Um laganám við Háskólann á Akureyri

Við þrjú, höfundar þessarar stuttu greinar, komum með ólíkum hætti að stofnun og þróun lagadeildar Háskólans á Akureyri. Við viljum varpa ljósi á þetta upphaf.

Kennsla til prófs í lögfræði við Háskólann á Akureyri hófst árið 2003 og er því orðin 20 ára í ár. Það er ekki ljóst hvenær sú hugmynd kom fyrst fram að eftirsóknarvert væri að Háskólinn á Akureyri byði upp á laganám en því má ekki gleyma að lög og lagakennsla eru sögulega einn mikilvægasti þáttur í evrópskum háskólum eins og við þekkjum þá frá tólftu öld.

Elsti nútímaháskólinn sem enn starfar er Háskólinn í Bologna á Ítalíu en hann var stofnaður árið 1188 og var lögfræði ein mikilvægasta kennslugreinin vegna átaka á milli veraldlegra og kirkjulegra yfirvalda sem snerust um þekkingu á lögum og hvernig þau voru túlkuð.

Á Íslandi voru lög, og þekking og skilningur á lögum, mikilvæg frá upphafi og lög voru eitt það fyrsta sem skráð var á bækur á Íslandi en það gerðist á Breiðabólsstað veturinn 1117-18. Orðalagið „með lögum skal land byggja” er að finna í Jótalögum og tveimur öðrum lagabálkum frá Norðurlöndum á miðöldum[1] og í Brennu-Njáls sögu segir Njáll á einum stað „…með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða.“[2] Þetta orðalag tjáir skýrt þann skilning að lög eru nauðsynlegur þáttur samfélags svo að samskipti manna séu friðsamleg og fari að einhverjum lágmarksreglum. Það er ekki alveg eins ljóst og maður kynni að halda hvað ólög merkir nákvæmlega, í Orðabók Sigfúsar Blöndals segir að ólög merki ranglæti, óréttur eða eitthvað sé ólöglegt.[3] En það mætti einnig skilja orð Njáls þannig að orðið ólög merkti ekki-lög, lögleysi. En hver sem merkingin er nákvæmlega þá virðist hann hafi áttað sig á að ólög geti eyðilagt samfélag. Á þeim tíma sem sagan á að gerast, í kringum árið 1000, voru ekki til rituð lög á Íslandi heldur voru lögin viðteknar og viðurkenndar siðvenjur sem voru forsendur almennra reglna. Til að tryggja almenna vitneskju um lögin voru þau sögð fram á Alþingi og tók þrjú þing að koma þeim öllum til skila. En ef ekki voru til rituð lög hvað sagði lögsögumaður á Alþingi, hvert var inntak þess? Sigurður Líndal heitinn, sem kenndi við lagadeild HA, orðar það svo að lögin hafi verið „hverjar einar hátternisreglur sem átt hafi sér stoð í réttvísi manna, skynsemd og siðgæði.“[4] Þetta þýðir að engin skil eru á milli laga og siðferðis og lög séu eitthvað „…sem sé stöðugt eða varanlegt og að auki það sem sé gott og eftirsóknarvert“,[5] lögin voru sögð fram af því að þau voru sameign allra, allir gátu fylgst með, og sömuleiðis er lögsagan vottur um viðleitni til að hafa stjórn á varðveislu laga og til að vinna gegn óvissu um hvað væru lög.[6] Regla sem gekk gegn góðum og gömlum lögum taldist óvenja eða ólög, abusus, og eldri lög gengu framar yngri. Sigurður Líndal leitast við að skýra lög og þróun laga í íslenska þjóðveldinu í þeirri grein sem vitnað var til og fleirum, en heldur því ekki fram að þetta sé algild skýring á inntaki og þróun laga en það gera Garrett Barden og Tim Murphy með athyglisverðum hætti en þeir kenndu báðir við lagadeild HA.[7] Þeir nota dæmið af íslenska þjóðveldinu og lögunum í Grágás til að skýra og rökstyðja þá kenningu sína að lög alls staðar þróist með þeim hætti sem gerðist í íslenska þjóðveldinu, frá því að vera óskráðar hátternisreglur byggðar á siðvenju yfir í skráð lög og þau síðarnefndu verði styðjast þær fyrrnefndu.

