Framlag Mikaels M. Karlssonar til heimspeki á Íslandi og til Háskólans á Akureyri

Mikael M. Karlsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hefur með störfum sínum markað djúp spor í sögu iðkunar heimspeki á Íslandi og sögu Háskólans á Akureyri. Sem heimspekikennari hefur hann í 40 ár opnað nemendum sínum nýjar leiðir bæði í hugsun og verki og sem fræðimaður hefur hann samið fjölda framúrskarandi verka sem um leika kerfisbundnir þræðir. Sem akademískur borgari hefur hann verið ötull við að koma á alþjóðasamskiptum og hann var mikilvirkur frumkvöðull og leiðtogi í starfi fyrsta deildarforseta félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri. Í því starfi lagði hann grunninn að gróskumiklu akademísku samfélagi með alþjóðlegum blæ.


 

Mikael M. Karlsson er holdgervingur orðatiltækisins „margur er knár þótt hann sé smár“. Þessi lágvaxni, glaðværi og geðþekki maður býr yfir ógnarkrafti, eldheitum hugsjónum og umfram allt yfirburða skörpum og greinandi huga. Ég tel mig muna greinilega eftir því þegar ég sá Mike fyrst, þó það séu líklega ein 27 ár síðan. Það var í fyrstu kennslustund hjá nýjum kennara þegar ég hafði nýhafið heimspekinám við Háskóla Íslands. Þótt aðstæðurnar hafi verið hversdagslegar er minningin sterk því Mike var svo ólíkur öllum kennurum sem ég hafði kynnst fram að því. Hann arkaði um og ræddi af ákafa um heimspekileg efni sem ég hafði ekki einu sinni vitað að voru til, hvað þá að þau skiptu máli, en hann gerði það með þeim hætti að við nemendur hans drógumst til hans og neyddumst til að glíma við gátur heimspekinnar með honum. Það var einhvern veginn engrar undankomu auðið. Í tímum hjá Mike og í samskiptum við hann runnu í fyrsta sinn upp fyrir mér grundvallarspurningar sem ekki urðu svæfðar eftir að þær höfðu einu sinni vaknað.

Meðal ógleymanlegra námskeiða Mikes sem koma upp í hugann nú áratugum síðar er málstofa um kínverska heimspeki, námskeið um fornaldarheimspeki sem hann kenndi ásamt Þorsteini Gylfasyni, og leiðsögn hans við lokaverkefni, sem út af fyrir sig jafnaðist á við einkaseminar. Um leið og Mike smitaði af áhuga sínum var hann fyrirmynd um það hvernig hægt er að rökræða skipulega um heimspekileg efni á nákvæman, gagnrýninn og skapandi hátt en þó þannig að húmorinn sé aldrei langt undan. Stundum virtist hann reyndar nánast í fyrirrúmi. Kennsla Mikes var eins langt frá alvörugefnum, íbyggnum bókarlexíum um sögu heimspekilegra hugmynda og mest mátti vera. Hann var sjálfur heillaður af viðfangsefninu og hreif nemendur þar af leiðandi með sér. Hann setti einnig upp skipulag sem krafðist þess að nemendur væru virkir í náminu. Heimspeki með Mike var opin og frjálsleg um leið og hún var öguð, nákvæm og krefjandi. Hún bretti upp ermarnar og tókst á við þrautir sínar í þeirri vissu að með því að gefast ekki upp og skoða í þaula fengist skýrari sýn, með færri mótsögnum og minni þoku. Það var einhvern veginn alltaf að birta til í heimspeki með Mike og hann snerti líf okkar nemendanna þannig að við urðum aldrei aftur söm.

