Tag Archives: Norðurslóðir

Universities, Democracy and the Arctic – A changed worldview

 Prof. Birgir Guðmundsson, guest editor

This special issue of Nordicum-Mediterraneum contains articles based on five lectures that were delivered at a conference held on the occasion of Mr. Ólafur Ragnar Grímsson being awarded an honorary doctorate in the field of social sciences by the School of Humanities and Social Sciences at the University of Akureyri on September 30, 2022.

Ólafur Ragnar Grímsson has left a deep mark on Iceland’s history in his successful career as a scholar, head of state, international politician and pioneer in discussions about the Arctic. The lectures contained in this edition reflect these aspects of his work in numerous ways.

                                       

Mr. Grímsson was a pioneer in the field of social sciences in Iceland, becoming an assistant professor in political science at the University of Iceland in 1970 and a professor three years later. He gained an international reputation early on as a researcher in political science, publishing many scientific articles in Icelandic and international journals.

Mr. Grímsson’s participation in politics has also been very significant, both at the national and international level. During his political career, Mr. Grímsson was an editor, a member of parliament, a cabinet minister and the chairman of the socialist party the People’s Alliance from 1987–1995. He also operated in the international arena, among other things representing the international parliamentarian organization Parliamentarians for Global Action for a number of years.

Mr. Grímsson’s presidency was unique in many ways and marked a turning point in various fields. Not only did he hold office for longer than any of his predecessors, but many of his decisions and interpretations of the constitution marked a turning point. In this regard, his interpretation of the provisions of the constitution on the president’s authority to refuse ratification of laws are of particular interest.

The issues of the Arctic have long been close to Mr. Grímsson’s heart, and in recent years he has played a key role in putting matters of the Arctic on the international community’s agenda. One of his most noteworthy contributions is founding the Arctic Circle, the largest and most important forum for international discussion about cooperation and the future of the Arctic, and in fact the entire Earth.

On the occasion of the awarding of the honorary title, a symposium was held under the title “Universities, democracy and the North – a changing worldview” at the University of Akureyri, with the articles that appear here being, as mentioned above, based on papers at this symposium. The lectures were delivered in Icelandic and are published here in Icelandic. However, this introduction and presentation of the papers is also published here in English.

Albert Jónsson: In his article, Mr. Jónsson analyzes the changes that have taken place in the worldview of the Arctic in recent months and years, not least after the Russian invasion of Ukraine. He comes to the conclusion that international politics and the structure of the international system have changed in important respects. Among other things, he mentions the entry of Sweden and Finland into NATO and the fact that the Arctic Council effectively became non-functional. However, he considers that changes in the Earth’s weather system, with the opening of the Arctic Ocean to navigation, are no less significant. According to Mr. Jónsson, the central role of the Arctic is set to increase further with more connections between the Asia-Pacific region and the Euro-Atlantic region through the Arctic Ocean. Thus, many opportunities and dangers will be created for nations and states in the Arctic, not least economic, so that it can be expected that the Arctic will become an arena of global politics and tension no later than in the mid-21st century.

Guðrún Geirsdóttir: The article provides an overview of the research project Universities and democracy: A critical analysis of the civic role of universities in a democratic society, which received a three-year grant from the Rannís Research Foundation in the spring of 2018. In the study, an interdisciplinary group of scholars sought answers to whether and what role universities play in a democratic society. Data was obtained through a philosophical analysis of the concepts of democracy and universities and the relationship between them, as well as through interviews with lecturers at three universities. Studies show that universities play a variety of important roles in promoting and strengthening democratic societies. The article gives several examples of different aspects of the research and their results.

Ólafur Harðarson: In his article, Mr. Harðarson traces the beginning of teaching in the social sciences in the Social Studies Program at the University of Iceland from the 1970s onwards. He then traces how this co-teaching in political science and sociology developed in the 1970s and 1980s, becoming more meaningful and acquiring a clearer institutional framework, and during the reorganization of the structure of the University of Iceland in 2008, it became the university’s most populous department. Mr. Harðarson highlights how the three initial main goals of teaching political science – that the BA program meet international requirements, that research be carried out on the Icelandic government system, and that a connection be formed with the international academic community of political science – were fulfilled one after the other. In his article, Mr. Harðarson traces the main points that have been written about the development of Icelandic political science, using an overview from an article that Ólafur Ragnar Grímsson wrote in 1977 about ten projects and research areas that awaited Icelandic political scientists. Mr. Harðarson covers these areas one by one and gives an account of the research and writing on each of them separately, providing a comprehensive and general overview of the research and academic writing of political science.

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir: Constitution and changes to the constitution in a democratic context are the main topics of Ms. Þorsteinsdóttir’s article. She reviews theoretical ideas about the role of the constitution and how they limit democracy. In particular, Ms. Þorsteinsdóttir examines and evaluates their importance in ensuring that democratic rights and tempering majoritarianism are ensured so that oppression is not created due to the unbridled totalitarianism of the majority. She then discusses the situation in Iceland, where there has been a debate for decades about including provisions on natural resources in the constitution. She points out that there is a fairly clear national will for such a provision, but the decision-making power rests with Parliament, which has not agreed on its implementation. Ms. Þorsteinsdóttir considers this one of the manifestations of majoritarianism, giving rise to the question whether the parliament elected by the people can circumvent the will of the people.

Þorsteinn Gunnarsson: In his article, Mr. Þorsteinn Gunnarsson reviews the development of Arctic studies over the past 30 years and gives an account of the main definitions of what the Arctic is and what the studies of this part of the world center on. Mr. Gunnarsson identifies three separate periods in this development. The first is 1990–1999, which Mr. Gunnarsson calls “At the Arctic edge”, is characterized by the development of basic infrastructure and knowledge in the field of the discipline. The second period extends from the turn of the century until 2010 and is characterized by the infrastructure being consolidated, creating an international debate, based on Arctic studies. The Northern Research Forum, the Arctic Circle and Mr. Ólafur Ragnar Grímsson play a very important role in this respect. Mr. Gunnarsson calls this period “In the far north”. The third period is 2011–2022, which Mr. Gunnarsson calls “The Arctic around the world” and is characterized by the rapidly growth of international cooperation, e.g., with researchers outside the Arctic. In his presentation, Mr. Gunnarsson specifically discusses the role of Mr. Ólafur Ragnar Grímsson in the development of Arctic studies and the Arctic debate.

As is evident, the lectures span a wide range and are connected in different ways to various aspects of Mr. Ólafur Ragnar Grímsson’s life work. However, all the lectures are particularly interesting and hold meaning for laypeople and academics. Therefore, we want to make them available by publishing them in this special issue of Nordicum-Mediterraneum.

Háskólar, lýðræði og norðurslóðir – breytt heimsmynd
– Ráðstefnuerindi í tilefni heiðursdoktorsnafnbótar Ólafs Ragnars Grímssonar við HA

Í þessu sérhefti af Nordicum- Mediterraneum eru birtar greinar byggðar á fimm erindum sem flutt voru á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af því að herra Ólafi Ragnari Grímssyni var veitt heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda af Hug-og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri þann 30. september 2022.

Ólafur Ragnar Grímsson er hefur markað djúp spor í Íslandssöguna á farsælum ferli sem fræðimaður, þjóðhöfðingi, alþjóðlegur stjórnmálamaður og frumkvöðull í umræðu um málefni norðurslóða og kallast erindin með ýmsum hætti á við þessa þætti í starfi hans.

Ólafur Ragnar var brautryðjandi á sviði félagsvísinda á Íslandi og varð lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 1970 og síðan prófessor þremur árum seinna. Hann haslaði sér snemma alþjóðlegan völl sem nafn innan stjórnmálafræðinnar og eftir hann liggja margar fræðigreinar í íslenskum og erlendum tímaritum.

Ólafur hefur ekki aðeins rannsakað stjórnmálin, þátttaka hans í þeim hefur verið veruleg, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Á sínum pólitíska ferli var Ólafur ritstjóri, þingmaður og ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins frá 1987 – 1995. Hann starfaði jafnframt á erlendum vettvangi og var m.a. um árabil í forsvari fyrir alþjóðlegu þingmannasamtökin Parliamentarians for Global Action.

Forsetatíð Ólafs Ragnars var um margt sérstök og markaði tímamót á ýmsum sviðum. Ekki einungis sat hann lengur en áður hafði þekkst heldur mörkuðu ýmsar ákvarðanir hans og túlkun á stjórnskipuninni tímamót. Má í því sambandi nefna túlkun hans á ákvæðum stjórnarskrár um heimild forseta til að synja lögum staðfestingar.