Kaupmannahafnarháskóli var stofnaður árið 1479 og Íslendingar fengu aðgang að honum og þar var kennd lögfræði. Árið 1579 mælti konungur fyrir um styrk til íslenskra nemenda fyrir fæði og, eftir að Garður var reistur á árunum 1623-28, fengu þeir einnig forgang að fríu húsnæði til að nema þar.[8] Þessi fríðindi stuðluðu þó ekki að því að Íslendingar flykktust til Kaupmannahafnarháskóla á 17. öldinni, vitað er um 175 íslenska námsmenn sem stunduðu þar nám alls á öldinni og einungis luku 17 bakkalár- eða meistaraprófi.[9]

Það var ekki fyrr en í upphafi tuttugustu aldar að kennsla í lögum hófst á Íslandi en lög Alþingis um lagaskóla voru samþykkt árið 1903 og Lagaskólinn tók til starfa árið 1908.[10] Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 og þá gekk Lagaskólinn ásamt Læknaskólanum og Prestaskólanum inn í hinn nýja háskóla. Guðmundur Hálfdanarson segir um mikilvægi þessara þriggja skóla: „Embættismannaskólarnir voru því grundvallarþáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, enda má líta á þá sem mikilvæga – og í raun mjög vanmetna – forsendu fyrir íslensku fullveldi.“[11] Sama sjónarmið á við um stofnun Háskóla Íslands og þróun hans á tuttugustu öldinni en hann var eini háskólinn í landinu lengst af henni.

En það er ekki einvörðungu sögulegt mikilvægi þekkingar og rannsókna í lögum sem skiptir máli heldur er slík þekking og rannsóknir mikilvægar fyrir uppbyggingu og beitingu nútíma ríkisvalds og úrlausnir deilumála einstaklinga í samfélagi þar sem lög og réttur eru grundvallaratriði en ekki ofbeldi og yfirgangur. Það ætti því ekki að hafa komið neinum á óvart þegar sú hugmynd kom fram að boðið yrði upp á laganám við HA.

Í febrúar 1992 efndi Reki, félag rekstrardeildarnema við HA til opins fundar um málefni háskólans. Í frétt af honum segir í Morgunblaðinu:

Fram komu hugmyndir um að ekki væri úr vegi að komið yrði upp lögfræðideild við skólann og sagði Haraldur Bessason rektor að því máli hefði oft verið hreyft við sig. … Hvað nýjar deildir varðar var einnig rætt um að æskilegt væri að á Akureyri væri boðið upp á kennaranám, einkum skorti kennara til að kenna raungreinar í framhaldsskólum og lýstu margir yfir áhuga á að unnt yrði að sækja það í bænum.[12]

Byggðahagfræði og ferðamálafræði voru einnig nefndar sem mögulegar námsbrautir á næstu árum.[13]

Árið 1992 var HA fimm ára og Haraldur Bessason, rektor, segir að því máli hafi oft verið hreyft við sig að stofna lögfræðideild við HA. Við höfundar þessarar greinar höfum ekki lagst í sögulegar rannsóknir en þessi frétt Morgunblaðsins er elsta heimild um þessa hugmynd sem okkur er kunnugt um og það er ekki lengur hægt að spyrja Harald.

Það liðu tíu ár þar til tekin var ákvörðun um að hefja undirbúning að stofnun lagadeildar HA. Þann 28. febrúar 2002 samþykkti háskólaráð HA að skipa starfshóp til að undirbúa laganám við háskólann og með bréfi dagsettu 4. mars var tilkynnt að eftirfarandi sætu í starfshópnum: Guðmundur Heiðar Frímannsson deildarforseti kennaradeildar HA, formaður; Guðmundur Alfreðsson, framkvæmdastjóri Raoul Wallenberg stofnunarinnar; Mikael M. Karlsson, prófessor við HÍ; og Sigurður Líndal, prófessor emeritus við HÍ.[14]

Spurningarnar sem starfshópur á borð við þennan þarf að svara eru hvers vegna ætti HA að bjóða upp á nám í lögfræði, hvers konar nám á að bjóða upp á í lögfræði, hvaða samfélagsþarfir á að miða við? Í nefndinni var rætt vítt og breitt um laganám og uppbyggingu þess, hvaða nýjungum ætti að brydda upp á og hvað yrði óhjákvæmilega sambærilegt við það sem aðrir háskólar á Íslandi gera.

Í áfangaskýrslu starfshópsins[15] sem skilað var í júní 2002 voru raktar hugmyndir hans og niðurstöður. Mikilvægasta niðurstaða starfshópsins var að leggja til að laganám við HA hæfist haustið 2003. Í lokaskýrslu nefndarinnar[16] voru þessar hugmyndir raktar nokkuð ítarlega og verður vitnað í þá skýrslu í framhaldinu.