Þessi nostalgíska upprifjun mín á persónulegri reynslu af fyrstu kynnum af Mike á einkar vel við í dag þegar við höldum upp á sjötugsafmæli hans, því að í ljósi hennar er auðveldara að skilja hvers vegna svo mikið hefur skapast í kringum Mike í gegnum tíðina og sprottið upp af hans völdum. Sem heimspekikennari sáði hann fræjum og opnaði dyr, bæði í óeiginlegri og áþreifanlegri merkingu. Undir áhrifum og leiðsögn frá honum hafa sprottið heimspekileg fræ nemenda hans við Háskóla Íslands og mörgum þeirra hefur hann veitt ómetanlega aðstoð við að komast í framhaldsnám erlendis. Um ávöxt þessara heimspekifræja vitnar með glæsilegum hætti greinasafnið Heimspekimessa: Ritgerðir handa Mikael M. Karlssyni prófessor sextugum, sem gefið var út í kjölfar málþingsins Mikjálsmessa, sem haldið var fyrir tíu árum honum til heiðurs.[1] Sumir þeirra sem þar töluðu eru mættir aftur hér í dag, tíu árum síðar, til að heiðra aftur vin sinn, lærimeistara og kollega. Aðrir hafa bæst í hópinn.

Annað sem sprottið hefur upp í kringum Mike í gegnum tíðina eru alþjóðleg tengsl. Fyrsta dæmið og það mikilvægasta er að sjálfsögðu Mike sjálfur, sem flutti hingað fyrir fjörutíu árum ásamt eiginkonu sinni, Barböru Nelson, frá Bandaríkjunum og gerðist Íslendingur. Augljósara dæmi um alþjóðlega tengingu er varla hægt að ímynda sér. Í öðru lagi má nefna að Mike var snemma mjög virkur í starfi sem snýr að kennara- og nemendaskiptum, svo sem í gegnum ERASMUS og NORDPLUS, auk þess að laða hingað skiptikennara frá vesturheimi og kenna sjálfur reglulega sem gistikennari erlendis. Með þessu hefur skapast stórt net alþjóðlegra tengsla í kringum Mike og um leið í kringum iðkun heimspeki á Íslandi. Í þriðja lagi hefur Mike sem fyrr var getið verið óþreytandi í gegnum tíðina við að hjálpa íslenskum háskólanemum að komast í framhaldsnám erlendis í hæsta gæðaflokki og halda þannig áfram á braut þroska og skilningsleitar. Sá sem hér talar er einn þeirra sem standa í ævarandi þakkarskuld við Mike af þessum sökum. Í fjórða lagi hefur Mike staðið fyrir fjölmörgum alþjóðlegum ráðstefnum hér á landi, nánast upp á eigin spýtur eða með aðstoð nemenda sinna. Þessu byrjaði hann á löngu áður en alþjóðlegt ráðstefnuhald varð að jafn daglegu brauði og nú er orðið og áður en sú þjónusta og þekking sem byggst hefur upp á því sviði hérlendis kom til sögunnar. Sumar þessara ráðstefna hafa verið á vegum akademískra alþjóðasamtaka sem Mike hefur sjálfur tekið þátt í að stýra, svo sem The International Association for Philosophy of Law and Social Philosophy og The Hume Society.

Eitt merkilegt einkenni á alþjóðastarfi Mikes er að meðal þeirra sem hann laðar að og myndar tengsl við eru heimspekingar sem eru ekki bara frábærir hver á sínu sviði, heldur hafa beinlínis valdið straumhvörfum og teljast til hinna „stóru nafna“. Í huga minn koma nöfn eins og W.V.Quine, Donald Davidson og Christine Korsgaard, en þeir eru miklu fleiri sem fylla þennan flokk. Þessi staðreynd segir sína sögu um það í hvaða gæðaflokki Mike sjálfur er sem heimspekingur og hvað hann álítur vera sitt „benchmark“ svo gripið sé til gæðaslangurs.

Hvaðan kemur Mike allur þessi kraftur og áhugi á alþjóðastarfi? Oft heyrist talað um alþjóðleg tengsl sem gæðavísi í háskólastarfi og að sterk alþjóðatengsl ættu því að vera keppikefli háskóla sem vilja láta taka sig alvarlega og njóta virðingar. Þveröfugt við þetta fullyrði ég að áhugi Mikes á alþjóðatengslum hafi aldrei stafað af einstaklingslöngun til að njóta virðingar og láta taka sig alvarlega, heldur einfaldlega af einskærum áhuga hans á að skapa gróskumikið akademískt umhverfi. Réttnefnt akademískt umhverfi ögrar og kemur á óvart í fjölbreytni sinni og frelsi frá staðbundnum kreddum, frá viðjum vanans og frá þröngsýni ríkjandi hefða í hugsun og breytni. Þannig hefur alþjóðastarf Mikes verið í þágu „mannúðlegrar og siðmenntaðrar hnattvæðingar“, svo notuð séu orð sem Nigel Dower viðhafði á Mikjálsmessu.[2] Með starfi sínu í þágu alþjóðatengsla hefur Mike sannarlega unnið þrekvirki við að skapa betri forsendur fyrir akademíska skilningsleit hér á landi, skilningsleit sem er í senn frjáls og öguð, ögrandi og eflandi.

