Tag Archives: Physical abuse

Líkamlegt ofbeldi af hendi foreldra/stjúpforeldra: Eðli og afdrif mála sem vísað hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu af Barnavernd Reykjavíkur

Niðurstöður erlendra rannsókna gefa til kynna að um 20% þeirra mála sem eru rannsökuð hjá lögreglu vegna misbrests í uppeldi barna leiði til sakfellingar fyrir dómstólum (Edwards, 2019; Lindell og Svedin, 2001). Annar höfunda hefur starfað sem deildarstjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur undanfarin ár, í könnunar- og meðferðarteymi með sérstaka áherslu á börn af erlendum uppruna og ofbeldismál. Það er reynsla þess rannsakanda að erfitt geti reynst að meta hvaða mál, er varða alvarlegt ofbeldi gagnvart börnum, séu þess eðlis að rétt sé að vísa þeim til rannsóknar hjá lögreglu. Hugmynd að rannsóknarefninu og rannsóknarspurningunum spratt út frá vangaveltum rannsakandans í tengslum við ákvarðanir um hvort vísa ætti málum til rannsóknar hjá lögreglu og hvaða áhrif sú beiðni hefði á faglegt samband barnaverndarstarfsmanns og foreldra. Svo virðist vera að á Íslandi hafi aldrei áður verið rannsakað hvers eðlis þau mál eru sem hefur verið vísað í lögreglurannsókn vegna gruns um alvarlegt líkamlegt ofbeldi af hálfu foreldra og hver afdrif þeirra mála hafi verið hjá barnaverndaryfirvöldum og lögreglu.

Með þessari rannsókn var leitast við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: Hvers eðlis eru þau mál sem Barnavernd Reykjavíkur hefur vísað til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um alvarlegt líkamlegt ofbeldi gagnvart barni af hálfu foreldris? Hver hafa afdrif málanna verið hjá lögreglu og Barnavernd Reykjavíkur?

Rannsókn þessi tekur til barna sem eru einstaklingar yngri en 18 ára, samanber 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum flokkast, ásamt vanrækslu, undir misbrest í uppeldi barna og er skilgreint út frá athöfn eða athöfn og afleiðingu. Ef líkamlegt ofbeldi er skilgreint út frá athöfn getur það til að mynda verið að slá barn með flötum lófa, kýla eða sparka í barn. Þegar ofbeldið er skilgreint út frá afleiðingu getur afleiðingin til að mynda verið sýnilegur áverki á barninu (Höfundur, 2000, 2012). Í skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd kemur fram að ofbeldi gagnvart börnum sé „athöfn af hálfu foreldris eða annars aðila, sem leiðir til eða er líklegt til að leiða til skaða á þroska barns“ (Höfundur, 2012, bls. 11).

 

Fræðilegur bakgrunnur

Í barnaverndarlögum er í 1. gr. kveðið á um rétt barna til verndar og umönnunar. Þar kemur fram að börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Þar kemur einnig fram að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Í sömu lögum er einnig kveðið á um tilkynningarskyldu þeirra sem hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember 1992 og var hann lögfestur í febrúar 2013. Í 19. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013 segir að aðildarríki samningsins skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.

Í 20. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 segir að ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gagnvart barni skuli barnaverndaryfirvöld að jafnaði óska lögreglurannsóknar. Í verklagi Barna- og fjölskyldustofu varðandi grun um líkamlegt ofbeldi forsjáraðila eða heimilismanns gagnvart barni kemur fram að barnaverndaryfirvöld verði ætíð að hafa frumkvæði að því að meta hvort óska skuli eftir lögreglurannsókn vegna brots gegn barni (Barna- og fjölskyldustofa, e.d.). Í 5. mgr. 43. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er barnaverndarstarfsfólki veitt heimild til að fara á annan stað en heimili barns til að taka viðtal við barn, í einrúmi ef þörf er talin á, og án vitundar foreldra barna sem yngri eru en 12 ára þegar könnun máls fer fram.

Barnahús er rekið af Barna- og fjölskyldustofu. Í Barnahúsi eru tekin viðtöl við börn sem grunur leikur á að hafi verið beitt ofbeldi og stendur þeim börnum sem greina frá ofbeldi í viðtalinu til boða meðferð í kjölfar viðtalsins. Skýrslutökur af börnum þar sem grunur leikur á líkamlegu ofbeldi fara fram undir stjórn héraðsdómara, sem getur falið sérfræðingi Barnahúss að taka skýrslu af barninu. Markmið skýrslutökunnar er að afla eins nákvæmra upplýsinga frá barninu og unnt er um það ofbeldi sem grunur er um að barnið hafi orðið fyrir. Viðtalið fylgir ákveðinni aðferð sem er alþjóðlega viðurkennd (Barnaverndarstofa, 2017).

Í 98. og 99. gr. barnaverndarlaga er fjallað um viðurlög vegna brota á barnaverndarlögum. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er einnig kveðið á um refsiramma ofbeldisbrota, meðal annars gagnvart börnum.  Í 218. gr. b almennra hegningarlaga kemur fram að hver sá sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógni lífi, heilsu eða velferð niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Í 3. mgr. 70. gr. þeirra laga kemur fram að hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins skuli að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.

En hvaða ástæður liggja að baki beitingu líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum eða öðrum nákomnum? Vistfræðikenningu hefur verið beitt til að útskýra orsök líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum af hálfu foreldra. Belsky (1993) skýrði orsakir misbrests í uppeldi barna og þróaði kenningu sína út frá vistfræðikenningu Bronfenbrenner. Vistfræðilíkan Belsky er eins konar yfirkenning sem aðrar þrengri kenningar falla undir og hafa fjölmargir áhættuþættir fundist síðar (Höfundur, 2004; Miller-Perrin o.fl., 2021) sem passa vel inn í líkanið (Höfundur, 2004). Belsky (1993) benti á að í umhverfi hvers barns væri fjöldi af áhættuþáttum og verndandi þáttum. Þegar áhættuþættir verða umfram verndandi þætti aukast líkurnar á misbresti í uppeldi barna. Það er því engin ein skýring á orsökum ofbeldis og vanrækslu í uppeldi barna, heldur liggur ástæðan í samspili þessara þátta, verndandi og áhættuþátta. Áhættuþættir auka sem sé líkur á misbresti í aðbúnaði barna en verndandi þættir draga úr líkunum.

Áhættuþættirnir og verndandi þættirnir hafa verið greindir í fjögur svið sem tengjast einstaklingum (foreldrum, börnum), fjölskyldu, samfélagi og menningu. Dæmi um áhættuþætti eru vímuefnaneysla foreldra (foreldrar), fötlun barns (barn), ágreiningur á milli foreldra (fjölskylda), fátækt (samfélag) og að líkamlegar refsingar séu viðurkenndar sem eðlileg uppeldisaðferð í samfélaginu (menning) (Höfundur, 2005). Þættir geta bæði verið formlegir og óformlegir. Formlegir verndandi þættir eru í sumum tilfellum á vegum ríkis eða sveitarfélags og geta til að mynda verið fjárhagslegur stuðningur við barnafjölskyldur og sérstakur stuðningur við einstæða foreldra. Óformlegir verndandi þættir geta til að mynda verið stuðningur frá ættingjum og vinum (Höfundur, 2000).

Í nýlegri finnskri rannsókn kom fram að ef foreldrar greindu frá því að börn þeirra hefðu verið beitt líkamlegu ofbeldi væri líklegra að börnin glímdu við hvatvísi og sýndu truflandi hegðun en börn foreldra sem áttu börn sem höfðu ekki orðið fyrir ofbeldi. Miklar breytingar hjá fjölskyldum barnanna, óhófleg áfengisneysla foreldra og ofbeldi gagnvart fullorðnum aðilum á heimili barnsins voru allt saman áhættuþættir sem virtust tengjast líkamlegu ofbeldi gagnvart börnunum (Leppäkoski o.fl., 2021).

