GLOSSARIUM IURIS ROMANI – Latneskt-íslenskt Orðasafn Rómaréttar Jústiníanusar

Nútímalögfræði grundvallast að mörgu leyti á hugtökum Rómaréttar til forna og þess vegna er brýnt að nemendur í lögfræði kynni sér þau þegar á fyrstu misserum náms síns svo að þeir verði vel í stakk búnir að bera saman hin mismunandi réttarkerfi (Evrópu). Rómarétturinn er besta þjálfun fyrir tilvonandi lögmann, dómara eða stjórnmálamann til að læra að rökræða. Saga segir frá nýútskrifuðum stúdent sem að loknu námi sínu í klassískum fræðum og latínu sækir um auglýst starf hjá stóru fyrirtæki. Honum er boðið í viðtal þar sem hann er spurður af hverju hann telji sig hæfan til að vinna þar enda hafa fornmál eins og latína lítið eitt að segja í nútíma viðskiptum. En hann svarar um leið: «Þeir sem töluðu þetta mál reistu heimsveldi og stjórnuðu því í margar aldir». Þá var hann ráðinn… Það er ekki fráleitt að fullyrða það sama um námið í Rómarétti.

Sá sem þetta ritar varð að stunda nám í rétti Rómverja til forna í tvö misseri á fyrsta ári framhaldsnáms síns í kirkjurétti við háskóla San Pio X í Feneyjum. Þótt hann skildi ekki mikið í byrjun (enda guðfræðingur að mennt) og velti fyrir sér gagni og markmiði þessa námskeiðs gerði hann sér þó grein fyrir mikilvægi þess á síðari námsárum sínum þar sem blasti við honum eitt hugtak á fætur öðru sem á rót sina að rekja til Rómaréttar Jústiníanusar. Það er reyndar óhætt að fullyrða að Rómaréttur til forna er enn lifandi í þeirri einu stofnun sem er til allt frá tímum fornaldarinnar og kennir sig við Rómaborg, þ.e.a.s. í Rómversk-kaþólsku kirkjunni.

Rómarétturinn hefur alltaf verið fastur partur af lögfræðináminu í Háskólanum á Akureyri frá stofnun lagadeildarinnar árið 2003. En hér skarar þessi háskóli fram úr öllum háskólum á Íslandi enda eina menntasetrið hérlendis þar sem Rómaréttur er kenndur. Farið er yfir sögu, þróun, inntak og skipun Rómaréttar til forna með áherslu á einkamálarétt, samningarétt, skaðabótarétt og réttarfar Rómverja. Rætt er um helstu embættin í réttarkerfi Rómverja og einnig um réttarheimildir, lagasetningar, tilskipanir og lögskýringar. Niðurröðun og flokkun laga í Rómarétti er skoðuð, t.d. þrígreiningin í lög um persónur (de iure personarum), lög um hluti (de rebus) og réttarfar (de actionibus) eins og hún birtist í lagasafni Jústiníanusar I (f. 482, d. 565) keisara Austrómverska ríkisins, og kallast Corpus Iuris Civilis.

Kennslan fer fram á ensku með tilliti til erlendra námsmanna. Að fyrsta kennsluári sínu loknu fannst þeim sem þetta ritar hins vegar ágætis tækifæri til að búa til orðasafn á íslensku yfir helstu hugtök Rómaréttarins enda hafa flestir námsmenn ekki stundað latínu á menntaskólaárum sínum. Orðalistinn er langt frá því að vera fullkominn og er reyndar „work in progress“. Stefnt er að því að gefa aðeins yfirlit yfir þau hugtök sem fjallað var um í kennslunni. Stuðst var m.a. við tveggja binda ritið „Rómaveldi“ (1963/64) eftir Will Durant í íslenskri þýðingu Jónasar Kristjánssonar, sem og lögfræðiorðasafn íðorðabanka stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (→ Íðorðabankinn / arnastofnun.is).

Summary

Modern law is based in many ways on the concepts of ancient Roman law, therefore, it’s important that law students get to know them right at the beginning of their studies so that they will be well equipped to compare the different legal systems (in Europe). Roman law is the best training ground for a future lawyer, judge or politician to learn to argue. There’s the story of a student who recently graduated in ancient Greek and Latin and applies for an advertised job at a big company. He is invited to a job interview where he is asked why he thinks to be qualified to work there because classic languages such as Latin are not relevant in modern business. He replies simply: «Those who spoke this language built an empire and controlled it for centuries». And he was hired…

The author of this article had to study Roman law the entire first year of his studies in Canon law at the Faculty of San Pio X in Venice. Although he didn’t understand much at the beginning and wondered about the usefulness and aim of this course, however, he realized its importance in his later years, where he faced one concept or term after the other, which is rooted in ancient Roman law. Indeed, it is safe to assert that Roman law is still alive in the only institution that exists from the classic era onwards and is called Roman, i.e. in the Roman Catholic Church.

Roman law has always been part of the study of law at the University of Akureyri since the founding of the Faculty of law in 2003 – and it‘s the only faculty in Iceland where up until now Roman law is taught properly.

After his first year of teaching here in Akureyri, the author decided to write a glossary in Icelandic explaining the main concepts of Roman law, because most students have not studied Latin at all in their high school years.

 

1. Saga og stjórnskipan Rómaveldis

aedilis                                edíll, umsjónarmaður ríkisverka.

auctoritas                          áhrifavald, ábyrgðarvald ≠ → potestas!

Augustus                           hinn göfgi eða hinn tigni; heiðurstitill sem Octavíanus → princeps var fengið árið 27 f.Kr. sem sagan hefur fyrir misskilning gert að nafni hans. Áður hafði þetta orð aðeins verið haft um helgistaði og helga dóma. Titill þessi varð seinna að embættisheiti handhafa æðsta framkvæmda­valds í Rómaveldi og sameinaður fjölskyldu­nafni Caesar: Caesar Augustus.

Cæsar                               fjölskyldunafn  hins valdamikla Gaiusar Júlíusar sem síðan varð að titli fyrir þann sem fór með æsta vald í Rómaveldi: Caesar = keisari = Kaiser (þýska) = tsar (Rússakeisari).

censor                               sensor; sensorar voru tveir, kjörnir til fimm ára af → comitia centuriata. Annar þeirra sá um manntal það sem tekið var á fimm ára fresti og mat eignir borgaranna til skattlagningar og þátttöku í landsstjórn og styrjöldum. Sensorar skyldu rannsaka hæfni og feril allra þeirra sem sóttu  um embætti. Þeir vöktu yfir sæmd kvenna, fræðslu barna, meðferð þræla, innheimtu skatta, byggingarfram­kvæmdum ríkisins, leigu ríkiseigna og skipulegri ræktun landsins. Þeir gátu lækkað hvern sem var í mannvirðingu og vikið úr öldungaráðinu þeim sem sekir fundust um siðleysi eða glæpi.

clientes                              skjólstæðingar.

comitia centuriata              hundraðsdeildaþing; þetta þing tók nafn af því að hernum, og síðar þjóðinni allri, var skipt í centuriae, hundraðsdeildir, deildir sem upphaflega voru skipaðar hundrað mönnum hver. Flokkun þjóðarinnar í hundraðsdeildir hafði verið gerð bæði vegna skattgreiðslu og herþjónustu, og þá þótti Rómverjum skylt að atkvæðisréttur yrði að tiltölu við þá skatta sem menn greiddu og þá herskyldu sem þeim var lögð á herðar. Þetta hundraðsdeildaþing kaus hina æðri embættismenn, samþykkti eða felldi frumvörp þau sem fyrir það voru lögð af öldungaráðinu eða öðrum stjórnarmönnum, hóf styrjaldir og samdi frið. Það var hinn breiði grundvöllur sem bæði her og ríkisstjórn hvíldi á. Þó voru valdi þess mikil takmörk sett. Það kom því aðeins til fundar að það væri kallað saman af → consul eða → tribunus plebis. Það mátti ekki breyta neinu í tillögum þeirra, heldur einungis greiða atkvæði með eða móti.