Í upphafi segir:

Nefndin er sammála um að náminu verði skipt í tvennt, þriggja ára BA nám og tveggja ára sérhæfingu til embættisprófs. Í upphafi myndi HA einungis bjóða upp á BA stigið en stefnt að því áður en mörg ár líða að bæta við embættisstiginu á sérhæfðum sviðum. Það þarf þó ekki endilega að framkvæma þetta í þessari röð. Það er hægt að byggja upp rannsóknir á völdum sviðum lögfræðinnar um leið og kennsla hefst til BA gráðu ef það tekst að fjármagna slíkar rannsóknir. Að ýmsu leyti væri það ákjósanlegt að geta byrjað sem fyrst að byggja upp rannsóknir.[17]

Nefndin lýsir uppbyggingu væntanlegs náms með svofelldum hætti:

  1. Inngangsfræði lögfræðinnar (almenn lögfræði), sem felur í sér meðal annars
  2. Forsendur og grundvöll laga. Sögu laga í Evrópu og á Íslandi. Ólíkar lagahefðir og helstu réttarkerfi. Kenningar um eðli laga.
  3. Réttarheimildir.
  4. Túlkun laga, lögskýringar.
  5. Stjórnskipunarrétt og stjórnsýslurétt.
  6. Fjármunarétt og þar helst:
  7. Samningarétt
  8. Kröfurétt
  9. Skaðabótarétt
  10. Eignarétt.
  11. Refsirétt
  12. Réttarfar
  13. Þjóðarrétt
  14. Evrópurétt.[18]

Í framhaldi af þessari upptalningu er rakið hvernig nefndin hugsaði sér síðari hluta námsins. Þar segir:

Sérhæfing kemur fyrst og fremst til á framhaldsstiginu. Þar leggur nefndin áherslu á þrjár grunnhugmyndir. Sú fyrsta er heimskautaréttur en undir hann geta fallið umhverfisréttur, hafréttur, frumbyggjaréttur, samanburður á landsrétti þjóða á heimskautasvæðunum. Sérstök áhersla gæti verið á hafrétti á Norður-Atlantshafi en þekking á þeim rétti gæti orðið verðmæt í framtíðinni. Einnig mætti kenna fiskveiðirétt og strandrétt, þar á meðal íslensku löggjöfina um stjórn fiskveiða. Önnur hugmyndin sem nefndin vill leggja áherslu á er réttarstaða og stjórnsýsluréttur lítilla smáríkja. Þá yrði farið yfir stjórnsýslulög í smáum ríkjum og sveitarstjórnarrétt, sérstaklega í tengslum við þróunina í Evrópu. Þriðja hugmyndin er mannréttindi, sögulegar forsendur þeirra og röklegar og helstu alþjóðasamningar um mannréttindi.

Á fyrstu tveimur sviðunum yrði áherslan á lönd á norðurslóðum en það er rétt að benda á að heimskautarétturinn á við bæði heimskautin og rannsóknir gætu tekið mið af tengslum við lagalega stöðu Suðurskautsins.[19]

Á sama tíma og unnið var að undirbúningi laganáms var stefnt á að hefja nám í félagsvísindum og stofnaðar yrðu tvær deildir við HA, lögfræðideild og félagsvísindadeild. Fyrsti forseti félagsvísinda- og lagadeildar var Mikael M. Karlsson, prófessor í heimspeki við HÍ. Hann hafði skrifað um og kennt lögspeki og haft áhuga á uppbyggingu laganáms og taldi þörf á fræðilegri áherslu í íslensku laganámi en hafði tíðkast. Hann lagði mikið af mörkum við skipulagningu laganáms við HA. Hann rifjaði upp ýmislegt sem tengdist upphafi laganámsins í ræðu á afmælisráðstefnu lagadeildarinnar vorið 2023.

Mér er sönn ánægja að standa hér sem heiðursgestur á málþingi lagadeildar Háskólans á Akureyri í tilefni af 20 ára afmælis lagakennslu við þessa menntastofnun.

Laganámið á Akureyri átti ekki auðvelda fæðingu og gerðar voru margar tilraunir til að bera barnið út að fornum, íslenskum sið.

Háskólinn á Akureyri fékk talsverðan mótbyr við stofnun laganáms hér fyrir norðan og munaði þar mest um Lagadeild Háskóla Íslands, en þó fékkst mikilvægur stuðningur frá lagaprófessorunum Sigurði Líndal og Páli Hreinssyni og er við hæfi við þessa fullorðinsafmælisathöfn í dag að þakka þeim og öllum stuðningsmönnum úr Háskóla Íslands hjartanlega fyrir jákvætt viðmót þeirra.

Andúðar í garð Háskólans á Akureyri og ekki síst gagnvart nýstofnuðu laganámi við HA varð líka vart frá þáverandi Menntamálaráðuneyti á þessu fæðingartímabili og var það fyrst og fremst þáverandi laganemum okkar að þakka að lagakennsla á kandídatsstigi fékk samþykki stjórnvalda. Yfirstjórn Háskólans virtist hafa verið frekar máttlaus í því máli.