Ekki verður skilið við umræðu um framlag Mikes til íslenskrar heimspeki án þess að minnast á þær afurðir sem eftir hann liggja í formi heimspekiritgerða, bæði á ensku og íslensku, og spanna vítt svið rannsókna í heimspeki, þar með talið siðfræði, heimspekilega sálarfræði, lögspeki, athafnafræði (e. action theory), vísindaheimspeki og fornaldarheimspeki. Í greinasafninu Heimspekimessu er prentuð umfangsmikil ritaskrá Mikes fram til 2003.[3] Ég hef lesið góðan hluta af þeim ritgerðum sem þar eru taldar upp og gæti út frá því einu fullyrt að Mike er með allra bestu heimspekingum. Spurningarnar sem hann tekst á við eru alltaf djúpstæðar og vandlega útfærðar, rökfærslur vandaðar og efnistök þaulhugsuð. Og þótt hann setji ekki fram heimspekikerfi er að finna kerfisbundna þræði í heimspeki Mikes þegar að er gáð, eins og Logi Gunnarsson rekur með sannfærandi hætti í inngangsgrein Heimspekimessu: „Náttúra og nauðsynleg gildi – fáein orð um heimspeki Mikaels M. Karlssonar.“[4] Því miður hefur Mike ekki birt nema tiltölulega lítinn hluta af verkum sínum í tímaritum og bókum en ég vil leyfa mér að leggja fram þá ósk, nú á þessari afmælishátíð, að heimurinn – eða sá hluti hans sem hefur áhuga á heimspeki í hæsta gæðaflokki – fái að sjá restina.

Af öllu því sem hér hefur verið sagt ætti að vera ljóst að Mike er engum líkur og að í honum býr orka og eldmóður til að byggja upp forsendur fyrir frjóu og spennandi akademísku umhverfi sem togar fólk á vit skilningsleitar, þekkingar og þroska. Þessum eldmóði fann hann nýjan farveg um sama leyti og blásið var til Mikjálsmessu til að fagna sextugsafmæli hans og og framlagi til íslenskrar heimspeki í þrjátíu ár. Þessi nýi farvegur var starf fyrsta forseta félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri, sem tók til starfa haustið 2003.

Formleg ákvörðun um stofnun félagsvísinda- og lagadeildar hafði verið tekin í október 2002 og var Mike ráðinn þá um veturinn eða vorið til að undirbúa starfsemina. Til leiðsagnar hafði hann skýrslur tveggja undirbúningsnefnda, aðra um laganám og hina um félagsvísindanám. Í laganámsnefndinni hafði Mike sjálfur setið ásamt Guðmundi Heiðari Frímannssyni, Guðmundi Alfreðssyni og Sigurði Líndal auk þess sem Ágúst Þór Árnason starfaði með nefndinni, en í félagsvísindanefndinni voru sjö einstaklingar sem þegar störfuðu við eða tengdust Háskólanum á Akureyri (Ingi Rúnar Eðvarðsson, Birgir Guðmundsson, Elín Díanna Gunnarsdóttir, Grétar Þór Eyþórsson, Hermann Óskarsson, Jón Haukur Ingimundarson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir). Í laganámsskýrslunni var að finna tillögur að laganámi með sérhæfingu í heimskautarétti, réttarstöðu og stjórnsýslurétti örríkja og mannréttindum í sögulegu og röklegu samhengi. Í félagsvísindaskýrslunni var lagt til að boðið yrði upp á B.A.-nám í þjóðfélagsfræði (félags-, mann- og stjórnmálafræði), félagsráðgjöf, sálarfræði, fjölmiðla- og upplýsingatækni, Evrópufræðum, stjórnsýslu og byggðafræðum, kynjafræðum, norðurslóðafræðum og nám í alþjóðlegum hjálpar- og mannúðarstofnunum. Til viðbótar áformunum sem reifuð voru í skýrslunum tveimur var ráðgert að eins árs nám í nútímafræði, sem vistað hafði verið í kennaradeild frá því það hóf göngu sína haustið 2000, myndi flytjast yfir í hina nýju félagsvísinda- og lagadeild.[5]

