NorMed
March 2008
Volume 3, Number 1

pdf version
Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur1

translated by Egill Arnarson


Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að spyrja: „Hvar er þessi frægi femínisti með skrifstofu sína?“ Sannast sagna þá trúi ég ekki öðru en að doktorsneminn sem um ræðir hafi bara verið í vondu skapi.2 Engu að síður efast ég um að ekki megi draga nokkurn lærdóm af þessu tilviki. Lenti ég í einhverjum vandræðum út af því, þegar öllu er á botninn hvolft? Ég var enn eina ferðina minntur á þá staðreynd að í umhverfi eins og háskóla ber manni að hafa sjálfan einstaklinginn í huga og það sem hann gerir og segir en láta allar staðalímyndir lönd og leið, eftir því sem unnt er. Það er ákveðin ögrun, hvatning sem getur á stundum reynst vera þreytandi en sem skaðar aldrei að taka til sín þar eð hún fær mann til þess að hirða síður um titla og kennir manni að styðjast minna við þá. Að sama skapi má líta á hana sem leik eða þjálfun.

Allt snýst þetta um að gera engan greinarmun á því sem mætir okkur með mismunandi hætti, að temja sér ákveðna framkomu uns hún verður manni töm. Með því venur maður sig af því að segja við sjálfan sig „þetta er nú meiri fituhlunkurinn sem ég er að tala við,“ rétt eins og þær upplýsingar væru á einhvern hátt áhugaverðari en það sem viðmælandinn hefur að segja. Þannig leikur maður sér að og þjálfar sig í því að koma fram við fólk af jöfnuði, einstaklingshyggju og heimsborgaramennsku. Það er vissulega ákveðin mótsögn í því fólgin að þessi áskorun skuli umfram allt koma frá pólitísku rétttrúnaðarfólki, sem fyrirlítur alla jafna einstaklingshyggju og heimsborgaramennsku, eins og við höfum þegar minnst á. En við getum líka látið það liggja milli hluta á næstu síðum, ekki síst ef það er kannski ástæða til þess að geta þess eina ferðina enn, til að koma í veg fyrir misskilning, að það að velta fyrir sér „óverðskulduðum verðleikum“ pólitískra rétttrúnaðarmanna jafngildir engan veginn því að samþykkja þau meðöl sem sumir þeirra myndu ekki hika við að beita, ef þeir gætu. Svo ég taki það skýrt fram, ef það liggur ekki þegar ljóst fyrir, þá er sá sem þetta skrifar með öllu andvígur því að beita valdi, löglegu eða síður löglegu, til þess að breyta hversdagslegu málfari.3

Þetta er viss áskorun vegna þess að það kemur ekki af sjálfu sér – að minnsta kosti ekki hjá þeim sem tilheyrir ekki neinum bágstöddum minnihlutahópi (séð frá sjónarhóli sem skiptir hann máli) – að maður geri sér grein fyrir því að staðalímyndir eru hættulegar, særandi og þreytandi. „Það kemur ekki af sjálfu sér“ merkir þó engan veginn að slíkt sé manni lífsins ómögulegt, hvað þá örðugt. Þar sem að til eru staðalímyndir handa öllum getur í raun enginn ekki hafa kynnst slíku sjálfur, enda þótt sumir séu svo lánsamir að þekkja bara brosleg dæmi þessa. Sem dæmi er örlæti ekki eiginleiki sem íþyngir Genúubúa líkt og kross sem hann þyrfti að rogast með. Þetta vill þó gleymast og hugsanlega hendir það hann – með réttu eða röngu – að stæra sig fremur af því en að skammast sín fyrir það. Engu að síður er sérhverjum Genúubúa vel kunnugt að viss meinleg athugasemd kemur honum ávallt í jafn mikla klípu. Þegar kemur að því að greiða reikninginn er nóg að fólk segi við hann með ákveðinni tegund af brosi á vör „þú ert jú frá Genúuborg“ til þess að það geri honum lífið leitt. Borgi hann fyrir allan hópinn er greinilega um að ræða Genúubúa sem vill látast ekki vera frá Genúu. En ef hann borgar ekki, þá er augljóst að hér er Genúubúi á ferðinni. Það þýðir ekkert að leita lausnar út úr þessum ógöngum. Hér er einfaldlega umframmagn af væntingum til staðar: í stað þess að finnast maður lifa eðlilegu lífi er sem þurfi að „koma með sönnunina“ fyrir einhverju. Manni er vitaskuld frjálst að rúa sig inni að skinninu með því að borga ævinlega fyrir alla til þess eins að geta náðsamlegast leitt hugann að þeirri staðreynd að þegar hvers kyns staðalímyndum er beitt þá er frelsi þess sem fyrir þeim verður að einhverju leyti skert. Það þarf ekki nema smávott af ímyndunarafli, að yfirfæra þessi sjálfvirku ferli á ekki eins ómerkilegar aðstæður heldur á töluvert óþægilegri, til þess að skilja að það ber í lengstu lög að forðast að beita staðalímyndum á fólk sem er „skilgreint“ eftir þeim. Reynsla af þessum toga nægir einnig til þess að skilja hversu mikilvægt það er frá mismunandi sjónarhóli (til dæmis guðlegum sjónarhóli, ímynda ég mér) að ætla sér ekki að móðga neinn en sú ætlun breytir þó litlu fyrir viðmælandann. Það er hægur vandi að fá fólk til að skilja á hvern hátt skaðlaust málfar virkar á þessu stigi.