Málefni Norðurslóða hafa lengi verið Ólafi Ragnari hugleikin og á umliðnum árum hefur hann verið í lykilhlutverki við að setja þá umræðu á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Þar ber líklega hæst að hann er stofnandi Arctic Circle, stærsta og mikilvægasta vettvangs alþjóðlegrar umræðu um samvinnu og framtíð norðurslóða og í raun jarðarinnar allrar.

Í tilefni af veitingu heiðursnafnbótarinnar var haldið málþing undir yfirskriftinni „Háskólar, lýðræði og Norðurslóðir – breytt heimsmynd” við Háskólann á Akureyri og eru greinarnar sem hér birtast sem áður segir byggðar á erindum á ráðstefnunni. Erindin voru flutt á íslensku og eru hér birt á íslensku. Þessi inngangur og kynning á erindunum birtist hér hins vegar jafnframt á ensku.

Albert Jónsson: Í grein sinni greinir Albert þær breytingar sem orðið hafa á heimsmynd norðurslóða á undanförnum mánuðum og misserum, ekki síst eftir innrás Rússa í Úkraínu. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að alþjóðastjórnmál og uppbygging alþjóðakerfisins hafi breyst í mikilvægum atriðum. Nefnir hann m.a. inngöngu Svía og Finna í NATO og það að Norðurskautsráðið varð í raun óstarfhæft. En það séu ekki síður breytingar í veðrakerfi Jarðar sem séu afdrifaríkar með opnun Norður- Íshafs fyrir siglingum. Miðlægt hlutverk norðurslóða eigi eftir að aukast enn frekar með frekari tengingum Asíu-Kyrrahafssvæðisins og Evró-Atlantshafssvæðisins í gegnum Norður-Íshafið. Við það muni fjölmörg tækifæri og hættur skapast fyrir þjóðir og ríki á norðurslóðum, ekki síst efnahagsleg, en búast megi við að ekki síðar en um miðja öldina verði norðurslóðir orðinn vettvangur heimspólitíkur og spennu.

Guðrún Geirsdóttir: Greinin veitir yfirlit yfir rannsóknarverkefnið Háskólar og lýðræði: Gagnrýnin greining á borgaralegu hlutverki háskóla í lýðræðisþjóðfélagi sem hlaut styrk til þriggja ára úr Rannsóknasjóði Rannís vorið 2018. Í rannsókninni leitaði þverfræðilegur hópur fræðimanna svara við því hvort og þá hvaða hlutverki háskólar gegna í lýðræðislegu samfélagi. Gagna var aflað með heimspekilegri greiningu á hugtökunum lýðræði og háskólar og tengslum þar á milli svo og með viðtölum við háskólakennara í þremur háskólum. Greiningar sýna að háskólar gegna margs konar mikilvægum hlutverkum við að efla og styrkja lýðræðisleg samfélög. Í greininni eru gefin nokkur dæmi um ólíka þætti rannsóknarinnar og niðurstöður þeirra.

Ólafur Harðarson: Í grein sinni rekur Ólafur Harðarson upphaf kennslu í félagsvísindum í Námsbraut í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands um og upp úr 1970. Hann rekur síðan hvernig þessi samkennsla í stjórnmálafræði og félagsfræði þróast á áttunda og níunda áratugnum og verður burðugri og öðlast skýrari stofnanaumgjörð og er við endurskipulagningu á uppbyggingu Háskóla Íslands 2008 orðin að fjölmennustu deild skólans. Hann dregur fram hvernig upphafleg þrjú megin markmið um kennslu í stjórnmálafræði – að BA námið standist alþjóðlegar kröfur, að stundaðar verði rannsóknir á íslenska stjórnkerfinu og að tengsl myndist við alþjóðlegt fræðasamfélag stjórnmálafræðinnar – rætast hvert af öðru. Í greininni rekur Ólafur það helsta sem hefur verið skrifað um þróun íslenskrar stjórnmálafræði og nýtir sér yfirlit úr grein sem Ólafur Ragnar Grímsson skrifaði árið 1977 um tíu verkefni og rannsóknarsvið sem biðu íslenskra stjórnmálafræðinga að vinna í. Fer hann yfir þessi svið eitt af öðru og gerir grein fyrir rannsóknum og skrifum á hverju þeirra fyrir sig þannig að úr verður heildstætt og almennt yfirlit yfir rannsóknir og fræðiskrif stjórnmálafræðinnar.

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir: Stjórnskipun og breytingar á stjórnarskrá í lýðræðisleg samhengi eru meginefni greinar Ragnheiðar Elfu Þorsteinsdóttur. Hún fer yfir fræðilegar hugmyndir um hlutverk stjórnarskrár og hvernig þær setja lýðræðinu skorður. Sérstaklega skoðar hún og metur mikilvægi þeirra við að tryggja að lýðræðisréttindi og tempra meirihlutaræðis þannig að tryggt sé að ekki skapist kúgun vegna óbeislaðs alræðis meirihlutans. Hún reifar síðan stöðuna á Íslandi þar sem umræða og hefur í áratugi verið mikil um að setja ákvæði um um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Bendir hún á að nokkuð greinilegur þjóðarvilji sé fyrir slíku ákvæði en ákvörðunarvaldið sé hjá Alþingi, sem ekki hafi komið sér saman um útfærslu. Þetta sé í raun ein birtingarmynd meirihlutaræðisins og spurningin vakni hvort þingið sem kosið er af þjóðinni geti sniðgengið þjóðarvilja?

Þorsteinn Gunnarsson: Í grein sinni fer Þorsteinn Gunnarsson yfir þróun norðurslóðafræða undanfarin 30 ár og gerir grein fyrir helstu skilgreiningum á því hvað norðurslóðir eru og um hvað þau fræði fjalla sem kennd eru við þennan heimshluta. Þorsteinn greinir þrjú aðskilin tímabil í þessari þróun. Það fyrsta er 1990-1999 og nefnir Þorsteinn það „Við nyrstu sjónarrönd“ og einkennist af uppbygginu á grundvallar innviðum og þekkingu á sviði fræðigreinarinnar. Annað tímabilið nær frá aldamótum fram til 2010 og einkennist af því að innviðir eru treystir og sköpuð alþjóðleg umræðu, byggða á norðurslóðafræðum. Hér spilar Rannsóknarþing Norðursins , Hringborð norðurslóða og Ólafur Ragnar Grímsson mjög mikilvægt hlutverk. Þetta tímabil kallar Þorsteinn „Í fjarska norðursins“. Þriðja tímabilið er svo 2011-2022, sem Þorsteinn kallar „Norðurslóð um veröld víða“ og einkennist af hraðvaxandi alþjóðasamstarfi m.a. við rannsóknaaðila utan norðurslóða. Í erindi sínu fjallar Þorsteinn sérstaklega um þátt Ólafs Ragnars Grímssonar í uppbyggingu norðursláða fræða og norðursláðaumræðu.

Eins og sjá má spanna erindin vítt svið og tengjast með ólíkum hætti ýmsum þáttum í ævistarfi Ólafs Ragnars Grímssonar. Öll eru erindin þó sérlega áhugaverð og eiga erindi við áhugafólk og fræðimenn. Því viljum við gera þau aðgengileg með birtingu í þessu sérhefti af Nordicum- Mediterraneum.

Birgir Guðmundsson, gestaritstjóri

Fræðin sem komu inn úr kuldanum

Þorsteinn Gunnarsson, fyrrv. rektor Háskólans á Akureyri

Í þessari grein verður farið yfir stöðu og þróun norðurslóðafræða hér á landi á síðustu þremur áratugum.  Fyrst verða kynntar skilgreiningar á norðurslóðum og norðurslóðafræðum.  Því næst verður fjallað um þróun norðurslóðafræða á þremur tímabilum innan þessara þriggja áratuga og gerð grein fyrir helstu viðburðum og einkennum hvers tímabils. Jafnframt verður gerð grein fyrir  þætti dr. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. forseta Íslands, í uppbyggingu þessa hluta norðurslóðastarfsins.