Hér var Mike greinilega búinn að færast í fang mikið verkefni, sem hann átti eftir að helga alla sína krafta næstu þrjú til fjögur árin. Skýrslurnar, einkum sú um félagsvísindanámið, báru þess merki að vera samansafn ólíkra hugmynda allmargra aðila, nokkurs konar óskalisti. Eftir var að hanna á grundvelli þeirra námsbrautir, sem gætu staðið undir sér með nægilegum nemendafjölda miðað við fjölda námskeiða sem bjóða þyrfti upp á, auk þess sem tryggja þurfti viðeigandi sérfræðiþekkingu. Tíminn var naumur og Mike hafði ekki haft mikið ráðrúm til að kynna sér af eigin raun starfsemi Háskólans á Akureyri og þær hefðir og venjur sem þar höfðu mótast. Hér þurfti gríðarlegt áræði og svo sannarlega þurfti að hugsa út fyrir rammann á frjóan og skapandi hátt. Hér má því segja að hafi skapast söguleg þörf fyrir yfirburðasnjallan ofurhuga á borð við Mike sem varð þannig réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.

Til viðbótar því hve flókið verkefni Mike hafði í höndunum bættist að hann vissi ekki, fremur en aðrir, að ákvörðuninni um stofnun nýrrar deildar, sem lýst var yfir af menntamálaráðherra á háskólahátíð 2003, myndi ekki fylgja nein fjárframlög fyrr en löngu eftir að starfsemin var hafin. Óhjákvæmilegt var að þessum bráðavexti háskólans myndu fylgja fjárhagslegir vaxtarverkir jafnvel þótt snjallasta mögulega lausn á framkvæmdinni yrði fundin.

Niðurstaða Mikes var að draga úr námsframboðinu í félagsvísindum miðað við tillögur skýrslunnar og straumlínulaga það þannig að þrjár meginlínur yrðu í boði: Sálfræði, fjölmiðlafræði og samfélags- og hagþróunarfræði. Fyrsta námsárið myndi samanstanda að miklu leyti af námskeiðum sem nýttust öllum línum, svo sem í vinnulagi, gagnrýninni hugsun og aðferðafræði, en þetta þýddi jafnframt að stór hluti námskeiðanna á fyrsta ári nýttist einnig nútímafræðináminu. Hér má segja að Mike hafi hrint í framkvæmd hugmyndinni um þá almennu menntun á grunnstigi sem kennd er við frjálsar listir eða liberal arts. Jafnframt fól þetta skipulag í sér að góð nýting fyrsta árs námskeiðanna skapaði rekstararlegt svigrúm fyrir fámennari og sérhæfðari námskeið á síðari stigum námsins. Þótt félagsvísinda- og nútímafræðinámið við HA hafi vissulega þróast áfram síðustu tíu árin er óhætt að fullyrða að þessi grundvallarhugsun hafi verið varðveitt og sé enn höfð að leiðarljósi. Í mínum huga er einnig ljóst að hún var lykillinn að því að því að gera fjölbreytt og spennandi staðarnám í félagsvísindum rekstrarhæft.