comitia curiata                   kyndeildaþing (curiata → á latínu: cum ire = fara eða koma saman eða cum-vires = (karl-) menn sem mætast ): Ættahöfðingjar koma saman sem fulltrúar fyrir hinar þrjátíu deildir (curiae) kynflokkanna þriggja. Til loka þjóðveldisins hafði þetta kyndeildaþing því hlutverki að gegna að veita nýkjörnum embættismönnum stjórnvaldið, → imperium. En eftir hrun konungsveldisins missti kyndeildaþingið skjótlega öll önnur völd í hendur samkomu sem nefndist → comitia centuriata.

comitia tributa                    sveitaþing fólksins; á þessum þingum  var mönnum raðað samkvæmt ættbálki (tribus) og búsetu á grundvelli manntals. Hver sveit hafði eitt atkvæði, og auðmenn voru ekki metnir dýrar en fátæklingar. Öldungaráðið viðurkenndi rétt sveitaþingsins til löggjafar árið 287, og úr því jókst vald þess jafnt og þétt, svo að kringum 200 var það orðin helsta uppspretta einkalöggjafar í Rómaborg. Á sveitaþinginu fóru þó ekki heldur fram neinar almennar umræður. Einhver embættismaður, oftast → tribunus plebis, bar fram laga­frumvarp og reifaði það. Annar embættismaður mátti mæla gegn frumvarpinu, en þingið hlaut að láta sér nægja að hlýða á mál þeirra og segja síðan já eða nei.

concilium plebis                 alþýðuþing; samsvarar að mörgu leyti → comitia tributa nema að það kom saman undir forystu → tribunus plebis og var samansett einungis af → plebeium.

concilium principis              keisararáð, tuttugu manna ráðgjafanefnd → princeps; með tímanum hlutu úrskurðir þessa ráðs gildi sem tilskipanir öldungaráðsins ( → senatusconsulta).

consul                               ræðismaður, voru tveir og kjörnir til eins árs í senn, æðsta embætti lýðveldisins. Ræðismenn voru bundnir hvor af annars jafnræði, af samþykktum öldungaráðsins og af neitunarvaldi alþýðuforingja (→ tribunus plebis).

cursus honorum                 framabraut embættismannsins; honor = heiður af því að hann gegndi embætti sínu án endurgreiðslu. Þar af leiðandi var rómverska lýðræðið í reyndinni fámennisstjórn þeirra sem auðinn áttu og gátu þess vegna gefið kost á sér til embætta ríkisins.

dictator                              alræðismaður (einvaldur); í neyðarástandi sem öldunga­ráðið lýsti yfir (Videant consules ne quid res publica detrimenti capiat – “ræðismennirnir megi sjá svo um að ekkert mein verði unnið ríkinu”) mátti annar hvor ræðismannanna tveggja tilnefna alræðismann sem fékk óskorað vald yfir öllum mönnum og eignum, en hann mátti ekki eyða almannafé án samþykkis öldungaráðsins, og valdatími hans var bundinn við sex mánuði eða eitt ár.

dominatus                          einveldi; í sögu Rómaveldis tímabil frá 285–565 e.Kr. þar sem síðustu leifar hins lýðræðislega stjórnarkerfis voru lagðar niður og keisarinn fór með allt ríkisvald og var kallaður dominus = drottinn.

equites                              riddarar, kaupsýslu- eða fésýslumenn.

imperator                           aðalherstjóri eða herforingi; síðan samheiti fyrir → princeps og → Caesar Augustus. Á öðrum tungumálum tökuorð fyrir keisara: emperor (enska), empereur (franska), imperatore (ítalska), emperador (spænska).

imperium                           herstjórnarvald; einnig vald þeirra sem gegndu æðstu embættum þjóðveldisins (eins og → consul eða → praetor).

iurisdictio                           lögsaga, dómsvald.

monarchia                          konungdæmi; í sögu Rómar tímabilið frá 753–510 f.Kr.

patres (et) conscripti          “feður og meðskráðir” = öldungar úr stétt patrisíanna (feður) og úr röðum auðugra manna (einkum → equites) sem tókst með auðæfum sínum að ryðja sér braut upp í öldungaráðið.

patricii                               afkomendur feðranna, þ.e.a.s. afkomendur þeirra 100 höfðingja sem kjörnir voru af Rómúlusi við upphaf sögu Rómar

patronus                            verndari.

plebeius                             almúgamaður.

plebs                                 lýður, alþýða.

pontifex maximus               æðstiprestur hinna rómversku trúarbragða og forseti prestafélags sem allt fram á 5. öld f.Kr. var falið að sjá um túlkun laganna.

populus                             þjóð; allir frjálsir ríkisborgarar Rómar, patricíar og plebejar.

potestas                            vald; einkum vald → pater familias [sjá → persónuréttur]; einnig embættisvald æðstu stjórnarmanna ríkisins.

praetor                              pretor; dómstjóri eða dómsforseti.

praetor peregrinus             útlendingapretor, í fyrstu yfir erlenda menn í Rómaborg, síðan yfir alla Ítalíu og loks yfir skattlöndin. Var honum fengið vald til þess að bræða saman lög Rómverja og heimamanna á hverjum stað. Árlegar skipanir pretors þessa og úrskurðir skattlandsstjóra sköpuðu smám saman þann þjóðarrétt (→ ius gentium [sjá → réttarkerfi / almenn hugtök]) sem fylgt var í stjórn heimsveldisins.

praetor urbanus                 pretor Rómaborgar.

princeps (senatus)             hinn fyrsti eða oddviti (öldungaráðsins); titill sem Octavíanus Ágústus var fenginn árið 28 f.Kr. og sem hann hélt allt til æviloka. Í upphafi merkti þetta tignarheiti að nafn hans stæði efst á skrá öldunga, en brátt tók það að merkja stjórnanda ríkisins, og er af því komið orðið prins í nútíma­málum.

principatus                         í sögunni er stjórnarfar Octavíanusar og eftirmanna hans um næstu tvær aldir kallað “principat” eða oddvitastjórn. Var og eigi um algjört einveldi að ræða, því allt til dauða Commódusar (192 e.Kr.) viðurkenndu allir keisararnir, að minnsta kosti í orði kveðnu, að þeir væru einungis oddvitar öldungaráðsins (principes senatus) innan stjórnarkerfi lýðveldisins. Formlega séð tímabilið frá 27–285 e.Kr.

quaestor                            kvestor; embættismaður sem sér um ríkissjóðinn eða ríkishirsluna.

res publica                         lýðveldi, bókstaflega: „(opinbert) mál sem varðar alla“. Skv. gríska sagnfræðingnum Pólybíos (2. öld f.Kr.) er hin rómverska res publica besta stjórnskipan í heiminum: Takmarkað lýðræði er fólgið í löggjafarvaldi þinganna, höfðingjaveldi undir forustu öldungaráðsins, tvíveldi undir skammvinnri stjórn hverra tveggja ræðismanna, einstöku sinnum einveldi þegar kjörnir voru alræðismenn. Samkvæmt Cíceró er einveldi besta stjórnarfarið þegar einvaldurinn er góður, en verst allra stjórnhátta þegar hann er illur. Höfðingjaveldi er einnig gott ef bestu mennirnir fá að stjórna. Lýðræði er gott þegar fólkið er dyggðugt. Heppilegasta stjórnarfarið telur hann því samsteypu úr þessu þrennu eins og Pólybíos. Ef engar hömlur eru á lagðar breytist hins vegar einræðið í harðstjórn, höfðingjaveldið í fámennisstjórn og lýðræðið í skrílræði og óstjórn. Í sögu Rómar á tímabilinu frá 510-27 f.Kr.