Ísland sem hluti af norðurslóðum

Samkvæmt núverandi skilgreiningum telst allt landssvæði Íslands til norðurslóða, sbr. kort sem sýnir afmörkun norðurslóða birt sem hluti af samningi utanríkisráðherra Norðurskautsríkjanna 2017 um vísindasamstarf á norðurslóðum, sjá Mynd 1. Þess ber að geta að skilgreining á norðurslóðum er ekki aðeins landfræðileg, heldur einnig pólítísk, stjórnsýsluleg, menningarleg og bundin sögu svæðisins o.fl. Skilgreining á norðurslóðum er einnig í stöðugri þróun. Eldri skilgreining á norðurslóðum var oft miðuð við svæðið norðan við heimskautsbauginn 66,5 norðlægrar breiddar. Skilgreining á norðurslóðum og ímynd þeirra eru nátengd. Um hvernig skilgreining og ímynd norðurslóða hefur þróast í sögulegu ljósi má t.d. sjá bók Sumarliða Ísleifssonar, Í fjarska norðursins.[1]

 

Mynd 1: Kort af norðurslóðum[2]

 

 Norðurslóðafræði

Á síðustu áratugum hefur þróast sérstakt safn fræðigreina um norðurslóðir sem kallast einu nafni norðurslóðafræði. Samkvæmt skilgreiningu Níelsar Einarssonar, forstöðumanns Stofunar Vilhjálms Stefánssonar, þá fást norðurslóðafræði við rannsóknir, vöktun og fræðslu sem tengist sérstakri og sameiginlegri náttúru, samfélagsmenningu, atvinnuháttum og sögu norðurslóða í alþjóðlegu samhengi.[3]

Sem dæmi um fræðigreinar hér á landi sem fást við rannsóknir á norðurslóðum innan náttúru- og raunvísinda má nefna: Loftlagsfræði, jöklafræði, vatnafræði, haffræði, vistfræði. Innan hug- og mannvísinda má svo nefna Alþjóðasamskipti og lög, öryggismál, sagnfræði og menning, félags- og hagþróun, jafnréttisfræði og heilbrigðisrannsóknir.[4]

Sem dæmi um námskeið á háskólastigi um norðurslóðafræði má nefna Inngangur að norðurslóðafræði sem kennt er við Háskólann á Akureyri. Þetta námskeið fjallar um þverfaglegar rannsóknir á náttúrulegu umhverfi, mannvist, lífskjörum og þróun lífsgæða á norðurslóðum, en er um leið kynning á arktískum samfélögum og menningu í vistfræðilegu, sögulegu, samtímalegu og hnattrænu samhengi.

Á meðal viðfangsefna verða lífríki, náttúra, auðlindir og loftslagsbreytingar; lýðfræði, búferlaflutningar og aðlögun; þróun lífsgæða og lífvænleiki samfélaga; kyngervi og kynjamálefni; heilbrigði og velferð; menntun og menning; hagkerfi og atvinnugreinar; stjórnskipan og lagskipting; arktísk samvinna og alþjóðasamfélagið; sjálfbær þróun, hnattvæðing og loftslagsbreytingar; og frumbyggjamálefni og margvísleg þekkingarkerfi.[5]

 

Meginsvið norðurslóðarannsókna hér á landi

Á þessari öld hafa rannsóknir á og kennsla um norðurslóðir eflst mjög. Umfangsmestu rannsóknirnar eru nú sem fyrr á sviði náttúru- og raunvísinda en á síðustu árum hafa rannsóknir á sviði félagsvísinda verið að sækja í sig veðrið.

Vísindamenn sem fást við þessar rannsóknir vinna yfirleitt í stórum samstarfsverkefnum sem ná yfir margar fræðigreinar. Í grófum dráttum má segja að rannsóknir á norðurslóðum hafi um þessar mundir beinst inn á fimm meginsvið:[6]

  • Jöklar og loftslag, stýrt af Veðurstofu og Háskóla Íslands
  • Loftlagsbreytingar og áhrif þeirra hér á landi, stýrt af Veðurstofu og Vísindanefnd um loftslagsbreytingar
  • Breytingar í hafinu umhverfis Ísland, stýrt af Hafrannsóknastofnun
  • Sjálfbær þróun og samfélagsleg áhrif loftslagsbreytinga, stýrt af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar
  • Heimskautaréttur og haf- og strandsvæðastjórnun, stýrt af Háskólanum á Akureyri og Háskólasetri Vestfjarða

Staða norðslóðafræða og rannsókna er að mörgu leyti sterk um þessar mundir en það er nýleg þróun. Hér á eftir verður fjallað um hvernig hafa þessi fræði hafa  þróast í samspili við sitt umhverfi hér á landi á síðustu áratugum?

1990-1999 Við nyrstu sjónarrönd

Fyrsta tímabilið, 1990-1999, sem ég kýs að nefna, við nyrstu sjónarrönd, einkenndist af því að koma á fót nauðsynlegum innviðum og þekkingu til að byggja upp þessa fræðigrein. Við þá vinnu var einkum leitað til fyrirmynda hjá öðrum norðlægum háskólum og stofnunum. Á þessu fyrsta tímabili einkenndist andrúmsloft vísindasamfélagsins hér á landi í kringum þessa vinnu stundum af efasemdum um þýðingu þess og fálæti. Fyrirmyndir rannsóknastarfsins átti ekki að sækja norður í einhverja „útnára“ og túndrur heldur suður á bóginn til Harvard og Oxford.

Þetta tímabil hefst með stofnun Alþjóðlegu Norðurskautsvísindanefndarinnar (International Arctic Science Committee (IASC), 1990, í Resolute, Northwest Territories í Kanada. Ísland gerðist þar einn af stofnaðilum IASC. Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (IASC) hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum og í dag leiðir hún saman opinberar rannsóknarstofnanir og -samtök frá 23 löndum. Rannsóknaráð Íslands (síðar Rannís) hefur umsjón með þátttöku  íslensks vísindasamfélags í IASC. Magnús Magnússon, prófessor, var forseti IASC, 1993-1997. Þess má geta að við undirbúning að stofnun IASC var í fyrstu ekki gert ráð fyrir Íslandi sem stofnaðila IASC. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda í sendiráðinu í Osló hafði veður af þessu og minnti á stofnaðila á að nokkrir fermetrar nyrst í Grímsey væru fyrir norðan heimskautsbaug. Odd Rogne “I got a phone call from the Icelandic Embassy informing me that they had some square meters north of the Arctic Circle.”[7]

IASC hélt fyrstu Vísindaviku norðurslóða Arctic Science Summit Week (ASSW) í Tromsö í Noregi árið 1999, sem hefur verið haldin árlega síðan og eru mikilvægustu samkomur vísindamanna á norðurslóðum.

Háskólinn á Akureyri hóf með skipulegum hætti að byggja upp starfsemi á sviði norðurslóða á árinu 1995, m.a. með því að undirrita samstarfsamninga við háskóla í Nordkalotten, Tromsö, Rovaniemi og Oulu um málefni norðurslóða, árið eftir var síðan ráðstefna þessara háskóla o.fl. haldin  við Háskólann á Akureyri, þar sem efni þessara samninga var fylgt eftir.[8]

Fulltrúi Háskólans á Akureyri tók þátt í að undirbúa að komið yrði á fót Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri en hún tók til starfa árinu 1998. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar var og er eina stofnunin hér á landi sem hefur málefni norðurslóða sem lögbundið viðfangsefni. Þrátt fyrir pólítíska samstöðu um að koma þessari stofnun á fót var skilningur sumra í íslenska vísindasamfélaginu á nauðsyn slíkrar stofnunar takmarkaður. Í umsögn prófessors við Háskóla Íslands um frv. til laga um Norðurstofnun sem var forveri SVS komu fram efasemdir um starfsemi sérstakrar stofnunar á þessu sviði og ef á annað borð væri ákveðið að koma henni á fót, væri hún best staðsett út í Grímsey.[9]

Á þessu ári taka fulltrúar Háskólans á Akureyri og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar virkan þátt í að undirbúa stofnun Háskóla norðurslóða (University of the Arctic) og fulltrúi HA/SVS tekur þátt í stofnfundi undirbúningsnefndar í Fairbanks í Alaska með 17 öðrum norðurslóðastofnunum og háskólum. Aðrir íslenskir háskólar sýna þessu frumkvæði ekki áhuga.

Í lok tíunda áratugsins, eða árið 1999, er Rannsóknaþing norðursins (Northern Research Forum (NRF)) stofnað að frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar, þáv. forseta Íslands og tvær skrifstofur vinnuhópa Norðurskautsráðsins, Conservation og Arctic Fauna (CAFF) and Flora og Protection of the Marine Environment (PAME) taka til starfa á Akureyri.

Í fjarska norðursins, 2000-2010

Annað tímabilið 2000-2009, Í fjarska norðursins, fólst í að treysta þessa innviði sem hér hafa verið kynntir að framan og koma nýrri þekkingu á þessu sviði á framfæri í alþjóðlegu umhverfi. Tímabilið einkennist af tilraunastarfsemi um hvernig ætti að skapa alþjóðlega umræðu, byggða á norðurslóðafræðum, sem hefði áhrif.