Ögn erfiðara er að skilja að þetta snýst ekki aðeins um að „skaða ekki“ aðra einstaklinga. En það felst meira en það í skaðlausu orðfæri. Til að byrja með hafna menn staðalímyndum af ótta við að særa aðra eða við að virðast særa aðra. En um leið og þetta er orðið að vana verður það til þess að fólk neiti í hvívetna að veita þeim mismun eitthvert upplýsingargildi sem aldalöng valdabarátta hefur þjálfað það í að greina. Aðeins að nafninu til er um „neitun“ að ræða: fyrr en varir kemur í ljós að maður hefur ekki neitað sér um nokkurn skapaðan hlut, persónuleg samskipti verða auðveldari og minni orka fer til spillis í yfirborðskennt blaður um þjóðir, kynþætti og hópa. Smám saman verður ljóst að yfirleitt er um tegund af „vitneskju“ að ræða sem er bæði tilgangslaust og oft skaðlegt að búa yfir.

Þessa fullyrðingu þarf að rökstyðja með nokkuð vandlegum hætti, enda virðist hún við fyrstu sýn í mótsögn við gildi sem umfram allt menntamenn eru sannfærðir um að þeir fylgi í hvívetna: sannleikann. Það getur ekki verið slæmt að segja sannleikann, það er enginn löstur að því nema í einstaka undantekningartilvikum þar sem góðar ástæður eru fyrir hendi. Og það er heldur örugglega aldrei rangt að hugsa það sem satt er. Oft snýst uppreisnin gegn „réttum“ tjáningarmáta fram í því að benda á að pólitísk rétthugsun hefur gert minnihlutahópa einkar viðkvæma og að af þeim sökum móðgist þeir einnig þegar menn segja eitthvað sem átti hvorki að vera viljandi eða óviljandi móðgandi, heldur einfaldlega sannleikanum samkvæmt. Stimplanir má einnig nota til þess að koma hlutlausum upplýsingum til skila eða jafnvel til að hlaða fólk lofi. Hvers vegna ætti að vera nauðsynlegt að forðast þær í slíkum tilfellum? Hvers vegna að koma sér hjá því að segja eitthvað sem er einfaldlega satt? Hvaða vit er í því, sé maður kominn á fremsta hlunn með að segja í hita leiksins „Í gær hlýddi ég á svartan flautuleikara sem lék virkilega vel” að þurfa að hafa áhyggjur af orðinu „svartur“?

En þetta er einmitt mergurinn málsins. Enginn álítur blökkufólk vera ofurviðkvæmt og alls staðar nálægt, líkt og jesúbarnið sem, eins og prestar sögðu í fyrndinni, grét í hvert sinni sem börn hegðuðu sér illa. Vandinn er allur hjá þeim sem halda slíku fram. Mönnum er frjálst að láta frá sér fara hluti á borð við þennan en stundum er þeim einnig hollt að staldra ögn við til að leggja hlustir við þá hugmyndafræði sem bergmálar af tali þeirra. Hér er ekki um neina ritskoðun að ræða, með tússpenna í annarri hendi og í hinni lista yfir óheimilt orðalag. Málið snýst einfaldlega um það að skilja. Það er augljóst að reynist setning ekki eins kristaltær og saklaus og hún gerði í fyrstu, þá segir sig ekki endilega sjálft að ekki eigi að nota hana aftur. Oft verður manni ljóst að ekki þarf að skipta setningu út fyrir aðra heldur valda félagslegar og sögulegar aðstæður – sem ekki eru með öllu sakleysislegar – því, að ekki er hægt að tjá sig á saklausan hátt. Þannig verður þetta manni einfaldlega skiljanlegra og það rifjast oftar upp með þeim árangri a.m.k. að dýpka skilning okkar fyrir því sem fólk af minnihlutahópi þarf að þola þegar það hlýðir á sakleysisleg samtöl okkar. Af hvaða hvötum hef ég tilhneigingu til að tiltaka að einhver sé blakkur á hörund? Setjum nú að ég hafi heyrt góðan flautuleikara spila og mig langi til þess að lýsa ánægju minni með það að blökkumaður skuli hafa náð svo langt á sviði sem, að því er ég best veit, var blökkufólki ekki aðgengilegt; mig langi semsagt að segja, í góðum tilgangi, að ég hafi hlýtt á flautuleikara spila afbragðsvel enda þótt hann hafi verið svartur; eða kannski … hver veit. Við því geta verið mörg svör, hvers vegna í þessari tilhneigingu koma upp á yfirborðið einkar flóknar sögur hópa og stundum einstaklinga. Þetta tilvik er líkast til ósköp einfalt en þó nokkuð lærdómsríkt: „Það gleður mig að sjá að blökkumenn eru farnir að láta til sín taka innan sígildrar tónlistar.“ Það er ekki eins mikilvægt að finna svar við spurningu og að skilja hvað býr henni að baki og hví taka verður tillit til þess sem að baki býr með einhverju öðru en: „Ég sagði það bara af því að það er satt.“ Vel má vera að til sé gott svar við henni en „af því að það er satt“ er það ekki. Alla jafna segjum við ekkert bara af því að það er satt.