Sú andúð var óneitanlega pólitísks eðlis. Á sínum tíma þurfti hver íslenskur háskóli—hvort sem það var ríkisstofnun eða „einkarekin“ sjálfseignarstofnun – að vera skjólstæðingur einhverra stjórnmálaflokka eins og í hverju öðru bananalýðveldi, og Háskólinn á Akureyri var ekki tengdur við rétta flokkinn á þessu tímabili.

Ráðuneytið dró allverulega úr fjárveitingum til skólans og skapaði þar með alvarlega krísu sem yfirstjórn skólans kunni ekki að meðhöndla. Meðal annars var íhugað að leggja niður lagakennsluna þótt hún væri þá langódýrasta kennslan í skólanum. Ekki var öllum deildarmönnum félagsvísindadeildar illa við þá hugmynd. Einhvern veginn lifði lögfræðikennsla til meistaraprófs þessar árásir af; og viti menn: Kennsla til meistaraprófs í heimskautarétti bættist við!

Í þessari atburðarás voru nokkrir innan stofnunarinnar sem hjálpuðu til að bjarga lagakennslunni. Einn þeirra sem þarf að nefna sérstaklega var Ágúst Þór Árnason heitinn, sem ég vil færa sérstakar þakkir í dag, svo og þáverandi forseti kennaradeildar, Guðmundur Heiðar Frímannsson, og einnig einn úr hópi félagsvísindamanna, Birgir Guðmundsson. Kannski voru þeir fleiri.

Hvað varðar heimskautarétt fengum við mikinn stuðning frá Guðmundi Alfreðssyni, sem síðar varð prófessor í alþjóðarétti og mannréttindum í heimskautaréttarprógrammi við HA.

Ég vil einnig koma því á framfæri að Arngrímur Jóhannsson, flugmaður og stofnandi Flugfélagsins Atlanta, Flugsafns Íslands, og Norðurslóðaseturs Arngríms B. Jóhannssonar á Akureyri, veitti skólanum talsverðan fjárstuðning og þjónustu á viðkvæmum tímapunkti, e.t.v. vegna þess að hann virti það sem Félagsvísinda- og lagadeild var að gera. Hvort hann hefur fengið formlegar þakkir frá skólanum veit ég ekki, en ég vil þakka, eða endurþakka, honum hér og nú.

Það voru margir aðrir sem voru jákvæðir og vinalegir í garð nýju deildarinnar bæði innan og utan háskólans og það var margt hæfileikaríkt fólk sem kom – sumt fyrr og annað síðar – til að kenna í deildinni. Ég hef ekki gleymt þeim, en í dag verð ég að takmarka sérstakar þakkir mínar til þeirra sem hafa átt mestan þátt í að styðja, verja og setja stefnuna á lögfræðina.

Mikael rifjar upp setu sína í undirbúningsnefnd laganámsins.

Þá var lengi bara einn háskóli á Íslandi með kennslu til fullgilts lögfræðiprófs en það var Háskóli Íslands þar sem ég starfaði sem kennari í heimspeki – á endanum prófessor – í 40 ár. Ég hafði oft kennt námskeið þar í lögfræði eða lögspeki, bæði við lagadeildina og við heimspekideildina eins og hún hét í gamla daga. En á þessu tímabili voru fleiri lagaskólar stofnaðir bæði í Reykjavík og á Bifröst. Laganámið þar var sama eðlis og laganám við Háskóla Íslands. Ég var ekki fyrirfram sannfærður um þörfina fyrir aukinni lagakennslu af sama tagi á Íslandi.

Í ofangreindri matsnefnd sátu með mér Sigurður Líndal, Guðmundur Heiðar Frímannsson og Guðmundur Alfreðsson sem allir unnu samviskusamlega að efninu. Það var alltaf mjög róandi að sitja á nefndarfundum með Sigurði vegna þess að maður þurfti aldrei að taka til máls sjálfur; en nefndarstarfið var framar öðru mjög skemmtilegt – og fróðlegt. Á endanum gaf þessi matsnefnd grænt ljós til að stofna til lagakennslu á Akureyri.

Á sama tíma var starfandi önnur nefnd sem var að meta forsendur fyrir því að stofna til margslunginnar félagsvísindakennslu við HA sem skólinn hafi lagt til að gera. Niðurstaða þeirrar nefndar var einnig jákvæð.

Eftir þetta var auglýst eftir forseta lagadeildar (og einnig eftir forseta félagsvísindadeildar). Ég hafði aldrei haft í huga að sækja um stöðu deildarforseta, en nokkrir vinir mínir hvöttu mig eindregið til að sækja um starf forseta lagadeildar við HA. Ég kannaði málið vegna þess að ég hefði aldrei haft áhuga á þessu nema ef það væri möguleiki að bjóða öðruvísi lagakennslu en þá sem var í gangi við Háskóla Íslands. Þar kenndi margt gott fólk – karlar en líka konur – en ég hafði lengi verið gagnrýninn á nokkra þætti í lagakennslu við HÍ.

