Tag Archives: Stjórnmálafræðirannsóknir

Íslensk stjórnmálafræði – yfirlit um hálfrar aldar sögu

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus  við HÍ

Haustið 1967 hóf ég – 15 ára gamall – nám við Kennaraskóla Íslands. Ég ætlaði ekki að verða barnakennari, en stefndi á að kenna við gagnfræðaskóla. Vissi að til þess þyrfti ég að taka BA-próf við Háskóla Íslands. En í hvaða grein? Stærðfræði? Íslensku? Sagnfræði?

Einn skólafélagi minn benti mér á að í útlöndum væri hægt að nema grein sem héti political science. Ég hélt að hann væri að gera grín að alræmdum áhuga mínum á stjórnmálum. Ég hafði aldrei heyrt á þessa fræðigrein minnst.

Tíu árum síðar – 1977 – hóf ég meistaranám í stjórnmálafræði við London School of Economics and Political Science – eftir að hafa lokið BA-prófi í greininni frá nýrri námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands.

Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum

Námsbrautin var stofnuð haustið 1970. Stjórnmálafræði og félagsfræði voru aðalgreinar til BA-prófs og mannfræði aukagrein. Tveir kennarar voru ráðnir hálfum mánuði áður en kennsla hófst, Ólafur Ragnar Grímsson stjórnmálafræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur. Skömmu síðar bættist mannfræðingurinn Haraldur Ólafsson í hóp fastra kennara.

Lítill eða enginn bókakostur í þessum fræðum var þá til á Háskólabókasafni. Kennaranir höfðu ekki skrifstofur. Fundir kennara með nemendum voru gjarnan haldnir á kaffistofu Norræna hússins.

Nokkrum árum síðar fékk námsbrautin inni í Loftskeytastöðinni á Melunum – bæði fyrir kennslu og skrifstofur kennara. Fljótlega flutti hún á Staðarstað – hús sem Björn Jónsson ráðherra byggði við Sóleyjargötu og var í eigu forseta Íslands, Kristjáns Eldjárns. Um 1980 fluttu greinarnar í leiguhúsnæði á Skólabrú 2 – og loks í Odda 1985, nýbyggingu félagsvísinda við HÍ.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson varð forseti 1996 þótti ekki heppilegt að forseti hefði lengur aðsetur í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu í sambýli við forsætisráðherra. Staðarstaður var þá keyptur fyrir forsetaembættið – og Ólafur Ragnar fékk sömu skrifstofu og hann hafði þar haft þegar hann var prófessor í stjórnmálafræði!

Stofnun námsbrautar í almennum þjóðfélagsfræðum 1970 hélst í hendur við almenna þróun Háskóla Íslands. Á þessum árum var Háskólinn að þróast úr embættismannaskóla í alhliða kennsluháskóla – þar sem aukin áhersla var þó jafnframt lögð á rannsóknir. Nýjum greinum var komið á legg, bæði í félagsvísindum og raunvísindum. En framhaldsnám var mjög takmarkað. Það þurfti að sækja til útlanda. Á síðasta áratug 20. aldar breyttist Háskóli Íslands svo yfir í raunverulegan rannsóknarháskóla. Þá var komið á meistara- og doktorsnámi í félagsvísindum, m.a. í stjórnmálafræði.

Saga íslenskrar stjórnmálafræði og fyrstu markmið

Um þróun íslenskrar stjórnmálafræði hefur ýmislegt verið ritað, m.a. þetta:

Árið 1977 birti Ólafur Ragnar Grímsson grein í Scandinavian Political Studies, „Pioneering Political Science. The Case of Iceland“.[1]

Árið 1996 ritaði Gunnar Helgi Kristinsson kafla um íslenska stjórnmálafræði í ritið Political Science in Europe. Education, Co-operation, Prospects: Report on the State of the Discipline in Europe.[2]

Árið 2007 birti ég kafla um sama efni í bókinni The State of Political Science in Western Europe.[3]

Árið 2015 skrifaði ég aftur kafla um íslenska stjórnmálafræði, nú í bókina Political Science in Europe at the Beginning of the 21st Century.[4]

Gott yfirlit um margar helstu rannsóknir í íslenskri stjórnmálafræði fyrstu 35 árin má finna í bókinni Íslenska stjórnkerfið eftir Gunnar Helga Kristinsson.[5]

Strax í upphafi voru íslenskri stjórnmálafræði í Háskóla Íslands sett þrjú skýr markmið:

Í fyrsta lagi að bjóða upp á BA-nám sem stæðist alþjóðlegar gæðakröfur og gerði útskrifuðum nemendum kleift að stunda framhaldsnám í stjórnmálafræði við bestu háskóla heims. Þetta gekk strax eftir: margir úr fyrstu útskriftarárgöngunum fóru þessa leið.