senatus                             öldungaráð, upphaflega ráðgjafasamkunda patrisíanna. En ættahöfðingjar þeir sem í öndverðu skipuðu ráðið, voru smám saman leystir af hólmi af fyrrverandi → consules og → censores, og sensorarnir höfðu vald til að fylla tölu ráðsmanna í 300 með því að nefna til ráðsins menn af stétt patrisía eða riddara. Menn sátu í ráðinu ævilangt.

tribunus plebis                   alþýðuforingi eða málssvari alþýðu í hvívetna, eftir 367 f.Kr. tíu talsins. Hlutverk þeirra var að vernda lýðinn fyrir ofríki landsstjórnarmanna, og þeir gátu með orði → veto stöðvað allar athafnir stjórnvaldanna hvenær sem einhverjum þeirra bauð svo við að horfa. Þessir tíu menn voru sacrosancti (= friðhelgir), sem kallað var: það var talið helgispjöll og lífllátssök að beita þá ofbeldi nema á tímum lögmætrar alræðisstjórnar (→ dictator).

triumviratus                           þremenningasamband, þríeyki eða þrístjóraveldi (1. Crassus, Pompeius og Caesar; 2. Octavíanus [síðar Ágústus], Markús Antoníus og Lepídus).

veto                                   ég banna: neitunarvald alþýðuforingja til að vernda lýðinn fyrir ofríki landsstjórnarinnar. Með veto gátu þeir stöðvað allar athafnir stjórnavaldanna hvenær sem einhverjum þeirra bauð svo við að horfa.

 

2. Réttarkerfi Rómaveldis

a. Almenn hugtök

constitutiones principum                           skjalfestar skipanir keisara; þær birtust í fjórum myndum: 1) edicta, þ.e.a.s. princeps gefur út tilskipanir í krafti embættisvalds síns sem giltu um allt heimsveldið; 2)  decreta eða úrskurðir hans í dómarasæti höfðu lagagildi eins og hjá öðrum embættismönnum; 3) rescripta, þ.e.a.s. princeps veitti skrifleg svör við fyrirspurnum um ýmis vafamál annaðhvort bréflega (epistulum) þegar um var að ræða fyrirspurn embættismanns eða sem ákvörðun þar sem skrifað var undir beiðni óbreytts borgara sem hafði snúið sér til hans (subscriptio); 4) mandata eða fyrirmæli þau sem keisarar gáfu embættismönnum og sem urðu með tímanum ítarleg stjórnsýslulög.

Corpus iuris civilis              lagasafn eða Rómaréttur Jústiníanusar sem skiptist í fernt: Codex (heildstæð og samræmd löggjöf eða safn tilskipana keisara – keisaralögin) sem á rót að rekja til tilrauna sem áður höfðu verið gerðar til að bókfesta rómverska réttinn; Digesta eða Pandectae (útdrættir úr álitsgerðum, úrskurðum og fræðiritgerðum nafntogaðra lögfræðinga); Institutiones (inngangsfræðin eða kennslubók í rómverskum rétti fyrir laganema; eins konar almenn lögfræði) og Novellae (nýmæli, nánar tiltekið lög sem sett voru eftir að Codex hafði birst).

decemviri                           tímenningar sem sömdu → leges duodecim tabularum (tólftaflnalög). Flestir telja, að verkefnið þeirra hafi verið tvíþætt, þ.e.a.s. að bókfesta gildandi réttarvenjur og einnig að setja nýmæli og fella brott úrelt ákvæði.

edictum                             tilskipun; ýmis lagaleg fyrirmæli sem voru minni háttar eða sérstaks eðlis voru sett í mynd tilskipana (edicta) af embættismönnum Rómaborgar. Hver nýr borgarpretor (praetor urbanus) gaf út edictum praetorium eða edictum perpetuum sem kunngjört var af kallara á Rómatorgi og letrað á vegg. Þar voru birtar þær lagareglur sem pretorinn hugðist fylgja í dómsstörfum ( → formula, sjá → réttarfar) og öðrum athöfnum á embættisári sínu. Svipaðar tilskipanir voru útgefnar af útlendigapretorum (praetores peregrini). Samkvæmt stjórnarvaldi sínu máttu pretorar skýra nánar gildandi lög. Þannig samtengdust hin fornu grundvallarlög Rómverja (→ ius civile) og lifandi dómsstörf pretoranna. Þegar lög eða lagagreinar voru endurteknar í tilskipunum pretora mörg ár í röð (edictum tralaticium), urðu þau ákveðinn þáttur í hinum svonefnda → ius honorarium. Hitt bar þó einnig iðulega við að pretor gengi í gegn tilskipunum og stefnu forvera síns, og ríkti svo óvissa í löggjöf og gjörræði í dómum. Til þess að binda enda á óvissu þessa bauð Hadríanus keisari að steypa öllum embættismannalögum saman og gefa þeim varanlegt gildi (edictum perpetuum, 130 e.Kr.). Skyldi keisarinn einn hafa vald til að breyta þeim.

ius                                     réttur / réttarkerfi sem nær bæði yfir skráðan og óskráðan rétt.

ius civile                            réttur Rómaborgar, síðar ríkisréttur á grundvelli → leges duodecim tabularum og annarra lagasetninga.

ius gentium                        alþjóðaréttur; réttur í gildi meðal allra þjóða og auk þess réttur til að leysa mál  milli rómverskra ríkisborgara og útlendinga.

ius honorarium                   „heiðursréttur“; réttur í krafti ráðherravalds æðstu embættismanna rómverska lýðveldisins;  «heiðursréttur» af því að þeir gegndu embætti sínu án endurgreiðslu; einnig kallað ius praetorium enda voru það helst → praetores eða dómstjórar sem leyfðu nýjar aðferðir innan réttarkerfisins.

ius naturale                        náttúru- eða eðlisréttur sem allar skepnur (bæði menn og dýr) fylgja.

ius privatum                       einkaréttur sem varðar samskipti milli einstaklinga.

ius publicum                      réttur sem varðar ríkið eða samskipti milli einstaklings og ríkisvalds.

ius non scriptum                óritaður / óskráður réttur; frekar óskipulegt safn af ættarvenjum, konungstilskipunum og boðorðum prestanna → mos maiorum.

ius scriptum                       ritaður / skráður réttur.

ius respondendi ex auctoritate principis       leyfi veitt útvöldum lögspekingum til að svara fyrir hönd keisara eða princeps.

