita alþjóðlegrar verndar, sérstaklega barna sem eiga erfiða reynslu að baki (Goosen, Stronks og Kunst, 2014; Tonheim o.fl., 2015).

Eitt af meginákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (e.d.) snýst um að ávallt skuli hafa bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi (3. gr), en það er líklega flóknasta og torskildasta ákvæði hans (Lundberg, 2011). Í rannsókn Lundberg og Lind (2017) var skoðað hvernig bestu hagsmunir barnsins væru ákvarðaðir í málsmeðferð barna sem leituðu alþjóðlegrar verndar í fylgd foreldra. Niðurstöður þeirra sýna að í úrskurðum er oft talið upp hvað séu ekki bestu hagsmunir barnsins eða hvað myndi ekki ganga gegn ákvæðinu um bestu hagsmuni barnsins. Hins vegar skortir yfirleitt útskýringu á því hvað séu bestu hagsmunir barnsins í raun. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á mikilvægi þess að meta og skilgreina bestu hagsmuni barnsins í hverju tilviki fyrir sig og að ákvarðanir stjórnvalda taki tillit til þeirra (CRC, 2013). Til þess þarf að gefa barninu tækifæri til þess að tjá sig um stöðu sína og málefni er það varðar, og þar á meðal huga að margvíslegum þáttum svo sem trú, menningu, kynhneigð og viðhaldi fjölskyldutengsla. Einnig þarf að gæta að nærumhverfinu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, skóla og félögum og meta öryggi barnsins, fyrri reynslu og stöðu (CRC, 2013; Van Os, Kalverboer, Zijlstra, Post og Knorth, 2016). Samkvæmt nýjum lögum um útlendinga nr. 80/2016 skal ávallt gæta að bestu hagsmunum barnsins en hins vegar er ekki ljóst hvernig það mat skuli framkvæmt (Lög um útlendinga nr. 80/2016). Mikilvægt er að fagfólk, sem hefur sérþekkingu á málefnum barna, framkvæmi matið, helst þverfaglegt teymi, og að fagfólk félagsþjónustu og viðeigandi þjónustuaðilar þekki vel til stöðu barnsins.

Til að meta sálfélagslega vellíðan barna sem leita alþjóðlegrar verndar þarf að þróa barnamiðaðan og menningarnæman viðtalsvísi (Tonheim o.fl., 2015). Þar væru styrkleikar og verndandi þættir í umhverfi barnanna kannaðir svo hægt sé að ákveða hvort og þá hvers konar íhlutunar sé þörf. Hér á Íslandi mætti byggja á þessari reynslu, en ekki fór fram markviss skimum á andlegri og sálfélagslegri líðan barnanna sem tóku þátt í rannsókninni. Heilbrigðisstarfsmenn og þjónustuaðilar töluðu sjaldan við börnin sem voru mörg áhyggjufull, og höfðu sum hver tekið að sér sálgæsluhlutverk fyrir foreldra sína. Það er þekkt að börn geri lítið úr eigin þörfum til þess að auka ekki enn frekar álag á foreldra sína og hversu alvarlegar afleiðingar vanlíðan foreldra getur haft á foreldrahæfni og þar með á börnin (Dansk flygtninge hjælp, e.d.; Eastmond, 2010; Laurtizen og Sivertsen, 2012; Newbigging og Thomas, 2011; Ottoson o.fl., 2017; Vaage, 2014). Börn á flótta hafa mörg hver upplifað erfiða reynslu fyrir og eftir að fjölskylda þeirra yfirgaf heimalandið sem getur haft áhrif á líf þeirra til lengri tíma litið (Kadir, Shenoda, Goldhagen og Pitterman 2018; Kadir, Battersby, Spencer og Hjern, 2019; Shenoda, Kadir, Pitterman og Goldhagen, 2018). Því er afar mikilvægt að koma til móts við þarfir barnanna með því að veita þeim viðeigandi stuðning og úrræði eftir þörfum hvers og eins þeirra (Goldhagen, Kadir, Fouad, Spencer og Raman, 2018; ISSOP Migration Working Group, 2018; Oberg, 2018).