Í niðurstöðum sömu rannsóknar kemur fram að miklar breytingar hjá fjölskyldum barna, svo sem flutningur á milli landa, sé áhættuþáttur sem megi tengja líkamlegu ofbeldi gagnvart börnunum (Leppäkoski o.fl., 2021).

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að mikilvægt sé að huga sérstaklega að innflytjendum í barnaverndarkerfinu þar sem áfallasaga er algeng meðal innflytjenda (Hernandez-Mekonnen og Konrady, 2018) en slíkt getur verið áhættuþáttur (Miller-Perrin o.fl., 2021). Aðrar rannsóknir benda til þess að þeir innflytjendur og flóttamenn sem hefðu nýlega komið sér fyrir í öðru landi væru í ákveðnum áhættuhópi þegar kæmi að misbresti í uppeldi barna þeirra (Leppäkoski o.fl., 2021; LeBrun o.fl., 2015), vegna innflytjendastöðu sinnar og álags sem tengist henni (LeBrun o.fl., 2015). Fyrrgreindur menningarmunur virðist einnig geta haft áhrif á afstöðu til líkamlegra refsinga og ofbeldis, þar sem líkamlegar refsingar eru meira viðurkenndar í sumum menningarheimum en öðrum (LeBrun o.fl., 2015; Miller-Perrin o.fl., 2021; Pinheiro, 2006).

Talsverður munur virðist vera á afstöðu Bandaríkjamanna og Kanadamanna til líkamlegra refsinga gagnvart börnum. Rannsóknir hafa þannig sýnt að um 60% Kanadamanna telja líkamlegar refsingar skaðlegar en niðurstöður bandarískrar rannsóknar bentu til þess að 84% Bandaríkjamanna teldu að stundum væri réttlætanlegt að rassskella börn. Rannsóknir frá Kóreu og Jemen bentu til hárrar tíðni líkamlegra refsinga í þeim löndum. Niðurstöður rannsóknar sem gerð var meðal ungra Kúrda í Íran benti til hárrar tíðni ofbeldis gagnvart börnum. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 11–18 ára gamlir og sögðust 38,5% þeirra hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi á heimili sínu (Pinheiro, 2006).

En sé vikið að tíðni og eðli líkamlegs ofbeldis þá má sjá í upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu að tilkynningum um ofbeldi gagnvart börnum hafi fjölgað. Árið 2022 voru þær rétt yfir 1000. Fjölgun tilkynninga nemur rúmlega 47% frá árinu 2016 (Barna- og fjölskyldustofa, 2023, 2022). Árið 2023 bárust Barnavernd Reykjavíkur alls 358 tilkynningar er vörðuðu börn sem grunur lék á að hefðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Tilkynningum vegna líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2015, en það ár bárust alls 215 tilkynningar vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart barni. Fjölgun tilkynninga um líkamlegt ofbeldi frá árinu 2015 til ársins 2023 nemur því 40% (Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, e.d.).

Svo vikið sé að rannsóknum er varðar tíðni og eðli líkamlegs ofbeldis, þá ber fyrst að nefna íslenska rannsókn frá árinu 1994, en þar voru foreldrar spurðir hvernig þeir hefðu stjórn á börnum sínum. Mikill meirihluti svarenda sagðist aldrei beita líkamlegum refsingum, eða 93%. Þeir foreldrar sem sögðust beita þeim eitthvað sögðust gera það sjaldan. Einungis 0,5% svarenda sögðust beita líkamlegum refsingum stundum eða oftast. Þegar skoðuð voru svör foreldra án forsjár sögðust 1,7% svarenda beita líkamlegum refsingum stundum eða oftast og 1,4% einhleypra foreldra sögðust stundum eða oftast beita líkamlegum refsingum. Svarhlutfall var hátt, eða rúmlega 80%, og töldu rannsakendur að niðurstaðan væri góð spegilmynd af þjóðarheildinni (Sigrún Júlíusdóttir, o.fl., 1994).

Í íslenskri rannsókn frá árinu 2016 voru foreldrar spurðir út í ögunaraðferðir. Meirihluti foreldra sagðist nota mildar refsingar og þá uppbyggilegu aðferð að útskýra fyrir barni af hverju eitthvað væri rangt. Tæplega fimmtungur (19,4%) svarenda notað líkamlega valdbeitingu við ögun barna sinna árið áður en rannsóknin var gerð og sögðust yngri foreldrar marktækt oftar hafa beitt slíkum uppeldisaðferðum en eldri foreldrar. Flestir foreldrar sem sögðust hafa beitt líkamlegum refsingum áttu við vægar líkamlegar refsingar, svo sem að rassskella barn sitt. Nokkrir foreldrar sögðust hafa beitt börn sín alvarlegu líkamlegu ofbeldi. Fjórir sögðust hafa slegið barn sitt með einhverjum hlut á annan stað á líkama þess en á rassinn, fjórir sögðust hafa slegið barn sitt af öllum kröftum, eitt foreldri sagðist oft hafa tekið utan um háls barns síns og hert að, eitt foreldri sagðist hafa brennt barn sitt viljandi og eitt foreldri sagðist hafa ógnað barni sínu með hnífi. Svör bárust frá 617 þátttakendum en varhlutfall var lágt, einungis 24%. Niðurstöðurnar gefa því ekki tilefni til að alhæfa um þýðið en benda þó til þess að töluvert fleiri foreldrar beiti líkamlegum refsingum en opinberar tölur gefa til kynna. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að marktækt færri íslenskir foreldrar beiti líkamlegum refsingum en bandarískir foreldrar (Höfundur, 2016).

Í annarri íslenskri rannsókn frá árinu 2013 voru uppkomnir Íslendingar spurðir út í líkamlegar refsingar sem þeir hefðu verið beittir í æsku. Svarhlutfallið var 65% og má álykta að svarendur könnunarinnar endurspegli því nokkuð vel íslensku þjóðina. Tæplega helmingur (48%) svarenda hafði mátt þola líkamlegar refsingar af hálfu foreldra eða annarra umönnunaraðila. Gáfu niðurstöðurnar einnig til kynna að líkamlegar refsingar væru á undanhaldi því að þeir sem voru yngri en 30 ára voru síður líklegir til að hafa upplifað líkamlegar refsingar en þeir sem voru 30 ára og eldri. Rannsakendur töldu líklegt að aukin meðvitund og umræða um ofbeldi hefði breytt viðhorfum til líkamlegra refsinga hér á landi (Geir Gunnlaugsson og Jónína Einarsdóttir, 2013).

Þá má sjá í niðurstöðum finnskrar rannsóknar, þar sem foreldrar fjögurra ára barna svöruðu spurningalista um misbresti í uppeldi, að 14% þátttakenda sögðu að börn þeirra hefðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu foreldris. Algengast var að börnunum hefði verið gefinn selbiti, togað í hár þeirra eða þau slegin. Einungis 0,3% sögðu að börn þeirra hefðu orðið fyrir ofbeldi sem fælist í því að þau hefðu verið lamin eða sparkað hefði verið í þau (Leppäkoski o.fl., 2021).

Niðurstöður Sigrúnar Júlíusdóttur og félaga (1994) sem fjallað var um hér að framan gefa tilefni til að ætla að líkamlegar refsingar á börnum hafi verið sjaldgæfar á Íslandi. Það virðist því sem viðhorf til líkamlegra refsinga og ofbeldis gagnvart börnum séu mismunandi milli landa og menningar. Athygli vekur að ósamræmis gætir hvað varðar tvær íslenskar rannsóknir. Í rannsókn höfundar (2016) sögðust yngri foreldrar marktækt oftar hafa beitt ofbeldisfullri ögun við uppeldi barna sinni en eldri foreldrar, en niðurstöður rannsóknar Geirs Gunnlaugssonar og Jónínu Einarsdóttur (2013) bentu til þess að líkamlegar refsingar á börnum væru á undanhaldi.

Í rannsókn Steinunnar Bergmann (2010) voru greindar 189 tilkynningar sem bárust barnaverndaryfirvöldum vegna gruns um líkamlegt ofbeldi af hálfu foreldra. Grunur um að börn af erlendum uppruna væru beitt líkamlegu ofbeldi af hálfu foreldra var þrefalt oftar tilkynntur en grunur um ofbeldi gagnvart öðrum börnum. Einnig kom fram að algengara væri að ítrekaðar tilkynningar bærust er vörðuðu börn af erlendum uppruna.