Þetta tímabil hefst með fyrsta málþingi Rannsóknaþings norðursins, „North meets North“ var haldinn í Háskólanum á Akureyri og á Bessastöðum síðla árs 2000[10]. Nánar verður gerð grein fyrir starfsemi Rannsóknaþingsins og mikilvægi þess síðar í þessum kafla. Árið eftir, 2001, er Háskóli norðurslóða stofnaður í Rovaniemi í Finnlandi og eru Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á meðal stofnaðila. Háskóli norðurslóða var m.a. stofnaður til að berjast á móti hugmyndafræðinni um að norðurslóðir væru jaðarsvæði sem ungt fólk þyrfti að flytja frá til menntunar og að með því að beita sameinuðum kröftum væri hægt að bjóða öllu ungu fólki á norðurslóðum upp á menntun sem endurspeglaði veruleika þeirra og umhverfi. Ungt fólk sem átti margt sameiginlegt – eins og kom á daginn þegar stofnanirnar fóru að styðja við nemendaskipti sín á milli. Háskóli norðurslóða varð síðan mikilvægasta samstarfsnet háskóla og rannsóknastofnana á norðurslóðum.

Í kjölfarið á árinu 2003 hefst kennsla í fyrsta námskeiði í norðurslóðafræði við Háskólann á Akureyri, sem hluti af Háskóla norðurslóða, Bachelor of Circumpolar Studies. Jón Haukur Ingimundarson, hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og formaður UArctic Bachelor of Circumpolar Studies Program Development Team, frá febrúar 1999 til 2003 hafði forgöngu um þróun þessarar námsleiðar. Tero Mustonen frá Finnlandi kenndi fyrstu námsskeiðin, Ingangur að norðurslóðum og Þjóðir og menning á norðurslóðum, við Háskólann á Akureyri, 2003-2004.

Áhersla Háskólans á Akureyri málefni norðurslóða hafði áhrif út í samfélagið og Akureyrarbær gerðist aðili að Northern Forum, samtökum héraðsstjórna á norðurslóðum á þingi samtakanna í Pétursborg árið 2003.

 

Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu á árunum 2003-2004. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar ritstýrir fyrstu þróunarskýrslu norðurslóða (Arctic Human Development Report) sem kemur út í nóvember 2004, og hefur markað spor fyrir rannsóknir á samfélögum á norðurslóðum. Skýrslan er einhver mikilvægasta heimild sem til er um lífskjör og stöðu samfélaga frumbyggja á norðurslóðum og var samin í samvinnu 90 vísindamanna frá ríkjum Norðurskautsráðsins. Joan Nymand-Larsen hjá SVS hefur ásamt fleirum leiddi vinnu við skýrsluna og þá seinni sem kom út árið 2015. Vísindavika norðurslóða var í fyrsta sinn haldin í Reykjavík á árinu 2004 og sama ár er Arctic Portal fyrirtæki sem sérhæfir sig í miðlum upplýsinga um málefni norðurslóða stofnað á Akureyri.

 

Á árinu 2007 undirstrikar stefna Háskólans á Akureyri mikilvægi norðurslóðafræði: „Lögð verði áhersla á rannsóknir á fræðasviðum háskólans og þverfagleg fræðasvið norðurslóða.“[11] Þetta er í fyrsta sinn sem háskóli hér á landi setur norðurslóðafræði á dagskrá í stefnu sinni. Árið eftir, 2008, hefst kennsla í meistaranám í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri, Guðmundur Alfreðsson og Ágúst Þór Árnason, Natalia Loukacheva, fyrsti Nansen prófessorinn við Háskólann á Akureyri, skipulögðu námsskeiðin í heimskautarétti. Þau höfðu jafnframt forgöngu um að halda fyrsta Polar Law Symposium[12] og gefa út ráðstefnuritið The Yearbook of Polar Law.[13]

Á þessu ári kemur út í fyrsta sinn skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar hér á landi kemur út unnin af vísindamönnum hjá Veðurstofunni o.fl.

Rannsóknaþing norðursins

Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands kom fyrstur fram með hugmynd um Rannsóknaþing norðursins í september 1998 í ræðu í tilefni af tuttugasta starfsári Háskólans í Lapplandi í Rovaniemi, Finnlandi. Í ræðunni hvatti hann hann til þess að stofnaður yrði nýr alþjóðlegur vettvangur á norðurslóðum þar sem efnt yrði til opinnar samræðu milli vísindamanna, embættismanna, stjórnmálamanna, athafnamanna um framtíð fólks á norðurslóðum. Háskólinn í Lapplandi fól Lassi Heininen að gera fýsileikakönnun á þessari hugmynd sem hann skilaði til Ólafs sem síðan leitaði til Háskólans á Akureyri um að byggja þennan vetvangi upp í samstarfi við Háskólann í Lapplandi og fleiri aðila.  Þessi samstarfsvettvangur hlaut nafnið Rannsóknaþing norðursins (Northern Research Forum) og er enn starfræktur við Háskólann á Akureyri. Starfsemi rannsóknaþingsins hófst á Íslandi í október 1999 með myndun stjórnarnefndar.  Í upphafi var gert ráð fyrir að þátttakendur í Rannsóknaþinginu væru vísindamenn, stjórnmálamenn, stjórnendur fyrirtækja, embættismenn, sveitarstjórnarmenn og þeir sem stjórna auðlindum eða nýta þær. Sérstök áætlun var skipulögð innan NRF til að hvetja ungt fólk til að taka þátt í starfinu. Forsvarsmenn Rannsóknaþingsins vildu að tekið væri heildstætt á málefnum norðursins og að byggt væri á reynslu þess fólks sem býr á norðlægum slóðum.

Rannsóknaþing norðursins var haldið í aðildarríkjum Norðurskautsráðsins annað hvert ár. Önnur ráðstefna Rannsóknaþingsins, „Northern Veche,“ var haldin í Veliky Novgorod, Rússlandi,  Ráðstefna NRF í Veliky Novgorod var haldinn nokkrum mánuðum eftir opinbera heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar til Rússlands. Á ráðstefnunni var fylgt eftir ýmsum umræðuefnum um málefni norðurslóða sem höfðu verið á dagskrá í opinberu heimsókninni.

Átttunda málþing NRF var haldið á Hringborði norðurslóða í Reykjavík 2015 og síðan hafa ársþing NRF ekki verið haldin, enda má segja að Hringborð norðurslóða hafi tekið við hlutverki þessara þinga. Á mynd 2 eru ráðstefnustaðir NRF taldir upp. Skrifstofa Rannsóknaþingsins hefur verið starfrækt við Háskólann á Akureyri frá stofnun. Ólafur Ragnar tók virkan þátt í undirbúningi allra ráðstefna NRF, flutti erindi á þeim öllum og tók virkan þátt í umræðum á þeim. Umræður innan Rannsóknaþings norðursins höfðu áhrif á starfsemi Norðurskautsráðsins og einstakar ríkistjórnir sem eiga aðild að ráðinu og síðan á Hringborð norðurslóða.

 

Mynd 2: Rannsóknaþing norðursins,(NRF) ráðstefnustaðir

Áhrif  Rannsóknaþings norðursins

 Framlag NRF til fræðasamfélagsins var af ýmsum toga:

Um var að ræða nýtt skipulag á vísindaráðstefnu þar sem gætt var að því að virkja sem flesta þáttakendur í umræðum sem haldnar voru á eftir erindum í pallborði. Drjúgur tími var gefinn til opinnar umræðu þátttakenda um þau viðfangsefni sem voru til umfjöllunar.

Á ráðstefnunum komu ólíkir hagsmunaaðilar saman (m.a. vísindamenn, stjórnmálamenn, athafnafólk og frumbyggjar) og fengu möguleika til að setja sig inn í aðstæður mismunandi hópa.

Sérstök áhersla var lögð á þátttöku og framlag ungra vísindamanna frá samfélögum á norðurslóðum (NRF young researchers). NRF var með umsóknarferli fyrir unga vísindamenn og valdi svo úr þá sem þóttu skara fram úr til að vera með framlög á NRF og veitti þeim ferðastyrki. Í upphafi hvers þings var NRF með vinnusmiðju fyrir unga vísindamenn fyrir þingin til að undirbúa þátttöku þeirra í ráðstefnunni.[14]

Við undirbúning ráðstefnu á hverjum stað var sérstök áhersla lögð á framlag og aðstæður gestgjafanna. Árið 2004 hélt NRF ráðstefnu í landamærabæjunum Tornio í Finnlandi og Haparanda í Svíþjóð undir heitinu Norðurslóðir á landamæra (Borderless North) en þessir tveir bæir hafa mikla samvinnu sín á milli þó að þeir til heyri sitt hvoru ríki og reyna að afnema sem flestar hindranir sem landamæri geta skapað.