Ein af niðurstöðum rannsóknar okkar er mikilvægi þess að þau hafi skjótan aðgang að skólagöngu. Skólaganga og menntun var börnum og foreldrum ofarlega í huga og voru oft höfð vinsamleg ummæli um kennara og skólann (Helga Guðmundsdóttir, Geir Gunnlaugsson og Jónína Einarsdóttir, 2018). Góð menntun skiptir börnin máli upp á framtíðina að gera, en skólagangan var ekki síður talin mikilvæg til að hitta önnur börn og eignast vini (Ottoson o.fl., 2017; Svenson og Eastmond, 2013; Tonheim, o.fl., 2015). Skólinn og skólaganga getur virkað sem heilsueflandi vettvangur sé vel að öllu staðið (de Wal Pastoor, 2013; de Wal Pastoor, 2015). Ætla má að með tilkomu nýrrar reglugerðar um útlendinga hafi verið stigið skref í rétt átt en í 27. gr. hennar kemur fram að „Útlendingastofnun skal tryggja að barn sé að jafnaði ekki lengur en fjórar vikur í umsjá stofnunarinnar án þess að vera komið í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar“(Reglugerð um útlendinga nr. 540/2017).

Rannsókn okkar sýnir að það eru margvíslegir þættir í umsóknarferli um alþjóðlega vernd hér á landi sem hafa áhrif á sálfélagslega vellíðan barna og foreldra þeirra. Því er mikilvægt að huga betur en nú er gert að líðan, stöðu og réttindum barna, sem leita alþjóðlegrar verndar með foreldrum sínum. Eins og staðan er í dag þá fullnægir Ísland ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í þjónustu við börn í fylgd foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar og er þá fyrst og fremst brotið á rétti barnanna til að tjá sig um málefni sem þau varðar. Því er mikilvægt að á grunni nýrra laga um útlendinga að skoða sérstaklega þjónustu við þessi börn svo hún uppfylli þær kvaðir sem alþjóðlegir sáttmálar leggja okkur á herðar og við höfum skrifað undir og lögfest.

Lokaorð

Fjölskyldur, sem leita alþjóðlegrar verndar, eru ekki einsleitur hópur. Margt er vel unnið í þágu þeirra á Íslandi en þjónustan er mismunandi eftir því hvort hún sé á vegum sveitarfélaga eða Útlendingastofnunar. Tækifæri til umbóta eru mörg. Þörf er á að bæta aðstöðu barna í umsóknarferlinu og að þau fái tækifæri á að tjá sig um eigin reynslu og líðan og að á raddir þeirra sé hlustað í samræmi við barnafræðin og Barnasáttmálann. Börnin eru í stofnanalegum skilningi að vissu marki ósýnileg í umsóknarferlinu og þörfum þeirra er ekki sinnt eins og best verður á kosið. Lögfesting Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna leggur ákveðnar skyldur á stjórnvöld. Hver mánuður eða ár í óvissu um niðurstöðu í umsóknarferli um alþjóðlega vernd skiptir máli í lífi barns og getur haft áhrif á þroska, heilsu og líðan þess til langframa. Því er skjót málsmeðferð börnum í hag og að aðbúnaður þeirra styðji bæði við þau og fjölskyldur þeirra á meðan á málsmeðferð stendur. Ný lög um útlendinga nr. 80/2016 með síðari breytingum eru áfangi í að bæta þjónustuna og mikilvægt skref í því að tryggja að bestu hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi í umsóknarferlinu. Það er brýnt að stjórnvöld setji skýrar verklagsreglur um með hvaða hætti hagsmunir barna skuli metnir og tryggja þarf að þær séu í takt við Barnasáttmálann og lög sem snúa að vernd og velferð barna. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að hlusta eftir röddum barna sem koma með fjölskyldum sínum í leit að alþjóðlegri vernd og vinna að úrbótum þannig að þau njóti þeirra réttinda sem þeim ber.