Í fyrsta lagi var mér afar illa við það, að fyrsta árs lagakennsla væri notuð sem sía til að fækka verulega í nemendahópnum. Það fyrirkomulag fól í sér að kennslunni var ekki ætlað að mennta og móta nemendur heldur átti að láta sem flesta falla út úr prógramminu, sem mér fannst hvorki sanngjarnt né hollt. Hitt var að kennslan var byggð upp fyrst og fremst til að útskrifa lögfræðinga sem myndu þjóna ríkjandi valdakerfi, vinna í stjórnsýslunni eða ganga frá fasteignasamningum, og framar öllu að vinna vélrænt, vera hlýðnir, og hugsa sem minnst. Sigurður Líndal kallaði þetta lögtækni en ekki lögfræði. Að sjálfsögðu útskrifuðust margir klárir, hugsandi lögfræðingar frá HÍ, en það var ekki endilega lagadeildinni að þakka. Ef hægt væri að fara öðruvísi að í laganámi á Akureyri þá hafði ég áhuga á starfinu, annars ekki.

Ég sótti um starfið og var kallaður í viðtal. Þar vildi ég útskýra hvernig stefna mín yrði, ef ég væri kosinn deildarforseti og ég undraðist jákvæð viðbrögð. En það setti strik i reikninginn að yfirstjórn HA hafi ákveðið að ráða bara einn deildarforseta sem ætti að stjórna Félagsvísinda- og lagadeild, í einum pakka. Ég hefði trúlega átt að draga mína umsókn til baka, en ég var ekki nógu spakur til þess og var ráðinn í deildarforsetastarf frá 1. febrúar 2003. Áætlað var að fara af stað með bakkalár-kennslu í lögfræði og í sex félagsvísindagreinum undir lok ágústmánaðar sama árs.

Fram að sumri 2003 fékk ég enga skrifstofu hjá HA, enga tölvu, ekkert símtæki, engan aðstoðarmann, og ekkert kennaralið til að gera mér kleift að fara af stað með fulla kennslu í öllum þessum greinum sex mánuðum síðar. Það hefur oft verið bent á að skipulagning sé ekki sérgrein okkar Íslendinga. Í einfeldni minni bjó ég til á vordögum þessa árs raunhæfa og ítarlega þriggja ára kennslu- og kostnaðaráætlun þar sem ég gerði grein fyrir nauðsynlegum ráðningum, nauðsynlegum námskeiðum, og öðru því um líku og lifði í þeirri trú að það væri hlutverk háskólastjórnar að skoða og meta áætlunina, samþykkja hana með öllum nauðsynlegum breytingum, og tryggja svo fjármögnunina. Eftir á grunar mig að stjórnendur skólans hafi ekki einu sinni skoðað þessa áætlun, því það kom aldrei neitt í ljós sem var til marks um það.

Það var á þessum tíma enginn lögfræðikennari starfandi við HA sem var lektorshæfur og tilbúinn til að færa sig í nýju deildina og að sjálfsögðu engir nemendur sem stefndu að laga- eða félagsvísindanámi við HA, því ekkert slíkt nám hafi verið auglýst. Það var þó einhver fjöldi hæfra kennara í félagsvísindum, sem flestir voru þá að kenna í viðskiptadeildinni eða kennaradeildinni, og máttu þeir ráða því hvort þeir vildu færa sig í nýju deildina. Auk þess var prógrammi í nútímafræði troðið inn á deildina og því fylgdi einn kennari.

Ekki vildu margir félagsvísindamenn færa sig í nýstofnuðu deildina. Félagsvísindamenn voru ekki yfir sig hrifnir af þeirri hugmynd að vera í sambúð við lögfræðina og einkum og sér í lagi að vera undir stjórn deildarforseta sem var ekki einn úr þeirra hópi. Hugmyndin um að fara af stað í ágúst 2003 með sex mismunandi félagsvísindagreinar í nýju deildinni var þar af leiðandi með öllu óraunhæf. Þeir sem færðu sig voru aðeins Ágúst Þór Árnason, sem var þá á launaskrá HA sem verkefnastjóri og vann síðan fyrir lögfræðina og kenndi þar; Elín Díana Gunnarsdóttir, ung og klár sálfræðikennari sem er í dag aðstoðarrektor skólans; og Birgir Guðmundsson, sem var fær og vinsæll kennari og með háskólapróf í stjórnmálafræði og auk þess reyndur blaðamaður, og er hann í dag orðinn prófessor og forseti Hug- og félagsvísindadeildar skólans. Þannig að deildin fór af stað með sálarfræði og fjölmiðlafræði ásamt fyrsta árs pakka sem undirstöðu fyrir fjölgreina-félagsvísindakennslu; en sú kennsla hófst, samkvæmt áætlun, á öðru námsári. Þessi fyrsta árs pakki var líka nothæfur fyrir nemendur í nútímafræði.