leges duodecim tabularum        tólftalfnalög; fram á 5. öld f.Kr. höfðu patrisíaklerkar varðveitt lög Rómverja og skorið úr lögmálsþrætum. Þeir höfðu haldið lagaskrám sínum leyndum og notað einokun sína og samband laganna við trú og helgisiði sem vopn gegn breytingum á þjóðfélagsháttum. Eftir langvarandi þóf sendi ráðið nefnd þriggja patrisía til Grikklands að rannsaka löggjöf Sólons og annarra grískra lagasmíða (árið 451). Þegar þeir komu aftur heim að þremur árum liðnum, kaus þjóðfundurinn tíu menn → decemviri til að setja ný lög og veitti þeim alræðisvald í Róm um tveggja ára skeið. Löggjafarnir breyttu fornum réttarvenjum Rómverja og settu þeim hin frægu tólftaflnalög, sem samþykkt voru á þjóðþingi með nokkrum breytingum og síðan höfð uppi á torginu til sýnis hverjum þeim sem lesa vildi – og lesa kunni. Þessi hljóðláti atburður olli aldahvörfum í sögu Rómverja. Nú var í elstu mynd letrað lagakerfi þess réttarkerfis sem síðar kallast Rómaréttur. Töflurnar tólf voru á tvennan veg bylting í lögum: Nú voru Rómalög birt almenningi, og jafnframt gerð veraldleg. Töflurnar tólf  tóku við af óvissu og óskráðum lagavenjum og urðu brátt grundvöllur almennrar menntunar. Fram á daga Cícerós máttu allir námsmenn læra þær utanbókar, og eflaust hafa þær átt drjúgan þátt í að móta hina ströngu og stefnuföstu, rökfimu og löghneigðu skapgerð Rómverja. Þær voru auknar og endurbættar aftur og aftur, með setningu nýrra laga, pretoraboðum, ráðssamþykktum og tilskipunum keisara, en voru þó grundvöllur rómverskra laga í 900 ár allt til daga Jústiníans keisara, en með honum hofst nýr þáttur rómverskrar réttarsögu.

lex                                     lagaboð eða lagabálkur; lögin voru í senn lex og → ius = lagaboð og réttur. Lex sem ritað lagaboð er partur af ius. Lagafrumvörp embættismanna ríkisins voru afgreidd á hinum ýmsu þingum (→ comitia, sjá → saga Rómaveldis).

magistratuum edicta          lagalega bindandi ákvarðanir dómsforseta (praetor).

mos maiorum                     siðir feðranna; allt fram á 4. öld e.Kr. fyrirmynd siðgæðis og uppsretta laganna.

plebiscitum                        úrskurðir alþýðunnar eða lög afgreidd af alþýðudeild Rómaborgar (→ concilium plebis, sjá → saga Rómaveldis) sem allt frá 287 f.Kr. (lex Hortensia) tóku einnig gildi fyrir þjóðina alla, þ.e.a.s einnig fyrir heldri borgara (patricii).

principum placita                löggjafarvald → princeps; tók á sig mismunandi form.

responsa prudentium         lagatúlkun lögspekinganna; oft leituðu lögmenn og dómendur ráða lögspekinganna. Smám saman höfðu skrifleg svör þeirra, samkvæmt óskráðri venju, nálega sama gildi sem lög væru. Ágústus veitti úrskurðum þeirra fullkomið lagagildi með tveimur skilyrðum: að lögspekingurinn hefði fengið hjá keisraranum → ius respondendi eða rétt til að svara spurningum um lagaefni og að svarið væri sent innsiglað til dómara þess sem fjallaði um hlutaðeigandi mál. Á dögum Jústiníanusar voru þessi responsa eða lagasvör orðin mikil fræðigrein og bókmenntir og urðu þau uppspretta og grundvöllur hinna miklu lögbóka hans → Corpus iuris civilis, sér í lagi Digestum.

senatusconsultum              formleg ráðgjöf eða ályktun öldungaráðsins sem hafði þó ekki lagagildi á tímum þjóðveldis. Þau töldust vera tillögur sem beint var til embættismanna. En í reynd voru áhrif þess svo sterk að embættismenn létu vart bregðast að hlýða fyrirmælum þess. Og lögðu sjaldan fyrir þjóðþing nokkur þau nýmæli sem ekki höfðu þegar hlotið blessun öldungaráðsins. En smám saman urðu þau ákveðin tilmæli og fyrirskipanir, og frá og með  tímum → principatus (sjá → saga Rómaveldis) öðluðust þau fullkomið lagagildi.

aequitas                            að taka tillit til ástæðnanna í málaferlum umfram bókstaflega túlkun laganna (→ ius honorarium).

b. Persónuréttur 

adoptio                              ættleiðing persónu sem er → alieni iuris og færist úr valdi eins → paterfamilias yfir til annars.

adrogatio                           ættleiðing persónu sem er þegar → sui iuris og fer undir vald annars → paterfamilias.

agnatus                             ættingi eða frændi í karllegg skyldur öðrum í gegnum sama → paterfamilias.

alieni iuris                          að vera háð(ur) valdi annars (= alieni) sem er einmitt → paterfamilias; lagalega ósjálfstæð(ur).

auctoritas tutoris                samþykki forræðismanns í ákveðnum viðskipta­samskiptum skjólstæðings síns.

capacitas agere                 hæfni til að eiga í samskiptum sem eru lagalega bindandi einnig í umboði fyrir hönd annars manns (t.d. sonur undir valdi → patria potestas eða jafnvel þræll þar sem báðir njóta ekki [enn] → capacitas iuridica).

capacitas iuridica               lögmæt hæfni þess sem er ekki lengur undir valdi → paterfamilias eða → dominus.

capitis deminutio                «stöðuminnkun» sem gat verið þrennskonar: frelsissvipting, svipting ríkisborgararéttar (→ civitas) eða brottvikning úr eigin fjölskyldu → emancipatio.

civitas                                borgararéttur Rómar, síðar ríkisborgararéttur; rómverskir borgarar voru allir þeir sem tilheyrt höfðu rómverskri ættsveit eða fengið inngöngu í hana með ættleiðingu (→ adoptio eða → adrogatio), lausn úr ánauð (→ manumissio) eða leyfi stjórnvalda. Þegnréttur þessi var í þremur þrepum: 1) Fullgildir borgarar (cives optimo iure) sem höfðu fjórþætt réttindi: kosningarrétt (ius suffragii), embættisrétt (ius honorum), rétt til að giftast frjálsborinni persónu (ius connubii) og rétt til að gera verslunar­samninga sem verndaðir voru af rómverskum lögum (ius commercii). 2) Borgarar án kosningarréttar sem höfðu rétt til hjónabands og samninga, en ekki til kosninga eða embættis. 3) Leysingjar sem höfðu kosningarrétt og samningsrétt, en ekki hjónabands- eða embættisrétt. Fullgildir borgarar höfðu auk þess ýmisleg sérréttindi samkvæmt einkalögum: Faðir hafði vald yfir börnum sínum (→ patria potestas), eiginmaður eða → paterfamilias yfir konu sinni (→ cum manu), eigandi yfir eignum sínum (→ dominium, sjá → eignarréttur) og frjáls maður yfir öðrum samkvæmt samningi.

clientes                                   skjólstæðingar; þeir, sem ekki voru merðlimir ættar (gentis), voru réttlausir, en þó ekki alltaf meðhöndlaðir sem þrælar. Oft voru þeir teknir upp í einstakar patrisíaættir, sem óvirkir lægra settir meðlimir og voru í þjónustu þeirra. Nefndust þeir clientes, en sá, sem tók þá upp í ætt sína. Nefndist verndari → patronus. Voru þeir háðir verndara í einu og öllu, en honum bar að veita bæði þeim og eingum þeirra hvarvetna vernd, koma fra fyrir þeirra hönd í málum. Urðu þá clientes þessir nokkurs konar hálflfrjáls stétt.

cognatus                           blóðskyldur ættingi með eða án sama → paterfamilias.

coniugium                          hjónaband, bókstaflega: «samoka». Að brúðkaupsveislu lokinni lyfti brúðguminn brúðinni yfir þröskuld heimilis, fékk henni lykla hússins, og síðan beygðu bæði höfuð sín undir ok til að jarteikna band það er þau tengdi saman. Fyrir því var hjónabandið kallað coniugium = samoka.

conubium                           brúðkaupsréttur.