Í lögfræðinni hélt Mike áfram að þróa hugmyndir undirbúningsnefndarinnar, meðal annars með því að leita ráða hjá fjölda heimsþekktra lögfræðinga frá ýmsum Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Niðurstaðan varð sú að á B.A.-stigi yrði lögð áhersla á þjóðarétt, samanburðarlögfræði, réttarsögu og réttarheimspeki, en á meistarastigi yrði komið á tveggja ára hagnýtu námi með áherslu á kjarnagreinar íslenskrar lögfræði.[6] Námið hafði strax mikla sérstöðu miðað við annað laganám sem í boði var hérlendis, var framsækið, krefjandi og alþjóðatengt. Eins og í félagsvísindunum hefur námið þróast á þeim áratug sem liðinn er, en í öllum aðalatriðum hefur það það þó haldið þeim einkennum sem lagt var upp með. Sú sérstaða sem þar var mörkuð hlaut síðar viðurkenningu í skýrslu úttektarnefndar á laganámi á Íslandi, sem út kom í september 2011, en þar segir meðal annars að lagadeildin við Háskólann á Akureyri hafi bætt nýju og áður vanræktu sjónarhorni við lögfræðimenntun á Íslandi.[7]

Ýmsar nýjungar einkenndu tilhögun og framkvæmd náms við hina nýju félagsvísinda- og lagadeild. Má þar nefna lotukennslu í lagadeild, en hún gerði mögulegt að ráða stundakennara sem ekki bjuggu á nærsvæðinu til að kenna um sérhæfð efni, og gerði nemendum kleift að sökkva sér í viðfangsefni hvers námskeiðs án truflunar frá öðrum námsgreinum. Ennfremur ber að nefna símatskerfið sem hefur verið eitt aðalsmerki félagsvísinda- og laganámsins alla tíð og séð til þess að nemendur eru sífellt hvattir áfram og fá reglulega endurgjöf. Alþjóðlegur blær hefur einnig ríkt yfir félagsvísinda- og laganáminu, enda dregur það til sín langflesta þeirra u.þ.b. 50 erlendu skiptinema sem leggja stund á nám við Háskólann á Akureyri á ári hverju. Loks má geta þess að Mike beitti sér ásamt Geir Sigurðssyni fyrir stofnun Asíuvers Íslands, með formlegu samkomulagi Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands í desember 2005, en á vegum þess var um skeið boðið upp á nám í kínversku við Háskólann á Akureyri.[8] Sú starfsemi sem þarna fór af stað bar vott um framsýni Mikes og stendur hún enn með blóma sem ekki sér fyrir endann á, þótt hún hafi nú alfarið flust til Háskóla Íslands.

En svo við víkjum aftur að upphafinu þá er fyrsta starfsár félagsvísinda- og lagadeildar í minningu minni sveipað þeim ævintýraljóma sem frumkvöðlastarf og nýtt upphaf getur fengið á sig. Nemendahópurinn var eftirminnilegur og meðvitaður um að hann var að feta nýjar og ótroðnar slóðir. Það sama átti við um kennarana. Mike vildi vanda til mannaráðninga og fara fremur hægt í sakirnar þar, en byggja þess í stað eftir föngum á þeim ríkulegu alþjóðatengslum sem hann bjó að og fá þannig úrvals kennara erlendis frá til að dvelja hér fáeinar vikur í einu við kennslu og njóta um leið þeirrar sérstæðu fegurðar norðurhjarans sem hér er að finna. Þannig sköpuðust varanleg tengsl Háskólans á Akureyri við hóp slíkra kennara, þar á meðal þá Garrett Barden og Nigel Dower sem hér eru staddir í dag. Tveir fastráðnir starfsmenn háskólans fluttust yfir í félagsvísinda- og lagadeild við stofnun hennar, Elín Díanna Gunnarsdóttir úr heilbrigðisdeild og undirritaður úr kennaradeild. Birgir Guðmundsson kom einnig til starfa við deildina og var síðar fastráðinn, sem og Ágúst Þór Árnason. Þá var það mikið happ fyrir háskólann að fyrsta starfsár deildarinnar voru ráðin til hennar ung hjón sem bæði voru framúrskarandi efnilegir fræðimenn, þau Rachael Johnstone lögfræðingur og Giorgio Baruchello heimspekingur. Árið eftir bættust í hópinn Þóroddur Bjarnason félagsfræðingur, sagnfræðingarnir Markus Meckl og Páll Björnsson og lögfræðingarnir Pétur Dam Leifsson og Margrét Heinreksdóttir, auk þess sem mannfræðingarnir Jón Haukur Ingimundarson og Joan Nymand Larsen, sérfræðingar á Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, urðu hlutastarfsmenn. Fleiri hafa síðar bæst í hópinn og fáir hellst úr lestinni, en fullyrða má að félagsvísinda- og lagadeild hafi alla tíð státað af sterkum hópi akademískra starfsmanna sem lagt hafa mikið af mörkum til rannsókna við Háskólann á Akureyri.