Í öðru lagi að hefja rannsóknir á íslenska stjórnmálakerfinu.

Í þriðja lagi að tengja íslenska stjórnmálafræði við hið alþjóðlega fræðasamfélag.

Stofnanabinding stjórnmálafræðináms á Íslandi

Haustið 1970 var stjórnmálafræði, félagsfræði og mannfræði komið fyrir í sérstakri námsbraut – utan hins hefðbundna deildakerfis Háskóla Íslands. Engin deild vildi hýsa hinar nýju greinar. Í upphafi voru fastir kennarar tveir, auk stundakennara og tímabundinna erlendra gistikennara. Árið 1976 voru þeir orðnir fimm, þar af tveir í stjórnmálafræði, allt karlar.

Árið 1976 var greinunum komið fyrir í nýrri háskóladeild, Félagsvísindadeild. Auk stjórnmálafræði, félagsfræði og mannfræði voru þar sálfræði, uppeldis- og kennslufræði og bókasafnsfræði – sem komu úr Heimspekideild.

Í upphafi voru fastir kennarar við Félagsvísindadeild 11 talsins, níu karlar og tvær konur – þar af tveir karlar í stjórnmálafræði. Þegar deildin var lögð niður við endurskipulagningu Háskólans 2008 voru kennararnir 51 – 26 karlar og 25 konur. Nemendur voru um 2500 – deildin var sú langfjölmennasta í Háskóla Íslands.

Árið 2008 var skipulag Háskólans stokkað upp. Stofnuð voru fimm fræðasvið með 26 deildum. Á nýju Félagsvísindasviði voru allar greinar Félagsvísindadeildar nema sálfræði og uppeldis- og menntunarfræði, en til viðbótar komu á sviðið lögfræði, viðskiptafræði og hagfræði. Á sviðinu starfa sex deildir. Ein þeirra er Stjórnmálafræðideild, sem hýsir stjórnmálafræði og kynjafræði. Núna eru 17 kennarar í fullu starfi við deildina, 11 konur og sex karlar. Árið 2006 voru kennararnir sjö. Vöxturinn síðustu tvo áratugi hefur verið ótrúlegur. Hann tengist ekki síst tilkomu meistara- og doktorsnáms á síðasta aldarfjórðungi. Öflugasta meistaranámið er á sviðum opinberrar stjórnsýslu, alþjóðastjórnmála og kynjafræði.

Brautskráðir BA-nemendur á þeim 52 árum sem stjórnmálafræði hefur verið kennd við Háskóla Íslands teljast í þúsundum, brautskráðir meistaranemar í hundruðum og á annan tug hafa lokið doktorsprófi í stjórnmálafræði.

Háskóli Íslands er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á heillegt nám í stjórnmálafræði á öllum stigum. En bæði í Háskólanum á Akureyri og í Háskólanum á Bifröst hafa einstök stjórnmálafræðinámskeið verið kennd sem hluti almennari námsbrauta. Þar starfa nokkrir stjórnmálafræðingar við kennslu – og hafa verið afkastamiklir við rannsóknir.

Rannsóknir í stjórnmálafræði

Þegar stjórnmálafræðin hóf landnám á Íslandi 1970 voru nánast engar stjórnmálafræðilegar rannsóknir til í landinu. Ólafur Ragnar Grímsson hafði þá nýlokið fyrstu íslensku doktorsritgerðinni um íslensk stjórnmál á 19. öld og fram til 1918.[6] Við nemendur hans göntuðumst með það að reyndar hefði hann ætlað að skrifa um íslensk samtímastjórnmál, en talið rétt að hafa ofurlítinn inngang um íslenska stjórnmálakerfið fyrir tíma stéttastjórnmála. En þegar komnar hafi verið 800 blaðsíður þótti rétt að láta staðar numið!