Val á umræðuefnum var oft framsýnt og nýstárlegt. Þar má nefna ráðstefnuna, „Can we imagine a World without Ice? Economic, Social and Political Consequences,” sem haldin var í Hveragerði, árið 2011. Einnig má tiltaka ráðstefnuna „Climate Change in Northern Territories: Sharing Experiences and Exploring New Methods Assessing Socio-Economic Impacts“ sem var haldin í Háskólanum á Akureyri 2013 í samvinnu við Skipulagsstofnun ESB (ESPON). Þess má geta að þó að ráðstefnan 2013 fjallaði m.a. um áhrif loftslagsbreytinga um svæðaskipulag þá voru aðeins fjórir íslenskir fulltrúar sem tengdust sveitarstjórnarmálum sem tóku þátt í þessari ráðstefnu. Til samanburðar og sem dæmi um jákvæða þróun í þessu málaflokki þá í september 2022 stóð Samband íslenskra sveitarfélag fyrir ráðstefnu um tengt  viðfangsefni sem var fjölsótt og yfir 200 manns tóku þátt í flestir af sveitarstjórnarstiginu.[15]

NRF skapði ýmsar hliðarafurðir t.d. Arctic Yearbook samstarfverkefni NRF og Háskóla norðurslóða ritstýrt af Lassi Heininen o.fl. The Arctic Yearbook er ritrýnt fræðirit um málefni norðurslóða sem er gefið út á netinu í opnum aðgangi. Þetta fræðirit er mjög mikið notað af fræðimönnum um norðurslóðamál.[16]  Auk þessa störfuðu ýmsir þemahópar á milli þinga.

NRF var tilrauna- og þróunarstarf um nýjan umræðu- og samskiptavettvang um mikilvægi rannsókna á norðurslóðum, sem lagði ákveðinn grundvöll að Hringborði norðurslóða.

 

2011-2021 Norðurslóð um veröld víða

Þriðja tímabilið 2011-2022, Norðurslóð um veröld víða, einkennist af hraðvaxandi alþjóðasamstarfi m.a. við rannsóknaaðila utan norðurslóða. Fræðasamfélagið fær vettvang til að koma nýjustu þekkingu á framfæri við fjölbreyttan hóp hagaðila á heimsvísu. Erlendir vísindamenn leita í auknum mæli eftir samstarfsverkefnum við vísindafólk hér á landi en einnig hafa íslenskir vísindamenn leiðandi hlutverk í alþjóðlegum samstarfsverkefnum.

Á þessu tímabili verða margs konar og mikilvæg tímamót á alþjóðlegum vettvangi á vettvangi norðurslóða sem einnig ná til annarra heimshluta.

Á árinu 2013 fá fimm Asíuríki, Japan, Indland, Kína, Singapore og Suður-Kórea  áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og fyrsta þing Hringborðs norðurslóða er haldið í Hörpu og verður strax í upphafi að fjölmennustu ráðstefnu á heimsvísu um málefni norðurslóða. Mikil og virk þátttaka ráðstefnugesta frá Asíu ríkjunum fimm var áberandi á þessu fyrsta þingi.

Fyrsta rannsóknaáætlun NordForsk sem fjallar um norðurslóðir, Öndvegissetur fyrir norðurslóðir hefst á árinu 2014 og sama ár hefst ný Rannsóknaáætlun ESB, Horizon 2020, með stórauknu fjármagn í rannsóknir á norðurslóðum.

Árið 2016 héldu Bandaríkin fyrsta fund vísindaráðherra um norðurslóðir í Hvíta húsinu og sóttu ráðherrar eða fulltrúar þeirra frá 22 ríkjum, auk Evrópusambandsins, fundinn en þar kom m.a. fram eindreginn stuðningur við drög að samningstexta um vísindasamstarf á norðurslóðum[17].  Þessi samningur var síðan undirritaður af utanríkisráðherrum Norðurskautsríkjanna í Fairbanks á árinu 2017. Samningur um vísindasamstarfið hvetur til þátttöku þriðju ríkja/áheyrnarfulltrúa í samstarfinu og áheyrnarfulltrúar tóku mikinn þátt í undirbúningi samningstextans.

Árið eftir eða 2018 skilgreinir Kína, fjölmennasta ríki heimsins, sig sem „near-Arctic State“ en sú skilgreining olli talsverðum titringi á alþjóðasviðinu, einkum hjá Trump stjórn Bandaríkjanna.

Í töflu 1 er yfirlit um helstu viðburði hér á landi sem tengjast umræddu tímabili.

Tafla 1: Norðurslóð um veröld víða á Íslandi

2011

 

International Congress of Arctic Social Sciences, ICASS VIII, haldið á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar  og Háskólinn á Akureyri sjá um skipulagningu, 450 manns þátttakendur.
Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrita viljayfirlýsingu varðandi rannsóknasamstarf á sviði norðurslóðafræða. M.a. komið á fót Nansen prófessor við Háskólann á Akureyri, styrkir til rannsóknasamstarfs í norðurslóðafræðum milli landanna tveggja.
Þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða samþykkt.
Háskóli Íslands gerist aðili að Háskóla Norðurslóða
2012 Arctic Yearbook kemur út í fyrsta sinn.
Kínverski ísbrjóturinn, Snædrekinn, heimsækir Ísland, málþing um norðurslóðir með þátttöku kínverskra vísindamanna haldin í Reykjavík og á Akureyri
2013 Norðurslóðanet Íslands, samstarfsvettvangur innlendra aðila sem fjalla um norðurslóðir, stofnað á Akureyri.
Rannsóknasetur um norðurslóðir stofnað við Háskóla Íslands
2014 Global Arctic verkefni leitt af Lassi Heininen kynnt á Hringborði norðurslóða. Málefni norðurslóða eiga erindi um víða veröld og veröldin utan norðurslóða vill taka þátt í málefnum sem varða norðurslóðir.
2017 Skrifstofa IASC flytur frá Potsdam til Akureyrar
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar leiðir öndvegisverkefni, um samfélaglegar breytingar á norðurslóðum í kjölfar lofslagsbreytinga, á vegum NordForsk, ARCHPATH
2020 Vísindavika norðurslóða haldin við Háskólann á Akureyri on-line vegna COVID
2021 Ísland og Japan halda fund vísindaráðherra norðurslóða í Tokyo.
Önnur þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða samþykkt
Ný ríkisstjórn boðar sérstaka rannsóknaáætlun um norðurslóðir í stjórnarsáttmála

Þá er sérstaklega vakin athygli á því að á þessu tímaskeiði voru tvær þingáyktanir um málefni norðurslóða samþykktar á Alþingi, sú fyrsta, árið 2011 og sú seinni, árið 2021. Í þingsályktun 2011, kom fram áhersla á fræðastarf á norðurslóðum og þar var m.a. fjallað um að auka þekkingu Íslendinga á málefnum norðurslóða og að kynna Ísland erlendis sem vettvang fyrir fundi, ráðstefnur og umræður um norðurslóðir. Vinna ber að því að efla og styrkja miðstöðvar, rannsóknarsetur og menntastofnanir um norðurslóðir á Íslandi í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Unnið er að uppbyggingu alþjóðlegrar norðurslóðamiðstöðvar í tengslum við Háskólann á Akureyri.[18]

Í þingsályktun frá 2021, kom fram m.a. að brýnt væri að staða og ímynd Íslands sem norðurslóðaríkis verði efd með því að byggja upp innlenda þekkingu og sérhæfngu í málefnum norðurslóða og efa miðstöðvar mennta, vísinda og umræðu á þessu sviði. Í þessu skyni verður mótuð sérstök rannsóknaráætlun um norðurslóðir.[19]

 

Í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur verið lýst að framan er fróðlegt að skoða hvenær íslenskar stofnanir, einkum háskólar, gerast aðilar að háskóla norðurslóða.  Á tímabilinu 2000-2009 er það eingöngu stofnanir á landsbyggðinni sem gerast aðilar að Háskóla norðurslóða en á seinna tímabilinu, 2010-2021, bætast háskólar á höfuðborgasvæðinu í þennan hóp. Skólarnir á Hólum og Hvanneyri reka svo lestina.