Mike var faglegur leiðtogi í þessum hópi, sá sem ruddi brautina og sá fyrir sér hvert skyldi stefna. Óhjákvæmilega kom að því að innan starfsmannahópsins urðu skoðanir skiptar um þróun og útfærslu námsins, stefnu í mannaráðningum og fleira. Við slíkar aðstæður kom húmor og léttlyndi Mikes sér vel, en þó þykist ég vita að það hafi ekki reynst honum auðvelt að bregðast við ágreiningi með miklum málamiðlunum og að hann hafi kannski að sumu leyti verið í svipaðri stöðu og foreldri sem á erfitt með að sleppa hendinni af hálfvöxnum unglingi sem vill fara sínar eigin leiðir. Mike hafði helgað uppbyggingu deildarinnar krafta sína og tekið við hana ástfóstri, enda var hún að miklu leyti hans sköpunarverk. Ég vil ekki gera mikið úr þessari togstreitu innan starfsmannahópsins, sem var í raun eðlilegur fylgifiskur uppbyggingarinnar og nokkuð sem hópurinn hafði ásamt Mike alla burði til að þroskast út úr. Á það reyndi þó því miður ekki hvað Mike varðar, því að eftir þrjú fyrstu starfsárin þurfti deildin að glíma við ytri ógnir í formi mikillar og óvæginnar kröfu um niðurskurð. Þær aðgerðir sem yfirstjórn háskólans taldi nauðsynlegt að leggja í á þeim tíma fólu í sér of miklar málamiðlanir að mati Mikes, svo að það varð úr að með þungum huga lét hann af störfum deildarforseta eftir að þriggja ára ráðningartímabilinu lauk og hvarf aftur til prófessorsstarfsins við HÍ.

Framlag Mikes til Háskólans á Akureyri markaði djúp spor í sögu hans. Um þau mætti hafa mörg orð, en ég mun láta einn vitnisburð nægja og hann kemur fram í orðum Guðmundar Ævars Oddssonar, sem prentuð eru í afmælisriti Háskólans á Akureyri sem út kom á síðasta ári. Guðmundur brautskráðist með B.A.-próf í samfélags- og hagþróunarfræði frá HA 2006 eftir að hafa áður lokið prófi í viðskiptafræði og kennsluréttindanámi og er nú langt kominn í doktorsnámi í félagsfræði við Missouri-háskóla í Bandaríkjunum. Guðmundur lítur til baka á námsferil sinn og segir:

 

Það er á engan hallað þegar ég segi að samfélags- og hagþróunarfræðin standi upp úr því hún færði mér heim sanninn um gildi gagnrýninnar hugsunar í hvívetna. Margir aðrir samverkandi þættir gerðu námið haldgott. Það var nýtt af nálinni og spennandi. Enginn var fastur í hjólförum vegna þess að þau voru ekki til! Það leyfði kennurum sem nemendum að fara óhefðbundnar leiðir. Ekki skemmdi fyrir að námið var þverfaglegt og þar með sveigjanlegt. Kennarar gerðu miklar kröfur til nemenda og öfugt. Símatskerfið hélt manni við efnið. Umræður okkar voru ögrandi, gagnrýnar og upplýsandi. Það sem einkenndi námið þó umfram annað var að flest vorum við þarna til þess að auka við þekkingu ekki síður en að fá stimpli sem opna myndi dyr að völundarhúsi vinnumarkaðarins. Samfélags- og hagþróunarfræðin var með öðrum orðum vísir að þekkingarsamfélagi. Samfélagi þar sem þekkingin er markmið í sjálfu sér. Skref í rétta átt.[9]

Þessi orð Guðmundar minna sterkt á mína reynslu af því að vera nemandi Mikes á sínum tíma og hér gætir áhrifa hans mjög greinilega.