Áður hafði auðvitað ýmislegt verið ritað um íslensk stjórnmál, einkum með lögfræðilegri og sagnfræðilegri nálgun. Jón Sigurðsson forseti var reyndar á furðu stjórnmálafræðilegum slóðum í sumum verka sinna um miðja 19. öld. Indriði Einarsson revisor birti vandaða grein um íslenska kosningakerfið 1884, þar sem fjallað er um klassískt viðfangsefni stjórnmálafræðinnar með félagsvísindalegum aðferðum.[7] Líka má nefna bækurnar Réttarsaga Alþingis eftir Einar Arnórsson, Alþingi og frelsisbaráttan eftir Björn Þórðarson, Deildir Alþingis eftir Bjarna Benediktsson, Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson og Stjórnarráð Íslands eftir Agnar Klemens Jónsson. Allt eru þetta merkilegar heimildir, sem fyrstu nemendurnir í stjórnmálafræði lásu spjaldanna á milli.

En stjórnmálafræðileg greining á íslenska stjórnmálakerfinu var einfaldlega ekki til. Stjórnmálafræðileg hugsun var Íslendingum framandi. Þetta hefur gjörbreyst á hálfri öld.

Síðustu 50 árin hafa íslenskir stjórnmálafræðingar kortlagt öll helstu svið íslenskra stjórnmálakerfisins – og borið þau saman við erlend stjórnmálakerfi. Þessar rannsóknir eiga drjúgan þátt í því að á svokölluðum Sjanghaj-lista 2021 var íslensk stjórnmálafræði við HÍ talin í hópi 200-300 bestu stjórnmálafræðideilda í veröldinni, en háskólar í heiminum munu vera um 20 þúsund talsins.

Til þess að komast á svona lista hafa íslenskir stjórnmálafræðingar þurft að birta greinar í alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum og birta bækur og bókarkafla á erlendum málum, einkum ensku. En við höfum líka skyldur við íslenskan almenning. Þess vegna þarf líka að birta rannsóknarniðurstöður á íslensku. Og það hefur sannarlega verið gert.

Rannsóknarstofnanir og tímarit

Til þess að efla rannsóknir er mikilvægt að koma á rannsóknarstofnunum.

Árið 1986 var Félagsvísindastofnun stofnuð. Starfsemin þar hefur verið gróskumikil allar götur síðan, ekki síst spurningakannanir, bæði íslenskar og fjölþjóðlegar.

Árið 1990 var Alþjóðamálastofnun komið á fót og hún var endurskipulögð og efld 2001 og 2008. Á þessari öld hafa stjórnmálafræðingar verið hryggjarstykkið í rannsóknum og störfum stofnunarinnar.

Árið 2002 var Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála komið á legg. Hún hefur unnið ómetanlegt starf og stutt mjög við meistaranámið í opinberri stjórnsýslu. Á hennar snærum var veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla stofnað árið 2005[8]. Það hefur heldur betur blómstrað og er mikilvægur vettvangur fræðigreina um íslensk stjórnmál – og reyndar líka annarra fræðigreina á ýmsum sviðum félagsvísinda. Það er mikið afrek að hafa haldið þeirri útgáfu svona myndarlegri í tvo áratugi.

Líka er ástæða til þess að nefna Öryggismálanefnd, sem stóð fyrir umfangsmikilli rannsóknarstarfsemi um íslensk öryggis- og utanríkismál á 9. áratug síðustu aldar. Stjórnmálafræðingar veittu stofnuninni forstöðu, stunduðu rannsóknir og skrifuðu bækur og greinar. Á þessum tíma var Ólafur Ragnar kominn í pólitík, en sat í nefndinni og var raunar guðfaðir hennar.