 

Heimildir

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. (e.d.). Sótt 13. febrúar 2019 af http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html

Björg Guðlaugsdóttir. (2018, 12. apríl). Haniye og faðir hennar fá stöðu flóttafólks. Sótt 13. febrúar 2019 af http://www.ruv.is/frett/haniye-og-fadir-hennar-fa-stodu-flottafolks

Björnberg, U. (2013). “Caught between a troubled past and an uncertain future: The well-being of asylum-seeking children in Sweden.” Í Minguez, A. M. (ritstj.), Family well-being: European perspectives (bls. 261–275). Dordrecht: Springer.

Bordonaro, L. I. og Payne, R. (2012). Ambiguous agency: critical perspectives on social interventions with children and youth in Africa. Children’s Geographies, 10(4), 365-372. https://doi.org/10.1080/14733285.2012.726065

CRC. (2009). General Comment No. 12. The right of the child to be heard (CRC/C/GC/12). New York: United Nations. Sótt 13. febrúar 2019 af http://bit.ly/2nwNecJ

CRC. (2013). General comments No. 14 in the right of the child to have his or her best interest taken as primary considerations. New York: United Nations. Sótt 13. febrúar 2019 af http://bit.ly/2n1wCO9

CRC Policy Center. (e.d.). CRC Adoption, Signatures and Ratifications. Sótt 13. febrúar 2019 af http://www.uncrcpc.org/index.php?id=52

Cosgrave, C. og Thornton, L. (2015). „Immigration and Asylum Law.“ Í Children‘s Rights Alliance (ritstj.), Making Rights Real for Children: A Children‘s Rights Audit of Irish Law.Children‘s Rights(bls. 168-186). Dublin: Children’s Rights Alliance and the Law Centre for Children and Young People.

Crang, M. og Cook, I. (2007). Doing Ethnographies. Los Angeles: Sage Publications.

Crawly, H. (2009). No one gives you a chance to say what you are thinking. Finding space for children‘s agency in the UK asylum system. Royal Geographical Society, 42(2), 162-169. https://doi.org/10.1111/j.1475-4762.2009.00917.x

CSDH. (2008). Closing the gap in a generation: health equity through action on the social determinants of health. Final Report of the Commission on Social Determinants of Health. Geneva: WHO. Sótt 13. febrúar 2019 af http://apps.who.int/iris/bitstream/10665/43943/1/9789241563703_eng.pdf

Dansk flygtninge hjælp. (e.d.). How to help a child with traumas. Varde Municipality and the Danish Refugee Council. Sótt 13. febrúar 2019 af https://flygtning.dk/media/2595458/120716-folder-til-flygtningeforaeldre-saadan-hjaelper-du-et-barn-med-traumer_engelsk.pdf

de Wal Pastoor, L. (2015). The mediational role of schools in supporting psychosocial transitions among unaccompanied young refugees upon resettlement in Norway. International Journal of Educational Development, 41, 245–254. https://doi.org/10.1016/j.ijedudev.2014.10.009

de Wal Pastoor, L. (2013). The decisive role of school in the lives of unaccompanied refugee minors in Norway. Siirtolaisuus-Migration, 40, 32–40.

Dodge, R., Daly, A., Huyton, J. og Sanders, L. (2012). The challenge of defining wellbeing. International Journal of Wellbeing, 2(3), 222-235. https://doi.org/10.5502/ijw.v2i3.4

Domonoske, C. og Gonzales, R. (2018, 19. júní). What we know: family separation and ‘Zero Tolerance’ at the border. Sótt 13. febrúar 2019 af https://www.npr.org/2018/06/19/621065383/what-we-know-family-separation-and-zero-tolerance-at-the-border

Eastmond, M. (2010). „Gäster i välfärden? Föräldraskap i asyl-processen.“ Í Anderson, H. A., Ascher, H., Björnberg, U. og Eastmond, M. (ritstj.), Mellan det förflutna och framtiden: Asylsökande barns välfärd, hälsa och välbefinnande(bls. 87-107). Göteborg: Göteborgs Universitet Centrum för Europaforskning.