Þá var fengið fólk til að kenna lögfræði. Sumt af þessu fólki gerði lagakennslu við Háskólann á Akureyri að því sem hún hefur verið og er enn þann dag í dag. Meðal þeirra voru Rachael Lorna Johnstone, sem kenndi sem aðjúnkt og var síðan ráðin lektor og varð fyrsti brautarstjóri í lögfræði; áðurnefndur Ágúst Þór Árnason; Ingibjörg Elíasdóttir og Kristrún Heimisdóttir, sem störfuðu sem aðjúnktar ef ég man rétt; og svo ég sjálfur. Auk þess voru fengnir nokkrir erlendir gistikennarar sem héldu námskeið sem enginn okkar hafði hæfi til að kenna.

Þetta fólk var fengið til að kenna, móta, og stjórna öðruvísi laganámi, námi sem stefndi að menntun lögfræðinga sem byggju yfir gagnrýnni hugsun, skilningi á íslenska lagakerfinu í sögulegu og samfélagslegu samhengi, skilningi á erlendum lagakerfum og hugmyndaheimum til þess að geta unnið í framtíðinni í alþjóðlegu samhengi, hæfni til að taka þátt í framþróun íslensku laga-, dóms- og stjórnkerfanna, og auk þess færni til að skrifa fyrir fræðiheiminn og fyrir almenning um lögfræðileg málefni. Það er þessi tilgangur sem ég vildi að lagamenntun þjónaði og til þess var námið á Akureyri byggt upp á annan hátt en laganámið annars staðar á landinu.

Með öðrum orðum var um að ræða frekar nýtt hugtak eða hugmynd undir nafninu „laganám“. Prógrammið sem var þá sett á laggirnar var tilraun til að hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd. Nýja kennaraliðið keypti þessa hugmynd – að vísu ekki gagnrýnislaust – og lögfræðikennslan hefur síðan verið helguð henni, löngu eftir að ég hvarf frá Akureyri árið 2007.

Þessi menntunartilraun hefur ekki heppnast að öllu leyti, en ég átti heldur aldrei von á því. Eins og allar tilraunir heppnast sumt og annað ekki, og kennsla og námskrá hafa breyst í tímans rás eins og var alltaf ætlunin. En lagakennslan á Akureyri hefur verið í mjög góðum höndum allt frá upphafi og til þessa dags þannig að námið heldur sínu striki að því er virðist.

Yfirheiti þessa afmælisþings, „Samfélagsleg áhrif laganáms á Akureyri“ vísar til megintilgangs þess laganáms sem var sett af stað hér fyrir 20 árum. Ég átti von á að heyra fyrst og fremst umræðu um það efni hér í dag. En hver syngur með sínu nefi.

Sjálfur er ég ekki best til þess fallinn til að meta þessi áhrif í víðara samhengi, en það er nokkuð sem ég veit af og get nefnt. Eitt er það að þetta öðruvísi laganám á Akureyri hefur haft áhrif á lagakennslu við Háskóla Íslands sem hefur breyst að einhverju leyti í átt til þess sem hefur verið gert hér á Akureyri. Mun meiri áhersla hefur verið lögð á gagnrýna hugsun í lögfræðilegu samhengi. Sú hefð að setja nútímalagakerfið í sögulegt samhengi – sem Sigurður Líndal hóf – hefur ekki verið lögð af þar. Heimspekileg lagagreiningarfræði – juris prudentia, sem menn vilja kalla „réttarheimspeki“ – hefur fleiri talsmenn þar en áður fyrr þegar við Garðar Gíslason kenndum slíkt efni saman í heimspekideildinni. Grunnnámskeiðið Almenn lögfæði hefur breyst talsvert í þá átt að vekja hug nemenda fyrir eðli og sérkennum lagakerfis og hlutverki dómstóla, o.s.frv. Kennarar eru ekki lengur bara að lesa upp úr sínum kennslubókum í tímanum eins og títt var hjá sumum áður fyrr. Ég held að andúð í garð lagakennslunnar á Akureyri sé að mestu leyti horfin.