Alþjóðlegt samstarf

Strax í upphafi hófu íslenskir stjórnmálafræðingar virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, einkum í Norræna stjórnmálafræðingasambandinu NOPSA og ECPR, European Consortium for Political Research, evrópska stjórnmálafræðingasambandinu. Við áttum einn fulltrúa í stjórn NOPSA, en hinar fjórar þjóðirnar áttu tvo fulltrúa hvert. NOPSA-þingin voru ekki haldin á Íslandi og við höfum aldrei farið með ritstjórn Scandinavian Political Studies sem sambandið gefur út – en ritstjórnin róterar milli Norðurlandanna. Við áttum ekki fulltrúa í framkvæmdastjórn ECPR, en þar hefur stjórnarseta líka róterað milli Norðurlandanna frá upphafi. Allt þetta hefur breyst.

Árið 1990 var fyrsta NOPSA-þingið haldið á Íslandi. Norðurlandamenn höfðu ýmsir áhyggjur af því að aðsóknin yrði lítil. En hún sló öll met. NOPSA-þingið var aftur haldið á Íslandi 2005 og á síðasta ári. Nú er það regla, að fimmta hvert NOPSA-þing skuli haldið á Íslandi.

Árið 2011 var fyrsta ECPR-þingið haldið á Íslandi. Aftur höfðu ýmsir áhyggjur af lítilli aðsókn. En reyndin varð metaðsókn í sögu ECPR – yfir 2000 stjórnmálafræðingar sóttu þingið.

Árið 2012 var ég beðinn um að vera í framboði sem fulltrúi Norðurlanda í framkvæmdastjórn ECPR. Þar sat ég tvö kjörtímabil, sex ár. Núna er ljóst að Ísland mun framvegis fá fulltrúa í stjórninni til jafns við hin Norðurlöndin.

Árið 2014 tók Eva H. Önnudóttir sæti sem fulltrúi Íslands í stjórn NOPSA. Hún kom því fljótlega til leiðar að Ísland fékk í fyrsta skipti tvo stjórnarmenn eins og hin Norðurlöndin. Eva er núna fyrsti Íslendingurinn sem gegnir formennsku í NOPSA. Og á næstunni munu Íslendingar loksins taka að sér ritstjórn Scandinavian Political Studies.

Stjórnmálafræði og félagsfræði

Ég nefndi áðan að árið 1977 skrifaði Ólafur Ragnar Grímsson grein í Scandinavian Political Studies, „Pioneering Political Science. The Case of Iceland“. Þar rekur hann sögu námsbrautar í almennum þjóðfélagsfræðum og fjallar um ýmsa lærdóma sem af henni má draga almennt.

Árin 1970-73 var megináherslan lögð á uppbyggingu kennslu. Í upphafi gegndu erlendir sendikennarar mikilvægu hlutverki – en í íslenskri deild í í íslenskum háskóla þurfa að vera Íslendingar, sem skilja íslenska sögu og menningu. Allar götur síðan hafa kennarar fyrst og fremst verið íslenskir –  flestir með doktorspróf frá mörgum bestu háskólum veraldar. Nokkrir útlendir stundakennarar hafa þó líka komið við sögu – og hin síðari ár hafa nokkrir fastir kennarar verið af erlendu bergi brotnir.

Í upphafi var mikil áhersla lögð á samvinnu stjórnmálafræði og félagsfræði. Öll námskeið voru samkennd. Það var nauðsynlegt í lítilli deild í litlu landi. Með auknum vexti hefur samvinna greinanna minnkað og sérhæfing aukist. Nú eru þær sitt í hvorri deild. Við uppstokkun Háskólans 2008 var ég forseti Félagsvísindadeildar (frá 2001 og svo fyrsti forseti Félagsvísindasviðs til 2013) og formaður nefndar háskólaráðs um uppstokkunina. Ég vildi að stjórnmálafræði og félagsfræði yrðu saman í deild á Félagsvísindasviði – en varð undir. Kannski er kominn tími til þess að efla samvinnu greinanna aftur.

Íslensk hugtök og rannsóknir nemenda við landnám stjórnmálafræðinnar

Í greininni frá 1977 í Scandinavian Political Studies fjallar Ólafur Ragnar m.a. um þann vanda að 1970 voru engin íslensk orð til um helstu hugtök stjórnmálafræðinnar. Hann nefnir nokkur dæmi.