Niðurstöður rannsóknar Þóru Árnadóttur (2013), sem greindi tilkynningar sem bárust Barnavernd Reykjavíkur árið 2012 um ofbeldi gagnvart börnum, sýndu að gerendur líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum voru í tæplega 50% tilvika af erlendum uppruna. Börn af erlendum uppruna voru einnig í aukinni hættu á að vera beitt líkamlegu ofbeldi.

Steinunn Bergmann (2010) greindi, eins og áður segir, 189 tilkynningar sem höfðu borist íslenskum barnaverndaryfirvöldum vegna gruns um líkamlegt ofbeldi af hálfu foreldra. Í málum fimm barna óskuðu barnaverndaryfirvöld eftir lögreglurannsókn vegna gruns um líkamlegt ofbeldi af hálfu foreldra eða í 3,7% slíkra mála sem voru tilkynnt til barnaverndaryfirvalda. Í tveimur tilfellum voru málin felld niður án ákæru. Ekki var vitað um lyktir þriggja mála sem var vísað í lögreglurannsókn. Þóra Árnadóttir (2013) greindi, eins og áður segir, 63 tilkynningar sem bárust Barnavernd Reykjavíkur árið 2012 og vörðuðu líkamlegt ofbeldi gagnvart barni af hendi foreldris. Óskuðu barnaverndaryfirvöld eftir lögreglurannsókn vegna níu tilkynninga, eða 14,3% þeirra tilkynninga sem rannsakaðar voru.

Rannsókn höfundar (2023) gekk út á að greina mál barna sem höfðu látist af völdum ofbeldis eða vanrækslu yfir 35 ára tímabil. Í ljós kom að átta börn höfðu látist af völdum líkamlegs ofbeldis. Fimm af börnunum átta börnum létust í kjölfar ofbeldis af hálfu foreldris. Greindir voru áhættuþættir gerendanna. Flestar fjölskyldurnar virtust vera tekjulágar og foreldrarnir með lágt menntunarstig. Það sem einkenndi gerendur var að þeir glímdu við ýmis vandamál, svo sem atvinnuleysi eða geðrænan vanda. Þrír af sjö gerendum voru af erlendu bergi brotnir.

Í nýlegri bandarískri rannsókn voru skoðuð gögn úr barnaverndarkerfinu. Niðurstöðurnar sýndu að í 22% þeirra mála sem voru rannsökuð hjá lögreglu vegna gruns um misbrest í uppeldi barna hafði brotið sem átti sér stað gagnvart barninu verið staðfest hjá dómstólum. Meiri líkur voru á þeirri niðurstöðu ef lögreglan átti frumkvæði að lögreglurannsókninni en ekki barnaverndaryfirvöld. Niðurstöðurnar sýndu einnig fram á að kynþáttur og uppruni barnanna hafði viss áhrif á afdrif málanna hjá lögreglu. Minni líkur voru á því að mál barnanna væru rannsökuð hjá lögreglu ef börnin voru af afrískum, frumbyggja-, asískum eða suðuramerískum uppruna en ef þetta voru bandarísk hvít börn (Edwards, 2019).

Í kanadískri rannsókn voru greind mál sem höfðu verið til rannsóknar hjá lögreglu og barnaverndaryfirvöldum vegna gruns um ofbeldi gagnvart börnum af hálfu foreldra. Niðurstöður sýndu að í þeim málum sem unnin voru hjá barnaverndaryfirvöldum og lögreglu væri alvarleiki ofbeldisbrotanna almennt meiri og í fleiri tilfellum var rökstuddur grunur um ofbeldi en í þeim málum sem einungis voru til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum. Málin sem voru til meðferðar á báðum stöðum, það er hjá lögreglu og barnaverndaryfirvöldum, voru einnig líklegri til að leiða til vistunar barna utan heimilis foreldra og til þess að lagður yrði til sértækur stuðningur fyrir foreldra. Rannsakendur lögðu áherslu á mikilvægi góðar samvinnu barnaverndaryfirvalda og lögreglu þegar málin færu til vinnslu á báðum stöðum (Tonmyr og Gonzalez, 2015).

Árin 1986–1996 fór fram talsverð umræða í Svíþjóð um aukinn fjölda rannsókna hjá lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum af hálfu foreldris eða umönnunaraðila. Í sænskri rannsókn frá árinu 2001 voru málin greind. Niðurstöðurnar sýndu fram á að 20% málanna leiddu til sakfellingar og virtust rannsóknirnar oft dragast á langinn. Atvinnuleysi, annars konar heimilisofbeldi, vímuefnaneysla og geðrænn vandi voru áhættuþættir sem voru sýnilegir meðal gerenda samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar (Lindell og Svedin, 2001). Í annarri sænskri rannsókn voru greind mál sem voru til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Af þeim 155 málum sem voru til rannsóknar var gefin út ákæra í alls 11 þeirra, eða í 7% málanna, og var gerandinn sakfelldur í níu málum. Í tveimur þessara mála kvað dómurinn á um refsingu geranda ofbeldisglæpsins. Niðurstöðurnar sýndu fram á að í málum þar sem tveir umönnunaraðilar voru grunaðir um ofbeldisbrot gagnvart barni væru auknar líkur á að gefin væri út ákæra. Rannsakendur gátu ekki fundið nein tengsl milli alvarleika ofbeldisbrotanna og sakfellingar (Otterman o.fl., 2013).

Í bandarískri rannsókn á áhrifum lögreglurannsóknar samhliða könnun barnaverndaryfirvalda í málum er vörðuðu líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum kom í ljós að allt benti til þess að þátttaka lögreglu í slíkum málum leiddi til skilvirkari könnunar málsins og þess að fjölskyldan hlyti meiri stuðning en ella (Cross o.fl., 2005).

Eins og sjá má á fyrirliggjandi rannsóknum sem hér hefur verið greint frá eru ýmsir áhættuþættir sem auka líkur á því að barn sé beitt líkamlegu ofbeldi af hálfu foreldra og/eða stjúpforeldra og tíðni og alvarleiki slíkra mála hefur verið rannsakaður að einhverju leyti hér á landi, en ekki hefur verið rannsakað hér á landi fyrr, hver afdrif slíkra mála eru hjá lögreglu og í dómskerfinu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á mál barna sem komu til rannsóknar hjá lögreglu vegna líkamlegs ofbeldis og kanna afdrif slíkra mála bæði hjá lögreglu og hjá barnaverndaryfirvöldum.

Gögn og aðferðir

Rannsókn þessi byggir á rannsóknaraðferðinni innihaldsgreiningu gagna (e. content analysis). Aðferðin getur falið í sér að umbreyta eigindlegu efni í megindleg gögn (Rubin og Babbie, 2014) með það að markmiði að draga saman og túlka innihald skráðra samskipta á kerfisbundinn hátt svo unnt sé að draga réttmætar ályktanir (Krippendorf, 2019). Þá eru gögn kóðuð og flokkuð út frá tilteknu efni sem er til rannsóknar og samkvæmt tilteknum hugmyndaramma. Úrtak rannsóknanna eru þá þau gögn sem eru til skoðunar hverju sinni. Aðferðin hentar vissum rannsóknarefnum betur en aðrar rannsóknaraðferðir. Helstu kostir rannsóknaraðferðarinnar eru að hún þarfnast hvorki mikils fjármagns né tíma. Svo lengi sem rannsakandinn hefur aðgang að því efni sem er til skoðunar er hægt að framkvæma innihaldsgreiningu. Einnig ætti að vera auðvelt að endurtaka rannsóknina og fá sömu niðurstöðu, ef þörf er á. Aðferðin getur einnig gert rannsakanda kleift að rannsaka efni út frá mismunandi tímabilum og yfir ákveðið langt tímabil. Annar kostur innihaldsgreiningar er að hún hefur engin áhrif á þann sem er verið að rannsaka, þar sem rannsóknin byggist einungis á að rýna í gögn um viðkomandi sem þegar hafa verið skráð. Innihaldsgreining gagna felur einnig í sér ókost þar sem rannsóknin takmarkast við þau gögn sem hafa þegar verið skráð. Það sem ekki var skráð við vinnslu málanna mun ekki koma fram í niðurstöðu rannsóknarinnar (Rubin og Babbie, 2014).