Svo vil ég nefna það að lagakennslan á Akureyri hefur haft sterk áhrif á uppbyggingu laganáms við Fróðskaparsetur Færeyja. Frumkvöðullinn að því námi var Kári á Rógvi, sem var doktor í lögum frá Háskóla Íslands, en við þekktumst á meðan hann var í námi á Íslandi. Hann var mjög hrifinn af laganámi eins og það var þá á Akureyri, sérstaklega grunnhugmyndinni – en taldi þó, réttilega – að það ætti ekki að vera allsherjar módel fyrir laganám við Fróðskaparsetrið. En þegar Kári féll frá 42ja ára á árinu 2015 var ég kallaður til aðstoðar við mótun laganáms við Fróðskaparsetrið og hef ég starfað síðan sem „aðjuktaður prófessor í lögfræði“ til að vinna að því verkefni. Allir mínir kollegar sem kenna þar eru sannfærðir um gildi lagamenntunar með sams konar tilgang og var stefnt að á Akureyri og eru þeir sérstaklega sannfærðir um nauðsyn þess að setja lagakennslu í sögulegt, samfélagslegt, og samanburðarsamhengi. Þeir sem útskrifast úr fimm ára laganámi þaðan ættu að taka drjúgan þátt í að byggja upp færeyska lagamenningu sem er vanþróuð, og að þróa færeysku sem lagatungumál.

Fyrir utan þetta sem ég hef nefnt held ég að Lagadeild Háskólans á Akureyri hafi sent frá sér vel menntaða lögfræðinga sem hafa með ýmsum hætti tekið drjúgan þátt í framþróun íslensks samfélags með þátttöku í dómsstörfum, starfi í stjórnsýslunni, ráðgjöf og mörgu öðru. Með öðruvísi lagamenntun að baki tel ég að þau hafi stuðlað að skynsemi, sanngirni, og drengskap auk lögfærni (bæði fræðilegri og tæknilegri), og ef það er árangurinn ættum við hér í dag að vera stolt af því sem við höfum gert í lagakennslu á þessari 20 ára ævintýraferð.

Þriðja frásögnin um upphaf og þróun lagakennslu við HA fyrstu árin er frá Rachael L. Johnstone, prófessor við lagadeild HA.

Vorið 2003, kom ég í heimsókn til Íslands ásamt eiginmanni mínum, Giorgio Baruchello, sem hafði verið fenginn til taka þátt í ráðstefnu í heimspeki við HÍ. Ég stóð sjálf á tímamótum og var að velta fyrir mér framtíðinni þegar Mikael M. Karlsson kom að máli við mig og spurði mig hvort ég vildi flytja til Akureyrar til að aðstoða við að byggja upp nýja félagsvísinda- og lagadeild.

Ég sagði nei, auðvitað. Ég var að klára doktorsnám í Toronto og hafði engan sérstakan áhuga á að búa á öðrum köldum stað. En eftir smá umhugsun ákvað ég að sækja um eins árs aðjúnktsstöðu til að fá smá reynslu og tíma til að ákveða framtíðarplön mín.

Jæja. Tuttugu árum síðar, stend ég hér og … á enn eftir að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór.

Svo hvað hefur haldið mér hér í 20 ár?

Svarið er bæði einfalt og flókið: fólk. Vináttan við Mike og aðra, þar á meðal minn kæra samstarfsmann og vin, Ágúst Þór Árnason heitinn – Gústa okkar. Við deildum áhuga á að byggja upp nýtt nám í lögfræði og vorum vægast sagt mjög spennt fyrir því. Við höfðum svipaðar hugmyndir og skoðanir á mikilvægi gagnrýninnar, fræðilegrar og alþjóðlegrar nálgunar á lögfræði, svo og mikilvægi samanburðarlögfræði. Einnig framtíðarsýn um að lögfræðimenntun verði aðgengileg í „sveitinni“.

Fyrsti árgangur nemenda sýndi strax að þörf var á sýn Mikes og Gústa á lögfræðimenntun. Í þessum fyrsta hópi voru Júlí Ósk sem er nú aðjúnkt í lagadeildinni og margir aðrir sem hafa lagt mikið af mörkum til lögfræðisamfélagsins á Íslandi. Hundruð nemenda hafa útskrifast í lögfræði frá HA og starfa þau nú vítt og breitt í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi. Í dag erum við með þrjár námsbrautir: grunnnám – BA, meistaranám í íslenskum lögum- ML og meistaranám í heimskautarétti – LLM, MA og diplómanám.