Vissulega má beita einhverjum meðölum nútímaheimspeki eða póstmódern(rar) heimspeki til þess að gera sér grein fyrir því af hverju slíkt svar er ófullnægjandi. En til þess nægir einnig að beita á okkur sjálf þeim mælikvörðum sem við erum fær um að beita á aðra. Það er ekki það sama og að „setja sig“ í spor annarra og ganga um gólf með tárvot augun. Þetta er ekki krafa til okkar um að við eigum að elska náunga okkar. Minnihlutahópar eru út af fyrir sig ekkert elskulegri en meirihlutahópar. Hins vegar eiga þeir fyrrnefndu við fleiri vandamál að glíma en við gerum okkur oftast grein fyrir og því skiljum við ekki hvers vegna þeir loka sig út af fyrir sig, skiljum ekki beiskju þeirra og tortryggni í garð okkar sem erum svo frjálslynd, umburðarlynd, laus við hleypidóma og höldum svo mikið upp á sannleikann sjálfs sín vegna. Við þurfum að skilja, rjúfa þá einingu sem okkar almenna skynsemi myndar, með því að átta okkur á því hversu oft við gerumst sek um að fara ekki að því ráði.

Við erum sannfærð um að vegna þess eins að sannleikurinn skuli vera sannur getum við leyft okkur að segja hann hvenær sem er, fyrir utan fáein undantekningartilfelli. En það er ekki satt að þetta sé sú regla sem við fylgjum. Til þess að gera sér grein fyrir því nægir að leiða hugann að því hvað myndi gerast ef nemandi gerði í munnlegu prófi grein fyrir Kant með því að segja: „Ættarnafn hans byrjar á K, næsti stafur er A en ef honum er breytt í E fæst heiti á héraði í Englandi.“ Nemandinn gæti haldið áfram að vekja furðu með óhefðbundinni kímnigáfu sinni en það er sama þótt kennaranum þyki vænt um sannleikann sem gildi í sjálfu sér, hann hlýtur að gefa nemandanum lága einkunn fyrir því. En ef hægt er að skilja viðbrögð kennarans og finnast þau réttmæt, þá ætti einnig að skiljast hversu storkandi eftirfarandi setning er, enda þótt hún sé það ekki með heimskulegum hætti og að óþörfu: „Ef þú þarft að tiltaka að vinur þinn, sem þú býður með þér í mat til mín, sé samkynhneigður, þá finnst mér eins og þú eigir við að hann hafi einhverjar sérþarfir sem ég þurfi að taka tillit til við matseldina. Hvað áttu eiginlega við? Hefur hann ofnæmi fyrir einhverju eða er það eitthvað annað?“ Ef samskipti hópa fólks af ólíku litarhafti eru laus við flækjur, þá er aðeins í algjörum undantekningartilvikum ástæða til þess að geta þess að vinur okkar sé blakkur á hörund, t.d. ef við viljum gefa honum hálsbindi og biðjum því afgreiðslumann um að mæla með lit sem honum hæfir.