Ekki var til orð yfir political science, en stjórnmálafræði varð ofan á. Á 19. öld hafði greinin reyndar stundum verið kölluð stjórnfræði. Elite og elitism varð að kjarna og kjarnræði. Það vann sér nokkurn sess, en síðari árin er oft bara talað um elítur og elítisma. Pluralism var þýtt sem margræði – en orðið fjölhyggja hefur líka verið notað. Ideology varð hugmyndafræði, socialization varð félagsmótun, anomie varð siðrof.

Árin 1973-76 lagði námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum aukna áherslu á rannsóknir. Til að efla þær voru fyrstu nemendurnir látnir skrifa metnaðarfullar BA-ritgerðir, 12-20 þúsund orð. Margar voru frumrannsóknir á íslensku stjórnmálakerfi. Í greininni nefnir Ólafur Ragnar 27 slíkar ritgerðir frá þessum árum.

Fyrsta rannsóknaráætlunin um íslenska stjórnmálafræði

Í greininni frá 1977 setur Ólafur Ragnar fram rannsóknaráætlun um þau svið sem nauðsynlegt sé að sinna í íslenskri stjórnmálafræði á næstu árum og áratugum. Fróðlegt er – og heillandi – að skoða þann tossalista – og nefna fáein dæmi um árangurinn.

Í fyrsta lagi þarf að rannsaka valdakerfið – the power stucture, skrifar Ólafur. Um það hefur margt verið skrifað síðan. Fyrir fáeinum árum fór fram umfangsmikil valdsrannsókn undir forystu Gunnars Helga Kristinssonar – en slíkar rannsóknir höfðu farið fram miklu fyrr á hinum Norðurlöndunum. Árið 2021 kom út bók eftir Gunnar Helga, Elítur og valdakerfi á Íslandi.[9] Þar er fjallað um nýjar rannsóknir á íslenskum elítum og þær bornar saman við niðurstöður Ólafs Ragnars í greininni „The Icelandic Power Structure 1800-2000“ sem birtist í Scandinavian Political Studies 1976.[10]

Í öðru lagi þarf að rannsaka flokkakerfið og þróun stéttaflokka. Um þetta skrifaði Svanur Kristjánsson doktorsritgerð 1977[11] og Gunnar Helgi Kristinsson 1991.[12] Margir aðrir hafa sinnt rannsóknum á þessu sviði.

Í þriðja lagi þarf að rannsaka löggjafann, Alþingi. Þorsteinn Magnússon skrifaði doktorsritgerð um Alþingi og nefndir þess 1987[13]. Margir fleiri hafa lagt hönd á þennan plóg, m.a. í bókinni Þingræði á Íslandi sem íslenskir stjórnmálafræðingar, sagnfræðingar og lögfræðingar komu að[14].

Í fjórða lagi þarf að rannsaka samsteypustjórnakerfi ríkisstjórna. Um þetta birti Ólafur Ragnar bókarkaflann „The Icelandic Multiparty Coalition System“ 1982 og margir hafa spunnið þann þráð síðan.[15]

Í fimmta lagi þarf að rannsaka hagsmunasamtök, tengsl við stjórnmálaflokka og áhrif á stefnumótun. Um þetta efni skrifaði Stefanía Óskarsdóttir doktorsritgerð[16] – og margir aðrir hafa sinnt rannsóknum á þessu sviði.

Í sjötta lagi þarf að rannsaka embættiskerfið, arf hjálendutímans og vaxandi fagmennsku eftir síðari heimsstyrjöld. Gríðarmiklar rannsóknir hafa beinst að þessu, ekki síst í tengslum við meistaranámið í opinberri stjórnsýslu. Þar hefur Gunnar Helgi Kristinsson farið fremstur í flokki, m.a. í tímamótaverkinu Embættismenn og stjórnmálamenn.[17]