Sú uppbygging og arfleifð sem Mike skildi eftir við Háskólann á Akureyri hefur vaxið og blómstrað æ síðan. Árið 2008 sameinaðist félagsvísinda- og lagadeild kennaradeild og nú mynda þessar þrjár deildir (félagsvísindadeild, lagadeild og kennaradeild), ásamt miðstöð skólaþróunar, hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hug- og félagsvísindasviðið er stærsta skipulagseining háskólans, með um 700 nemendur, um 60 starfsmenn og fjórðung af árlegri veltu stofnunarinnar. Nemendur félagsvísindadeildar eru vel á fjórða hundrað, nemendur lagadeildar um eitt hundrað og fastir starfsmenn þessara tveggja deilda til samans á þriðja tug.

Það má því með sanni segja að við Háskólann á Akureyri sáði Mike fræjum sem nú blómstra, rétt eins og hann hafði áður við Háskóla Íslands sáð fræjum heimspekiiðkunar, sem báru meðal annars þá ávexti sem flíkað var á Mikjálsmessunni fyrir tíu árum. Framlag hans á báðum sviðum er ómetanlegt. Það var því mikið happ fyrir íslenskt menntakerfi að Mike skyldi fyrir fjörutíu árum hafa verið hér á ferðalagi og fyrir tilviljun náð spjalli við þá Pál Skúlason og Þorstein Gylfason, sem umsvifalaust fengu hann til kennslu við nýstofnaða og lítt mótaða námsbraut í heimspeki við Háskóla Íslands.

Það sem dró Mike til Íslands upphaflega mun hafa verið áhugi hans á land- og jarðfræði. Hann hafði áhuga á þessari sérstæðu eldfjallaeyju í norðurhöfum sem enn var í mótun, hrá, ung og full af óbeisluðum krafti. Þetta umhverfi dró til sín ungan eldhuga sem hugnaðist að móta og skapa eitthvað sem áður hafði ekki verið til. Hann stendur nú á sjötugu, ennþá ungur, ennþá eldhuga og með húmorinn í lagi. Honum er óhætt að njóta þess líta um öxl með stolti og ánægju og ég vona að orð mín verði honum hvatning til þess. En í dag ætlum við að halda upp á áfangann með því að hugsa með Mike um heimspekileg efni, eins og við höfum gert svo oft áður, þar á meðal efni sem honum er sérstaklega hugleikið um þessar mundir, en það er spurningin „hvað er siðferði?“ Því fyrr sem ég hætti að tala, því fyrr kemst hann að með sitt upphafserindi um „siðasúpuna“ og ég veit að ég er ekki einn um að hlakka mjög til að heyra það. Ég vil því með innilegum hamingjuóskum til Mikes með sjötugsafmælið, og dýpstu þökkum fyrir framlag hans til íslenskrar heimspeki og til Háskólans á Akureyri, ljúka máli mínu og gefa honum sjálfum orðið.



[1] Kristján Kristjánsson og Logi Gunnarsson (ritstj.), Heimspekimessa: Ritgerðir handa Mikael M. Karlssyni prófessor sextugum. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003.

[2] Nigel Dower, Hugleiðingar um ritgerð Páls Skúlasonar. Heimspekimessa, bls. 37-40; 37.

[3] Ritaskrá Mikaels M. Karlssonar. Heimspekimessa, bls. 277-298.

[4] Logi Gunnarsson, Náttúra og nauðsynleg gildi: Fáein orð um heimspeki Mikaels M. Karlssonar. Heimspekimessa, bls. 17-28.

[5] Birgir Guðmundsson, Elín Díanna Gunnarsdóttir og Páll Björnsson, Félagsvísindadeild, í Bragi Guðmundsson (ritstj.) Háskólinn á Akureyri 1987-2012: Afmælisrit. Akureyri: Völuspá og Háskólinn á Akureyri, 2012, bls. 135-156.

[6] Ágúst Þór Árnason, Lagadeild, Háskólinn á Akureyri 1987-2012: Afmælisrit, bls. 156-168.

[7] Evaluation of Teaching and Study of Law in Icelandic Higher Education Institutions. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011.

[8] Háskólinn á Akureyri 1987-2012: Afmælisrit, bls. 142.

[9] Háskólinn á Akureyri 1987-2012: Afmælisrit, bls. 140.