Frá sjónarhóli heilbrigðrar skynsemi má finna að því, að þegar fólk er í prófi er það í stöðu sem komið hefur verið á á meðan frjálsar samræður eru óskipulagðar og sjálfsprottnar: „ maður veit“ á prófi hvað er rétt að segja og hvað rangt. Vissulega eru hér til einhver grá svæði en allir hljóta að viðurkenna hvað er augljóslega við hæfi í prófi og hvað er það bersýnilega ekki. Þykist einhverjir ekki þekkja muninn tala þeir gegn betri vitund. Allt er það satt og rétt. Hins vegar er það staðreynd að þær aðstæður eru ekki til sem ekki hefur verið komið á. Um öll samtöl gildir að sumt rúmast innan þeirra og annað ekki. Það á ekki allt við af því einu að það er sannleikanum samkvæmt. Ef við eigum það oft til að halda að húðlitur eða kynhneigð skipti gesti við kvöldverðarborð máli eða á flaututónleikum þá er það af hvötum sem er aðeins barnalegt að reyna að réttlæta með þeim rökum að það eigi að segja sannleikann. Það eru engar „náttúrulegar“ samræður frjálsar í þeim skilningi að vera með öllu óskipulegar, ekki heldur frelsi til þess að tjá sig á algjörlega hreinskilinn hátt með setningum sem eru annað hvort „sannar“ eða „ósannar“ og ekkert annað. Nú mætti að sönnu krydda þessa hugmynd með búnti af heimspeki- eða félagsmálvísinda-slangri til þess að stytta mál sitt eða blása það út. Mér virðist þó athyglisvert að þessa hluti má einnig útskýra með því að fjalla um þá sem ósköp einfaldar niðurstöður sem komast má að með heilbrigða skynsemi að vopni, þ.e. að það sem við beitum í samskiptum við aðra eigum við til að gleyma að gildir einnig um okkur sjálf.4 Oftar en ekki, þegar við hlýðum á aðra ræða „hreinskilnislega“ um hlutina, reynumst við fær um að skilja, að einmitt þegar menn ræða „bara svona til þess að ræða málin“ þá eru þeir í raun að slá upp girðingu utan um eignir sínar, staðfesta stigveldið, treysta tengslin og ala á fjandskap, hughreysta einhvern o.s.frv.5 Ef tveir nágrannar tala alla ævina, í hvert sinn sem þeir hittast, ekki um annað en veðrið, þá er okkur vel ljóst að það er ekki merki þess að báðir séu þeir áhugamenn um veðurfræði er skiptast á upplýsingum sem mikilvægt er að fá úr skorið hvort séu „sannar“ eða „ósannar“. Við vitum ósköp vel að þeir segja einfaldlega hvor öðrum að samskipti þeirra halda áfram að vera af ákveðnum toga. Þeir segja hluti á borð við: „Ef síminn virkar ekki hjá þér geturðu komið til mín og hringt í símafyrirtækið; en ef línan slitnar tvisvar á mánuði hjá þér, þá hlýt ég að álykta að þú sért heldur ágengur í samskiptum.“ Að sama skapi, ef móðir biður kjötafgreiðslumann hátt og snjallt um 200 grömm af skinku „handa syni mínum sem er verkfræðingur“ þá skilja allir að í því felst ekki að hún haldi að til sé sérstök skinka handa verkfræðingum. Sannleikurinn á sér sína stund og stað. Þegar það hendir aðra að tala „með óviðeigandi hætti,“ t.d. með því að segja eitthvað sem þeir vilja ekki viðurkenna að hafa meint, tökum við að öllu jöfnu eftir því. En þegar það erum svo við sem meira eða minna óviljandi gloprum alls staðar út úr okkur „sannindum“ sem gefa ekkert annað til kynna en skiptingu í stigveldi, fordóma og útrekstur sektarkenndar, þá tökum við ekki lengur eftir þeim og óttumst að einhver, með því að þvinga okkur til þess að horfast í augu við það sem við erum að gera, taki ekki aðeins frá okkur réttinn til að segja sannleikann heldur einnig réttinn til þess að þekkja hann.

Sem stuðningsmenn lýðræðis og jafnréttis höfum við þráhyggjukennda en þó jafnframt tvíræða afstöðu til sannleikans. Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að óþægileg staðhæfing er sönn, eigum við það til að loka augunum fyrir því. Af því leiðir að það er erfitt að gera sér grein fyrir því að eitthvað sé satt sem er neyðarlegt út frá okkar gildum en hvort sem er skiptir það engu máli. Í raun telur jafnréttissinninn það yfirleitt vera heppileg viðbrögð að fela – og umfram allt fela fyrir sjálfum sér – tölufræðilegar staðreyndir sem gætu reynst óheppilegar um hópa fólks, sér í lagi ef um er að ræða hópa sem eiga erfitt uppdráttar. Nema hann taki upp á því að meina sér um að fordæma allt það sem telst vera einkennandi fyrir ákveðna hópa. En viðbrögð af því tagi koma ekki alltaf að gagni heldur aðeins ef allir samþykkja tiltekin tabú, þ.e.a.s. þau duga í meginatriðum ef enginn hefur hag af því að berjast gegn þeim. Þetta á umfram allt við þegar um er að ræða sannindi, fordóma eða staðalímyndir er varða hópa fólks þar sem gleymst hefur að vandi þeirra felst ekki í því hvort einhverjar upplýsingar séu sannar eða ósannar heldur hvort aðstæður gefi tilefni til þess að notast við þær. Hvort heldur þeir leita að tilefni til mismununar eða eru jafnréttissinnaðir þá gerast þeir í báðum tilvikum uppvísir að þessu. Hinir fyrrnefndu veifa upplýsingum sem hafa ekki minnsta vægi sem afgerandi rök gegn jafnrétti. Þeir síðarnefndu vilja fyrir alla muni að sannleikurinn í öllum sínum myndum boði byltingu og jöfnuð eða sé uppfullur af gleðitíðindum fyrir þau gildi sem þeir hampa. Hins vegar er vandamálið oft spurning um stund og stað eða af hvaða hvötum menn koma ákveðnum sannindum á framfæri. Ef jafnréttissinnar tækju nú upp á því að átta sig á þessu lentu þeir sjaldnar í vandræðum. Höfum í huga, að það eru sögulegir (og ekki með öllu meinlausir) þættir sem ráða því hvernig við erum vön að flokka fólk í hópa og að það er ekkert náttúrulegra við það að skipa fólki niður eftir því hvernig húð þess er á litinn en eftir lengdinni milli stórutá og litlutá. „Negrafýla“ er einnig sögulega skilyrt. Hins vegar dugar það ekki til þess að svara andmælum á borð við: „Nú segir þú að allir menn séu jafnir en ef þú mættir gengi ungra svertingja klukkan tvö að nóttu á Times Square þá yrðirðu strax gripinn ótta.“ Sem er líka alveg rétt. Fyrir jafnréttissinnanum, sem reynir að neita þessu, liggur ekki annað en að bíða ósigur í þessari rimmu (eða að telja sig hafa unnið hana með því að kalla allt svona tal hneykslanlegt) og, ef hann er sjálfum sér samkvæmur, að verða líkast til rændur. Og þegar búið er að ræna hann einu sinni er ekki ósennilegt að hann fyllist kynþáttafordómum. Það sem hann þarf að skilja til hlítar er hvaða máli skipta staður og stund: Klukkan tvö að nóttu á Times Square er skynsamlegt og á engan hátt í andstöðu við það að vera jafnréttissinni að taka tillit til tölfræðilegra upplýsinga um glæpatíðni. Málið er hins vegar það, að þessar sömu tölfræðilegu upplýsingar hafa ekkert um það að segja hvernig mér beri að umgangast nágranna minn í næsta húsi. Andrasistinn sem býður tölfræðinni birginn á Times Square klukkan tvö að nóttu og rasistinn sem lítilsvirðir tiltekinn einstakling á grunni tölfræðilegra upplýsinga eru nánast í hliðstæðri stöðu. Andrasistinn vill fela sannindi sem er óþægilegt að muna en sem eru á þessum stað og þessari stundu ekki aðeins sönn heldur skipta einnig máli. Rasistinn nýtir sér einnig sannindi sem tengjast aðstæðum hans að engu leyti; í raun væri viturlegra fyrir mann að ýta bíl sínum út í skurð á miðri leið og ferðast áfram á puttanum vegna þess eins að hann hafi heyrt í útvarpinu að í bílategundinni sem hann notaði ætti blöndungurinn oftar til að bila en í öðrum.

