Inngangur – frá ritstjóra sérheftis

Árið 2003 hófst kennsla í lögfræði við Háskólann á Akureyri (HA). Á þeim tíma hefur þetta eflaust þótt nokkuð viðamikil, og af einhverjum galin, hugmynd. Engu að síður hófst námið í sameiginlegri félagsvísinda-og lagadeild. Heiðurinn af því starfi eiga framsæknir og hugaðir einstaklingar sem verður seint þakkað nægilega mikið. Óhætt er að segja að síðan þá hafi deildin blómstrað, bæði í kennslu og rannsóknum og er nú orðin ein sú sérhæfðasta á landinu á sviði þjóðaréttar og heimskautaréttar.

Til að fagna 20 ára afmæli sínu ákvað lagadeildin að halda afmælismálþing í mars 2023. Ákveðið var að leggja áherslu á að fá fyrirlesara úr hópi útskrifaðra stúdenta, bæði til að fræðast um hvert leiðir þeirra hafa legið eftir útskrift frá HA og hvernig námið undirbjó þau fyrir starfið. Jafnframt varð deildin þess heiðurs aðnjótandi að fá heimsókn frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem hélt erindi um þjóðhöfðingjakaflann í stjórnarskránni. Í kjölfarið fylgdu fyrirlestrar um til að mynda stöðu þingmanna, réttindi brotaþola í refsivörslukerfinu, lagaumhverfi blaðamanna, bókun 35 við EES-samninginn, stöðu heimskautaréttar eftir innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, eignarétt frumbyggja á landi sínu út frá sjónarhóli umhverfisréttar og síðast en ekki síst um reynslu meistaranema við lagadeildina eins og hún er í dag.

Þátttakendur á 20 ára afmælismálþingi Lagadeildar Háskólans á Akureyri
Samfélagsleg áhrif laganáms á Akureyri

Dagskrá

Upptaka

Ásamt því að halda afmælismálþing ákvað deildin að fara í samstarf við tímaritið Nordicum-Mediterraneum og gefa út sérhefti tileinkað þessum fögnuði. Fyrsta greinin inniheldur persónulegar hugleiðingar þriggja þeirra sem gegndu lykilhlutverki í undirbúningi og upphafi þess að lagakennsla hófst við Háskólann á Akureyri. Guðmundur H. Frímannsson, prófessor emeritus, Mikael Karlsson, prófessor emeritus, og Rachael L. Johnstone, prófessor, fjalla um þá þrautagöngu sem leiddi til þess sem við búum nú við í dag. Fjórar greinar, þar sem beitt var tvíblindri ritrýni, fylgja þar á eftir. Júlí Ósk Antonsdóttir, aðjúnkt og landsréttarlögmaður, skrifar um réttindi forsjárlauss foreldris í þeim tilvikum er forsjárforeldri afsalar sér forsjá barnsins til barnaverndarþjónustu. Þá fjallar Rachael Lorna Johnstone, prófessor, um mikilvægi þjóðaréttar, og þess að beita alþjóðlegum nálgunum, þegar kemur að því að leysa heimskautaréttarlegan ágreining. Í kjölfarið á því rekur Sara Fusco, doktorsnemi, það hvernig umhverfisréttur er að hafa áhrif á nútíma stjórnarskrárhyggju og hvernig slíkt endurspeglast í rétti frumbyggja til landsvæðis. Fyrir rest greina Eleni Kontostathi, fyrrum heimskautaréttarnemi við HA, og Polina Ananina, fyrrum nemi við Higher School of Economics háskólann í Moskvu, frá því hvernig hlýnun jarðar er að hafa áhrif á norðurheimskautssvæðið og lagalegt umhverfi þess. Leggja höfundar sérstaka áherslu á að fjalla um áherslur rússneskra stjórnvalda á samstarf þeirra við kínversk stjórnvöld og möguleika þeirra á að byggja upp nýjar hafnir og innviði með því að nýta sér Norðursjávarleiðina. Að lokum ritaði Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lektor, f.h. lagadeildarinnar, minningarorð um Ágúst Þór Árnason, fyrrum samstarfsfélaga og vin. Ágúst Þór átti stóran þátt í þróun laganáms við Háskóla á Akureyri auk þróunar í stjórnskipunarrétti og mannréttindum á Íslandi og skipar stóran sess í hjörtum margra sem hann þekktu. Er hans minnst með hlýhug.

Lagadeildin vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í að fagna afmæli deildarinnar á þessu ári. Það er okkar von að lagadeild HA haldi áfram að blómstra og vera leiðandi í kennslu og rannsóknum á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar á komandi árum.