Rannsóknin fólst í að greina alls 113 mál barna sem vísað hafði verið til rannsóknar hjá lögreglu af hálfu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur vegna gruns um líkamlegt ofbeldi, frá árinu 2008 til ársins 2023. Við nánari greiningu gagnanna kom í ljós að málum sex barna hafði tvisvar verið vísað til rannsóknar hjá lögreglu. Í öllum þeim tilfellum var um að ræða grun um líkamlegt ofbeldi af hálfu sama geranda. Mál barnanna fóru í rannsókn hjá lögreglu og var gefin út ákæra vegna ofbeldis gagnvart einu þessara barna, þegar send hafði verið beiðni um rannsókn í annað sinn. Í niðurstöðum rannsóknarinnar verður vísað til mála alls 113 barna, þrátt fyrir að börnin sem rannsóknin tók til hefðu þannig í reynd verið alls 107 talsins. Í þeim tilfellum er um að ræða tvö mál því að málum barnanna var í öllum tilfellum lokað á milli tilvísana og svo tilkynnt að nýju og málið þá unnið sem nýtt barnaverndarmál. Upplýsingar um eðli ofbeldisins sem grunur lék á að börnin hefðu orðið fyrir var að finna í viðtölum við börnin sjálf, út frá tilkynningu um ofbeldið, upplýsingum frá foreldrum og út frá gögnum frá heilbrigðisstarfsfólki og öðrum aðilum.

Mál barnanna voru meðal annars innihaldsgreind út frá uppruna barnanna. Skilgreining erlends uppruna barnanna var að annað eða báðir foreldrar barnanna væru fæddir erlendis og væru af erlendum uppruna. Meintur gerandi ofbeldisins var skilgreindur af erlendum uppruna ef hann var fæddur erlendis og hafði komið sem innflytjandi til Íslands og/eða báðir foreldrar hans voru fæddir erlendis og voru af erlendum uppruna.

Megindlegri innihaldsgreiningu (e. quantatitative content analysis) var beitt til að svara rannsóknarspurningunum sem lagt var upp með). Rannsóknaraðferðin felur í sér að breyta eigindlegu efni í megindleg gögn og snýst um það að kóða gögn með sérstöku skráningarblaði þar sem fram kemur hvað eigi að rannsaka og skrá. Með skráningarblaðinu er leitast við að finna upplýsingar sem tengjast rannsóknarspurningunum. Þar með breyta rannsakendur því eigindlega efni sem er til rannsóknar, hér upplýsingum úr málaskrá Barnaverndar Reykjavíkur, í megindleg gögn (Rubin og Babbie, 2014).

Framkvæmd

Rannsóknin fór fram á vormánuðum 2024. Rannsakendur óskuðu eftir aðgangi að málaskrá Barnaverndar Reykjavíkur og var með ákveðinni tölvuaðgerð kölluð fram mál barna sem hafði verið vísað til lögreglu af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Með þeirri aðgerð var hægt að kalla fram mál alls 105 barna sem vísað var til rannsóknar hjá lögreglu frá 2008 til 2023. Rannsakendur voru meðvitaðir um að með þeim hætti væri þó ekki hægt að ná til allra þeirra mála sem hefði verið vísað til rannsóknar hjá lögreglu og nýttu sér því aðstoð reyndra starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur til að rifja upp mál annarra barna og komu þá upp mál átta barna til viðbótar. Ekki er hægt að útiloka að einhver mál barna í málaskránni hafi samt orðið út undan, en rannsakendur telja það ólíklegt.

Ekki lágu fyrir upplýsingar um afdrif allra málanna hjá lögreglu í málaskrá Barnaverndar Reykjavíkur og var því óskað eftir upplýsingum frá lögreglu um afdrif þeirra mála. Um var að ræða alls 25 beiðnir sem vörðuðu alls 38 börn.

Rannsakendur sóttu um leyfi til Persónuverndar, sbr. 4. gr. reglna persónuverndar nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Númer leyfisins er 2023121921/GRB. Rannsakendur tryggðu að ekki væri með neinum hætti hægt að rekja niðurstöður rannsóknarinnar til einstakra barna og fjölskyldna þeirra.

Mælitæki

Rannsóknaraðferðin, innihaldsgreining, snýst um að kóða gögn með sérstöku skráningarblaði þar sem fram kemur hvað eigi að rannsaka og skrá. Rannsakendur útbjuggu skráningarblað í alls sjö liðum sem innihélt 44 spurningar.

Áreiðanleiki rannsóknar birtist í því hvort hægt sé að fá sömu niðurstöðu ef ákveðin aðferð er endurtekin. Til að leggja mat á áreiðanleika rannsóknar hefur verið notað áreiðanleikamat (e. interrater reliability). Þá eru fleiri en einn fengnir til að meta ákveðin gögn og kannað samræmi í mati þeirra (Rubin og Babbie, 2014). Í rannsókn þessari var fenginn meistaranemi við Háskóla Íslands, sem einnig starfar sem ráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur, til að greina hluta mála þeirra 113 barna sem rannsóknin tók til. Um var að ræða 22 mál, eða tæplega 20% mála barnanna. Tilviljun réð úrtakinu sem matsmaður var fenginn til að skrá.

Niðurstöður áreiðanleikaprófsins sýndu góðan áreiðanleika að frátöldum tveimur breytum, allt frá 91%–100%. Meiri munur var á svörum matsmanns og annars rannsakanda varðandi það hvort meintur gerandi ofbeldisins hefði viðurkennt að hafa beitt barnið ofbeldi. Ósamræmi var þar 22,7%. Auk þess bar öðrum rannsakanda og matsmanni einungis að fullu saman í 45% tilvika hvað varðaði spurningu um helstu áhættuþætti sem tengdust því foreldri sem grunur lék á að hefði beitt barn ofbeldi.

Skráning og úrvinnsla gagna

Niðurstöður á skráningarblaði voru færðar inn í tölfræðiforritið SPSS þar sem hægt var að skoða ýmsar breytur, svo sem kyn, aldur, búsetu barns, uppruna, áhættuþætti og bakgrunn meints geranda, tilkynningar, tengsl geranda við barn, eðli þess ofbeldis sem grunur lék á að barnið hefði verið beitt, fyrri barnaverndarafskipti, stuðning við barn og foreldri, og afdrif málsins hjá barnaverndaryfirvöldum og hjá lögreglu.

Niðurstöður

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að á árunum 2008 til 2023 sendu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur 74 beiðnir til lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi í málum 113 barna. Af þeim börnum sem rannsóknin tók til voru 72 börn af erlendum uppruna. Algengast var að börnin hefðu verið lamin, slegin eða kýld. Fjörutíu prósent barnanna fóru í vistun á vistheimili á vegum barnaverndaryfirvalda og var úrskurðað um vistun 33% barnanna sem rannsóknin tók til. Gefin var út ákæra í málum alls 22 barna og lág fyrir niðurstaða dómstóla í málum 18 barna. Afdrif flestra mála hjá lögreglu voru með þeim hætti að rannsókn var hætt án ákæru, eða í málum alls 75 barna. Alls tíu foreldrar hlutu dóma fyrir ofbeldi og tvær mæður hlutu dóm um óskilorðsbundið fangelsi.

Fjöldi beiðna

Beiðnirnar voru alls 74 talsins, þar sem iðulega var send ein beiðni fyrir systkini. Flestar beiðnir voru sendar árið 2015, en þá sendu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur mál alls 23 barna í rannsókn til lögreglu. Um var að ræða 12 beiðnir. Árið 2010 voru fæstar beiðnir um rannsókn sendar til lögreglu, eða engin beiðni. Mynd 1 sýnir fjölda mála barna sem vísað var til rannsóknar hjá lögreglu.