cum / sine manu                hjónaband var ýmist cum manu eða sine manu (manus = hönd sem tákn fyrir vald eða eign  sbr. → emancipatio eða → manumissio), þ.e. cum manu ef brúðurin og allar eigur hennar var selt undir vald eiginmanns (ef hann var einnig → pater familias) eða tengdaföður, ellegar skyldi hún sem fyrr lúta forsjá föður eða eigin → pater familias síns (= sine manu).

cura / curatela                    umsjón eða forræði til að annast málefni ungra karlmanna sui iuris komnir að lögaldri en enn ekki orðnir 25 ára eða vanþroskaðra og ekki viðskiptahæfra sui iuris.

curator                               lögráðandi, sá sem fer með forsjá ungra karlmanna sui iuris komnir að lögaldri en enn ekki orðnir 25 ára eða vanþroskraðra og ekki viðskiptahæfra sui iuris.

dos                                    heimanfylgja, heimanmundur.

emancipatio                       „láta af hendi“ (e/ex manu; manus eða hönd sem tákn valds yfir persónum eða hlutum); sonur eða dóttir verða sui iuris fyrir ákvörðun → paterfamilias þeirra og yfirgefa þar með sína eigin fjölskyldu.

familia                               faðir og móðir, hús þeirra og lausafé, börn þeirra, kvæntir synir, sonabörn þeirra og sonakonur, þrælar og skjólstæðingar – þetta allt til samans var hin rómverska familia sem fremur mætti kalla heimili en fjölskyldu, ekki hópur náinna skyldmenna, heldur fólk og fé sem allt var undirgefið elsta karlmanni flokksins → pater familias.

gens                                  ætt; flokkur frjálsborinna manna sem röktu kyns sitt til eins forföður, báru nafn hans, blótuðu guðina sameiginlega og voru skuldbundnir til samhjálpar í friði og stríði. Hvert sveinbarn bar þrjú nöfn: eiginnafn (prænomen), t.d. Públíus, Marcus, Caius; ættarnafn (nomen), svo sem Cornelíus, Túllíus, Júlíus, og viðurnefni (cognomen), svo sem Scipíó, Cíceró, Caesar. Konur voru að jafnaði nefndar ættarnafninu einu: Cornelía, Túllía, Cládía, Júlía.

gentiles                          ættflokksmenn.

impubes                            drengur til 14 ára aldurs, stúlka til 12 ára aldurs.

infans                                barn allt til 7 ára aldurs.

libertus / libertinus              leysingi; þræll sem hefur öðlast frelsi.

mancipium/mancipia          «handhöfn» undir valdi → pater familias eins og eiginkona og börn (sem eru þó frjálsbornir ríkisborgarar!), uns honum þóknast að gefa þeim frelsi, sleppa af þeim hendinni (t.d. með → emancipatio).

manumissio                       að veita þræli frelsi.

paterfamilias                      «faðir fjölskyldunnar» eða höfuð fjölskyldunnar (elsti lifandi karlmaður flokksins sem getur verið faðir, afi eða langafi) sem lýtur ekki stjórn annars manns, þ.e.a.s. ef sonur kvæntist meðan faðir hans var á lífi, hélst föðurvaldið yfir barnabörnunum í höndum afa þeirra.

patria potestas                   föðurvald; persónulegt vald höfuðs fjölskyldunnar; hann einn átti öll réttindi að lögum á fyrstu tímum þjóðveldisins; innan fjölskyldunnar er hann sá eini sem mátti kaupa, eiga og selja fasteignir eða gera samninga og þurfti að samþykkja hjónabönd þeirra sem lutu valdi hans.

patronus                            eftir að hafa veitt þræli frelsi varð fyrrverandi → dominus að verndara leysingjans.

peculium                            fé eða eign í umsjón persónu sem lýtur stjórn sem sonur eða þræll og sem hún má nota að vild en er samt eign → paterfamilias eða → dominus.

puber                                 drengur allt frá 14 ára, stúlka allt frá 12 ára aldri.

pupillus                              skjólstæðingur.

servus                               þræll sem lagalega séð varð ekkert annað en (mennskur) hlutur (res) og naut þar með ekki persónuréttinda. Þrælar máttu ekkert eiga, erfa eða gefa. Þeir gátu ekki gengið í lögmætt hjónaband. Börn þeirra voru talin óskírgetin/óskilgetin, og ambáttarbörn voru talin til þræla jafnvel þótt faðirinn væri frjáls maður.

status                                staða persónu sem greindist af þrem einkennum: libertas (frelsi), civitas (borgararéttur) og familia (fjölskylda). Aðeins sá eða sú sem bjó yfir öllum þessum einkennum var persóna í fyllstu merkingu orðsins: hann / hún var frjáls en ekki þræll, var ríkisborgari en ekki útlendingur og tilheyrði rómverskri fjölskyldu.

sui iuris                              að vera óháð(ur) → patria potestas; lagalega sjálfstæð(ur).

tutela                                 forræði yfir barni undir lögaldri eða ævilöng forsjá konu (tutela mulierum) sem eru sui iuris og lúta þar með ekki lengur stjórn → paterfamilias.

tutor                                  lögráðandi, sá sem fer með forsjá barns undir lögaldri eða konu (tutela mulierum) sem eru sui iuris.

c. Eignarréttur

animus                              hugarfar; í vissum tilvikum þarf animus að vera til staðar svo að lagalegar afleiðingar koma til greina, t.d. við eignarnám án titils (animus possidendi) eða við þjófnað (animus furandi).

bona fide                           „í góðri trú”; hugarfar manns sem telur sér trú um að haga sér rétt í samskiptum (t.d. í samningum) eins og sæmir góðum borgara.

bonae fidei possessor        sá sem hefur eignast e-ð af samningsaðila sem er í raun og veru ekki lögmætur eigandi; en hann getur hlotið titil eigandans í gegnum → usucapio.

bonorum possessio            eignarhald arfs heimilað af pretor þegar ekki var hægt að ganga að erfðum samkvæmt → ius civile (sjá → réttarkerfi Rómaveldis). Í gegnum → usucapio varð þess konar erfingi þá að löglegum eiganda.

commodatum                     útlán mestmegnis → res mobilis til notkunar eða afnota án þess að krafist sé leigugjalds; ófullkominn tvíhliða samningur, þ.e.a.s.  lántakandi einn skuldbindur sig til að skila því sem hann fékk til afnota en skyldur lánveitandans gætu hafist að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

conducere                         taka á leigu.

consensus                         samkomulag, samþykki.

contractus                         samningur.

contrectatio                        að skipta sér af eign óviðkomandi manns → furtum.

creditor                              kröfuhafi, lánardrottinn eða  skuldheimtumaður, þ.e.a.s. lögvarin heimild tiltekins aðila, kröfuhafa, til þess að krefjast þess af öðrum aðila, skuldara, að hann geri e-ð eða láti e-ð ógert.

crimen                               afbrot, glæpur eða meiri háttar refsivert ásetningsbrot, oftast gegn almennum hegningarlögum, afbrot, sem sætir opinberri ákæru (crimen publicum).

culpa                                 (refsivert) gáleysi, ófyrirsynja eða óvarkárni sem í vissum tilvikum (culpa lata = að gera sér ekki grein fyrir því sem hver og einn veit) jafngildir → dolus.

custodia                             ábyrgð manns á hlutum annarra sem eru í hans umsjón (detentio) t.d. → depositum → commodatum → locutio conductio án þess þó að hann ætli að eiga þá (animus possidendi).

damnum emergens            fjárhagslegt tjón í kjölfar tjóns á eign eða eignarmissi (→ Lex Aquilia).

