Ágúst Þór Árnason skipar sérstakan sess við lagadeild Háskólans á Akureyri en hann lést fyrir aldur fram vorið 2019 eftir skamvinn veikindi. Hann var í hópi þeirra sem komu fyrst að laganámi við skólann en það hófst árið 2003. Í því fólst brautryðjendastarf sem krafðist bæði þrautseigju og eldmóðs. Og af hvoru tveggja hafði Ágúst Þór nóg. Hann hafði alla tíð brennandi áhuga á lögfræði, einkum og sér í lagi réttarheimspeki og stjórnskipunarrétti og hafði dvalið langdvölum í Þýskalandi við nám m.a. í heimspeki, lögfræði og stjórnmálafræði. Þýskaland stóð honum ávallt nærri en hann fylgdist daglega með þjóðmálaumræðu þar í landi með lestri helstu blaða.
Ágúst Þór kom víða við á sinni starfsævi og honum var einkar lagið að ryðja nýjar brautir. Til að mynda vann hann ásamt fleirum ötullega að því að koma á fót Mannréttindaskrifstofu Íslands á 10. áratugnum og síðar Reykjavíkurakademíunni. Seinna, eða upp úr aldamótum, fluttist hann til Akureyrar til starfa við Háskólann. Þegar norður var komið tók við að skipuleggja BA-nám við nýstofnaða lagadeild en fyrstu nemendurnir innrituðust í hana árið 2003. Ágúst Þór hafði skýra sýn á hvernig það skyldi gert. Mikilvægt væri að nemendur öðluðust góðan fræðilegan grunn í lögfræði strax í BA-námi og af þeim sökum eru kennd námskeið við lagadeild HA eins og rómarréttur, evrópsk réttarsaga, og samanburðaréttur auk þess sem rík áhersla var og er lögð á kennilega lögfræði. Þá var hann ötull talsmaður heimskautaréttar og vann, ásamt fleirum, að því að koma meistaranámi í heimskautarétti á laggirnar við lagadeildina sem var nýjung á þeim tíma á heimsvísu og er ekki kenndur við aðra skóla. Á þeim tíma var hugtakið heimskautaréttur óþekkt en hefur öðlast sess í fræðaheiminum. Til marks um framlag Ágústs Þórs til heimskautaréttar, hefst fyrsti kafli handbókar Routledge um heimskautarétt, The Routledge Handbook of Polar Law (2023) um sögu og stöðu heimskautaréttar á því að nefna hann á nafn.
Þeir sem kynntust Ágústi Þór áttuðu sig fljótt á því að fáir stóðust honum snúning þegar kom að því að byggja upp tengslanet og viðhalda því. Þar var hann eins og fiskur í vatni. Þessa hæfileika nýtti hann til góðra verka en hann var óþreytandi að fá fræðimenn til Akureyrar til að kenna, halda fyrirlestra eða tala á ráðstefnum og styrkja um leið laganám við skólann. Fræg eru lögfræðitorgin en þeim hélt hann úti einu sinni í viku á veturna með aðdáunarverðri þrautseigju en hann skipulagði ófáar ráðstefnur, málþing og aðra viðburði, m.a. hin frægu „heimspekikaffi“ á Bláu könnunni. Það má því með sanni segja að Ágúst Þór hafi látið til sín taka í samfélaginu. Ein síðasta ráðstefnan sem hann stóð að ásamt fleirum var alþjóðleg og haldin haustið 2016 í Háskólanum á Akureyri um stjórnarskrármál. Þar voru tillögur þáverandi stjórnarmeirihluta til breytinga á stjórnarskránni helsta umræðuefnið. Meðal fyrirlesara voru virtir íslenskir og erlendir fræðimenn, margir aldagamlir vinir hans, auk ráðherra og forseta Íslands. Þá sá maður hversu mikillar virðingar hann naut í sínum hópi fyrir framlag sitt til stjórnskipunarfræða.
Raunar hafa fáir látið sig stjórnarskrármál meira varða en Ágúst Þór gerði. Hann var m.a. kjörinn til setu í stjórnlaganefnd en nefndin skilaði af sér viðamikilli skýrslu í tveimur bindum árið 2011 þar sem var að finna hugmyndir nefndarinnar um breytingar á stjórnarskrá auk annars. Þá lagði hann árið 2012 ásamt Skúla Magnússyni, þá dósent við lagadeild Háskóla Íslands, fram heildstæða úttekt á frumvarpi stjórnlagaráðs til Alþingis í janúar 2012, og tók þátt í opinberri umræðu um málefni tengd stjórnarskrá. Í minningargrein sem Skúli skrifaði um Ágúst Þór vin sinn er sýn hans á stjórnskipunarfræðin þannig lýst: „Sem stjórnskipunarfræðingur hafði Ágúst djúpan skilning á því að stjórnarskrá verður hvorki smættuð niður í texta né lagareglur heldur er hún einnig grundvöllur félagslegs veruleika, framkvæmdar og sameiginlegrar reynslu þjóðar og þarf að vera rökrétt framhald sögu og samræðu samfélagsins um hvernig grunnmarkmiðum stjórnskipunar verði sem best náð (svo notuð séu orð Ágústs sjálfs).“
Ágúst Þór kenndi m.a. stjórnskipunarrétt við lagadeildina og gaf sig að rannsóknum um stjórnarskrárfestu en í þeim kenningum mættust áhugi hans á stjórnarskrám og mannréttindum og liggja eftir hann fræðigreinar um það efni. Meðal þeirra má nefna grein um lýðveldi, stjórnarskrá og þjóðaratkvæði auk greinar um lýðveldið, stjórnskipan og stöðu forseta sem birtust í Lögfræðingi árið 2010 og 2011. Hann skrifaði grein um Jón Sigurðsson og stjórnskipun Íslands sem birtist í Andvara árið 2001 auk bókarkafla á ensku árið 2011 í riti til heiðurs Guðmundi Alfreðssyni en greinin var um stjórnarskrárfestu á Íslandi og hlutverk og stöðu forseta Íslands. Þá skrifaði hann um samband ríkis og kirkju í skýrslu stjórnlaganefndar árið 2011 auk þess að koma að skrifum um erlenda stjórnskipun og stjórnskipunarhugmyndir. Meðal annarra greina má nefna „Stjórnarskrárfesta: grundvöllur lýðræðisins“ sem birtist í Skírni árið 1999 sem er afar góð greining á stjórnarskrárfestu og mikilvægi hennar í stjórnskipunarrétti. Þá má ég til með að nefna að Ólafur Jóhannesson var í sérstökum metum hjá Ágústi Þór en hann átti sér þann draum að koma á fót stofnun við lagadeild kennda við Ólaf.