Í því tungutaki og þeim hugsunarhætti sem nefnist „skaðlaus“ býr þó nokkuð hagnýtur fróðleikur um þau mál sem þetta varða, enda þótt þeir sem hafa tamið sér það af mestri sannfæringu gera sér ekki alltaf grein fyrir því. En ef menn halda út fyrir yfirborðslegt „skaðleysið“, þá verður þeim ákveðið grundvallaratriði ljóst, þ.e. að með því að „látast“ ekki taka eftir ákveðnum „mismuni“ þá hætta þeir á endanum að taka eftir honum og fyrir þeim rennur upp sáraeinföld staðreynd: í langflestum tilvikum er með öllu tilgangslaust að taka eftir mismuninum því hann skiptir engu máli. Ef til vill var einhvern tímann, þegar menn gengu um skóga með hjartað í lúkunum af ótta við að rekast á meðlim úr óvinaættbálkinum, ákaflega mikilvægt að geta áttað sig strax á því, út frá einhverjum útlitseinkennum, af hvaða ætt menn væru. En utan skóganna og meira að segja á Times Square, svo lengi sem þar dagsbirtu nýtur, kemur það ekki í neinar góðar þarfir. Ef jafnréttissinnar vissu hversu mikilvægt þetta er gætu þeir einnig neitað sér um að telja börnum trú um að einhvers staðar, hvort heldur í rökvísinni eða í heiminum, megi finna merki þess að guðleg vera leiði heiminn eftir braut framfaranna. Enda þótt sannreyna megi að sú staðhæfing sé sönn, að rasistar segi mun oftar ósatt, þá er algjörlega tilgangslaust að vilja greina í tvo meginflokka rasískar upplýsingar og upplýsingar sem ekki styðja rasískar hugmyndir eftir því hversu sannar þær eru eða eftir því hversu nákvæmlega þær styðjast við skýringarmyndir. Hinar ýmsu náttúruréttarkenningar eru t.d. ekkert sannari eða ósveigjanlegri en það sem stendur í Mein Kampf. Vissulega er jákvætt að við skulum af öllu afli reyna að hrekja tilteknar rannsóknir sem ætlað er að sanna að Gauss-kúrvan, sem táknar greindarvísitölu, sé önnur hjá þeldökku fólki í Bandaríkjunum en hjá hvítu fólki þar.6 En eins jákvætt og viturlegt sem það er, má ekki gleyma því að jafnvel þótt vissar „rasískar upplýsingar“ reyndust vera réttar væri réttast og nóg að bregðast við þeim með því að yppta einfaldlega öxlum. Til viðbótar við jafnréttið eru til feikinógar upplýsingar sem engum hefði samt sem áður komið til hugar að nota sem rök fyrir að „allir menn séu jafnir“. Augljóst og margsannreynt dæmi þess má sjá í því að sérhvert barn skuli vera fært um að læra hvaða mál í heimi sem er. Hvaða máli skiptir það yfirhöfuð, þegar við stöndum frammi fyrir svo einstöku fyrirbæri, að af eitt þúsund hvítingjum er að finna fleiri gáfumenn en af jafn mörgum blökkumönnum (að því gefnu að það sé satt og að því gefnu – sem það er ekki – að greindarvísitala sé einhver algildur mælikvarði)? Hvort sem er hefðu slíkar upplýsingar lítið vægi og væru vita gagnslausar fyrir t.d. þann sem hyggur á hjónaband eða vill ráða mann í vinnu. Vegna þess eins að að öllu jöfnu giftist maður, ræður í vinnu eða rekst á einstaklinga.