 

Tafla 2: Aðild háskóla o.fl. á Íslandi að Háskóla norðurslóða

 

Nafn stofnunar 
Dags. aðildar
Háskólinn á Akureyri 09.06. 2001, stofnandi
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar 09.06. 2001, stofnandi
 Háskólinn á Bifröst 01.06. 2006
Háskólasetur Vestfjarða 14.06. 2006
Háskóli Íslands 07.06. 2011
Arctic Portal 13.06. 2012
Háskólinn í Reykjavík 05.06. 2013
Listaháskóli Íslands 14.06. 2015
Landbúnaðarháskóli Íslands 18.09. 2019
Háskólinn á Hólum 18.09. 2019

(Heimild: University of the Arctic 2022) [20]

 

 

Einnig er eftirtektarvert að líta á árangur árangur norðurslóðafræða í alþjóðlegu samhengi á öðrum áratug þessarar aldar.

Þá er hægt að líta til þátttöku í rannsóknaáætlun ESB en rannsóknastyrkir frá ESB til íslenskra rannsóknaaðila í norðurslóðaverkefnum nær tífölduðust frá 2015 til 2020. Rúmlega 40% af þessum styrkjum runnu til rannsóknaaðila á Akureyri.

 

 

Mynd 3: Rannsóknastyrkir til íslenskra þáttakenda í norðurslóðaverkefnum Horizon 2020.

(Heimild Rannís, 2020) [21]

 

 

Mynd 4: Íslenskir þátttakendur í norðurslóðaverkefnum Horizon 2020.

(Heimild: Rannís 2020) [22]

 

Framlag Hringborðs norðurslóða til fræðasamfélagsins: Brú milli heima

Á fyrrgreindu tímabili, 2010-2021, má fullyrða að stofnun Hringborðs norðurslóða undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, hafi verið markverðasta framlag Íslands til málefna norðurslóða á alþjóðlegum vettvangi.

Starfsemi hringborðsins veitir fræðimönnum aðgang að fjölmennustu ráðstefnu á heimsvísu um málefni norðurslóða.[23] Hringborðið vekur athygli hjá mjög mikilvægum hópi hagsmunaaðila á framlagi vísinda til að greina og skilja þær hröðu breytinga sem nú eiga sér stað á norðurslóðum og áhrif þessara breytinga á samfélög víða um heim. Það gefur tækifæri til samræðu um framtíð norðurslóða milli aðila sem venjulega hittast sitt í hvoru lagi. Þar má nefna vísindamenn, stefnusmiði frá svæðum utan norðurslóða, frumbyggja, umhverfissinna svo nokkur dæmi séu tekin. Utanríkisráðherra Japan, Taro Kono, flutti t.d. mjög eftirminnilega ræðu á Hringborði norðurslóða árið 2018 þar sem hann fór yfir áætlanir Japans um eflingu norðurslóðarannsókna og viðbrögð við loftslagsbreytingum.[24]

Skipulag, umfang og dagskrá Hringborðs norðurslóða laðar að sér þátttöku margra mikilvægra vísindastofnana úr heiminum. Svo sem National Science Foundation frá Bandaríkjunum, Alfred Wegener stofnunin í Þýskalandi, Norska heimskautastofnunin, Heimskautastofnun Kóreu og Kína, svo nokkur dæmi séu tekin. Fyrir aðra fræðimenn getur þetta skapað verðmæt tengsl. Þannig veitir Hringborðið fræðasamfélaginu aðgang að valdamiklum aðilum sem hafa áhrif á örlög og lífskjör almennings, s.s. þjóðhöfðingjar og ráðherrar.

Á Hringborðinu er dagskrárvaldið að mestu í höndum þátttakenda sjálfra, fræðimenn hafa algjörlega frjálsar hendur um innihald málstofa og umræðna. Hringborðið gefur nemendum í háskólum tækifæri til virkrar þátttöku með ýmsum hætti og virkjar þannig uppvaxandi kynslóð ungra vísindamanna.

Hringborð norðurslóða virkar sem brú milli ólíkra heima norðurslóða og annarra svæða heimsins og tengir  m.a. saman málefni freðhvolfsins á norðurslóðum, Suðurskautslandinu og Himalaya.

Samantekið þá er Hringborð norðurslóða brú milli heima; milli landsvæða, stjórnmála og vísinda, milli fræðigreina, frumbyggja og vísindafólks ofl.

Lokaorð

Um þessar mundir er vaxandi viðurkenning á því að örlög mannkyns eru nátengd afdrifum freðhvolfsins. Hringborð norðurslóða undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar er nánast eini vettvangurinn um málefni norðurslóða sem starfar á heimsvísu og hefur haft mikilvæg áhrif á að auka þennan skilning.

Með innrás Rússlands, stærsta norðurslóðaríkisins í landfræðilegum skilningi, í Úkraníu, í febrúar 2022, lýkur því hraðfara uppbyggingartímabili í norðurslóðasamstarfi sem ég hef kennt við Norðurslóð um veröld víða. Afleiðingar þessarar innrásar mun einnig hafa mikil áhrif á alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum. Hvort norðurslóðafræðin verða fyrir áhrifum af langvarandi kulnun í alþjóðasamstarfi mun síðar koma í ljós.

 

Aftanmálsgreinar

[1] Sumarliði R. Ísleifsson. (2020). Í fjarska norðursins Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Sögufélag.

[2] Samningur um vísindasamstarf á norðurslóðum | Rannsóknamiðstöð Íslands (rannis.is)

[3] Níels Einarsson, tölvupóstur 8. september 2022

[4] Sjá einnig skilgreiningu National Science Foundation. The goal of the NSF Arctic Research Program is to gain a better understanding of the Arctic’s biological, geophysical, chemical, and sociocultural processes, and the interactions of ocean, land, atmosphere, biological, and human systems.

[5] Jón Haukur Ingimundarson, tölvupóstur 12. september 2022

[6] Egill Þór Níelsson & Þorsteinn Gunnarsson (eds.) (2020). Mapping Arctic Research in Iceland. Reykjavik, Rannis, bls. 14-15.

[7] Rogne Odd, Rachold Volker Hacquebord Louwrens & Corell Robert. IASC after 25 years. (2015) International Arctic Science Committee, bls. 22

[8] Þorsteinn Gunnarsson. (2014). Nýsköpun, mannauður og landsbyggð. Í Árdís Ármannsdóttir (ritstj.). Þekkingin beisluð – nýsköpunarbók. Afmælisrit til heiðurs Þorsteini Inga Sigfússyni, bls. 139-155. Hið íslenska bókmenntafélag.

[9] Umsögn frá Háskóla Íslands varðveitt í skjalasafni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

[10] Þórleifur Stefán Björnsson, Jón Haukur Ingimundarson og Lára Ólafsdóttir (ritstj.) (2001). North meets North. Proceedings of the First Northern Research Forum. Stefansson Arctic Institute and University of Akureyri.

[11] Stefna Háskólans á Akureyri 2007-2011

[12]  Polar Law Symposium | Polar Law Institute

[13] The Yearbook of Polar Law (brill.com)

[14] Rannsóknaþing Norðursins – NRF | Háskólinn á Akureyri (unak.is)

[15] Sveitarfélög, áhrif loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerðir – Samband íslenskra sveitarfélaga

[16] Arctic Yearbook – Arctic Yearbook

[17] ArcticScienceMinisterial_JointStatement_Sept282016_signed.pdf (stjornarradid.is)

[18] Selected Reports – Icelandic Arctic Cooperation Network (arcticiceland.is)

[19] C:\Documents and Settings\gtg\Documentum\Checkout\1148-thal-0337.wpd (stjornarradid.is)

[20] Tölvupóstur frá Scott Forrest, 26. september 2022

[21] Egill Þór Níelsson & Þorsteinn Gunnarsson, bls. 45

[22] Ibid, bls. 46

[23] Dagfinnur Sveinbjörnsson og Þorsteinn Gunnarsson. (2022) Iceland as an Arctic Hub. Óútgefið.

[24] Ibid

 

Breytt heimsmynd og norðurslóðir

Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra

 Vaxandi líkur eru taldar á að bráðnun hafíss á norðurslóðum af völdum hlýnunar Jarðar leiði til þess – eftir miðja öldina – að Norður-Íshaf opnist fyrir siglingar. Það mundi auðvitað breyta heimsmyndinni í grundvallaratriðum. Og Norðurslóðir yrðu nátengdar umheiminum – og alþjóðakerfinu. 