Síðasta framlag hans á fræðasviðinu var mikilsvert en það var bók sem hann ritstýrði ásamt Catherine Dupré um endurskoðun stjórnarskrár á Íslandi, sem Routledge gaf út árið 2021: Icelandic constitutional reform: people, processes, politics. Að henni vann hann fram í andlátið. Þar er að finna greinar eftir ýmsa fræðimenn um endurskoðun stjórnarskrár og það ferli sem hófst eftir hrun. Þar á meðal grein eftir Ágúst Þór og Cathreine Dupré þar sem hann veltir fyrir sér nauðsyn endurskoðunar á stjórnarskrá. Greinin byggir á samtali þeirra tveggja þar sem honum gafst ekki tóm til að skrifa hana eins og það er orðað í formála að henni. Meðal þess sem Ágúst Þór taldi mikilvægt að koma á framfæri var að þó að lýðveldisstjórnarskráin væri ekki fullkomin hefði hún sannað gildi sitt í fjármálahruninu 2008, og því væri engin nauðsyn á því að skipta henni út fyrir nýja. Ekki hefðu verið færð fullnægjandi rök fyrir því að efna til heildarendurskoðunar á stjórnarskrá en það sýndi sig m.a. að ekki væri samstaða um nauðsyn þess í stjórnmálaflokkunum. Þá benti hann á að róttækar breytingar á stjórnarskrám verði við afar óvenjulegar aðstæður í samfélaginu, sem nefnt hefur verið stjórnarskrárstund, en hér á landi hafi hún aðeins verið ein, í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar árið 1944. Í tilefni af útgáfu bókarinnar var haldin rafræn ráðstefna Ágústi Þór til heiðurs þar sem margir greinahöfundar komu fram, þar á meðal Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Hér hef ég rakið stuttlega höfundarverk Ágústs Þórs á sviði stjórnskipunarréttar en hann lét einnig að sér kveða á sviði mannréttinda eins og störf hans tengd Mannréttindaskrifstofu Íslands bera vott um. Hvað sjálfa mig varðar og vinskap okkar þá lýsir honum e.t.v. best að þegar hann hafði veður af áhuga mínum á mannréttindum fyrir um þrjátíu árum setti hann sig í samband við mig og hvatti óspart til dáða en þá þekktumst við ekkert. Ekki leið á löngu uns hann hafði fengið manni eitthvert verkefni og tengt við virta fræðimenn á því sviði. Upp úr því þróaðist dýrmætur vinskapur sem aldrei bar skugga á. Hann hafði einstakt innsæi, var aldrei fyrirsjáanlegur og kom alltaf með óvænt sjónarhorn á hlutina sem olli því að það var ekki bara gott að leita til hans heldur nauðsynlegt þegar mikið lá við. Og ég var sannarlega ekki ein um það. Hann var örlátur á tíma sinn, fór hratt yfir og oft var erfitt að fylgja honum eftir og átta sig á því hvert förinni var heitið. Manni lærðist samt að það var alltaf hugsun í því sem hann gerði og ekki dvalið í grunnu lauginni. Það var því sannarlega óvænt og ánægjulegt að leiðir okkar skyldu liggja aftur saman árið 2014 þegar ég réðst til starfa við lagadeildina. Og hann kynnti mig fyrir samfélaginu fyrir norðan sem var ómetanlegt, tók mig meira að segja með á Rótarýfundi svo fátt eitt sé talið. Síðasta verkefnið sem hann bað mig um að vinna voru greinarskrif um auðlindaákvæði í stjórnarskrá í áðurnefndri bók hans og Catherine Dupré, sem ég og gerði, enda ekki um annað að ræða. Ég á Ágústi Þór margt að þakka eins og svo ótal fleiri.
Ágúst Þór gegndi ýmsum hlutverkum við lagadeildina, var verkefnisstjóri, aðjúnkt og brautarstjóri. Nú á tuttugu ára afmæli deildarinnar er við hæfi að staldra við og minnast hans og ómetanlegs framlags hans til laganáms við Háskólann á Akureyri. Sýn hans og trú á yngstu lagadeild á Íslandi var ósvikin og gríðarlega mikilvæg í því uppbyggingarstarfi sem hefur átt sér stað allar götur frá stofnun hennar. Fyrir það á hann þakkir skilið.