damnum iniuria datum       skaði á eign annarra (→ Lex Aquilia).

debitor                               skuldari, sá aðili að kröfusambandi sem á að inna greiðslu af hendi til samræmis við kröfuna.

delictum                             (lög-)brot eða sú háttsemi sem er andstæð réttarreglum og gefur þeim sem verður fyrir því tækifæri til að leita réttar síns fyrir dómstól.

depositum                          samningur um að geyma e-ð (→ res mobilis) án þess að fá endurgoldið; ófullkominn tvíhliða samningur, þ.e.a.s. aðeins sá sem tekur við hlut skuldbindur sig til að skila því sem hann hefur fengið í gæslu en skyldur hins aðilans gætu hafist að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

diligentia                            nákvæmni eða vandvirkni í umsjón hluta sem faldir eru manni til umsjónar (t.d. í → depositum). Krafist er að haga sér eins og bonus et diligens paterfamilias.

dolus                                 blekking eða fyrirætlun um að villa um fyrir samningsaðila á lymskulegan hátt (sjá einnig í réttarfar → exceptio doli).

dominium                           eignir (hlutir og þar með einnig þrælir) á valdi eigandans (= dominus).

dominus                            eigandi hluta (einnig þræla!).

emere                                kaupa.

emptio venditio                  kaupsamningur; fullkominn tvíhliða samningur milli tveggja einstaklinga.

error                                  villa.

exheredatio                        brottfall erfðaréttar.

extraneus heres                 erfingi sem kemur að utan, þ.e. utan fjölskydunnar.

fideicommissum                 fyrirmæli í erfðaskrá þar sem hinum löglega arftaka er falið að láta hluta af arfinum renna til manns sem á ekki fullan erfðarétt skv. lögum.

furtum                               þjófnaður.

hereditas                           arfur; samheiti á þeim réttindum sem ganga að erfðum (eign, kröfur, skuldir), þ.e. skipta um eigendur við andlát manns, arfleifanda.

heres                                 erfingi sem tekur við eignum, kröfum og skuldum hins látna.

honorarium                        þóknun.

hypotheca                          veðlán

in bonis habere                  sá sem hefur eignast t.d. → res mancipi af lögmætum eiganda án þess þó að eignaskipti hafið farið fram skv. lögum (→ mancipatio); þar með vantar hann titil eigandans; en hann getur hlotið titil eigandans í gegnum → usucapio.

iniuria                                móðgun eða lögbrot sem felst í því að ráðast á líkama annars aðila eða svívirða hann.

in iure cessio                     formleg afhending eignar fyrir dómstóli pretors þar sem sá sem tekur við hlutum lýsir hátíðlega yfir að vera eigandi á meðan sá þegir sem lætur þá af hendi.

intestatio                            erfðaröð án erfðaskrár.

iura in re aliena                  réttir í hlutum / eign annars aðila (t.d. vegaréttindi →  via).

Lex Aquilia                         lög frá 3. öld f.Kr. sem heimila að innheimta skaðabætur af þeim sem hefur af ásettu ráði eða af gáleysi valdið tjóni á eigum annarra (→ damnum iniuria datumdamnum emergens lucrum cessans).

locare                                leigja út.

locatio conductio                samningur á grundvelli samþykkis tveggja aðila til 1) að leigja út (færanlegan eða ófæranlegan) hlut (locatio conductio rei) til 2) að leigja út þjónustu (locatio conductio operarum) eða til 3) að láta framkvæma vinnu á hlut (locatio conductio operis). Fullkominn tvíhliða samningur.

lucrum cessans                 tjón á hagnaði í kjölfar tjóns á eign eða vegna eignarmissis í heild (→ Lex Aquilia).

mancipatio                         hátíðleg afhending eignar í votta viðurvist fyrirskipuð fyrir → res mancipi, → emancipatio ( sjá → persónuréttur) eða → testamentum. Formlega numin úr gildi á tímum Jústiníanusar.

mancipium                         frumform eignanna, oftast fengið og aflað með eigin hendi (= manu capere); handhöfn.

mandatum                         umboð; samningur á grundvelli samþykkis tveggja aðila þar sem annar aðilinn lofar að gera hinum greiða án þess þó að þiggja greiðslu fyrir það; ófullkominn tvíhliða samningur, þ.e.a.s. aðeins sá sem tekur við umboði skuldbindur sig til að gera það sem honum er falið en skyldur hins aðilans gætu hafist að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

metus                                hótun eða ógnun til að neyða annan aðila til gera samning (sjá einnig undir réttarfar → exceptio metus).

mutuum                             lán á varningi  til neyslu; sá sem tekur við varningi eins og víni, korni eða olíu gerist eigandi þessa og skuldbindur sig til að endurgreiða lánveitanda sama magn í sömu gæðum (tandumdem); einhliða samningur.

necessarius heres             neyðarerfingi, oftast þræll sem tekur við þegar arfurinn er skuldir einar.

obligatio                             skylda; skuldbinding sem hefst með samningi.

occupatio                           að gerast frumeigandi hlutar sem hefur ekki verið í eign annars manns (res nullius) eins og eyjar eða villidýr.

pignus                               pantur; veð

possessio                          eignarhald án löglegs titils; einhver gerir eigna annars að sinni.

pretium                              verð.

procurator                          umsjónarmaður sem sér um (viðskipta-) mál annars manns eftir að hafa fengið fullt umboð til þess.

proprietas                          lögleg eign sem nýtur verndar erga omnes (gagnvart öllum).

rapina / vi bonorum raptorum          rán; lausir munir annarra teknir með valdbeitingu (vis).

res communes                   hlutir í almannaeigu.

res corporales                    áþreifanlegir hlutir.

res divini iuris                     hlutir guðdómlega réttarins.

res extra commercio          hlutir undanskildir viðskiptum.

res humani iuris                 hlutir mannlega réttarins.

res immobiles                    fastir hlutir (hús, lóð = oftast fasteignir).

res in commercio               hlutir í viðskiptum.

res incorporales            óáþreifanlegir hlutir eins og samningar og kröfur og skuldir sem fylgja þeim.

res mancipi                        hlutir eins og í → res immobiles á ítalskri grund, vegaréttindi (→ via), þrælar og burðardýr sem krefjast → mancipatio í eignarskiptum, þ.e.a.s. sérstakrar hátíðlegrar athafnar í votta viðurvist.

res mobiles                        lausafé (í merkingunni: færanlegir hlutir).

res nec mancipi                 hlutir sem ekki krefjast mancipatio í viðskiptum og eru einfaldlega afhentir í → traditio.

res nullius                          hlutur sem hefur ekkir verið fyrr í eign annars manns.

res publica                         hlutir í ríkiseign.

res religiosae                     heilagir hlutir og staðir (eins og greftrunarstaðir).

res sacrae                        helgigripir sem njóta bannhelgi (eins og musteri).

res sanctae                    helgihlutir undir sérstakri vernd guðanna (borgarmúrar og borgarhlið).

res universitatis                  hlutir í almannaeign.

res                                    hlutur; annar hluti Rómaréttar Jústiníanusar sem fjallar um hlutaréttinn.

societas                             (viðskipta-) félag á grundvelli samnings þar sem fleiri aðilar samþykkja að deila ávinningum og töpum.

solutio (≠ vinculum)            samningsslit skv. ákvæðum samnings, þ.e.a.s. upplausn samnings með því að gera það sem kveðið er á um í samningi.