Alþjóðakerfið hefur þegar breyst með afgerandi hætti og heimsmyndin með. Hér á ég við hvernig strúktúr alþjóðakerfisins hefur þróast; nánar tiltekið að Kína er orðið annað mesta stórveldi heims á eftir Bandaríkjunum og nálgast þau á flestum mælikvörðum. 

Strúktúr alþjóðakerfisins og hlýnun Jarðar eru lykilþættir þegar horft er til norðurslóða næstu áratugi. Hlýnunin af augljósum ástæðum. – Strúktúrinn af því hann knýr stórveldapólitík. —  Í því efni skiptir mestu harðnandi samkeppni í Asíu og á heimsvísu milli Bandaríkjanna og Kína – samkeppni sem verður ráðandi þáttur í alþjóðamálum á öldinni. 

Í stuttu erindi um stórt mál ætla ég í fyrri hluta að fjalla um norðurslóðir og breytta heimsmynd – aðallega út frá strúktúr og stórveldahagsmunum. Í seinni hluta erindisins ræði ég um Úkrænustríðið og afleiðingar þess fyrir norðurslóðir.

Hlýnun Jarðar hefur þegar leitt til þess að norðurleiðin svonefnda – siglingaleið meðfram norðurströnd Rússlands – er nú fær milli Atlantshafs og Kyrrahafs síðsumars og fram eftir hausti – en möguleikar á henni eru takmarkaðir. Svo að hagkvæmar siglingar stórra tankskipa og gámaflutningaskipa gætu hafist um norðurslóðir þyrfti Norður-Íshafið að opnast fyrir siglingar yfir norðurskautið. Þar með yrði til stysta siglingaleið milli Atlantshafs og Kyrrahafs – milli Asíu og Evrópu – svonefnd norðurskautsleið

Vaxandi líkur eru taldar á að leiðin opnist um miðja öldina en jafnframt álitið líklegt að einhver tími líði eftir það þangað til Íshafið verði fært árið um kring. Það mun auðvitað opna stórkostlega möguleika og snerta náið hagsmuni margra ríkja varðandi siglingar, orku og fiskveiðar. 

Og Evró-Atlantshafssvæðið, þar sem þungamiðja alþjóðakerfisins var um aldir, mun tengjast um norðurslóðir við hina nýju þungamiðju alþjóðakerfisins – sem liggur á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. 

Gera má ráð fyrir að alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þessara breytinga hefjist í alvöru á næstu 10-20 árum. Almennur alþjóðlegur áhugi á svæðinu er þegar mjög vaxandi vegna siglinga þar í framtíðinni. Og bæði stórveldin – Kína og Bandaríkin – horfa til norðurslóða  – vegna samkeppninnar þeirra í milli og aukins aðgengis að svæðinu í kjölfar þess að hafísinn hörfar. 

Bandarísk stjórnvöld hafa á síðustu árum mótað stefnu um norðurslóðir þar sem fram kemur meðal annars að Bandaríkjaher líti á þær sem mögulegan vettvang fyrir vaxandi stórveldasamkeppni. Norðurslóðir fái með bráðnun hafíssins mikla þýðingu fyrir þjóðaröryggið því þær tengi Kyrrahaf og Atlantshaf og opni nýjar leiðir að Norður-Ameríku. Auk þess að gera ráðstafanir til að tryggja framtíðarhagsmuni Bandaríkjahers á norðurslóðum þurfi að hefta möguleika Kína og Rússlands til að nota þær í hernaðarlegum tilgangi gegn Bandaríkjunum.

Bandaríkjafloti er enn vanbúinn til umsvifa á norðurslóðum árið um kring af því hann vantar sérstaklega styrkt herskip til þess. Þegar eru hins vegar áætlanir í gangi um fjölgun ísbrjóta. Flotinn hefur haldið úti kjarnorkuknúnum kafbátum í Norður-Íshafi frá því í lok sjötta áratugarins – og fyrir þann tíma lágu ferðir langdrægra bandarískra sprengjuflugvéla og njósnaflugvéla þar um og gera áfram. Þá hafa norðurslóðir lykilþýðingu fyrir loftvarnir Norður-Ameríku. Loks er rétt að nefna að Alaska gerir Bandaríkin að stóru norðursslóðaríki með mikla hagsmuni þess vegna – til viðbótar þjóðaröryggishagsmunum.

Kínverjar hafa aukið umsvif sín á norðurslóðum en næstum alfarið á norðurströnd Rússlands vegna olíu- og gasvinnslu – en í þeim efnum eru þeir stórir fjárfestar og stærstu kaupendurnir. Þeir taka þátt í starfi Norðurskautsráðsins og hafa unnið að því að fá norðurslóðaríki til þátttöku í Belti og braut-fjárfestingaáætluninni, sem þá er kölluð Silkileið norðursins. Loks hafa þeir stundað ýmsa vísindastarfsemi á norðurslóðum.dg

Kínverjar eiga tvo ísbrjóta sem báðir hafa siglt um norðurslóðir og ætla að smíða fleiri og stærri slík skip. Ekki er kunnugt um kínverska hernaðarlega starfsemi á svæðinu hingað til en kínverski flotinn hefur hratt vaxandi getu til að athafna sig á fjarlægum slóðum. 

Kínverskir hernaðarsérfræðingar horfa þegar til þess að með minnkandi hafís megi halda Bandaríkjaher uppteknum við það á norðurslóðum að bregðast við athafnasemi kínverska flotans þar og um leið veikja Bandaríkjaher annarsstaðar. Þá er talið að til þess komi að Kínverjar haldi úti eldflaugakafbátum á norðurslóðum til að auka öryggi kjarnorkuhersins.

Hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússa er í eldflaugakafbátum Norðurflotans, en þeim er aðallega haldið úti í Barentshafi frá stöðvum á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Að verja kafbátanna eru forgangshlutverk flotans. Ennfremur eru flugvellir á Kolaskaga fyrir langdrægar sprengjuflugvélar. Á undanförnum tíu árum  hafa Rússar endurbyggt og tekið í notkun flugvelli og aðrar stöðvar á Norður Íshafssvæðinu sem byggðar voru í kalda stríðinu og einnig endurnýjað orrustuflugsveitir þar. Mikilvægi Norðurflotans hefur aukist verulega á undanförnum árum í kjölfar þess að í vopnabúrinu eru nýjar langdrægar stýriflaugar sem drægju til skotmarka í Evrópu frá kafbátum eða herskipum í heimahöfum flotans og til Norður Ameríku frá Íshafinu.

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa í norðri á sér að verulegu leyti skýringar í því feiknastóra haf- og landsvæði og miklu efnahagslegu hagsmunum sem þeir eiga á norðurslóðum ríkisins. Þar er að finna afar mikið af olíu og gasi og einnig af málmum og kolum. Þessar auðlindir eru lykilatriði í áætlunum um hagvöxt í Rússlandi næstu áratugi. Þá hefur nýja siglingaleiðin úti fyrir norðurströndinni augljóst mikilvægi að þessu leyti fyrir Rússland enda er hún nátengd þjóðaröryggi í augum stjórnvalda.

Af öllu þessu má sjá að ríkar forsendur eru fyrir stóraukinn athafnasemi Bandaríkjanna, Kína og Rússlands á norðurslóðum þegar hafísinn hörfar – þar á meðal hernaðarlegum umsvifum. Og herir fleiri ríkja en stórveldanna þriggja munu auðvitað birtast einnig á svæðinu þó í miklu minni mæli verði en hjá hinum.

 

Eftir að Rússar innlimuðu Krím 2014 og hófu jafnframt íhlutun í átök í austurhluta Úkrænu leiddu versnandi samskipti Rússlands og NATO til aukinna hernaðarumsvifa á norðurslóðum – þó ekki til neinna stórra breytinga í því efni. – Og allt til innrásarinnar í Úkrænu í lok febrúar síðastliðinn – hélt áfram samstarf allra norðurslóðaríkjanna á vettvangi Norðurskautsráðsins  – og það þrátt fyrir harðnandi deilur vegna Úkrænu og þvingunar- og refsiaðgerðir gegn Rússlandi. 

Með stofnun Norðurskautsráðsins fyrir tuttugu og sex árum var gripið tækifæri sem gafst eftir kalda stríðið til að hefja alþjóðasamstarf um málefni norðurslóða. Ráðið beindi sjónum að hagsmunum íbúa svæðisins á sviði loftslagsmála, mengunarmála, líffræðilegs fjölbreytileika og málefna hafsins. Ráðið varð vettvangur fyrir samstarf, samræmingu og samráð um þessi mál milli ríkisstjórna, frumbyggja og annarra íbúa svæðisins. 