Í sjöunda lagi nefnir Ólafur Ragnar kosningarannsóknir. Ég stofnaði til Íslensku kosningarannsóknarinnar 1983, hannaði og framkvæmdi þá fyrstu ásamt Gunnari Helga – og skrifaði síðar doktorsritgerð um efnið.[18] Íslenska kosningarannsóknin hefur síðan verið framkvæmd við allar alþingiskosningar 1983-2021. Hún hefur eflst mjög og orðið að stofnun sem geymir stærsta gagnasafn íslenskra félagsvísinda – og lengstu tímaröðina. Gögnin eru í opnum aðgangi – og hafa mikið verið notuð af fræðimönnum um víða veröld. Nýlegt dæmi er mikil bók, Political Cleavages and Social Inequalities, sem hinn heimsfrægi hagfræðingur Thomas Piketty og félagar ritstýra, en þar eru gögnin frá 1983-2017 greind á nýstárlegan hátt í dálitlum kafla um Ísland.[19] Hin síðari ár hefur nýtt og öflugt rannsóknarteymi stjórnað Íslensku kosningarannsókninni: Eva H. Önnudóttir sem hefur verið þar í forystu, Agnar Freyr Helgason, Hulda Þórisdóttir (stjórnmálasálfræði), Jón Gunnar Ólafsson (fjölmiðlafræði) – og ég fæ enn að vera með. Auk upprunalegu spurningakönnunarinnar til kjósenda eftir kosningar hafa bæst við frambjóðendakönnun og kosningabaráttukönnun – og síðan 1999 hefur hluti Íslensku kosningarannsóknarinnar verið samræmdar fjölþjóðlegar spurningar, sem mynda íslenska hlutann í gagnasafni CSES, Comparative Studies of Electoral Systems.[20] Árið 2021 kom út bók sem rannsóknarteymið skrifaði og byggir á Íslensku kosningarannsóknunum 1983-2017, Electoral Politics in Crisis after the Great Recession. Change, Fluctutations and Stability in Iceland.[21] Megináherslan er á þær miklu breytingar sem urðu á íslenka flokkakerfinu eftir Hrun. Bókin er í opnum aðgangi hjá Routledge.

Í áttunda lagi þarf að rannsaka sveitarstjórnarmál. Um þetta efni hefur mikið verið ritað. Þar koma m.a. við sögu Gunnar Helgi Kristinsson, Grétar Þór Eyþórsson og Eva Marín Hlynsdóttir.

Auk þessara átta sviða nefnir Ólafur Ragnar tvennt sem rannsaka þurfi í samvinnu stjórnmálafræði og félagsfræði.

Í fyrra lagi þarf að rannsaka félagsgerðina á Íslandi, m.a. stéttir og klofningsþáttinn þéttbýli-dreifbýli. Þarna hefur mikið verið rannsakað, m.a. í valdsrannsókninni sem fyrr var nefnd.

Í síðara lagi þarf að rannsaka fjölmiðla og drottnun stjórnmálaflokka yfir þeim. Þorbjörn Broddason vann merkilegt brautryðjendastarf á þessu sviði, en aðrir hafa skrifað um breytt tengsl fjölmiðla og stjórnmála, núna síðast – og ekki síst – Birgir Guðmundsson í doktorsritgerð um pólitíska boðmiðlun á Íslandi.[22]

Í ljósi sögunnar virðist eitt einkum vanta í tossalista Ólafs Ragnars um rannsóknarsvið: alþjóðastjórnmál og íslensk utanríkisstefna, sem hafa orðið eitt helsta áherslusvið íslenskrar stjórnmálafræði síðustu áratugi og fjölmargt verið ritað um. Hér skal einungis nefnt að árið 2021 kom út tímamótaverk eftir Baldur Þórhallsson, Iceland‘s Shelter-Seeking Behavior: From Settlement to Republic.[23] Þar eru tengsl Íslands við umheiminn allt frá landnámi greind í ljósi stjórnmálafræðilegra kenninga.

Íslensk stjórnmálafræði hefur blómstrað síðustu hálfa öldina. Rannsóknaráætlun – eða tossalisti – Ólafs Ragnars Grímssonar frá 1977 hefur öll orðið að veruleika – og gott betur.

 

Aftanmálsgreinar


[1] Ólafur Ragnar Grímsson (1977). „Pioneering Political Science. The Case of Iceland“. Scandinavian Political Studies, 12. árgangur, bls. 47-61.

[2] Gunnar Helgi Kristinsson (1996). „Political Science in Iceland“ í J.-L. Quermonne (ritstj.)  Political Science in Europe: Education, Co-operation, Prospects: Report on the State of the Dicipline in Europe. Paris: Thematic Network Political Science, bls. 323-336.