Sá sem sýnir takmarkað umburðarlyndi þarf ekki nauðsynlega að ljúga oftar eða vera of fastur í ósveigjanlegum staðalímyndum (enda þótt hann gerist oftast, jafnvel oftar en við, viljandi sekur um hvort tveggja)7: það sem hann gerir hins vegar stöðugt er að tengja saman upplýsingar með óviðeigandi hætti.8 Sá er ekki endilega rasisti sem hneigist til þess að fallast á tölfræði sem sýnir mismunandi greind milli svertingja og hvítingja, heldur er það sá sem telur að á grunni slíkrar tölfræði megi sanna að heimskur hvítingi sé betri en gáfaður svertingi. Hann reynir að viðhalda yfirburðastöðu eða yfirburðakennd með því að beita aðferðum til þess að flokka fólk í sundur sem honum virðast vera „náttúrulegar“. Hins vegar er ekkert náttúrulegt eða ónáttúrulegt við þær í sjálfu sér; þær eru „náttúrulegar“, þ.e. viðeigandi í einhverri þeirri umræðu sem einhverjum þykir skipta máli, þá aðeins að þeim sé beitt í umhverfi þar sem rasisma er þegar fyrir að finna. Um er að ræða upplýsingar sem, ef enginn rasismi væri fyrir hendi, engum dytti í hug að safna; enginn yrði þess var að hann byggi ekki yfir þeim, vegna þess að enginn hefði áhuga á þeim. Þær væru svo gagnslausar að enginn myndi einu sinni vita að þær væru gagnslausar. Þær kæmu ekki einu sinni fyrir á listunum yfir hluti sem við ekki þekktum vegna þess að það er sannarlega til ógrynni hluta sem við ekki þekkjum og sem við höfum ekki áhuga á að þekkja, svo sem allar þær fáranlegu krókaleiðir sem mætti hugsa sér að taka frá Róm til Mílanó, með annað hvort viðkomu í Tokyo eða í Seattle. Hver hefur áhuga á því að vita hverjar og hversu margar þær leiðir eru? Hver hefur áhuga á að vita hvort rafvirkjar á sjötugsaldri séu klárari en pípulagningarmenn á sama aldri? Enginn hér og nú. Reynið þá að ímynda ykkur við hvers konar aðstæður einhver gæti tekið að sýna slíkum upplýsingum áhuga. Í því er hin ágætasta hugarleikfimi fólgin fyrir hvern þann sem vill ná að skilja að rasistar eru (nánast bókstaflega) ekki rasistar vegna þess að svertingjar eru svartir, heldur er því þveröfugt farið: svertingjar eru svartir vegna þess að rasistar eru rasistar. Orð Sartres um að „gyðingahatarinn hafi skapað gyðinginn“ ber að taka svo gott sem bókstaflega.

Með því að huga að hinu skaðlausa málfari og almennt að því sem kemur fyrir á háskólakampusi lærist manni, svo lengi sem ekki eru til staðar (e.t.v. ómeðvitaðar) hvatir til þess að torvelda samskipti einstaklinga sem tilheyra ólíkum hópum, að betra er að halda eftir bestu getu utan samræðunnar (einnig hins innra samtals) almenna þekkingu um hópa fólks. Ég segi „þekkingu“ en ekki „staðalímyndir“ þar eð nú ætti að vera orðið ljóst að ég tel til lítils að notast við hugtakið „staðalímyndir“ í neikvæðri merkingu þess, líkt og um væri að ræða í sjálfu sér óæðra form þekkingar. Það eru bæði til sannar og ósannar staðalímyndir. Og ekki aðeins það: sumar staðhæfingar geta verið tölfræðilega réttar og auk þess settar fram með hætti sem er engan veginn ósveigjanlegur; en ef þær leika lausum hala koma þær ekki að neinum notum heldur trufla oft samskipti milli einstaklinga. Það er hið óviðeigandi samhengi sem þær eru oft settar í sem gerir viss þekkingarmynstur að „staðalímyndum“ í neikvæðum skilningi orðsins. Þau óljósu sannindi sem við höfum yfir að ráða má ekki líkja við guðlegan Sannleika sem gefur sér líf af sjálfu sér. Né heldur eru þau fölt endurskin hans. Það er heldur ekki tilfellið að „það að þekkja sjálfan sig er að elska sjálfan sig“: oft segja menn þetta af mikilli iðrun og eftirsjá en í raun er þessi setning háskalega uppbyggileg og sett fram í áróðursskyni. En hún er þá aðeins sísönn ef „það að þekkja sjálfan sig“ er skilið með þeim hætti að það geri setninguna að hreinni klifun. Í stuttu máli þá þarf lýsingin á hópi fólks hvorki að vera klisjukennd í þeim skilningi að vera „ósveigjanleg“ né að vera ósönn, sem afleiðing af ákveðnum hindrunum: einnig sú lýsing sem við álítum einfaldlega vera sanna getur komið að prýðilegum notum.