Eastmond, M. og Ascher, H. (2011). In the best interest of the child? The politics of vulnerability and negotiations for asylum in Sweden. Journal of Ethnic and Migration Studies, 37(8),1185-1200. http://dx.doi.org/10.1080/1369183X.2011.590776

ENOC. (2013). ENOC Position Statement on “Children on the Move”. Children on the Move: Children First. European Network for Ombudsmen for Children, Strasbourg. Sótt 13. febrúar 2019 af http://enoc.eu/wp-content/uploads/2015/01/ENOC-2013-Statement-on-Children-on-the-Move-EN.pdf

Fagerholm, K. og Verheul, R. (2016). Safety and fundamental rights at stake for children on the move: Call for the EU and European countries to implement a child rights perspective in the reception of migrating children. Amsterdam/Stockholm: ENOC Taskforce Children on the Move.

Fargas-Malet, M., McSherry, D., Larkin, E. og Robinson, C. (2010). Research with children: methodological issues and innovative techniques. Journal of Early Childhood Research, 8(2), 175–192. https://doi.org/10.1177/1476718X09345412

Fazel, M. og Stein, A. (2002). The mental health of refugee children. Archives of Disease of Childhood, 87(5), 366–370. http://dx.doi.org/10.1136/adc.87.5.366

Ferguson, H. (2017). How children become invisible in child protection work: findings from research into day-to-day social work practice. The British Journal of Social Work, 47(4), 1007-1023. https://doi.org/10.1093/bjsw/bcw065

Goldhagen, J. L., Kadir, A., Fouad, F. M., Spencer, N. og Raman, S. (2018). The Budapest declaration for children and youth on the move. The Lancet Child and Adolescent Health, 2(3), 164-165. https://doi.org/10.1016/S2352-4642(18)30030-0

Goosen, S., Stronks, K. og Kunst, E. A. (2014). Frequent relocations between asylum-seeker centres are associated with mental distress in asylum-seeking children: a longitudinal medical record study. International Journal of Epidemiology, 43(1), 94-104. https://doi.org/10.1093/ije/dyt233

Gyða Lóa Ólafsdóttir. (2015, 21. desember). Albönsku fjölskyldurnar tvær með tvöfaldan ríkisborgararétt. Sótt 13. febrúar 2019 af http://www.visir.is/g/2015151229928

Helga Guðmundsdóttir. (2016). Upplifun og reynsla barna og foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi [Perception and experience of asylum-seeking children and their parents in Iceland]. Meistararitgerð í þróunarfræðum, Félags- og mannvísindadeild, Háskóli Íslands. http://hdl.handle.net/1946/23563

Helga Guðmundsdóttir, Geir Gunnlaugsson og Jónína Einarsdóttir. (2018). „Allt sem ég þrái.“ Menntun barna í fylgd foreldra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi [e. ‘All I aspire’. Education of children to families seeking asylum in Iceland]. Tímarit um uppeldi og menntun, 27(1): 1-21. https://doi.org/10.24270/tuuom.2018.27.1

Inter-Agency Network for Education in Emergencies. (2010). INEE thematic issue brief: Psychosocial well-being. Sótt 13. febrúar 2019 af http://toolkit.ineesite.org/resources/ineecms/uploads/1128/INEE_Thematic_Issue_Brief_Psychosocial.pdf

ISSOP Migration Working Group. (2018). ISSOP position statement on migrant child health. Child: Care, Health and Development, 44, 161-170. https://doi.org/10.1111/cch.12485

James, A. og Prout, A. (1990). Constructing and Reconstructing Childhood. London: Routledge Falmer.