Uppruni barnanna

Af þeim 107 börnum sem rannsóknin tók til voru alls 72 börn af erlendum uppruna. Börn af íslenskum uppruna voru 35 talsins. Tafla 1 sýnir fjölda og hlutfall barna af erlendum og íslenskum uppruna sem grunur lék á að hefðu verið beitt líkamlegu ofbeldi og máli því vísað til lögreglu.

Bakgrunnur meints geranda ofbeldisins

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að í flestum tilfellum var um að ræða grun um líkamlegt ofbeldi gagnvart barni af hálfu föður barnsins, eða í alls 43 tilfellum, rúmlega 38% málanna. Grunur var um ofbeldi af hálfu móður barnsins í alls 38 tilfellum, eða í tæplega 34% tilfella. Í alls fimmtán málum var grunur um að báðir foreldrar barnsins hefðu beitt það ofbeldi, eða í 14% tilfella. Í tveimur tilfellum var óljóst hver væri grunaður um að hafa beitt barnið líkamlegu ofbeldi, eða í 2% tilfella. Tafla 2 sýnir tengsl barns við meintan geranda líkamlegs ofbeldis út frá tíðni og hlutfalli.

 

Í flestum tilfellum var uppruni meints geranda erlendur, eða í rúmlega 65% tilfella. Um var að ræða mál alls 69 barna sem var vísað til rannsóknar hjá lögreglu þar sem grunur lék á að gerandi ofbeldisins væri af erlendum uppruna. Tafla 3 sýnir uppruna þess sem var grunaður um ofbeldi gagnvart barninu.

Eðli ofbeldisins

Algengastur var grunur um að börnin hefðu verið lamin, slegin eða kýld. Grunur var um slíkt ofbeldi í málum 64 barna. Grunur lék á að alls 34 börn hefðu verið slegin með einhverju, svo sem priki eða belti. Í einu tilfelli lék grunur á að barn hefði verið slegið með stálröri. Í máli 21 barns lék grunur á að þrengt hefði verið að öndunarvegi með ofbeldisfullum hætti. Í flestum tilfellum var um fleiri en eina birtingarmynd líkamlegs ofbeldis að ræða. Mynd 2 sýnir eðli þess ofbeldis sem grunur lék á að börnin hefðu verið beitt.

 

Í málum alls 24 barna lék grunur á að þau hefðu orðið fyrir öðru ofbeldi en greint er frá á mynd 2. Má þar nefna grun um að togað hefði verið í eyru barna og/eða snúið upp á þau. Í einu máli var snúið upp á handlegg barns. Dæmi var um grun um að rúða hefði verið brotin á höfði barns, heitu vatni hefði verið hellt yfir barn, barn hefði verið skallað, barn hefði verið dregið eftir gólfi, hrækt hefði verið á barn og að fætur barns hefðu verið festir saman með límbandi.

Í málum alls 15 barna lék grunur á að þau hefðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi en ekki lá fyrir hvers eðlis líkamlega ofbeldið var. Átti það við í málum nokkurra ungra barna sem voru með áverka en gátu ekki tjáð sig um það ofbeldi sem grunur lék á að þau hefðu orðið fyrir. Í fjórum málum voru börn með óútskýrð beinbrot sem talin voru tilkomin í kjölfar líkamlegs ofbeldis gagnvart þeim af hálfu foreldra. Börnin voru öll á fyrsta eða öðru ári.

Í málum alls 34 barna, eða 30% barnanna, voru áverkar sem grunur lék á að þau hefðu hlotið við líkamlegt ofbeldi. Í málum alls 49 barna, eða 43% barnanna, var óskað eftir læknisskoðun vegna hugsanlegra ofbeldisáverka. Virðist því sem starfsmenn barnaverndar hafi í alls 15 málum (13%) óskað eftir læknisskoðun á barni til þess að kanna hvort áverkar væru á barninu, án þess að þá hefði verið að finna.

Viðtöl við börn og skýrslutökur

Tekin voru viðtöl við alls 76 börn í aðdraganda þess að send var tilvísun til lögreglu um rannsókn vegna gruns um líkamlegt ofbeldi, eða alls 67% barnanna. Ekki voru tekin viðtöl við 37 börn og voru flest þeirra, eða alls 26 (70%), fjögurra ára gömul eða yngri. Virðast þessi 70% ekki hafa haft þroska til að ræða við barnaverndarstarfsmann um meint ofbeldi sökum ungs aldurs. Af þeim 76 börnum sem fóru í viðtöl hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur fóru 40 í viðtal án vitneskju og samþykkis forsjáraðila. Um var að ræða rúmlega 50% þeirra barna sem tekin voru viðtöl við. Af þeim 76 börnum sem fóru í viðtal greindu alls 63 frá ofbeldi af hálfu foreldris/foreldra, eða 83% barnanna sem rætt var við.

Alls 69 börn, eða 61% barnanna sem áttu mál hjá Barnavernd Reykjavíkur sem vísað var til lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart þeim, fóru í skýrslutöku. Alls 56 börn fóru í skýrslutöku í Barnahúsi en 13 börn fóru í skýrslutöku á vegum lögreglu á öðrum stað, svo sem á lögreglustöð eða í héraðsdómi.

Alls 36 börn sem fóru í skýrslutöku, hvort sem það var í Barnahúsi eða á öðrum stað, greindu frá því að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, eða 52% þeirra barna sem fóru í skýrslutöku.

Meðalbiðtími eftir skýrslutöku í Barnahúsi var mun lengri en meðalbiðtími eftir skýrslutöku hjá lögreglu á öðrum stað. Meðalbiðtími eftir skýrslutöku í Barnahúsi var 41 dagur en meðalbiðtími eftir skýrslutöku á vegum lögreglu á öðrum stað var 18 dagar. Eitt barn beið í alls 248 daga eftir skýrslutöku í Barnahúsi.

Afdrif málanna hjá barnavernd

Fjörutíu prósent þeirra barna sem rannsóknin tók til fóru í vistun á vistheimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og 16% fóru í vistun til ættingja eða vina á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga. Rúmlega 28% barnanna fóru í fóstur sem breyttist í varanlegt fóstur hjá 22% barnanna. Tafla 4 sýnir fjölda barna sem fóru í vistun utan heimilis í kjölfar þess að send var tilvísun um rannsókn til lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart þeim af hálfu foreldris/foreldra. Úrskurðað var um vistun 37 barna eða 33% þeirra barna sem rannsóknin tók til.

Málum 91 barns hafði verið lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur þegar rannsóknin fór fram eða málum 80% barnanna sem rannsóknin tók til. Alls 22 mál voru enn í vinnslu og voru flest þeirra mál barna sem fóru í varanlegt fóstur, en það voru 19 börn.

Af þeim börnum sem áttu mál sem hafði verið lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur var 51 búsett hjá foreldri sem grunur lék á að hefði beitt barnið líkamlegu ofbeldi þegar málinu var lokað, eða 45% málanna sem rannsóknin tók til. Mynd 3 sýnir búsetu barnanna sem rannsóknin tók til við lokun máls þeirra hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Þau 51 börn sem búsett voru hjá foreldri sem grunað var um líkamlegt ofbeldi gagnvart barninu þegar málinu var lokað hjá barnavernd voru skoðuð nánar. Gengið hafði verið frá áætlun um meðferð máls í málum 82% barnanna. Í flestum tilfellum hafði verið kveðið á um stuðning og meðferð fyrir barnið, leiðbeiningar til foreldra um uppeldi og aðbúnað og/eða meðferð fyrir foreldra barnanna. Tafla 5 sýnir úrræði og afdrif mála þessa hóps og fjölda og hlutfall barna sem nutu hvers úrræðis.