Ef við hugum að grunnskilyrðinu fyrir samskiptum, þ.e. að því hvernig fólk ber málið fram, verður þessi staðhæfing skiljanleg. Sá sem hefur ekki góðan framburð þegar hann talar mál heimamanna getur lent í erfiðleikum; stundum gæti hann þurft að endurtaka nokkrum sinnum það sem hann segir og af og til fengið viðmælendur sína til þess að brosa út í annað. Að öllu jöfnu gefst honum þó svo oft kostur á að tjá sig að það ætti ekki að geta leitt til neins hrikalegs misskilnings. Einhvern veginn mun útlendingur smátt og smátt taka að tala betur og sumir viðmælendur hans að venjast villunum sem hann gerir. Ef samlandi hans, sem hefði náð fullkomnum framburði, leiðrétti hann hins vegar stöðugt með þeim orðum að hann ætti að taka sér ríkjandi framburð á svæðinu til fyrirmyndar þar eð enginn annar framburður teldist ásættanlegur, þá er hætt við að vesalings maðurinn treysti sér ekki til þess að opna aftur munninn. Nema hann gengi um með fáeina óaðfinnanlega frasa á takteinunum en með þeim afleiðingum að fólk áliti hann vera tungumálaséní og drekkti honum með hraðmæltum orðaflaumi sem hann næði engan veginn að skilja og kæmi sér þannig í aðstæður sem hann ætti örðugt með að koma sér úr. Ef honum er umfram allt umhugað að forðast misskilning hlýtur það að letja hann til þess að eiga samskipti við aðra. Þessa skýringu má yfirfæra á flóknara samhengi, svo sem ef einhver hópur útlendinga sem hafa hreiðrað um sig í landinu tekur samlanda þeirra undir sinn verndarvæng og uppfræðir hann um það sem þeir vita um heimamenn. Hópar manna sem eru af sama bergi brotnir en búa erlendis leggja það ekki endilega í vana sinn að safna röngum upplýsingum um heimamenn. Oft halda þeir fram hlutum um þá sem eru tölfræðilega réttir. En ómeðvitað velja þeir slíkar upplýsingar með það í huga að efla samkennd meðal innflytjenda, réttlæta persónulega ósigra fyrir sér og annað þess háttar. Óviljandi laga menn mælikvarðana sem þeir beita á slíkar upplýsingar að þessum þörfum; og þó myndi enginn leita þeirra og miðla þeim nema þær væru settar fram með þessum hætti. Það er ekki að ósekju að við slíkar aðstæður skuli grundvallarskipting á því sem telst sameina hópa og sundra þá riðlast: ef kommúnisti og fasisti rekast á hvor annan erlendis eiga þeir sem samlandar það til að finna fyrir mikilli samkennd sín á milli. Blindaðir af meintri tilvist hins mikla „Hins“ sem er þeim svo ólíkur og uppspretta allra ófara þeirra, upplifa þeir sjálfa sig líkt og hvolpar sem halda hita hverjir að öðrum í bæli sínu.9 Það sem skiptir hér mestu er að vegna þess að svo vill gjarnan verða þarf það ekki nauðsynlega að leiða til þess að ráðist sé á menn, þeir beittir mismunun eða ofsóttir. Það er alveg nóg að menn skuli þvaðra um menningarsjokk (sem er nánast skrautyrði fyrir flugþreytu) og um „þau hérna,“ heimafólkið, sem litlar líkur eru þá á að menn kynnist sem einstaka persónum. Í raun eru samræður milli fólks frá sama landi sem er statt erlendis ef til vill skýrasta dæmið um spjall sem er aðeins frjálst og sjálfsprottið á yfirborðinu, enda er nærtækasta sönnun þess sú, að þegar menn gæta sín meðvitað á því hvernig þeir tjá sig er það stundum einmitt til þess að reyna að gera samtalið ögn frjálsara. Þegar menn spjalla saman þar sem andrúmsloftið í samskiptm milli þjóðarhópa er „óæskilegt“ og eru með stöðugar vísanir í almenn einkenni hinna ólíku hópa fólks, þá takmarka þeir frelsið. Einmitt með „sjálfsprottnu“ tali eigum við það til að gera okkur sjálf að föngum „þjóðfræðilegs“ fróðleiks og torvelda samskipti einstaklinga á milli.