stipulatio                            munnlegur samningur að hefðbundnum hætti á grundvelli ákveðinna spurninga milli samningsaðilanna («Lofar þú mér að gefa mér hitt og þetta? Ég lofa þér að gefa þér hitt og þetta»). Hér er um að ræða klassískan einhliða samning stricti iuris, þ.e.a.s. aðeins annar aðilinn (= sá sem svarar) skuldbindur sig til að gera það sem felst í samningi eða loforði. Stipulatio gat þjónað sem einskonar frumform samnings fyrir viðskipti milli einstaklinga.

suus heres                         «síns eigin erfingi» = sonur eða dóttir sem verður → sui iuris við andlát → paterfamilias (→ persónuréttur) og tekur við fjölskyldueignum.

testamenti factio                lögmætt umboð til að skrifa undir erfðaskrá.

testamentum                     erfðaskrá.

traditio                       einföld eignarskipti ( → res non mancipi) sem krefjast ekki → mancipatio.

usucapio                            að verða löglegur eigandi þeirra hluta sem maður hefur þegar undir hendi (með animus possidendi) að liðnum fyrningarfresti (tvö ár fyrir → res immobiles og eitt ár fyrir → res mobiles).

usufructus                         afnota- eða nýtingarréttur sem heimilar að uppskera ávexti sem kunna að vaxa á grundu annars manns.

vendere                             selja.

via                                     «vegaréttindi»; sá sem nýtur þessara réttinda má fara yfir eign annars manns sem kann að liggja milli tveggja hluta eign lands síns (→ iura in re aliena ).

vinculum (≠ solutio)            band milli tveggja samningsaðila.

vis                                     valdbeiting; brotaþoli getur höfðað mál gegn geranda bæði skv. → ius privatum og → ius publicum.

d. Réttarfar

arbitrium                            gerðardómur; á tímum einveldis (dominatus) endanleg úrlausn deilumáls utan dómstóls ef báðir deiluaðilarnir komu sér saman um það.

actio                                  “verknaður”; réttur rómversks borgara til að hefja málaferli.

actio bonae fidei                málaferli sem leyfði dómaranum að taka tillit til ýmissa ástæðna eða staðreynda sem ekki koma beinlínis fram í → formula. Dómstjórinn veitti dómaranum svigrúm til að meta góða trú eða trúverðugleika (bona fides) deiluaðilanna beggja.

actio civilis                         málaferli á grundvelli laganna; einnig kölluð actio in ius concepta.

actio in factum                   málaferli sem leyfa dómaranum að hefja rannsóknina á grundvelli ákveðinna staðreynda sem sannast við rannsóknina; ein af actiones honorariae (→ ius honorarium, sjá → réttarkerfi).

actio in personam              málaferli á grundvelli (viðskipta-)samskipta tveggja einstaklinga sem hófust með samningi (→ contractus) eða með lögbroti (→ delictum) annars aðila.

actio in rem                       málaferli á grundvelli samskipta milli einstaklings og hluts sem hann á (res), oftast til að endurheimta eignina (→ rei vindicatio).

actio iudicati                       ef sá sem hefur verið dæmdur sekur vildi ekki greiða skuld sína innan ákveðins tíma gat ákærandinn hafið ný málaferli gegn honum til að neyða hann að gera það sem honum bar að gera samkvæmt úrskurði dómarans.

actio poenalis                     málaferli gegn þeim sem hefur valdið tjóni (→  delictum).

actio Publiciana                  málaferli (in rem) heimiluð af praetor sem leiðbeinir dómaranum að viðurkenna sem staðreynd að skilyrði fyrir usucapio (= að verða löglegur eigandi að liðnum fyrningarfresti) hafi verið uppfyllt (einnig kallað actio fictitia); ein af actiones honorariae (→ ius honorarium, sjá → réttarkerfi).

rei vindicatio  (actio)           eignarkrafa; málaferli til að endurheimta eign sína.

actio stricti iuris                  málaferli sem veita dómaranum ekkert svigrúm til að taka tillit til ástæðna sem ekki er gert ráð fyrir í formúlu, t.d. málaferli á grundvelli → stipulatio (sjá eignarréttur).

actio utilis                          málaferli á grundvelli staðreynda sem ekki er gert ráð fyrir beinlínis í lögunum en sem líkjast þeim að breyttu breytanda; ein af  actiones honorariae (→ ius honorarium, sjá → réttarkerfi).

actor                                  sá sem sækir um málaferli; í sakamálum accusator (ákærandi) og í einkamálum petitor eða postulator (sá sem krefst réttar síns).

appellatio                           áfrýjun; þegar aðili dómsmáls leitar endurskoðunar á dómi um efni máls með málskoti til æðra dómstóls. Ekki var gert ráð fyrir því að skjóta máli til hærra dómstigs á tímum lýðveldisins. Úrskurður dómarans var endanlegur. En frá og með tíma principatus mátti áfrýja málinu til næsthæsta embættismanns og í vissum tilvikum til sjálfs keisarans. Á tímum einveldis (dominatus) var dómskerfi háttað þannig: 1. stig héraðsstjóri (eða → iudex datus í hans umboði), 2. stig umdæmisstjóri (vicarius) eða hirðsstjóri keisarans (præfectus prætorio); 3. stig keisari (nema praefectus praetorio hefði dæmt á 2. stigi enda var hann álitinn staðgengill keisarans).

apud iudicem                     síðasti partur málaferlanna frammi fyrir dómara sem var óbreyttur borgari allt til tíma principatus; hann sat réttarhaldið á grundvelli þeirra staðreynda sem embættismaður hins opinbera hafði viðurkennt fyrr (→ litis contestatio).

cognitio extraordinaria         „óhefðbundin rannsókn“; eftir → legis actio og → formula tók réttarfar Rómaveldis á sig þessa mynd á tímum  principatus fyrst samhliða formula – réttarfari og síðan allt frá 342 e.Kr. sem eini háttur réttarhaldsins fyrir → iudicia privata og → iudicia publica. Cognitio einkennist af tvennu: 1) ríkisvæðing alls réttarfars í hendur embættismanns hins opinbera og þar með ekki lengur skipting á milli → in iure frammi fyrir embættismanni ríkisins og → apud iudicem hjá dómara úr röðum óbreyttra borgara; 2) en um leið og princeps tók málaferli í sínar hendur og annaðist stöku sinnum réttarhaldið í sinni eigin persónu fór það fram utan hins hefðbundna réttarhalds og var þess vegna kallað cognitio extra ordinem eða cognitio extraordinaria.

condemnatio                      sakfelling; í grundvallaratriðum var sakborningurinn  dæmdur til að borga sekt. Ef formúla gerði ráð fyrir mátti dómarinn bjóða honum til að skila því sem hann hafði undir hendi en sem var reyndar í eign ákærandans (→ rei vindicatio).

condictio                            málaferli in personam til að innheimta skuldina        (certa pecunia = ákveðin fjárupphæð).

confessio                           játning; hinn ákærði játar sig sekan þegar → in iure áður en farið er til dómarans og er þar með dæmdur (confessus pro iudicato habetur).

crimen (publicum)              afbrot, glæpur eða meiri háttar refsivert ásetningsbrot, oftast gegn almennum hegningarlögum og sætir opinberri ákæru (→ iudicia publica).

delictum (privatum)            (lög-)brot eða sú háttsemi sem er andstæð réttarreglum og gefur þeim sem verður fyrir því tækifæri til að leita réttar síns fyrir dómstólum (→ iudicia privata).

deportatio                          strangasti útlegðardómurinn; hinn dæmdi var lagður í fjötra, fluttur á ömurlegan stað og sviptur öllum eignum sínum.

episcopalis audientia          dómstóll biskups í málaferlum ef báðir deiluaðilarnir samþykktu það (aðeins → iudicium privatum!) allt frá tímum Konstantínusar keisara.