Afdrif málanna hjá lögreglu og dómstólum

Lögreglan hóf rannsókn í málum 110 barna, eða í 97% málanna. Í máli eins barns sá lögregla ekki ástæðu til að hefja rannsókn og í málum tveggja barna kom í ljós, þegar óskað var eftir upplýsingum frá lögreglu, að beiðni Barnaverndar Reykjavíkur barst aldrei lögreglu, án þess að nokkur skýring lægi þar að baki. Af þeim 113 málum sem var vísað til rannsóknar hjá lögreglu var gefin út ákæra í málum alls 18 barna, eða í málum tæplega 16% barnanna. Búið var að gefa út ákæru í málum alls fjögurra barna til viðbótar þegar rannsóknin fór fram og var beðið eftir niðurstöðu dómstóla, eða í 3,5% málanna. Rannsókn lögreglu var enn í gangi í málum alls fimm barna (4,4%). Mál alls átta barna lauk með frestun ákæru á grundvelli almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða í 7% málanna. Afdrif flestra mála hjá lögreglu voru með þeim hætti að rannsókn var hætt án ákæru, eða í málum alls 75 barna. Um var að ræða 66% þeirra tilvísana sem sendar voru til lögreglu. Mynd 4 sýnir afdrif málanna hjá lögreglu.

Eins og fram hefur komið var gefin út ákæra í málum alls 22 barna. Niðurstaða dómstóla lá fyrir í málum 18 þeirra þegar rannsóknin fór fram. Um var að ræða alls 13 tilvísanir í rannsókn hjá lögreglu sem fóru í ákæruferli af þeim 74 tilvísunum sem starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur sendu til lögreglu, eða 17%. Fjórar beiðnir vörðuðu tvö til fimm börn sem voru systkini. Gerendur ofbeldisins voru því 13 en niðurstaða dómstóla lá ekki fyrir hjá tveimur þeirra. Af þeim beiðnum þar sem niðurstaða dómstóla lá fyrir hlutu alls tíu gerendur líkamlegs ofbeldis gagnvart barni dóma. Eitt foreldrið var sýknað af ákæru um ofbeldi gagnvart barni.

Þegar skoðaður er hópur þeirra tíu foreldra sem hlutu dóma fyrir ofbeldi gagnvart barni sýna niðurstöðurnar að um var að ræða sjö mæður, tvo feður og eitt stjúpforeldri. Alls voru sex gerendur (60%) af íslenskum uppruna og fjórir (40%) af erlendum uppruna. Ástæða þótti til að kanna hvort marktækur munur væri varðandi þær breytur sem sneru að uppruna geranda og tengslum geranda við barn þegar kæmi að því hvort foreldrið hefði verið sakfellt fyrir ofbeldið. Hlutfallslega fleiri foreldrar (24%) af íslenskum uppruna en erlendum (9,3%) voru sakfelldir en sá munur reyndist ekki vera marktækur, z = 1,650, tvíhliða p = 0,099. Hlutfallslega fleiri líffræðilegir foreldrar (15,8%) voru sakfelldir  en stjúpforeldrar eða kærustur/kærastar (10,0%), en sá munur reyndist ekki marktækur heldur, z = 0,474, tvíhliða p = 0,636. Ástæða þess liggur sennilega í smæð hópanna, þar sem einungis 10 foreldrar voru sakfelldir fyrir ofbeldi gagnvart börnum sínum. Mynd 5 sýnir eðli ofbeldisins sem virðist hafa átt sér stað í þeim málum þar sem foreldrar hlutu dóm fyrir ofbeldi gagnvart börnum sínum. Eins og sjá má á myndinni var algengast að börn í slíkum málum hefðu verið slegin, lamin eða kýld en þar á eftir var algengast að þeim hefði verið hrint eða hent til og að þrengt hefði verið að öndunarvegi þeirra.

Skoðaður var hópur þeirra 17 barna sem áttu foreldri sem var sakfellt fyrir ofbeldi gagnvart þeim. Um var að ræða sjö stúlkur og tíu drengi, og voru því 41% barnanna stúlkur og 59% drengir. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur höfðu tekið viðtöl við 12 börn af þeim 17 sem áttu foreldra sem hlutu dóma, eða 71% barnanna. Alls tíu börn af 12 greindu frá ofbeldi í viðtali við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur, eða 83%. Alls 12 börn af 17 virtust hafa hlotið áverka í kjölfar ofbeldisins, eða 75% barnanna. Í málum 14 (82%) barna höfðu borist tilkynningar varðandi þau til Barnaverndar Reykjavíkur áður en tilkynning barst um líkamlegt ofbeldi sem varð til þess að máli barnsins var vísað til rannsóknar hjá lögreglu. Níu af þeim 17 börnum sem áttu foreldri sem var sakfellt fyrir ofbeldi fóru í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs í kjölfar þess að málum þeirra var vísað til rannsóknar hjá lögreglu, eða 53% barnanna. Mynd 6 sýnir afdrif mála þeirra barna sem áttu foreldra sem fengu dóm fyrir ofbeldi sem þeir beittu börnin.

Niðurstaða dómstóla

Eins og fram hefur komið voru alls tíu foreldrar sakfelldir fyrir ofbeldi sem þeir beittu barn sitt. Eitt foreldri hlaut sýknudóm. Alls sjö dómar kváðu á um skilorðsbundna refsingu. Tveir foreldrar voru dæmdir til fangelsisrefsingar, annars vegar 18 mánaða langrar vistunar í fangelsi og hins vegar fangelsisvistunar í tvö ár. Um var að ræða mæður, önnur var af erlendum uppruna og hin af íslenskum uppruna. Sjö foreldrar fengu dóm um skilorðsbundna refsivist og voru fjórir foreldrar dæmdir til að greiða fórnarlömbum sínum bætur. Niðurstaða dómstóla varðandi eitt foreldrið fannst ekki, hvorki í gögnum í málaskrá Barnaverndar Reykjavíkur, hjá lögreglu né á vefsíðum dómstóla. Upplýsingar fengust hjá lögreglu um að foreldrið hefði verið sakfellt en engar upplýsingar lágu þar fyrir um hver hefði verið niðurstaða dómsins. Mynd 7 sýnir niðurstöður dóma sem féllu í kjölfar þess að málum barna var vísað til rannsóknar hjá lögreglu.

Samantekt og niðurlag

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi á undanförnum árum sent mun færri mál til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi en áður. Þrátt fyrir það hefur tilkynningum vegna líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2015. Draga má þá ályktun að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur sendi einungis tilvísanir til lögreglu varðandi allra alvarlegustu málin sem varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum, enda kemur fram í reglugerð um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 að starfsmenn barnaverndar skuli að jafnaði óska rannsóknar lögreglu ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gagnvart barni. Það er í samræmi við niðurstöður kanadískrar rannsóknar sem sýndu að þegar mál barna hlytu meðferð hjá barnavernd og lögreglu væri alvarleiki ofbeldisbrotanna almennt meiri en annars (Tonmyr og Gonzalez, 2015).

Hugsanlegar skýringar á fækkun tilvísana til lögreglu, þrátt fyrir mikla fjölgun tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur um líkamlegt ofbeldi, gætu falist í því að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur séu orðnir vel þjálfaðir í að sinna málum þar sem grunur leikur á líkamlegu ofbeldi, enda hefur málunum fjölgað verulega á undanförnum árum. Hugsanlega telja starfsmenn, með auknum fjölda mála, að það þjóni sjaldnast tilgangi varðandi frekari vinnslu mála og með hagsmuni barnsins í huga að málum sé vísað til lögreglu, enda fara afar fá mál í ákæruferli. Veruleg fjölgun ofbeldismála hjá Barnavernd Reykjavíkur kann því að hafa leitt til þess að starfsmenn meti alvarleika ofbeldismála með öðrum hætti nú en áður. Mál sem voru talin afar alvarleg ofbeldismál árið 2015 þykja ef til vill ekki eins alvarleg nú í ljósi mikillar fjölgunar mála er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart barni.

Líklegt verður að teljast að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi einungis sent tilvísanir til lögreglu varðandi allra alvarlegustu málin sem varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Í flestum tilfellum var grunur um að barn hefði verið slegið, lamið eða kýlt. Ef til vill má einnig draga þá ályktun að fleiri alvarlegar tilkynningar hafi borist vegna barna af erlendum uppruna en vegna barna af íslenskum uppruna, þar sem niðurstöður rannsóknar þessarar sýna að hlutfall mála barna af erlendum uppruna sem vísað er til rannsóknar hjá lögreglu er verulega hátt.