1 9. kafli úr bókinni Il razzismo è una gaffe. Eccessi e virtù del «politically correct» (Rasismi er bara klaufaskapur. Öfgar og kostir pólitísks rétttrúnaðar), Donzelli, Roma1997.

2 [Í 1. kafla bókar sinnar (s. 4-5) segir Baroncelli frá því þegar hann spyr doktorsnema í bandarískum háskóla þessarar spurningar þar eð hann muni ekki eftir nafni háskólakennarans. Öllum er vel kunnugt um að um yfirlýstan femínista sé að ræða en viðbrögð doktorsnemans við spurningunni eru kuldaleg og á þá leið að ekki beri að orða spurninguna með þessum hætti. Baroncelli spyr sig þó hvort hann hafi brotið einhverja óskráða reglu og hvernig hann hefði þá mátt orða spurningu sína í stað þess að verða óttanum við óskilgreinda en ranga breytni að bráð. – þýð.]

3 Um gagnrýni á rök fyrir lögum um franska málnotkun í Québec, sjá C. Taylor: Multiculturalism and the Politics of Recognition, Princeton University Press, Princeton 1992; F. Baroncelli: „Hanno le culture diritti sugli individui? Sul liberalismo olistico di Charles Taylor,“ Ragion Pratica, 2, II, s. 11-31 og „The Odd Consequences of Charles Taylor’s Liberalism. And a Comment on Walzer’s Comment,“ Planning Theory, 12, s. 109-25.

4 Auðvitað fást ýmsar fræðigreinar við hluti sem þessa. Hins vegar held ég því fram að veiti hinn almenni lesandi daglegu máli vissa athygli er fátt í sérfræðirannsóknum um þessi efni sem kemur sérlega á óvart. Fyrir nokkrum árum gaf Teun A. Van Dijk út tímarit um þetta: „Text. An Interdisciplinary Journal for the Study of Discourse“. Sjá einnig Social Anthropology and the Politics of Language, ritstj.: R. Grillo, Routledge, London - New York 1989.

5 Yfirlit um þetta efni og mat á frægum könnunum Erving Goffmans má t.d. finna hjá C. Castelfranchi: Che figura. Emozioni e immagine sociale, Il Mulino, Bologna 1988.

6 [Höfundur hefur hér líklega í huga rit Richard J. Herrnstein og Charles Murray The Bell Curve. Intelligence and Class Structure in American Life, Free Press, New York 1994. – þýð.]

7 Sbr. U. M. Quasthoff: „Social Prejudice as a Resource of Power: Towards the Functional Ambivalence of Stereotypes,“ Studies in Political Discourse, ritstj. R. Wodak og J. Benjamins, Amsterdam - Philadelfia 1989, s. 181-93.

8 Vitaskuld er umræðan um rasisma þar með ekki tæmd. Sjá umfjöllunina um Adorno og Stjórnlyndu skapgerðina í F. Ferrarotti: La tentazione dell’oblio, Laterza, Bari 1993. Um hin flóknu tengsl sem eru milli kynþáttarhugtaksins og þjóðarhugtaksins og um þau vandræði sem fjölmenningarhyggjan ratar í þegar hún reynir að verða að andrasisma með því að upphefja þjóðina, sjá F. Anthias: „Connecting ‘Race’ and Ethnic Phenomena,“ Sociology, 26, 1992, s. 421-38.

9 Það er rétt að líkt og önnur samskiptaferli á samúðin (eins og hún nefndist í fyrndinni: í dag kjósa menn heldur að ræða um „hluttekningu“) í nokkrum erfiðleikum með að berast úr einum menningarheiminum til annars. Þó tel ég að fræðilegur áhugi (sem er býsna útbreiddur) á menningarbundnum samskiptavanda sé í engu samræmi við takmarkað vægi hans í veruleikanum. Þar er sá löstur að verki að líkja samskiptum milli menningarheima, sem geta í orði ekki átt sér stað, saman við gagnsæi sem fyrirfinnst ekki í samskiptum milli menningarheima í orði. Allt lítur þetta talsvert öðru vísi út ef við hugum að einstökum dæmum um mögulegan samskiptavanda milli menningarheima og skoðum af raunsæi samskipti milli einstaklinga sem tilheyra sama menningarheimi. Að þeirri niðurstöðu komast Richard W. Janney og Horst Arndt („Intracultural Tact Versus Intercultural Tact,“ Politeness in Language: Studies in its History, Theory and Practice, ritstj. W. Winter, Mouton de Gruyter, Berlin - New York 1992, s. 38-40) af mikilli skynsemi.



Egill Arnarson (b. 1973) studied Philosophy at the University of Iceland and Université de Rennes 1 and is an M.A. in Philosophy, History and Latin from the Christian-Albrecht University in Kiel (2004), his final dissertation dealing with liberal cosmopolitanism within global ethics. He has taught Medieval Latin at the University of Iceland and Methodology at the Reykjavik University and has translated various texts of Philosophy and Human sciences into Icelandic. He currently works as a secretary for MPs at the Secretariat of Althingi.