Jóhanna Einarsdóttir. (2007). Research with children: methodological and ethical challenges. European Early Childhood Education Research Journal, 15(2),197-211. http://dx.doi.org/10.1080/13502930701321477

Kadir, A., Shenoda, S., Pitterman, S. og Goldhagen, J. (2018). The effects of armed conflict on children. Pediatrics, 142(6): e20182586. https://doi.org/10.1542/peds.2018-2586

Kadir, A., Battersby, A., Spencer, N. og Hjern, A. (2019). Children on the move in Europe: a narrative review of the evidence on the health risks, health needs and health policy for asylum seeking, refugee and undocumented children. BMJ Paediatrics Open, 3:e000364. doi: 10.1136/bmjpo-2018-000364

Kristín Sigurðardóttir. (2016, 30. nóvember). Hafa áhyggjur af aðbúnaði barna hælisleitenda. Sótt 13. febrúar 2019 af http://bit.ly/2opSwuk

Lundberg, A. (2011). The best interests of the child principle in Swedish asylum cases: the marginalization of children’s rights. Journal of Human Rights Practice, 3(1), 49-70. https://doi.org/10.1093/jhuman/hur002

Lundberg, A. og Lind, J. (2017). Technologies of displacement and children‘s right to asylum in Sweden. Human Rights Review, 18(2), 189-208. https://doi.org/10.1007/s12142-016-0442-2

Lög um útlendinga nr. 80/2016.

Martin, S., Horgan, D., O’Riordan, J. og Christie, A. (2016). Advocacy and surveillance: primary school teachers’ relationships with asylum-seeking mothers in Ireland. Race Ethnicity and Education, 1-13. https://doi.org/10.1080/13613324.2016.1248827

McMillan, K. K., Ohan, J., Cherian , S. og Mutch, R. C. (2015). Refugee children’s play: before and after migration to Australia. Journal of Paediatrics and Child Health, 51,771-777. https://doi.org/10.1111/jpc.12849

Meloni, F., Rousseau, C., Ricard-Guay, A. og Hanley, J. (2017). Invisible students: institutional invisibility and access to education for undocumented children. International Journal of Migration, Health and Social Care13(1), 15-25. https://doi.org/10.1108/IJMHSC-01-2014-0001

Newbigging, K. og Thomas, N. (2011). Good Practice in Social Care for Refugee and Asylum-seeking Children. Child Abuse Review, 20(5), 374-390. https://doi.org/10.1002/car.1178

Oberg, C. (2018). The rights of children on the move and the Budapest Declaration. Children, 5(5), 61; https://doi.org/10.3390/children5050061

Ottoson, L., Eastmond, M. og Cederborg, A. (2017). Assertion and aspirations: agency among accompanied asylum-seeking children in Sweden. Children Geographies, 15(4), 426–438. https://doi.org/10.1080/14733285.2016.1271941

Punch, S. (2016). Cross-world and cross-disciplinary dialogue: a more integrated, global approach to childhood studies. Global Studies of Childhood, 6(3) 352–364. https://doi.org/10.1177/2043610616665033

Rauði krossinn. (e.d.). Fólk á flótta. Umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttamenn. Sótt 13. febrúar 2019 af https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/folk-a-flotta/

Rauði krossinn. (2016). Sameiginleg yfirlýsing vegna barna sem leita verndar á Íslandi: Yfirlýsing Unicef, Barnaheilla, Umboðsmanns barna og Rauða krossins á Íslandi. Sótt 13. febrúar 2019 af http://bit.ly/2ntPL6F

Reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Shenoda, S., Kadir, A., Pitterman, S. og Goldhagen, J. (2018). The effects of armed conflict on children. Policy Statement of the American Academy of Pediatrics. Pediatrics, 142(6): e20182585. https://doi.org/10.1542/peds.2018-2585

Smith, K. og Lockwood, K. (2015). Asylum support for children and young people living in Kirklees: stories of mothers. Research Report. Women Center, Kirklees.

Smyth, C. (2014). European Asylum Law and the Rights of the Child. London and New York: Routledge.