Þótt Norðurskautsráðið væri fremur samstarfsvettvangur en stofnun leiddi starfsemin til þess að málefni norðurslóða voru stofnanavædd – að segja má. Það varð til skipulag og skrifstofa fyrir framkvæmdastjórn. En einnig þróaðist sameiginlegur skilningur á þeim hagsmunum sem lægju undir, og sameiginleg markmið og norm urðu til. 

Í upphafi var ákveðið að hernaðarleg öryggismál yrðu ekki þáttur í starfsemi Norðurskautsráðsins, enda mundu þau trufla hana. Þannig varð til viðmið – og norm í framhaldinu – sem fól í sér að bægja ætti frá ráðinu deilum og árekstrum aðildarríkja þess. Ennfremur varð til markmið, sem öll aðildarríkin lýstu stuðningi við. – Það var að halda norðurslóðum sem “lágspennusvæði” eins og sagt var.  

Og deilum var bægt frá samstarfinu. Í átta ár eftir að samskipti Rússlands og Vesturlanda snarversnuðu vegna Krímskaga og Úkrænu sinnti Norðurskautsráðið hlutverki sínu ótruflað af síharðnandi deilum.  – Það er ekki úr vegi að benda á að það gerði einnig Hringborð norðurslóða. 

Í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu varð Norðurskautsráðið hins vegar óstarfhæft – Það er – að svo stöddu – alvarlegasta og afdrifaríkasta afleiðing innrásarinnar fyrir norðurslóðir.  Markmið um norðuslóðir sem lágspennusvæði lætur undan síga. Fljótlega eftir innrásina lýstu önnur aðildarríki en Rússland sameiginlega yfir að vegna innrásarinnar mundu þau hætta að sækja fundi ráðsins. Að auki hafa aðildarríki þess hætt tvíhliða vísindasamstarfi við Rússa um norðurslóðir. 

En hvað með aðrar afleiðingar innrásarinnar fyrir norðurslóðir?  – Jú, hún hefur leitt til þess að tvö norðurslóðaríki, Finnland og Svíþjóð, hafa sótt um aðild að NATO. Hún mundi efla bandalagið hernaðarlega á norðurslóðum -og valda því reyndar einnig að öll Norðurskautsráðsríkin verða NATO ríki, nema Rússland auðvitað.

Innrásin og stríðið í Úkrænu hafa ekki leitt til aukinna hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum – hvorki af hálfu NATO né Rússlands. Það stafar einkum af því að  norðurslóðir hafa sem fyrr strategíska hernaðarþýðingu. Í  því felst að þar eru staðir sem eru mikilvægir fyrir fælingar- og hernaðarstefnu bæði NATO og Rússlands á meginlandi Evrópu – og staðir sem skipta máli fyrir kjarnorkujafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlands. 

Úkænustríðið snertir ekki þessa staði og mun ekki gera nema það leiði til þess að stefni í annað stríð – það er milli NATO og Rússlands. Meginspurning er því hvort átökin í Úkrænu kunni að stigmagnast í átök NATO og Rússlands. Stutta svarið – sem ég þarf að láta nægja hér tímans vegna – er að slík stigmögnun er ekki útilokuð, en ólíkleg.

Fremur lítil hernaðarleg umsvif á norðurslóðum eftir innrásina í Úkrænu er í takti við það sem verið hefur. Hins vegar má búast við að hernaðarleg umsvif eigi eftir að aukast á svæðinu – jafnvel verulega. Af hálfu NATO verði það gert til að undirstrika mikilvægi norðurslóða fyrir bandalagið, sýna hernaðargetu þar og æfa og þjálfa við krefjandi aðstæður.

Nú er talið að það muni taka mörg ár að byggja upp rússneska herinn á ný eftir manntjón og hergagnatjón, sem hann hefur orðið fyrir í Úkrænu – sem og að laga þá mörgu og alvarlegu veikleika sem hrjá herinn og stríðið hefur afhjúpað. Afleiðing alls þessa verður væntanlega mun minni hætta á átökum milli NATO og Rússlands á meginlandi Evrópu – og þar með á norðurslóðum. 

Önnur afleiðing verður sú að búast má við að kjarnorkuvopn Norðurflotans og öryggi þeirra fái enn meira vægi en áður – meðal annars til að undirstrika að Rússland sé áfram stórveldi þrátt fyrir áföllin í Úkrænu. Hernaðarleg þýðing norðurslóða fyrir Rússland fari með öðrum orðum vaxandi vegna Úkrænustríðsins.  Efnahagslegt mikilvægi eykst einnig.

Olíu-, gas- og kolanámuvinnsla í norður-Rússlandi hefur verið langstærsta efnahagsmál á norðurslóðum og stórar áætlanir uppi í þeim efnum – sem fyrr sagði. Þvingunar og refsisaðgerðir í kjölfar hernáms Krímar og nú innrásarinnar í Úkrænu hafa leitt til þess að frekari uppbygging olíu- og gasvinnslu er í óvissu vegna þess að ekki fæst nauðsynlegur tæknibúnaður til þeirra hluta frá Vesturlöndum.

Á hinn bóginn má telja líkur á að Rússar fái – þegar fram í sækir – aukinn stuðning við þróun olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum frá kínverskum fyrirtækjum. Kínverjar eru þegar mjög stórir kaupendur að rússneskri olíu og gasi og eiga eftir að verða enn stærri, meðal annars vegna Úkrænustríðsins. Bandalag Kína og Rússlands gegn Bandaríkjunum verður enn nánara en áður við þetta. Bandalagið mun birtast á norðurslóðum meðal annars þannig – þegar þar að kemur – að Rússar auðveldi flota og flugher Kína að athafna sig á Norður-Íshafi.

En hvert verður framhaldið í Úkrænu og í samskiptum Rússlands og Vesturlanda? Fáir hafa reynst spámannlega vaxnir um gang mála eftir innrásina og margir haft rangt fyrir sér bæði um frammistöðu Úkrænuhers og burði rússneska hersins – öllu heldur hversu óburðugur hann hefur reynst. Þó er gjarnan talið að langvinn átök séu framundan í Úkrænu – misseri, jafnvel einhver ár. Jafnframt eru vísbendingar um að rússneski herinn sé enn á ný í ógöngum – nú í austurhlutanum. 

Óháð gangi stríðsins má búast við að eftir að einhverskonar hugsanleg lausn finnist, sem er fjarlægari en áður eftir innlimun fjögurra héraða í Úkrænu í Rússland, líði langur tími áður en samskipti NATO og Rússlands lagist að einhverju marki. Á norðurslóðum er brýnt að starfsemi Norðurskautsráðins verði endurvakin og stofnanavæðing haldi áfram, en hvenær forsendur gætu skapast til þess er með öllu óljóst um þessar mundir.

Bandalög og átakalínur hafa skýrst í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu og afleiðingar þess munu sjást á norðurslóðum. Hins vegar – og rétt að leggja áherslu á það – var allt útlit fyrir að strúktúr alþjóðakerfisins og hlýnun Jarðar – lykilþættirnir sem ég leiddi fram í byrjun erindisins – mundu óháð öðru – leiða til samkeppni stórvelda á norðurslóðum sem hafísinn hörfaði. Harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína í Asíu og á heimsvísu mundi birtast á svæðinu.

Niðurstaða mín um breytta heimsmynd og norðurslóðir er því í meginatriðum eftirfarandi: – Strúktúr alþjóðakerfisins hefur breyst með afgerandi hætti og heimsmyndin með og heimspólitíkin. Gangi spár eftir og Norður-Íshaf opnast breytist heimsmyndin í grundvallaratriðum af völdum hlýnunar Jarðar. Norðurslóðir tengjast náið alþjóðakerfinu þar á meðal þungamiðju þess og átakalínum á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. 

Undirbúningur mun hefjast í alvöru fyrir siglingar um Norður-Íshaf milli Asíu-Kyrrahafs og Evró-Atlanthafssvæðisins og norðurslóðir munu þannig snerta efnahagslega hagsmuni fjölda ríkja. Ýmsir möguleikar skapast á svæðinu fyrir norðurslóðaríki og íbúa á norðurslóðum og þeim tækifærum munu auðvitað fylgja bæði kostir og gallar.  

Á þessu stigi – um og upp úr miðri öldinni – má vænta þess að heimspólitíkin hafi skilað sér að fullu á norðurslóðir og í besta falli óvíst að þá verði þær lágspennusvæði.