evocatio                             venjulega hófust málaferlin með því að annar málsaðilanna beggja leitaði réttar síns, en frá og með tímum principatus gat keisarinn sjálfur tekið frumkvæði, hafið málsrannsókn og kallað málaferlin öll til sín (= evocare) ef honum þótti vera mikið í húfi sem snerti hið opinbera eða hans eigin persónu (sjá einnig → cognitio extraordinaria). En úrskurðir keisarans urðu að fordæmi fyrir önnur og svipuð mál sem kunnu að gerast í framtíðinni.

exceptio doli                      málflutningur af hálfu varnaraðilans – heimilaður af praetor – sem staðfestir að hafa orðið fyrir blekkingum af hálfu ákærandans í samningaviðskiptum (t.d. → actio in personam).  

exceptio metus                  málflutningur af hálfu varnaraðilans – heimilaður af praetor – sem staðfestir að hafa gert samninginn bara af ótta við hótanir af hálfu ákærandans.

exilium                               mildara form útlegðar, því þá mátti hinn dæmdi lifa sem frjáls maður hvar sem honum þóknaðist utan Ítalíu.

formula / processum formulare         allt frá 150 f.Kr. var ekki lengur krafist tiltekinna orða og aðferða í málaferlum (→ legis actio), en málsaðilar og dómstjóri komu sér saman um það hvernig málið skyldi lagt fyrir dómarann (→ iudex). Síðan sendi dómstjóri dómaranum ritaða skýrslu um alla málavöxtu. Var þetta kallað að reka mál per formulam.

infamia                              “málleysi”; sum afbrot eins og þjófnaður og rán leiddu til þess að menn féllu í áliti innan þjóðfélagsins og máttu ekki lengur taka þátt í málaferlum eða láta annan gera það fyrir sína hönd.

in iure                                fyrsti partur málaferlanna frammi fyrir embættismanni ríkisins til að ganga úr skugga um hvort gildandi lög geri ráð fyrir beiðni umsækjandans; dómstjórinn metur hvort leyfa eigi að hefja → actio eða ekki.

interdictio aquae et ignis    „bann á notkun vatns og elds“; þegar hinn ákærði í → iudicia publica flúði áður en dómurinn var felldur var hann úrskurðaður útlægur og mátti ekki lengur njóta vistar meðal samborgaranna. Ef hann snéri heim í leyfisleysi mátti hver sem var drepa hann.

interdictum                         bann; eitt af „meðulum“ ráðherravalds pretors: áður en kom til málaferla eða til að forðast þau gat praetor skipað manni að gera eða hætta að gera eitthvað í garð annars manns.

iudex                                 dómari; í málaferlum einstaklinga á milli ekki embættismaður hins opinbera heldur óbreyttur borgari menntaður í lögfræði sem falið er að dæma allt fram á tíma einveldis (dominatus).

iudex datus (pedaneus)      frá og með tímum principatus tilnefndu ríkisstjórar héraðanna sem höfðu umsjón með réttarhöldum í sínum umdæmum lægra setta embættismenn til að gegna hlutverki dómara (sjá einnig → cognitio extraordinaria).

iudicatus                            sá sem hefur verið dæmdur sekur í málaferlum.

iudicia populi                      á fyrstu öldum lýðveldisins voru málaferli vegna ákveðinna afbrota og glæpa (→ crimen publicum) borin fram til atkvæða fyrir hundraðsdeildaþingi (→ comitia centuriata) eða sveitaþingi fólksins (→ comitia tributa) [sjá → saga Rómaveldis].

iudicia privata                    einkamál; mál sem einstaklingur eða lögpersóna höfðar gegn einstaklingi eða lögpersónu til úrlausnar á réttarágreiningi um réttindi þeirra eða skyldur.

iudicia publica                    sakamál; mál sem handhafar ákæruvalds eða einstaklingur sjálfur sem varð fyrir lögbroti annars aðila höfðar til refsingar lögum samkvæmt.

legis actio (sacramento)     málaferli á grundvelli ákveðinna laga í gildi frá tímum tólftaflnalaganna allt til endaloka lýðveldisins. Þessi málaferli fóru fram munnlega og krafist var að fara í einu og öllu eftir settum orðum enda gátu hin minnstu afbrigði ónýtt málið. Í legis actio sacramento sem var ein af fimm háttum þessara fornu málaferla fékk hvor deiluaðilanna dómstjóranum í hendur fjárhæð nokkra (sacramentum) og  rann framlag þess sem tapaði málinu til ríkistrúarinnar. Legis actio málaferli voru í gildi einnig á tímum málaferla → per formulam en formlega afnumin með leges Iuliae iudiciorum publicorum et privatorum á tímum Ágústusar.

litis contestatio                   „deiluyfirlýsing“; að loknum fyrsta áfanga í málaferlum (→ in iure) staðfesti embættismaður ríkisins það sem umdeilt var meðal beggja deiluaðilanna áður en haldið var áfram frammi fyrir dómaranum (→ apud iudicem).

missio in possessionem     eitt af þeim „meðulum“ sem praetor gat notað í processum formulare; í krafti ráðherravalds síns gat dómstjórinn veitt ákærandanum umsjón með eign (allri eigninni eða að hluta til) hins ákærða til að tryggja sæmilega framkomu þess í málaferlunum sjálfum.

parricidium                         ólöglegt dráp frjáls borgara (upphaflega foreldramorð eða dráp ættingja: parricidium = patrem caedere = að drepa föður).

perduellio                           landráð.

quaestiones extraordinariae                   dómstóll, frá og með 2. öld. f.Kr., reistur af gefnu tilefni til að rannsaka sérstaka (pólitíska) glæpi → crimen publicum.

quaestiones perpetuae       frá og með 149 f.Kr. fóru málaferli afbrota og glæpa (→ crimen publicum) fram fyrir kviðdómi undir forystu dómstjórans (praetor).

relegatio                            mildasta form útlegðar; hafði engan eignamissi í för með sér, en útlaginn varð að dveljast á tilteknum stað, venjulega langt frá Rómaborg.

restitutio in integrum          eitt af þeim „meðulum“ sem praetor gat notað í processum formulare; ef annar deiluaðilinn hafði tapað miklu í málaferlum stricti iuris og varð þar með fyrir óréttlæti (t.d. ef hann var óreyndur, of ungur) gat dómstjórinn skipað að endurnýja ástandið sem fyrr ríkti áður en málsaðilarnir gerðu samning sín á milli.

sententia                           dómur; annaðhvort condemno = ég sakfelli (hinn ákærða) eða absolvo = ég leysi (hinn ákærða).

stipulationes praetoriae      eitt af þeim „meðulum“ sem praetor gat notað í processum formulare; dómstjórinn gat neytt annan málsaðilanna beggja (eða báða) til að gera → stipulatio (sjá → eignarréttur) í þeim tilgangi að tryggja sæmilega framkomu hans / þeirra í málaferlunum sjálfum.

reus                                   hinn ákærði í sakamálum,  sakborningur; í einkamálum kallast oft pars conventa = sá sem er kallaður fyrir dómstól.

About Jürgen Jamin

Priest of the Diocese of Reykjavik / Iceland. After twenty years of pastoral service in Germany and Iceland has studied and taught Canon Law and Roman Law in Venice. Returned to Iceland has been appointed parish priest of Akureyri / North Iceland on 1st September 2018. Temporary teacher of Roman Law at the University of Akureyri since 2019 and at the University of Iceland starting with the new academic year 2021/2022.

One thought on “GLOSSARIUM IURIS ROMANI – Latneskt-íslenskt Orðasafn Rómaréttar Jústiníanusar

Comments are closed.