[3] Ólafur Þ. Harðarson (2007). „The Current State of Political Science in Iceland“ í H.-D. Klingemann (ritstj.) The State of Political Science in Western Europe. Opladen-Farmington Hills: Barbara Budrich Publishers, bls. 229-242.

[4] Ólafur Þ. Harðarson (2015). „Political Science in Iceland 2014“ í B. Krauz-Mozer, M. Kulakowska, P. Borowiec og P. Scigaj (ritstj.) Political Science in Europe at the Beginning of the 21st Century. Kraków: Jagiellonian University Press, bls. 189-204.

[5] Gunnar Helgi Kristinsson (2007). Íslenska stjórnkerfið. Önnur útgáfa, uppfærð og endurskoðuð 2007. Reykjavík: Háskóli Íslands.

[6] Ólafur Ragnar Grímsson (1970). Political power in Iceland prior to the period of class politics 1845-1918. Doktorsritgerð. University of Manchester.

[7] Indriði Einarsson (1884). „Um kosningar og kjósendr til Alþingis“. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 5. árgangur bls. 1-35.

[8] Tímaritið frá upphafi má lesa á vefsíðunni irpa.is

[9] Gunnar Helgi Kristinsson (2021). Elítur og valdakerfi á Íslandi. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

[10] Ólafur Ragnar Grímsson (1976). „The Icelandic Power Structure 1800-2000“. Scandinavian Political Studies, 11. árgangur.

[11] Svanur Kristjánsson (1977). Conflict and Consensus in Icelandic Politics 1916-1944. Doktorsritgerð. University of Illinois, Urbana.

[12] Gunnar Helgi Kristinsson (1991). Farmers‘ Parties. A Study in Electoral Adaption. Reykjavík: Félagsvísindastofnun.

[13] Þorsteinn Magnússon (1987). The Icelandic Althingi and its Standing Committees. Doktorsritgerð. University of Exeter.

[14] Ragnhildur Helgadóttir, Helgi Skúli Kjartansson og Þorsteinn Magnússon (ritstj. 2011). Þingræði á Íslandi. Samtíð og saga. Reykjavík: Forlagið.

[15] Ólafur Ragnar Grímsson (1982). „The Icelandic Multiparty Coalition System“. E.C. Browne og J. Dreijmanis (ritstj.) Government Coalitions in Western Democracies. New York og London: Longman. Sjá líka t.d. Indriði H. Indriðason (2005). „A Theory of Coalitions and Clientelism. Coalition Politics in Iceland 1945-2000“. European Journal of Political Research, 44: 439-464.

[16] Stefanía Óskarsdóttir (1995). The Use of Incomes Polices: Icelandic Incomes Policies, 1969-1995. Doktorsritgerð. Purdue University, W. Lafayette, Indiana.

[17] Gunnar Helgi Kristinsson (1994). Embættismenn og stjórnmálamenn. Reykjavík: Heimskringla.

[18] Ólafur Þ. Harðarson (1995). Parties and Voters in Iceland. A Study of the 1983 and 1987 Althingi Elections. Reykjavík: Félagsvísindastofnun/Háskólaútgáfan.

[19] A. Gethin, C. Martínez-Toledano og T. Piketty (2021). Political Cleavages and Social Inequalities. A Study of Fifty Democracies, 1948–2020. Cambridge: Harvard University Press.

[20] Gögn og upplýsingar í opnum aðgangi má finna á vefsíðunni cses.org

[21] Eva H. Önnudóttir, Agnar Freyr Helgason, Ólafur Þ. Harðarson og Hulda Þórisdóttir (2021). Electoral Politics in Crisis after the Great Recession. Change, Fluctuations and Stability in Iceland. London og New York: Routledge.

[22] Birgir Guðmundsson (2021). Political communication in a digital age. Defining new characteristics of the Icelandic media system. Doktorsritgerð. Háskóli Íslands.

[23] Baldur Þórhallsson (2021). Iceland‘s Shelter-Seeking Bahavior. From Settlement to Republic. Ithaca, New York: Cornell University Press.