Spicer, N. (2008). Places of exclusion and inclusion: asylum-seeker and refugee experiences of neighbourhoods in the UK. Journal of Ethnic and Migration Studies, 34(3),491-510. http://dx.doi.org/10.1080/13691830701880350

Svenson, M. og Eastmond, M. (2013). “Betwixt and between”: hope for the meaning of school for asylum-seeking children in Sweden. Nordic Journal of Migration Research, 3(3),162–170. https://doi.org/10.2478/njmr-2013-0007

Tisdall, E. K. M. og Punch, S. (2012). Not so „new“? Looking critically at childhood studies. Children‘s Geographies, 10(3),249-264. http://dx.doi.org/10.1080/14733285.2012.693376

Tonheim, M., Derluyn, I., Rosnes, E. V., Zito, D., Rota, M. og Steinnes, A. (2015). Rehabilitation and social reintegration of asylum seeking children affected by war and armed conflict. Norway: Center for Intercultural Communication. Sótt 13. febrúar 2019 https://www.udi.no/globalassets/global/forskning-fou_i/asyl/fou-rehab-reintegration-2015.pdf

Umboðsmaður barna. (e.d.). Barnasáttmálinn á Íslandi. Sótt 13. febrúar 2019 af https://www.barn.is/barnasattmalinn/

UNHCR. (2018). Global trends. Forced displacement in 2017. United Nations High Commissioner for Refugees. Sótt 13. febrúar 2019 af http://www.unhcr.org/globaltrends2017/

UNHCR. (2008). UNHCR Guidelines on determining the best interest of the child. United Nations High Commissioner for Refugees. Sótt 13. febrúar 2019 af http://www.unhcr.org/4566b16b2.pdf

Unicef. (e.d.a.). The convention on the rights of the child: Guiding principles – general requirements for all rights. Sótt 13. febrúar 2019 af http://uni.cf/2ntGV96

Unicef. (e.d.b.) Yfirlýsing frá UNICEF á Íslandi og Rauða krossinum á Íslandi vegna barna á flótta sem koma hingað til lands. Sótt 13. febrúar 2019 af af http://bit.ly/2ntMR20

Útlendingastofnun. (2017). Tölfræði ársins 2016. Sótt 13. febrúar 2019 af https://www.utl.is/files/Tlfri_hlismla_2016.pdf

Útlendingastofnun. (2018). Tölfræði ársins 2017. Sótt 13. febrúar 2019 af https://bit.ly/2X2HAl6

Útlendingastofnun. (2019). Tölfræði verndarsviðs – birt 21.1.2019. Sótt 13. febrúar 2019 af https://bit.ly/2SwF6wB

Vaage, A. B. (2014). „Asylum seeking children, mental health and child psychiatry services: Reflections from a project in south-western Norway.“ Í Overland, G., Eugene, G. og Lie, B. (ritstj.), Nordic Work with Traumatised Refugees: Do We Really Care? (bls. 71-87). Cambridge Scholars Publishing.

Van Os, E. C. C., Kalverboer, M. E., Zijlstra, A. E., Post, W. J. og Knorth, E. J. (2016). Knowledge of the unknown child: a systematic review of the elements of the best interests of the child assessment for recently arrived refugee children. Clinical Child and Family Psychology Review, 19, 185-203. https://doi.org/10.1007/s10567-016-0209-y

Vitus, K. (2010). Waiting time: The de-subjectification of children in Danish asylum centres. Childhood, 17(1),26-42. https://doi.org/10.1177/0907568209351549

Vitus, K. og Lidén, H. (2010). The status of the asylum-seeking child in Norway and Denmark: comparing discourses, politics and practices. Journal of Refugee Studies, 23(1),62-81. https://doi.org/10.1093/jrs/feq003

Vísindasiðanefnd Háskóla Íslands. (2014). Vísindasiðareglur Háskóla Íslands. Sótt 13. febrúar 2019 af https://bit.ly/2SK8U4t

Wood, L. C. (2018). Impact of punitive immigration policies, parent-child separation and child detention on the mental health and development of children. BMJ Paediatrics Open, 2(1): e000338. https://doi.org/10.1136/bmjpo-2018-000338