Hlutfall barna af erlendum uppruna sem rannsóknin tók til var 67% og því mun hærra en hlutfall barna af erlendum uppruna sem búa hér á landi, þrátt fyrir að börnum af erlendum uppruna hafi fjölgað mikið á undanförnum árum (Hagstofa Íslands, e.d.). Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður fyrri íslenskrar rannsókna (Steinunn Bergmann, 2010; Þóra Árnadóttir, 2013).

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að flutningur á milli landa sé áhættuþáttur sem auki líkur á líkamlegu ofbeldi gagnvart börnum og öðrum misbresti í uppeldi barna (Leppäkoski o.fl., 2021; LeBrun o.fl., 2015). Það er í samræmi við áðurnefnda vistfræðikenningu, sem hefur verið beitt til að útskýra orsök líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum af hálfu foreldra (Belsky, 1993; Höfundur, 2005). Bent hefur verið á mikilvægi þess að huga sérstaklega að innflytjendum í barnaverndarkerfinu (Hernandez-Mekonnen og Konrady, 2018) í ljósi þess að menningarleg gildi geta ýtt undir líkamlegar refsingar og líkamlegt ofbeldi (LeBrun o.fl., 2015; Miller-Perrin o.fl., 2021; Pinheiro, 2006).

Athyglisvert er að einungis rúmlega helmingur (52%) þeirra barna sem fóru í skýrslutöku greindu frá líkamlegu ofbeldi gagnvart sér í skýrslutökunni. Til samanburðar greindu 83% barnanna sem rannsóknin tók til frá ofbeldi í viðtali við barnaverndarstarfsmann. Líklegt verður að teljast að frásagnir barnanna af ofbeldi hafi vegið þungt þegar barnaverndarstarfsmenn tóku ákvörðun um að vísa máli viðkomandi barna til rannsóknar hjá lögreglu.

Meðalbiðtími eftir skýrslutöku í Barnahúsi var 41 dagur. Þessi langi biðtími gæti haft áhrif á frásagnir þeirra barna sem fara í skýrslutöku, meðal annars er hætta á að þeir sem standa barninu nærri geti haft áhrif á frásagnir þess af ofbeldinu. Auk þess verður 41 dagur að teljast langur tími í lífi barna sem geta átt til að gleyma því sem þau hafa gengið í gegnum. Auðvelt getur einnig verið að nota frjótt ímyndunarafl barna til að breyta afstöðu þeirra til ákveðinna atriða og upplifunar þeirra.

Eftir skýrslutöku stendur börnum til boða sérhæfð meðferð í Barnahúsi (Barnaverndarstofa, 2017). Þegar börn þurfa að bíða lengi eftir skýrslutöku dregst einnig að þeim sé veitt viðeigandi sérhæfð meðferð. Það getur varla talist ásættanlegt að börn sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi þurfi í sumum tilfellum að bíða langan tíma eftir meðferð vegna þess ofbeldis sem þau hafa orðið fyrir.

Alls 51 barn, eða rúmlega 45% þeirra barna sem áttu mál hjá Barnavernd Reykjavíkur sem vísað var til rannsóknar hjá lögreglu, voru í umsjá þess foreldris sem grunur lék á að hefði beitt þau ofbeldi þegar málum þeirra var lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur. Niðurstöðurnar gefa þó ekki til kynna að börnin hafi öll búið við óbreyttar aðstæður þegar málum þeirra var lokað þótt þau væru í umsjá foreldris sem var grunað um ofbeldi gagnvart þeim. Flestir þeirra foreldra, eða 82%, höfðu fengið stuðning á grundvelli barnaverndarlaga, svo sem leiðbeiningar um uppeldi og aðbúnað barna og/eða hlotið einhvers konar meðferð. Því má draga þá ályktun að starfsmenn barnaverndar hafi að einhverju leyti getað unnið með foreldrum að því að bæta aðstæður barnanna í umsjá foreldra. Því má velta fyrir sér hvort það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma og hagsmunum barnanna fyrir bestu að vísa málum þeirra til lögreglu þar sem svo virtist sem að einhverju leyti hefði verið hægt að vinna með foreldrinu að því að bæta vandann. Ætla má að tilvísun til lögreglu geti haft neikvæð áhrif á vilja foreldra til samstarfs við barnaverndarstarfsmenn og því þjónar slík tilvísun kannski ekki miklum tilgangi fyrir barnið ef grundvöllur er fyrir samvinnu við foreldrið um að bæta aðstæður barnsins í umsjá foreldrisins, sérstaklega þegar horft er til þess hve fá mál hljóta meðferð fyrir dómstólum. Tilvísun barnaverndarstarfsmanna til lögreglu samkvæmt 20. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er að vissu leyti háð ákveðnu mati barnaverndarstarfsmannsins. Þegar um er að ræða mjög alvarlegt ofbeldi gagnvart barni og/eða þegar reynt hefur verið að vinna með foreldrum að bæta aðstæður barnsins án viðunandi árangurs, þar sem þeir hafa ekki verið nægilega samvinnuþýðir, telja rannsakendur þó afar mikilvægt að málum barnanna sé vísað til rannsóknar hjá lögreglu.

Það að einungis hafi verið gefin út ákæra í 22 af þeim 113 málum sem vörðuðu alvarlegt líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum og litin voru alvarlegum augum hjá Barnavernd Reykjavíkur, verður að teljast umhugsunarvert og óviðunandi. Um er að ræða rúmlega 19% þeirra mála sem vísað var til rannsóknar hjá lögreglu. Það er í samræmi við niðurstöður sænskra rannsókna sem sýndu fram á að 20% þeirra mála sem voru rannsökuð hjá lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum leiddu til sakfellingar (Lindell og Svedin, 2001).

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að einungis tæplega 12% meintra gerenda ofbeldis gagnvart börnum hlutu dóma fyrir ofbeldið og einungis tveir gerendur hlutu fangelsisdóma. Niðurstöðurnar eru í nokkru samræmi við aðra sænska rannsókn, þar sem greind voru mál sem voru til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Sýndu niðurstöður rannsóknarinnar fram á að gefin hefði verið út ákæra í alls 7% málanna og var gerandinn sakfelldur í 6% þeirra. Í tveimur þessara mála, af 155 málum, kvað dómurinn á um refsingu geranda ofbeldisglæpsins (Otterman o.fl., 2013).

Afdrif málanna sem vísað hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu af hálfu barnaverndarstarfsmanna kunna að hafa ráðið einhverju um það að dregið hefur verulega úr því að barnaverndarstarfsmenn vísi málum til rannsóknar hjá lögreglu. Barnaverndarstarfsmenn hljóta að velta því fyrir sér hver sé tilgangur þess að málum sé vísað til lögreglu þegar svo fá mál fara í ákæruferli.

Eins og þegar hefur komið fram voru helstu annmarkar þessarar rannsóknar þeir að unnið var úr fyrirliggjandi gögnum sem ekki voru gerð sem rannsóknargögn og því takmörkuð við það sem var skráð í þeim (Rubin og Babbie, 2014). Höfundar binda þó vonir við að niðurstöður rannsóknarinnar eigi eftir að nýtast þeim sem fara með ákæru- og dómsvald í landinu og að gengið verði í úrbætur í málaflokknum. Mikilvægt er að börn þurfi ekki að bíða lengi eftir skýrslutöku vegna ofbeldis sem grunur leikur á að þau hafi verið beitt, bæði svo hægt sé að fá sem nákvæmastar upplýsingar um málið og eins til að hægt verði að útvega þeim viðeigandi meðferð og stuðning. Líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum getur haft verulegar afleiðingar fyrir vitsmunastarf þeirra, líðan, hegðun og félagslega stöðu. Til lengri tíma geta afleiðingar líkamlegs ofbeldis birst í andfélagslegri hegðun, vímuefnaneyslu, tilfinninga- og heilsufarsvanda, svo sem þunglyndi og sjálfsvígshugsunum, kvíða og offitu svo eitthvað sé nefnt (Miller-Perrin o.fl., 2021; Pinheiro, 2006). Þegar þessi börn vaxa úr grasi og líta til baka má búast við að þau velti því fyrir sér hvort sú meðferð sem þau hlutu sem börn hafi ekki verið litin alvarlegum augum hjá ákæruvaldinu og dómskerfinu og þá jafnvel einnig hvort ofbeldið hafi verið réttlætanlegt. Það er afar mikilvægt að börnum séu ekki gefin slík skilaboð sem gætu valdið enn alvarlegri afleiðingum  ofbeldisins og orðið þung byrði fyrir börnin á fullorðinsárum.