Breyting hefur orðið í hópi starfsmanna og þeim fjölgað frá því sem var fyrst. Þeir sem hófu störf við deildina voru, auk Gústa og mín, Ingibjörg Elíasdóttir, Kristrún Heimisdóttir. Svo kom Margrét Hinriksdóttir og Pétur Dam Leifsson og stuttu síðar Timothy Murphy, Guðmundur Alfreðsson og Bjarni Már Magnússon. Nú hefur deildin á að skipa frábæru liði starfsmanna: Davíð Þór Björgvinsson, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, Antje Neumann, Hrannar Hafberg, Ingibjörg Ingvadóttir, Valgerður Guðmundsdóttir og Júlí Ósk Antonsdóttir. Þó að við komum frá ólíkum sviðum lögfræði og höfum ólíka sýn, deilum við einu: trú á framúrskarandi lögfræðimenntun og rannsóknir á sviði lögfræði sem stuðla að fjölbreyttu og lýðræðislegu samfélagi.

Í fyrstu hugmyndum um laganám við HA fólst nám í heimskautarétti. Gústi kom því á laggirnar í nánu samstarfi við Guðmund Alfreðsson, Timo Koivurova og David Leary. Fyrstu nemendur innrituðust árið 2008 – rétt eftir að fyrstu ML nemendur útskrifuðust. Á þeim tíma, var heimskautaréttur nánast óþekktur. Nú hafa verið gefnar út fjórtán árbækur í heimskautarétti og ein á leiðinni; þrjár kennslubækur; bókaflokkur Routledge með sex bókum; Brill ritröð með þremur bókum; ein Edward Elgar handbók; og ein ný Routledge handbók sem gefin verður út seint á árinu 2023. Það er ekki síst framtíðarsýn Ágústs Þórs að þakka- svo ekki sé minnst á einstakt tengslanet hans- að heimskautarétturinn er nú orðinn að rótgróinni fræðigrein.

Það er niðurstaða okkar þriggja að tekist hafi að festa í sessi lagakennslu við HA sem hefur náð ótvíræðum árangri og stuðlað að uppbygginu þekkingar á mikilvægum sviðum á borð við heimskautarétt og haft áhrif á íslenskt samfélag með skrifum um lögfræðileg efni og með því að brautskrá lögfræðinga sem eru óhræddir við að beita gagnrýninni hugsun á viðfangsefni lögfræðinnar og leitast við að sjá viðfangsefni í nýju ljósi óháð mótuðum hagsmunum og viðteknum hugsunarvenjum. Upphaf lögfræðimenntunar við HA árið 2003 færði samfélagi lögfræðinga á Íslandi fjölbreyttan hóp og nýjar raddir. Innleiðing sveigjanlegs náms, upphaflega í BA náminu árið 2016 og ML náminu árið 2019, hefur aukið þátttöku enn frekar í öllum landshlutum og hjá fólki á öllum aldri og í alls konar fjölskylduaðstæðum.

[1] Guðrún Kvaran, „Hvar kemur fyrst fyrir orðatiltækið ‘með lögum skal land byggja’?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2006. Sótt 10. október 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=6065.

[2] Brennu Njáls saga, Mál og menning, 2. útgáfa, Reykjavík, 1996, 70. kafli, bls. 135

[3] Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. https://blondal.arnastofnun.is/

[4] Sigurður Líndal, „Lög og lagasetning í íslenska þjóðveldinu“, Skírni 1984, bls. 125.

[5] Sigurður Líndal, sama rit, bls. 126.

[6] Sigurður Líndal, sama rit, bls. 128

[7] Barden, G. og Murphy, T., Law and Justice in Community, Oxford University Press, Oxford, 2010, bls. 3-4.

[8] Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI, Hið íslenska bókmenntafélag Sögufélagið, Reykjavík, 2003, bls. 106, 382.

[9] Helgi Þorláksson, sama rit, bls. 382.

[10] Guðmundur Hálfdanarson, „Embættismannaskólinn 1911-1961“, í Gunnar Karlsson (ritstjóri) Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011, Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2011, bls. 44-45

[11] Guðmundur Hálfdanarson, sama rit, bls. 45.

[12] Fjölmennur fundur um málefni háskólans: rætt um nýjar deildir og byggingu stúdentagarða. (1991, 23. febrúar). Morgunblaðið, bls. 27.

[13] Jóhann Ólafur] Halldórsson. (1991, 23. febrúar). Framtíð og staða Háskólans á Akureyri í brennidepli: bökum snúið saman um mikið hagsmunamál landsbyggðarinnar. Dagur, bls. 5. Höfundar þakka Braga Guðmundssyni, prófessor, fyrir þessar tilvísanir.

[14] Bréf frá Þorsteini Gunnarssyni rektor dags. 4. mars 2002, fl 376,2/221.

[15] Áfangaskýrsla dags. 24. júní 2002, fl. 376/2.

[16] Lokaskýrsla dags. október 2002.

[17] Lokaskýrsla bls. 2

[18] Lokaskýrsla, bls. 2-3.

[19] Lokaskýrsla, bls. 3