NorMed
March 2007
Volume 2, Number 1

Stefano Gensini, BREVE STORIA DELL’EDUCAZIONE LINGUISTICA DALL’UNITÀ A OGGI. (Saga málmenntunar frá sameiningu til samtímans). Le bussole. Carocci editore. Róm 2005. 128 bls.
by Brynja Cortes Andrésdóttir

Breve storia dell'educazione linguistica dall'unità a oggi relates the diffusion of the Italian language from the unification of Italy in 1861 until present times. The book explores how scholars, teachers, linguists, and politicians dealt with the various problems that arose in the process of establishing Italian as the nation’s common language, while most Italians spoke different dialects.



BREVE STORIA DELL’EDUCAZIONE LINGUISTICA DALL’UNITÀ A OGGI rekur útbreiðslu ítölsku tungunnar á undanförnum 150 árum og segir frá því hvernig hún varð smám saman að þjóðtungu Ítala. Í bókinni eru skoðaðar ólíkar hugmyndir manna um það hvernig útbreiðslu og kennslu hins sameiginlega tungumáls skyldi háttað og fjallað er sérstaklega um þá menn og þau rit sem höfðu hvað mest áhrif á viðhorf manna til málmenntunar á hverjum tíma. Einnig er vísað í kannanir á kennsluháttum í landinu og fjallað um aðstæður skólanna sem oftast voru ekki í nokkru samræmi við hugmyndir fræði- og stjórnmálamanna um kennsluhætti.

Við sameiningu Ítalíu 1861 var ítalska fyrst og fremst bókmenntamál og aðeins töluð af örlitlum hluta þjóðarinnar. Mikill meirihluti Ítala talaði hina ýmsu díalekta og mörg héruð voru bæði málfræðilega og félagslega mjög einangruð. Ólæsi var hlutfallslega mjög mikið, meira en hjá öðrum stórum Evrópuþjóðum; skólakerfið afar vanþróað og skólaganga ekki almenn. Margir þeirra kennara sem fengu það hlutverk að kenna börnum ríkismálið kunnu ekki ítölsku sjálfir eða höfðu takmarkaða þekkingu á tungumálinu. Þegar við bættist að yfirvöld lögðu ekki til nærri því nægilegt fjármagn til þeirrar ítölskukennslu sem þau boðuðu var augljóst að umskiptin frá díalektum til ítölsku gengju ekki átakalaust fyrir sig.

Þróun og útbreiðsla tungumálsins er í bókinni skoðuð í samhengi við samfélagslegar og pólitískar breytingar á tímabilinu frá 1861 til nútímans: sameiningu Ítalíu, uppgang fasismans, stofnun lýðveldisins, tæknibyltinguna og þróun landsins úr landbúnaðarríki yfir í iðnríki. Fjallað er um uppbyggingu skólakerfisins á tuttugustu öld og áhrif fjölmiðla, og þá aðallega sjónvarpsins, á tungumálið og útbreiðslu þess.

Bókinni er skipt í þrjá kafla eftir tímabilum auk viðauka með þrettán lykiltextum um efnið. Í henni má finna tölfræðilegar upplýsingar um ólæsi, skólagöngu og útbreiðslu ítalska tungumálsins á ólíkum tímum og landsvæðum. Imprað er á frumvörpum til menntamála gegnum tíðina, kennslugögn mismunandi tímabila eru skoðuð og vöngum velt yfir því hvernig þessir þættir endurspegla ólík viðhorf til barna og uppeldis.

Undir lok 19. aldar voru rithöfundurinn Alessandro Manzoni og málfræðingurinn Graziadio Isaia Ascoli áberandi í umræðunni um útbreiðslu Ítölskunnar. Þeir lögðu á vissan hátt línurnar fyrir síðari tíma hugmyndir. Ascoli vildi að börn fengju að halda móðurmáli sínu en lærðu þjóðtunguna í skóla og yrðu þannig gerð tvítyngd. Hann hélt því jafnframt fram að hin raunverulega sameining Ítalíu, málfarsleg sem önnur, næðist fyrst í gegn með félagslegri þróun í átt til meira jafnræðis og samfélagslegrar einingar. Manzoni var ekki eins umburðarlyndur gagnvart díalektunum og vildi að öll börn lærðu tungumál flórensku menntastéttarinnar í skólum og töluðu það í stað díalektanna sem þau höfðu að móðurmáli. Manzoni og Ascoli höfðu ekki mikil bein áhrif á kennsluhætti framan af en fjársveltir skólarnir héldu sig við einstrengingslegar gamaldags kennsluaðferðir með oft á tíðum illa menntuðum kennurum og ofuráherslu á málfræði, en börnum var jafnvel refsað fyrir að tala móðurmál sitt.

Á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar milduðust áherslurnar mjög. Menn höfðu áttað sig á að það skilaði ekki góðum árangri að refsa börnum fyrir að tala móðurmál sitt og farið var að kenna börnum ítölsku með samanburði við díalektana. Ídealískar hugmyndir Giuseppe Lombardo-Radice um að skólinn yrði að þekkja, vernda og rækta menningu og persónuleika hvers barns höfðu mikil áhrif á viðhorf manna til díalekta.

Þessar rómantísku hugmyndir voru þó brátt kæfðar niður með uppgangi fasismans og tilheyrandi hreintungustefnu. Allir Ítalir áttu nú að tala sama tungumál og ein kennslubók skyldi ganga yfir alla. Eftir að Ítalía var gerð að lýðveldi, eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar, urðu hugmyndir í anda Ascolis og Lombardo-Radice ofan á á ný. Það var svo með tilkomu fjölmiðla og þá aðallega sjónvarpsins sem þjóðtungan náði loks að verða lifandi mál í öllu landinu en skólaganga varð fyrst almenn seint á tuttugustu öld. Ítalska tunga dagsins í dag er þó ekki eitthvert hreint bókmenntamál sem hefur snúið niður díalektana heldur hafa ítalskan og díalektarnir færst nær hvert öðru svo úr varð afar fjölbreytilegt tungumál, ólíkt eftir landsvæðum. Ítalskan blandast þessum díalektum á óteljandi vegu um leið og díalektarnir hafa orðið líkari innbyrðis.

Le bussole, áttavitarnir, er ritröð sem fjallar um ýmis almenn og sértæk þemu úr menningu samtímans. Bækurnar í ritöðinni eru inngangsrit í hálfgerðum handbókastíl og kafa eðli málsins samkvæmt ekki mjög djúpt í viðfangsefni sín.

Breve storia dell’educazione linguistica dall’unitá a oggi er auðlesin bók og aðgengileg og veitir lesendum sem ekki eru fróðir um efnið ágæta innsýn og skilning á sögu tungunnar á tímabilinu; hvernig ítalskan fór úr því að vera bókmenntamál yfir í að vera tungumál heillar þjóðar og hvaða vandamál stóðu helst í vegi fyrir útbreiðslu hennar. Bókin er eins og fyrr segir ekki mjög ítarleg en hentar vel sem inngangsrit um útbreiðslu ítölsku tungunnar. Hún gæti til dæmis hentað vel við kennslu.




Brynja Cortes Andrésdóttir (b. 1977) is completing an M.A. in Translation Studies at the University of Iceland, with special emphasis on Italian.