Höfundar binda jafnframt vonir við að niðurstöður rannsóknarinnar muni aðstoða barnaverndarstarfsmenn landsins þegar kemur að því að meta hvort vísa eigi málum til rannsóknar hjá lögreglu. Höfundar telja jafnframt afar mikilvægt að starfsmenn barnaverndarþjónusta landsins haldi áfram að vísa málum sem varða alvarleg refsiverð brot gagnvart börnum til rannsóknar hjá lögreglu, þrátt fyrir að fæst þeirra fái umfjöllun hjá dómstólum. Um er að ræða brot sem eru ólögleg og refsiverð. Slík brot geta haft veruleg áhrif á líf og framtíð þeirra barna sem fyrir þeim verða.

 

Heimildaskrá

 Almenn hegningarlög nr. 19/1940.

Barna- og fjölskyldustofa. (2022). Samanburður á úrræðum og umsóknum um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2018 – 2021. https://www.bofs.is/media/almenningur/Samanburdur-allt-arid-2019-2020-2021-tilkynningar-januar-2022.pdf.

Barna- og fjölskyldustofa. (2023). Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2020 – 2022. https://www.bofs.is/media/samanburdarskyrslur/Samanburdur-allt-arid-2020-2021-2022-tilkynningar.pdf.

Barna- og fjölskyldustofa. (e.d.). Verklag við könnun mála þegar grunur leikur á líkamlegu ofbeldi gagnvart barni. https://www.bofs.is/media/skjol/file916.pdf.

Barnaverndarlög nr. 80/2002.

Barnaverndarstofa. (2017). Ársskýrsla 2014-2105. https://www.bofs.is/media/arsskyrslur/ARSSKYRSLA-2014-2015-LOKAEINTAK.pdf.

Belsky, J. (1993). Etiology of child maltreatment: a developmental-ecological analysis. Psychological Bulletin, 114 (3), 413-434. https://doi.org/10.1037/0033-2909.114.3.413.

Cross, T. P., Finkelhor, D. og Ormrod, R. (2005). Police involvement in child protective service investigations: literature review and secondary data analysis. Child Maltreatment, 10(3), 224-244. https://doi.org/10.1177/10775595052745.

Edwards, F. (2019). Family surveillance: police and the reporting of child abuse. The Russell Sage Foundation Journal of the Social Sciences, 5 (1), 50-70. https://doi.org/10.7758/rsf.2019.5.1.03.

Geir Gunnlaugsson og Jónína Einarsdóttir. (2013). Reynsla fullorðinna Íslendinga af líkamlegum refsingum og ofbeldi í æsku. Læknablaðið 99 (5), 235–239. https:// doi:10.17992/lbl.2013.05.496.

Hagstofa Íslands. (e.d.). Mannfjöldi eftir bakgrunni, kyni og aldri 1996-2023. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__3_bakgrunnur__Uppruni/MAN43000.px/?rxid=86db0193-6d23-4153-89f4-4d090382884f.

Hernandez-Mekonnen, R. og Konrady, D. (2018). Exploring the needs of children and families who are immigrants and involved in child welfare: Using a title IV-E learning community model. Child Welfare 96 (6), 47–67. https://www.proquest.com/docview/2264890896/fulltextPDF/C8EB25842DE54EB8PQ/1?accountid=27513&sourcetype=Scholarly%20Journals.

Krippendorf, K. (2019). Content analysis: An introduction to its methodology (4. útgáfa). Sage.

LeBrun, A., Hassan, G., Boivin, M., Fraser, S-L, Dufour, S. og Lavergne, C. (2015). Review of child maltreatment in immigrant and refugee families. Canadian Journal of Public Health 106, 45–56. https://doi: 10.17269/CJPH.106.4838.

Leppäkoski, T., Vuorenmaa, M. og Paavilainen, E. (2021). Psychological and physical abuse towards four-year-old children as reported by their parents: A national Finnish survey. Child Abuse & Neglect 118. https://doi.org/10.1016/j.chiabu.2021.105127.

Lindell, C. og Svedin, C. G. (2001). Physical child abuse in Sweden: A study of police reports between 1986 and 1996. Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology 36 (3), 150–157. https://doi:10.1007/s001270050304.

Lög um samning sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013.

Miller-Perrin, C. L., Perrin, R. D. og Renzetti, C. M. (2021). Violence and maltreatment in intimate relationships (2. útgáfa). Sage.

Otterman, G., Lainpelto, K. og Lindblad, F. (2013). Factors influencing the prosecution of child physical abuse cases in a Swedish metropolitan area. Acta Paediatrica 102 (12), 1199–1203. https://doi.org/10.1111/apa.12399.

Pinheiro, P. S. (2006). World report on violence against children. Geneva: United nation. https://violenceagainstchildren.un.org/sites/violenceagainstchildren.un.org/files/document_files/world_report_on_violence_against_children.pdf.

Reglugerð um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004.

Reglur Persónuverndar um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga nr. 811/2019.

Rubin, A. og Babbie, E. (2014). Research methods for social work: International edition  (8. útgáfa). Brooks/Cole, Cengage Learning.

Sigrún Júlíusdóttir (ritstj.), Friðrik H. Jónsson, Nanna K. Sigurðardóttir og Sigurður J. Grétarsson. (1994). Barnafjölskyldur: Samfélag, lífsgildi, mótun: Rannsókn á högum foreldra og barna á Íslandi. Landsnefnd um Ár fjölskyldunnar 1994 og Félagsmálaráðuneytið.

Steinunn Bergmann. (2010.) Börnum straffað með hendi og vendi: Barnaverndartilkynningar er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2008–2011. Barnaverndarstofa.

Tonmyr, L. og Gonzalez, A. (2015). Correlates of joint child protection and police child sexual abuse investigation: Results from the Canadian incidence study of reported child abuse and neglect 2008. Health Promotion and Chronic Disease Prevention in Canada, 35(8/9). https://doi.org/10.24095/hpcdp.35.8/9.03.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. (e.d.). Ástæður tilkynninga á grundvelli barnaverndarlaga (sbr. 16., 17., og 18. gr.). Fjöldi tilkynninga skipting eftir kyni. https://velstat.reykjavik.is/PxWeb/pxweb/is/VELSTAT/VELSTAT__100.%20Manadarleg%20tolfraedi__07.%20Barnavernd%20Reykjavikur/VST07002.px/.

Þóra Árnadóttir. (2013). Barnaverndartilkynningar sem fela í sér líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum og ofbeldi sem börn verða vitni að. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/16929.

 

Héraðsdómar

Hd. Reykjavíkur 9. október 2009 (S-824/2009)

Hd. Reykjavíkur 16. júlí 2010 (S-358/2010)

Hd. Reykjavíkur 13. október 2015 (S-504/2015)

Hd. Reykjavíkur 27. september 2016 (S-373/2016)

Hd. Reykjavíkur 8. febrúar 2017 (S-739/2016)

Hd. Reykjavíkur dagsetning ekki þekkt (S-3/2017)

Hd. Reykjavíkur 31. október 2017 (S-291/2017)

Hd. Reykjavíkur 21. september 2017 (S-450/2017)

Hd. Reykjavíkur 11. apríl 2019 (S-65/2019)

 

Landsréttardómar

Landsréttur 1. október  (511/2020)

Landsréttur 4. júní 2021 126/2020